24.10.1941
Neðri deild: 5. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (327)

7. mál, ráðstafanir gegn dýrtíðinni

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Ég vil í upphafi þessa máls minnast þess, að þegar yfirstandandi styrjöld skall á, haustið 1939, hafði gengi íslenzku krónunnar verið lækkað mjög verulega. Gengislækkunin var í því skyni gerð að bæta rekstrarafkomu þeirra atvinnugreina, er á útflutningi byggðu rekstur sinn. Jafnhliða gengislækkuninni voru þau ákvæði sett í l., að kaupgjald mætti eigi hækka í fullu samræmi við hækkun verðlags og framfærslukostnaðar. Var tiltekið í l., eftir hvaða reglum kaupið skyldi breytast, og bannað að hækka grunnkaup frá því, sem var. Enn fremur var verðlag landbúnaðarafurða á innlendum markaði bundið með l., og skyldu gilda um það verðlagsákvæði hliðstæð þeim, er um kaupið voru sett. Öllu þessu var ætlað að tryggja það, að sá hagnaður, er útflutningsatvinnuvegunum var ætlaður af krónulækkuninni, yrði eigi svo að segja samstundis að engu gerður með hækkun kaupgjalds og innanlandsverðlags.

Það kom brátt í ljós, að styrjöldin mundi breyta mjög atvinnuástandinu í landinu. Það varð augljóst, að afkoma margra þeirra, er á útflutningi byggðu, mundi batna mjög verulega, en jafnframt, að tilkostnaður við atvinnurekstur mundi fara vaxandi, og það engu síður þeirra, er framleiddu fyrir innlendan markað. Jafnframt tóku erlendar neyzluvörur að hækka í verði, og fyrirsjáanleg var meiri aukning dýrtíðar en gert hafði verið ráð fyrir, þegar gengisl. voru sett og kaupgjaldið bundið.

Alþ. kom saman á ný haustið 1939, eftir að því hafði verið frestað sumarmánuðina. Voru þá gengisl. öll endur skoðuð með tilliti til þeirra breyt., er þannig voru á orðnar eða fyrirsjáanlegar þóttu. Afnumin voru þau ákvæði l., er bundu verð innlendra afurða. Þótti eigi lengur fært að halda föstu verði þeirra eða binda verðið við breyt. kaupgjaldsvísitölu, þar sem framleiðslukostnaður fór sívaxandi og engin trygging fyrir því, að breyt. á honum yrðu í nokkru samræmi við vísitölu framfærslukostnaðar í bæjunum. Voru því ákvarðanir um verðlag á landbúnaðarafurðum lagðar á ný á vald þeirra nefnda, sem starfa skv. afurðasölulögunum.

Þá var og breytt reglum 1. um hækkun kaupgjalds í samræmi við aukningu dýrtíðar og lögleyfð meiri hækkun kaupgjalds í hlutfalli við hækkun framfærsluvísitölu en áður var ákveðin. Var breyt. sú gerð vegna batnandi afkomu atvinnuveganna og vaxandi dýrtíðar. Hins vegar var eigi leyft að hækka kaupgjald í fullu samræmi við hækkun framfærslukostnaðar, og var þar m. a. stuðzt við fordæmi þeirra þjóða, sem fullkomnasta og réttlátasta hafa haft skipun þessara mála að dómi flestra frjálslyndustu manna. Jafnframt var svo ákveðið í gengisl., að ákvæðið um kaupgjaldið skyldi falla úr gildi í árslok 1940, nema Alþ. hefði fyrir þann tíma tekið ákvörðun um að framlengja þau.

Leið nú fram að áramótum 1940–1941, og varð niðurstaðan sú, að 1. um bindingu kaupgjaldsins voru ekki framlengd, en frjálsir samningar gerðir milli atvinnurekenda og verkamanna. Verkamenn gerðu þá tafarlaust kröfu um, að kaupgjaldið yrði látið hækka í fullu samræmi við hækkun framfærslukostnaðar, þannig, að sérhver verðlagshækkun í landinu hefði í för með sér tilsvarandi kaupgjaldshækkun. Atvinnurekendur féllust á þetta, og voru nálega allir kaupgjaldssamningar gerðir í samræmi við þessa meginreglu. Enn fremur var grunnkaup hækkað allverulega víða utan Reykjavíkur.

Þótt eigi væri bundizt samtökum gegn þessari þróun málanna, þá var mjög mörgum ljóst, að með þessu var lagt út á hála braut. Menn sáu, að þegar svona var komið, mundi hvað reka annað, verðlags- og kaupgjaldshækkanir. Áður en langt um liði, mundi hvor aðili um sig, framleiðendur og launþegar, telja sig vera að tryggja sig og afkomu sína fyrir hækkunum hins, og þannig hefjast kapphlaup, sem illt yrði að stöðva, og mjög vafasamur hagnaður mundi af slíkum hækkunum leiða fyrir þá, er að þeim stæðu, — einkum er stundir liðu.

Reynslan hefur leitt í ljós, að slíkur ótti var ekki ástæðulaus. Síðan styrjöldin hófst, hefur verðlagsvísitalan farið stöðugt hækkandi. Sumpart á hækkunin rót sína að rekja til verðlagshækkunar á erlendum markaði, hækkunar á flutningsgjöldum og þeim hækkunum á kaupgjaldi og afurðaverði innanlands, sem óhjákvæmilegar voru sem afleiðing af þeim hækkunum, er að utan komu. En að mjög verulegu leyti á hækkun vísitölunnar rót sína að rekja til kapphlaups þess, sem orðið hefur á milli verðlags og kaupgjalds og beinlínis leiðir af því fyrirkomulagi, er á þessum málum hefur verið síðan kaupgjaldssamningarnir voru gerðir um áramótin 1940 og 1941.

Fljótt á litið virðist það vera ákaflega þægilegt fyrirkomulag að hækka kaupgjaldið ætíð að fullu í samræmi við hækkun verðlagsins, og óneitanlega væri létt af mönnum miklum áhyggjum, ef með slíku skipulagi væri unnt að koma því til vegar, að við ákvörðun kaupgjalds þyrfti aldrei að taka tillit til neins annars en verðlags á innanlandsmarkaðinum. Eigi væri það síður ánægjulegt fyrir framleiðendur innlendra vara, ef því væri í raun og veru til að dreifa, að þeim mætti standa alveg á sama, hver framleiðslukostnaðurinn væri; þeir þyrftu ekki annað en að hækka afurðaverðið á innlenda markaðinum, og eigi þyrfti að hafa áhyggjur af því, að markaðinum væri ofboðið, þar sem neytendunum væri sífellt sköpuð meiri og meiri kaupgeta með hækkuðu kaupi í samræmi við hækkun verðlagsins. Kauptakar þyrftu þá ekki heldur að kippast við, þótt verðlagið hækkaði, — kaupgjaldið hækkaði af sjálfu sér á móti, og svo koll af kolli.

Ef það fyrirkomulag, sem nú er á þessum málum, á að standast réttmæta gagnrýni, yrði að vera hægt að halda því fram með rökum, að hægt væri að leysa þau miklu vandamál, sem hér er fjallað um, með þessu afar einfalda móti. Vandinn væri allur leystur með því að hækka kaupgjaldið og verðlagið á víxl.

Liggur það hins vegar ekki í augum uppi, að eitthvað er bogið við það fyrirkomulag, sem gefur mönnum ástæðu til þess að álykta á þennan hátt? Treystir nokkur sér til þess að halda því fram í alvöru, að unnt sé að skapa ný verðmæti með þeirri einföldu aðferð að hækka kaupgjald og afurðaverð á víxl?

Eins og ég hef drepið á, er eðlilegt, að kaupgjald hafi hækkað vegna vaxandi framfærslukostnaðar og tekjur manna hafi vaxið vegna vaxandi atvinnu. Á sama hátt er eðlilegt, að verðlag á innlendum afurðum hafi hækkað, vegna aukins framleiðslukostnaðar og enn fremur til þess að tekjur bændastéttarinnar færðust svo nærri tekjum annarra manna í landinu, að vonast mætti eftir því, að landbúnaðarframleiðslan drægist ekki saman á þessum tíma, þegar meira ríður á því en nokkru sinni fyrr, að matvælaframleiðslan í landinu sé rekin af fullu kappi.

Verður að segja það hreinlega hér, að fullhart er á því, að slíku takmarki hafi verið náð, svo mjög dregst vinnuaflið að hinni tekjumiklu atvinnu í bæjunum, bæði við atvinnurekstur Íslendinga þar og við störf í þágu setuliðsins.

Slíkar hækkanir voru nauðsynlegar og eðlilegar. Hið hættulega við ástandið er aftur á móti hitt, að eins og fyrirkomulag þessara mála er nú, leiðir hver hækkunin á verðlagi innanlands af sér kaupgjaldshækkun og gagnkvæmt. Á þeirri þróun er ekki sýnilegur neinn endir. Hvor aðilinn um sig, launþegar og framleiðendur, telja sig í raun réttri vera að flýja undan hinum, og telji annar hvor, að hinn dragi undan á hlaupunum, herðir hann vafalaust á, með þeim árangri að lyktum, að hvorugur getur annan flúið.

Eftir því sem verðlagið og kaupgjaldið hækka, eftir því hafa hækkanir þær á kaupgjaldi og verðlagi, sem gerðar eru, meiri áhrif á vísitöluna, og þannig eykst hraðinn, ef menn ekki stöðva sig.

Eftir því sem þessi þróun heldur lengur áfram, þá virðist mér, að verðhækkanirnar muni skila sér fullkomlegar sem kauphækkanir og kauphækkanirnar sem verðhækkanir.

Eftir því, sem þessu heldur lengur áfram, sýnist mér, að þær breyt., sem gerðar kunna að vera á grunnkaupi og afurðaverði, muni æ í minni mæli reynast raunverulegar breyt. á tekjum manna, og að sama skapi í ríkari mæli útþynning á þeim verðmætum, sem á bak við standa, — eða m. ö. o. verðlækkun íslenzks gjaldmiðils, — gengisfall.

Svo kann þá að fara, að mönnum finnist þeir vera að græða, en standi raunverulega í stað efnalega eða séu beinlínis að tapa eigum sínum. Menn reikna með sífellt hærri og hærri tölum, og bankarnir þurfa að síauka seðlaveltuna, til þess að menn geti velt á milli sín æ fleiri og fleiri af þeim peningum, sem verið er að skapa með því að hækka kaupgjald og verðlag á víxl.

En nú munu sumir spyrja : Hvernig kemur sú hætta fram, sem í þessu skipulagi er fólgin? Mönnum finnst fyrirkomulagið þægilegt, allt ganga að óskum, og ýmsum kann sjálfsagt að finnast allt tal um annað nöldur eitt og aðeins fram komið af því, að menn vilji fá tækifæri til þess að gera sig merkilega og láta líta svo út, að menn sjái allt glöggar og betur en aðrir. Þessari spurningu er vitanlega nauðsynlegt að svara.

Eins og við vitum, byggir íslenzka þjóðin afkomu sína að verulegu leyti á framleiðslu vara, sem ætlaðar eru til útflutnings. Verðinu á hinum erlenda markaði getum við ekki ráðið sjálfir. Það verður að ákveðast með samningum við aðrar þjóðir, og nú alveg nýlega hefur verið samið um sölu á meginhluta af framleiðsluvörum landsmanna fyrir fast verð. Gildir sá samningur um sölu á sjávarafurðum okkar fram á næsta sumar.

Engum blandast hugur um, að framleiðslukostnaður og innanlandsverðlag hækkar hér svo að segja daglega. Verði ekkert gert til að hindra þessa hækkun, mun ekki langur tími líða, unz framleiðslukostnaðurinn verður orðinn svo hár hér á landi, að útflutningsverðið hrekkur ekki til þess að mæta honum. Enginn getur með vissu sagt, hvenær þetta muni verða, en hitt er víst, að sá tími kemur og máske fyrr en við hyggjum nú — jafnhratt og stefnt er í þessa átt.

Útflutningsverðið á fiski hefur verið fastákveðið, og naumast er hægt að gera ráð fyrir, að það verði hækkað úr þessu. Hitt vitum við, að við lok styrjaldarinnar lækkar útflutningsverð á afurðum okkar, og sú verðlækkun mun korna fram miklu örar en lækkun innanlandsverðlags og kaupgjalds, og mun ég koma að því síðar. — Hvað verður þá gert, þegar svo er komið, að framleiðsla fyrir erlendan markað hættir að borga sig vegna þess, hve kaupgjald og innanlandsverðlag er hátt orðið?

Í fyrsta lagi er hægt að hugsa sér að ekkert verði gert, — að ástandið verði látið afskiptalaust unz framleiðslufyrirtækin stöðvast. Í því sambandi má benda á það, að engar líkur eru til þess að bankarnir brenni sig á sama soðinu og eftir síðustu styrjöld og fyrir þessa styrjöld, að lána atvinnuvegunum fé eftir að reksturinn er orðinn fyrirsjáanlega taprekstur. Af stöðvun framleiðslunnar mundi leiða gífurlegt atvinnuleysi, tekjur manna mundu stórlækka þrátt fyrir háa kauptaxta, kaupgetan minnka og markaður fyrir innlendar afurðir þrengjast stórkostlega. Þetta ástand mundi vara þangað til verkamenn neyddust til þess að lækka kaupið og framleiðendur neyddust til að lækka söluverð afurða sinna. En áður en svo væri komið, mun margt hafa gerzt, sem menn þá vildu mikið til vinna, að eigi hefði átt sér stað.

Í öðru lagi mætti gera ráð fyrir, að löggjafinn liti svo á, að þjóðfélagið þyldi ekki stöðvun atvinnurekstrarins og gripi í taumana, þegar hann hefði stöðvazt, lækkaði kaupgjald og afurðaverð með 1., til þess þannig að skapa jafnvægi á ný milli framleiðslukostnaðar og útflutningsverðs.

Munu menn þó ekki verða öfundsverðir af þeirri framkvæmd, og víst er um það, að óglæsilegt ástand mundi hafa ríkt um skeið áður en gripið yrði til slíkra ráðstafana. Sumir mundu segja, að í stað þess að grípa þetta úrræði, væri hægt að þjóðnýta stærstu atvinnutækin. En þess ber þeim sömu mönnum að gæta, að það mundi verka svipað á tekjur almennings, sem að framleiðslunni vinnur, eins og valdboðin kauplækkun og valdboðin verðlækkun, þar sem ríkisvaldið gæti ekki borgað hærri laun en atvinnureksturinn gæti staðið undir.

Í þriðja lagi er hægt að hugsa sér, að þegar atvinnureksturinn væri stöðvaður, atvinnuleysið orðið óþolandi og markaðsvandræði landbúnaðarins óviðunandi, yrði gripið til þess úrræðis að verðfella íslenzku krónuna og reyna með því móti að skapa jafnvægi milli útflutningsverðs, kaupgjalds og innanlandsverðlags, fjölga krónunum, sem útflytjendurnir fengju, en gera þær verðminni um leið, og lækka þannig raunverulega launin og innanlandsverðlagið.

Þetta var það, sem gert var hér árið 1939, — og er ekki einmitt hætt við, að menn neyddust til að nota þetta úrræði? Sjá þá flestir, hversu færi um verðgildi íslenzkra peninga, ef það bættist ofan á verðhækkanir stríðsáranna, að beinlínis yrði að fella krónuna í verði eftir stríðið vegna þrenginga atvinnuveganna.

Hér er í raun og veru komið að kjarna málsins. Aðalhættan er sú, að það fyrirkomulag, sem nú er, grafi undan afkomumöguleikum atvinnuveganna og leiði til gengislækkunar eða gengishruns, þegar þessi þróun hefur náð hámarki sínu.

Sumir munu e. t. v. segja sem svo, að hér sé um hrakspár einar að ræða. Í ríkjandi fyrirkomulagi felist alls ekki þær hættur, sem ég

hef lýst, og þá fyrst og fremst vegna þess, að þegar verðlag byrjaði að lækka á ný, þá mundi framfærsluvísitalan lækka, og með henni kaupgjaldið, og innanlandsverðlag á þann hátt færast af sjálfu sér til samræmis við útflutningsverðið.

En eftir því, sem ég hef athugað þetta betur, og eftir því, sem núverandi rás viðburðanna á sér lengur stað, virðist mér augljósara, að framfærsluvísitalan muni ekki lækka í samræmi við erlenda verðlagið og að í vísitölufyrirkomulaginu sé ekki fólgin sú trygging fyrir samræmi, sem fljótt á litið mætti álíta, og skal ég nú færa fyrir því nokkur rök.

Ef við athugum grundvöllinn fyrir vísitölunni, komumst við að raun um, að hún er að tiltölulega litlu leyti byggð á innkaupsverði erlendra vara. Vísitalan byggist að langmestu leyti á kaupgjaldi og öðrum tilkostnaði innanlands og verðlagi á innlendum afurðum.

Af þessu leiðir, að þótt innkaupsverðlag fari lækkandi á erlendum markaði, þá hefur það tiltölulega lítil áhrif á framfærslukostnaðinn og minnkandi áhrif eftir því, sem þáttur erlendu varanna í framfærslukostnaðinum verður minni.

Hreyfing vísitölunnar niður á við yrði því að langmestu leyti að byggjast á kaupgjaldslækkun og lækkun á verðlagi innlendra vara. Er það mjög ólíklegt, að menn mundu finna sérstaka hvöt hjá sér til þess að stuðla að slíkum lækkunum, — og er það ekki sagt til niðrunar neinum, er þar á hlut að máli.

Það er því alveg víst, að lækkun vísitölunnar mundi ekki verða í neinu samræmi við lækkun á útflutningsverði íslenzkra afurða, og að vísitölufyrirkomulagið gefur enga trygging fyrir samræmi í þessum efnum, þegar verðlækkunaraldan skellur yfir.

Ég get ekki betur séð en að hækkun verðlags og kaupgjalds hljóti að leiða til stöðvunar á atvinnuvegum landsmanna, atvinnuleysis, lækkunar kaupgjalds annaðhvort beinlínis eða með gengisfalli, sem komið verði fram, þegar allt verður komið að þrotum.

En gerir það þá svo ákaflega mikið til, þótt verið sé að rýra verðgildi íslenzkrar krónu og þótt við getum búizt við, að til enn meiri verðfellingar dragi, áður en langt um líður, ef svo fer sem horfir?

Mér finnst, að ekkert muni vera neinu þjóðfélagi hættulegra en einmitt það, að vantrú skapist meðal landsmanna á gjaldmiðli hennar. Telji menn sig hafa rökstuddar líkur fyrir því, að verðgildi peninganna muni fara stórkostlega rýrnandi til frambúðar, þá leiðir slíkt viðhorf af sér vaxandi eyðslusemi, en sparnaðarhvöt og ráðdeild manna þverr að sama skapi. Undirstaða þess, að menn vilji spara, verður einmitt að vera sú trú, að menn geti síðar fengið verðmæti fyrir þá peninga, er menn leggja ti1 hliðar. Missi menn þessa trú, fleygja menn peningunum frá sér, ýmist í beina eyðslu eða kaupa gagnlega hluti fyrir of fjár, ef þeir eru þá fáanlegir.

Á undanförnum árum hafa menn talið sig sammála um það, að sparifé íslenzku þjóðarinnar væri til muna of lítið. Það er alveg víst, að þetta var rétt skoðun og að eyðslusýkin er einn versti þjóðarlöstur Íslendinga. Þessu mega menn ekki gleyma. Missi menn trúna á gjaldmiðlinum nú á styrjaldartímunum og gefi sig eyðslulöngun sinni á vald, þá verður það til þess, að þjóðin verður haldin af þessari sýki í enn ríkari mæli en nokkru sinni fyrr, og mun lengi eima eftir af því í skapgerð manna.

Fjöldi Íslendinga hefur nú mjög miklar afgangstekjur. Atvinna hefur nú um skeið aukizt stórkostlega og vinnulaunataxtar, sem voru beinlínis miðaðir við atvinnuleysisástand, gefa mönnum nú mjög ríflegar tekjur. Einhleypir menn moka saman fé, eða svo hefði það verið kallað fyrir tveim árum, sem nú er að ske.

Eins og nú er ástatt, geta menn ekki nema að mjög takmörkuðu leyti notað þetta fé til þess að búa í haginn fyrir framtíð sína, sakir þess, hve dýrar allar framkvæmdir eru nú og erfitt um útvegun efnivara.

Það er því augljóst mál, að efnahagslegt sjálfstæði þess mannfjölda, sem nú þegar hefur eignazt innstæður, er í framtíðinni að langmestu leyti komið undir því, hvað hægt verður að fá fyrir þetta fé, og það sama má segja um þann mikla fjölda, sem enn hefur tækifæri til þess að bæta hag sinn.

Er þess enginn kostur, að skilningur geti vaknað á því, að með því að grafa undan verðgildi peninganna er verið að rýra þá sjóði, sem almenningur hefur nú tækifæri til þess að mynda sér til stuðnings í framtíðinni, og að með þeim ráðstöfunum er verið að færa stríðsgróðann með óréttmætum hætti í hendur þeim, sem eiga atvinnutækin í landinu. — Með því er verið að að koma í veg fyrir, að stríðsgróðinn verði notaður að styrjaldarlokum til þess að tryggja þátttöku fólksins sjálfs í atvinnurekstri þjóðarinnar.

Það mun kannske verða reynt að telja mönnum trú um, að stöðvun á kauphækkun og verðlagshækkunum, sem óneitanlega er eitt helzta úrræðið til þess að koma í veg fyrir áframhaldandi verðbólgu og rýrnun peningaverðgildis, verði sérstaklega til þess að loka leiðum almennings að frekari hluttöku í stríðsgróðanum. Ég álít, að eins og nú er komið, sæki menn í sinn hlut lítinn stríðsgróða með því að halda slíkri hækkun áfram, en rýri hins vegar stórkostlega þau verðmæti, sem menn hafa þegar aflað og hafa tækifæri til þess að vinna sér inn í framtíðinni. Réttlátan hlut til almennra þarfa af þeim stríðsgróða, sem einstakir menn hljóta, ber að tryggja með sköttum, og kem ég síðar nánar að því atriði.

Fljótlega eftir að það fyrirkomulag hafði verið tekið upp um kaupgreiðslur, er áður hefur verið lýst, jukust áhyggjur manna um vöxt dýrtíðarinnar um allan helming, og fóru fram miklar umræður um málið innan ríkisstj., milli flokkanna og í blöðunum fyrir og um þingtímann í vetur, sem leið.

Allir töldu hina mestu nauðsyn á því að stöðva dýrtíðina, og flestir töldu sig sjá og skilja, að dýrtíðin stafaði að verulegu leyti af því fyrirkomulagi um kaupgjaldsgreiðslur, er upp hafði verið tekið, og þeim skrúfugangi í verðlagi og kaupgjaldi, er af því hlauzt. — Eftir að umræður

höfðu farið fram í ríkisstj. og flokkunum um málið, lagði ég á síðasta Alþ. fram frumvarp til 1. um dýrtíðarmálin.

Frv. var byggt á því, að afla skyldi fjár með útflutningsgjaldi og almennum tekjuskatti, og fénu síðan varið til þess að lækka verðlag á innlendum og erlendum varningi á innlendum markaði, og reyna með því móti að sporna við hinu síhækkandi verðlagi og kaupgjaldi.

Áður en þessi leið var valin var að sjálfsögðu athugað, hvort rétt væri og framkvæmanlegt að hækka gengi íslenzku krónunnar í stað þessara ráðstafana og hafa með því móti lækkandi áhrif verðlagið.

Þessi leið reyndist ófær þegar af þeirri ástæðu, að Bretar höfðu gert það að ófrjávíkjanlegu skilyrði af sinni hálfu fyrir því að greiða fyrir verzlunarviðskiptum landsins, að gengi krónunnar yrði ekki breytt nema í samráði við brezku stjórnina, og gengishækkun vildu Bretar ekki samþ. eins og þá stóð.

Mér er það ljóst, og ég tók það mjög greinilega fram, þegar ég lagði fram þetta frv. mitt um dýrtíðarmálin, að þær ráðstafanir, sem þar voru gerðar, voru ekki fullnægjandi, — að frv. gekk ekki nógu langt. En mér var jafnljóst, að frv. væri dauðadæmt, ef það gengi lengra en það gerði, og ég áleit til verulegra bóta að fá það samþ. eins og það var. Ég vonaði einnig, að síðar mundi unnt að fá til viðbótar aðrar ráðstafanir, sem veittu enn meira öryggi í baráttunni gegn dýrtíðinni.

Ég tók það sérstaklega fram á Alþ. í sambandi við flutning málsins, að ég hefði talið rétt og nauðsynlegt að fastbinda kaupgjaldið á nýjan leik, enda þótt ég áliti ekki rétt að skipa þeim molum með l., nema alveg sérstaklega stæði á.

Jafnframt skýrði ég frá, að ég gæti fallizt á, ef kaupgjaldið væri bundið, að reisa um leið skorður við hækkandi verðlagi á innlendum framleiðsluvörum. Hitt var mér ljóst, að eigi var unnt að festa verðlag á innlendum afurðum eins og það var þá, heldur hefði þurft að hækka það áður til samræmis við þann framleiðslukostnað, sem þá var ýmist orðinn eða fyrirsjáanlegur, og til samræmis við tekjur annarra stétta þjóðfélagsins.

Slíkar tillögur höfðu þá engan byr, og þess vegna útbjó ég frv. mitt sem samkomulagsgrundvöll í málinu.

Ég taldi mig hins vegar hafa verulegar líkur fyrir því, að það frv. mundi verða samþ. á Alþ. í aðalatriðum.

Þegar á hólminn kom, mun einhverjum hafa fundizt, að í sambandi við þetta mál mundi vera hægt að skapa þá trú hjá nokkrum hluta þjóðarinnal, að á þeirra rétt væri gengið, og það væri því ekki útilokað, að hafa mætti pólitískan hagnað af því að spilla fyrir málinu. Þetta var nægilegt til þess, að það fylgi, sem ég taldi fyrirfram víst, að frv. ætti víst, brást að mjög verulegu leyti, þegar á átti að herða. Sjálfstfl. og Alþfl. kepptust hvor við annan um að lýsa yfir því, að þeir vildu umfram allt halda dýrtíðinni í skefjum, en um leið voru a. m. k. blöð þeirra samtaka um að telja mönnum trú um, að hinn almenni tekjuskattur, sem á skyldi leggja til þess að vinna gegn dýrtíðinni, væri hin mesta árás á almenning.

Niðurstaðan var því sú, að almenni tekjuskatturinn var felldur úr frv. og þar með var stórkostlega dregið úr gildi þess. Fjáröflun með útflutningsgjaldi var hins vegar samþykkt.

Skömmu eftir að Alþ. lauk, gerði ég till. um, að dýrtíðarl. yrðu framkvæmd, fjár aflað og því varið til þess að sporna við meiri hækkun vísitölunnar. Tel ég eigi ástæðu til að rekja þær tillögur í einstökum atriðum, enda voru þær aðeins um að framkvæma þau atriði frv. míns, sem Alþýðu- og Sjálfstæðisflokknum hentaði að ljá fylgi sitt á Alþingi.

En þegar hér var komið, fékkst ekkert gert í málinu, og hefur dýrtíðarlöggjöfin ekki verið að neinu leyti framkvæmd enn sem komið er.

Var því ýmist við borið í þessu sambandi, að nauðsynlegt væri að bíða og sjá, hvort eigi fengist heimild til þess af Breta hálfu að hækka gengi íslenzku krónunnar, og kostur gæfist á að athuga, hvort menn vildu gengishækkun í stað dýrtíðarl., eða því, að slíkir erfiðleikar væru á framkvæmd dýrtíðar 1., að eigi væri út í hana leggjandi.

Í því sambandi hefur það sérstaklega verið dregið fram, að í dýrtíðarl. væru engin ákvæði til tryggingar því, að kapphlaupið milli verðlags og kaupgjalds héldi ekki áfram að hækka vísitöluna, þótt fé yrði varið til þess að lækka verðlag í landinu.

Jafnframt hafa verið talin öll tormerki á fjáröflun með útflutningsgjaldi, eins og nú væri komið málum. Þannig hefur verið algerlega gefizt upp við tekjuöflun til dýrtíðarráðstafana og framkvæmd dýrtíðarl. Almenni skatturinn var felldur í þinginu og útflutningsgjaldið svæft í ríkisstj. Ekkert orðið eftir nema orðin tóm af öllum þeim ráðagerðum og bollaleggingum, sem fram höfðu farið um að nota hið mikla fjármagn, sem bærist inn í landið, til þess að hindra vöxt dýrtíðarinnar í landinu. Höfðu þó margir tekið munninn fullan um nauðsyn þess, að rösklega yrði til verks gengið.

Reynsla undanfarinna mánaða hefur ekki dregið úr þeirri sannfæringu minni, að þjóðarnauðsyn beri til, að dýrtíðin sé stöðvuð. Jafnframt virðist ljóst, að hér þarf að gera tvennt í senn:

Stöðva kapphlaupið milli verðlags og kaupgjalds innanlands með því að fastákveða hvorttveggja, og það eins fyrir því, þótt slik ráðstöfun mundi ekki teljast eðlileg á venjulegum tímum.

Verja verulegum fjármunum, sem taka ber með sköttum, til þess að halda í skefjum verði á þeim höfuðnauðsynjavörum, sem ekki er hægt að ráða verðlagi á með lögbindingu, — bæði þeim, sem launþegar og aðrir nota til neyzlu, og þeim, sem framleiðendur innlendra vara nota til starfrækslu sinnar.

Með þessu móti mætti mega gera sér vonir um, að komið yrði í veg fyrir síaukna dýrtíð og sífellda verðrýrnun íslenzkrar krónu, og það án þess að slík framkvæmd yrði gerð á kostnað þeirra stétta, sem kaupgjalds- og verðlagshömlurnar virðast snerta mest,

Um þetta fjölluðu þær till., sem til meðferðar voru í ríkisstj., nú í sept., og þetta er einnig aðalefni þess frv., sem hér liggur fyrir. Þessum aðalráðstöfunum verða að fylgja aðrar veiga- miklar framkvæmdir, sem ég mun koma að síðar. En sú er veigamest, að tryggja útflutningsverð landbúnaðarafurða um leið og innanlandsverðlagið er bundið.

Samkv. ákvæðum frv. þess, er hér liggur fyrir, skal kaupgjald eigi hækka frá því, sem það á að vera skv. vísitölunni 1. okt., og verðlag á innlendum afurðum, bæði land-. og sjávarafurðum, svo og rafmagni, skal eigi fara fram úr því, sem var 1. okt., að undanskildum árstíðarhækkunum á kjöti og kartöflum. Húsaleiga á einnig að haldast óbreytt frá því, sem nú er, og flutningsgjald á aðalnauðsynjavörum milli Íslands og annarra landa. Jafnframt er ráðherra gefið aukið vald til þess að hafa afskipti af verðlaginu á þeim nauðsynjum, sem eigi er sett hámarksverð á með þessari löggjöf.

Þá er og ákvæði um það í frv., að stofnaður skuli sérstakur dýrtíðarsjóður, og á að verja úr honum fé til þess að draga úr verðhækkun erlendra nauðsynjavara, bæði til neyzlu og framleiðslu innanlands. Er því slegið föstu með á kvæði þessu, að það eigi að vera sameiginlegt mál allrar þjóðarinnar að bera þær verðlagshækkanir, sem koma úr þeirri átt, að svo miklu leyti sem fjáröflunarmöguleikar hrökkva til. Þá er ákveðið, að úr dýrtíðarsjóði skuli greidd verðuppbót á útfluttar landbúnaðarafurðir, þannig að bændur fái tryggt það útflutningsverð, sem í fyrra var á ull og gærum, og það innanlandsverð, sem nú er ákveðið á kjöti. Er þetta gert til þess að tryggja bændur gegn því, að tekjur þeirra rýrni stórum frá því, sem nú er, vegna verðfalls á útfluttum afurðum. Þessi ráðstöfun er sanngjörn og eðlileg, þegar þess er rætt, að með ákvæðum frv. er verðlagið á innanlandsmarkaðinum sett fast og sá möguleiki því eigi fyrir hendi, meðan 1. gilda, sem annars lægi beint við, að bændur geti bætt upp verðfall á útflutningsvörum sínum með hækkun verðlags á innlendum markaði.

Fjölmargir menn munu nú vilja viðurkenna það, að æskilegt sé og fullkomin þjóðarnauðsyn að stöðva kapphlaupið milli verðlags og kaupgjalds, og miklu almennari mun vera skilningur á nauðsyn þess að halda uppi verðgildi krónunnar en margir hyggja.

Sumir álíta, að menn séu svo hrifnir af, því fyrirkomulagi, er nú gildir, og svo blindaðir af peningaflóðinu, að þeir sjái alls ekki handaskil í þessum málum og telji ekkert athugavert við það, sem er að gerast.

En þessu mun alls ekki svo farið. Ég er viss um, að fyrir hendi er almennur skilningur á því, að það er stórhættulegt að knýja áfram með vaxandi hraða þá verðhækkunar- og kauphækkunarbylgju, sem risin er. Ég er einnig viss um, að margir þeirra manna, sem hafa kynnt sér þessi mál, álíta, að unnt sé með þeim ráðstöfunum, er í frv. felast, að viðbættum vissum viðbótarráðstöfunum, er ég vík að síðar, að stöðva dýrtíðarflóðið, — og a, m. k. séu svo sterkar líkur fyrir því, að slíkt megi takast, að óverjandi sé að gera ekki þessa tilraun. Frá sjónarmiði margra veltur hins vegar mikið á því, hvort hægt er að framkvæma slíkar ráðstafanir án þess að íþyngja einstökum stéttum þjóðfélagsins eða gera þeim í nokkru rangt til.

Það má nú sjálfsagt teljast vonlaust verk að ræða um það atriði með rökum við þá menn, sem finna sér ekki annað þarfara verkefni á þessum tímum en að efla mótstöðu gegn þessum ráðstöfunum meðal þjóðarinnar, menn, sem ganga svo langt og sýna almenningi svo litla virðingu, að krefjast álits hans um stórt vandamál áður en það hefur ver ið lagt fram og áður en menn hafa því skilyrði til þess að dæma.

En í trausti þess, að háttv. Alþ. telji sér ekki sæma að velja eða hafna, fyrr en málið hefur verið rætt til hlítar, mun ég ræða þessa hlið málsins nokkuð.

Er þá rétt að athuga viðhorf launþega og framleiðenda þeirra afurða, sem ætlaðar eru til sölu á innlendum markaði, til þessa máls.

Flestir þeir, sem tala út frá sjónarmiði launamanna, virðast ganga út frá því sem eðlilegum hlut, að grunnkaup standi yfirleitt óbreytt. Viðurkenna, að í því væri fólgin alveg sérstök hætta, ef kapphlaup ætti sér stað um hækkun grunnkaups. Það er alveg augljóst mál, að verkamenn eða launamenn geta ekki reiknað með neinum hagnaði af áframhaldandi hækkun kaupgjalds í samræmi við hækkun vísitölunnar, því að þeir eru nákvæmlega eins settir eftir hækkunina sem áður. Jafnframt verður því ekki með rökum neitað, að af síhækkandi verðlagi og kaupgjaldi leiðir stórtjón fyrir þessar stéttir í framtíðinni. Þegar þessi þróun er svo langt komin, að af henni leiðir samdrátt í atvinnurekstrinum, þá ,kemur atvinnuleysið og launalækkanirnar í einhverri mynd, og eftir því, sem verðlagsgrundvöllurinn í landinu er þá orðinn hærri, eftir því verður kostur þeirra þrengri, sem á launatekjum lifa. Þessi hætta eykst um allan helming hér við væntanlegan brottflutning setuliðsins.

Vegna stóraukinnar atvinnu hefur mikill fjöldi verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna jafnvel margfaldar tekjur við það, sem áður var, og verulegar afgangstekjur frá nauðþurftum, og geta því lagt þær til hliðar. Munu og margir gera það, eftir að þeir hafa losað sig úr skuldum og lagað fyrir sér með ýmsu móti.

Það er ekkert smámál fyrir framtíð allra þessara manna, hversu fer um verðgildi íslenzkrar krónu og hvað úr þeim verðmætum verður, sem þeir nú eignast.

Hver er þá sú beina áhætta, sem verkamenn og aðrir launþegar hafa, eftir að kaupgjald og innanlandsverðlag hefur verið fastákveðið með lögum?

Við hagfræðilega athugun, sem fram hefur farið á grundvelli vísitölunnar, hefur verið áætlað, að hve miklu leyti framfærslukostnaðurinn í Reykjavík byggðist á aðflutningsverði, eða réttara sagt innkaupsverði helztu nauðsynjavara, sem fluttar eru til landsins. Það hefur komið í ljós við þessa athugun, að sá þáttur, sem innkaupsverð erlendra vara á í vísitölunni, er minni en margur hyggur. Skv. þessari athugun hefur verið áætlað, að um 5% hækkun

innkaupsverði erlendra vara mundi hækka vísitöluna um ca. 1 stig, — eða m. ö. o. að 50% hækkun á innkaupsverði þessara vara ætti að hækka vísitöluna um 10 stig, en það þýðir, að slík 50% hækkun innkaupsverðsins mundi hækka framfærslukostnaðinn, þ. e. a. s. kostnaðinn við að lifa, sem kaupgjaldið er miðað við, um ca. 5–6% frá því, sem nú er.

Af þessu fá menn nokkra hugmynd um, hver þessi áhætta er, og ég er sannfærður um, að flestum mun finnast hún hverfandi í samanburði við það, er þeir höfðu gert ráð fyrir.

Þegar svo þess er gætt, að þessa áhættu er þeim ekki ætlað að bera einum, þar sem afla á fjár til þess að mæta hækkunum á erlendri vöru, þá verður að vísa öllum ásökunum um það, að leysa eigi dýrtíðarmálið á kostnað launþega sérstaklega, frá sem fullkomlega rakalausum.

Telji menn ekki nægilega tryggilega búið um fjárframlög í þessu skyni, þá er að bæta úr því. Frá sjónarmiði launamanna og verkamanna

finnst mér viðhorfið vera í stuttu máli þetta: Áhættan er hverfandi miklum mun minni en flestir munu hafa gert sér grein fyrir. Jafnvel þeir, sem vinna nú gegn þessu frv., telja eðlilegt, að grunnlaun breytist ekki, — svo viðurkennd er sú skoðun. Hins vegar er svo sá stórkostlegi ávinningur, að mjög er dregið úr þeirri áhættu fyrir alla launamenn og verkamenn, sem leiða hlýtur af síhækkandi verðlagi í landinu, og það eins, þótt kaupgjaldið hækki einnig. Síðast, en ekki sízt, eru stórum auknar líkur fyrir verndun þeirra verðmæta, er menn nú eignast.

Þá er viðhorf hinna, sem framleiða vörur fyrir innlendan markað. — Verðlag á landbúnaðarafurðum hefur nýlega verið ákveðið af þeim nefndum, sem það hlutverk er ætlað, svo sem nú er hagað til. Þessar nefndir eru eins konar verðdómstólar, og það verð, sem nú hefur verið sett, skilst mér, að hafi verið miðað við þann framleiðslukostnað, sem nú er orðinn hjá landbúnaðinum, og einnig hitt, að færa tekjur þeirra, er búnað stunda, nokkuð meira til samræmis við tekjur annarra stétta en verið hefur, ekki sízt eftir að stríðið hófst, enda mjög brýn nauðsyn á því, að það sjónarmið væri tekið til greina, þar sem ella mundi hafa horft til fullkominnar auðnar í sveitunum.

Flestum bændum mun vera það ljóst, að mjög orkar tvímælis um þann hagnað, sem bændastéttinni mundi verða að því til frambúðar, að verðlag á landbúnaðarafurðum hækkaði á innlendum markaði frá því, sem er. Flestir bændur mundu áreiðanlega leggja meiri áherzlu á það en nokkuð annað að tryggja afkomuna sem bezt á þeim grundvelli, sem lagður hefur verið. Hins vegar mundu jafnvel þeir bændur, sem þennan skilning hafa á málinu, hljóta að fylgja fram áframhaldandi verðhækkun, ef kaupgjald og verðlag í landinu heldur enn áfram að hækka óhindrað. Enn fremur gætu aðrar ástæður gert slíkar hækkanir óumflýjanlegar.

Eins og nú standa sakir, er verðlag á þeim afurðum landbúnaðarins, sem fluttar eru út úr landinu, í algerri óvissu. Lágt útflutningsverðlag getur gerbreytt til hins verra afkomu bænda og gert hana alls ósambærilega við afkomu annarra stétta nú. Breytist verðlag til lækkunar á þessum vörum, yrðu bændur neyddir til þess að gera tilraun til að bæta það upp með hækkuðu innanlandsverði.

Afkomu bændastéttarinnar er stórfelld hætta búin í framtíðinni, ef stöðugar verðhækkanir og síaukinn framleiðslukostnaður grefur undan atvinnurekstrinum við sjóinn og skapar taprekstur, atvinnuleysi og minnkaða kaupgetu í bæjunum.

Eins og nú standa sakir, hafa margir þeirra, sem landbúnað stunda og eigi hafa orðið fyrir barðinu á fjársjúkdómunum, talsverðan rekstrarhagnað af búum sínum, miðað við það, sem venjulega tíðkast hjá íslenzkum bændum. Að verulegu leyti er þetta tækifæri notað til þess að grynna á skuldum, en slík skuldaniðurfærsla var mjög aðkallandi. Hins vegar verða bændur nú að láta bíða, vegna dýrtíðarinnar og vegna efnisskorts, margar hinar nauðsynlegustu framkvæmdir, en verða þá um leið að eignast innstæður, til þess að standa síðar straum af fyrirhuguðum framkvæmdum, þegar efni fæst og verðlag kann að verða hagstæðara. Eignist menn ekki slíkar innstæður nú, þegar stöðvun er á framkvæmdum, er það merki þess, að menn séu að tapa.

Verðgildi þessara innstæðna, sem bændur verða nú að eignast til framkvæmda síðar, hlýtur að fara eftir því, hversu tekst að halda uppi verðgildi íslenzku krónunnar, og hvort sú þróun verður látin afskiptalaus, sem líklegust er til þess að knýja fram verðfellingu gjaldeyrisins að stríðslokum eða jafnvel fyrr.

Í frv. er ákveðið, að bændum skuli tryggt ákveðið verð fyrir útfluttar afurðir. Í þessu er fólginn mikill ávinningur fyrir bændur, miðað við það ástand, sem nú er, þar sem allt er á huldu um verðlagið á þessum afurðum. En það er fullkomlega sanngjarnt að veita þessa tryggingu, þegar verðið er fest á innlenda markaðinum, og sérstaklega þegar þess er gætt, að aðrar stéttir, sem l. þessi snerta sérstaklega, hafa nú tekjur sínar vísar.

Bændur hafa svipaða áhættu í sambandi við verðhækkun erlendra vara og launamenn og áður er á minnzt. Hef ég bent á, að sú hætta er mjög lítil. En jafnframt munu aðrir vilja benda á, að bændur hafi einnig aðra áhættu í sambandi við þetta mál og hana nokkuð sérstaks eðlis. Er borinn kvíðbogi fyrir því, að vegna þess, hversu eftirspurnin er nú mikil eftir vinnuafli í bæjunum, þá muni svo geta farið, að fólk fáist ekki til starfa í sveitunum fyrir það kaupgjald, sem leyfilegt væri að greiða samkv. 1. og miðast ætti við kaupgjald yfirstandandi árs. Óttast menn, að um tvennt geti þá orðið að velja: að greiða hærra kaup en l. leyfa, eða vera án aðkeyptrar hjálpar, sem þýðir sama og stórfelldan samdrátt framleiðslunnar.

Ef kaupgjaldið hækkaði þrátt fyrir 1., mundi það samræmi raskast, sem löggjöfin er reist á. Ef þetta ætti sér stað í ríkum mæli, gæti löggjöfin ekki staðizt til frambúðar, þar sem hún megnaði ekki að skapa varanlegt jafnvægi í verðlagsmálunum. Nauðsynlega undirstöðu að framkvæmd l. verður því að skapa með því að koma á hæfilegu jafnvægi milli eftirspurnar og framboðs á vinnuaflinu. Þetta ætti að vera framkvæmanlegt með samvinnu við þá erlendu heri, sem í landinu dvelja. Ákveða verður í samningum við þá, hversu mikinn mannfjölda þeir geti fengið til starfa. Verður ekki dregið í efa, að slíkt samkomulag muni nást. Styður reynslan frá síðastl. vori og sumri þetta eindregið. Enn fremur væri nauðsynlegt að haga opinberum framkvæmdum algerlega eftir því, hversu hagar til um atvinnu almennt í landinu, — draga verður úr slíkum framkvæmdum, ef nauðsyn krefur, til þess að atvinnuvegirnir geti fengið nauðsynlegan vinnukraft. Jafnframt yrði þó vandlega að gæta þess að skapa ekki atvinnuleysi með þessum ráðstöfunum, enda ætti að vera auðvelt, eins og nú er háttað peningamálum þjóðarinnar, að koma í veg fyrir slíkt.

Frá sjónarmiði framleiðenda finnst mér því málið horfa þannig við: Hætta á erfiðari rekstrarafkomu en áður, vegna hækkana á erlendum vörum, er hverfandi lítil, og með skynsamlegum ráðstöfunum á að vera hægt að tryggja það, að ákvæði þessara 1. um kaupgjald komi að haldi í framkvæmdinni. Flestir skynsamir menn mundu telja tvísýna hagnaðarvon, að hækkaðar verði landbúnaðarafurðir, þótt þeir mundu telja verðhækkanir óumflýjanlega nauðsyn, ef framleiðslukostnaðurinn eykst til verulegra muna. Er þó meira en vafasamt, að með slíkum verðhækkunum væri hægt að komast undan hækkuðum kostnaði, eins og ég hef drepið á. Frá þessu sjónarmiði er ekki mikilli hagnaðarvon fórnað með ákvæðum þessara laga.

Með l. þessum mundu bændur hins vegar fá tryggt verðlag á afurðum þeim, sem þeir selja á erlendan markað, og er það ákaflega þýðingarmikið atriði fyrir bændastéttina. Þá eiga þessar ráðstafanir að draga úr þeirri gífurlegu hættu, sem landbúnaðinum stafar af hruni atvinnuveganna eftir stríðið, og tryggja verðgildi þeirra sjóða, sem landbúnaðurinn verður að byggja á nauðsynlegar og óhjákvæmilegar framkvæmdir í framtíðinni.

Þá hef ég rakið í eins stuttu máli og mér var unnt aðalefni frv. og drepið á þau atriði, er mér þykja mestu máli skipta um viðhorf þeirra stétta, sem hér eiga með nokkuð sérstökum hætti hlut að máli. Ég hef einnig drepið nokkuð ú líkurnar fyrir því, að þessi tilraun geti tekizt. Ég tel yfirgnæfandi líkur fyrir því, að unnt sé að stöðva þá óheilbrigðu þróun, sem verið hefur um skeið í þessum málum, ef frv. verður samþ. og l. framkvæmd með skörungsskap og festu. Ég tel áhættuna fyrir þá, sem hlut eiga að máli sér staklega, svo litla, en ávinninginn fyrir þá og þjóðina alla svo mikinn, að sorglegt yrði að teljast, ef ekki fengist nægilegt fylgi fyrir þessari lausn.

Að mínum dómi er nú alveg einstakt tækifæri til þess að stöðva sig í þeirri braut, sem farin hefur verið um skeið. Tekjur bændastéttarinnar hafa nú verið færðar til nokkurs samræmis við tekjur annarra stétta, og verkamenn og launamenn hafa nú þegar fengið bættar upp þær verðhækkanir, sem orðið hafa. En hvar verður staðar numið, ef skrúfugangurinn er látinn hefjast á nýjan leik?

Þá vil ég minnast á það, að ekki er hægt að gera ráð fyrir, að þessar ráðstafanir nái fyllilega tilgangi sínum til frambúðar, nema verulegra fjármuna verði aflað til dýrtíðarsjóðsins.

Það er fullljóst, að þeirra fjármuna verður að afla fyrst og fremst með auknum sköttum á þá, sem verulegar tekjur hafa, enda er sannleikurinn sá, að skattal. þau, er sett voru á síðasta Alþ., voru þannig úr garði gerð, að þau þarfnast mjög endurskoðunar, — ekki fyrir það, að þau hlífi svo mjög hæstu tekjum manna á árinu 1940, heldur vegna hins, að ef þau verða látin gilda áfram óbreytt, þá fellur mjög mikið af stórgróða ársins 1941 undan skatti vegna skatta- og útsvarsfrádráttar fyrir árið 1941. Slíkt er ekki viðunandi eins og sakir standa.

Þá vil ég enn fremur minna á það alveg sérstaklega, að í sambandi við skattalagaafgreiðsluna á síðasta þingi voru framsóknarmenn mjög óánægðir með þá miklu lækkun, sem gerð var á skattinum með hinum svokallaða „umreikningi“ á tekjum manna.

Menn verða að skilja það, að stríðsgróðinn verður að bera mjög verulegan hluta af þeirri áhættu, sem fyrir hendi er á hækkun dýrtíðarinnar vegna erlendra vara, og því aðeins er hægt að vonast eftir því, að löggjöf sem þessi geri gagn til frambúðar, að gróðamenn landsins taki sinn fullkomna þátt í stöðvun dýrtíðarinnar og nauðsynlegum ráðstöfunum til þess að halda uppi verðgildi. peninganna. Í hópi þessara manna eru nú margir framleiðendur. Ekki eru þeir í minni hættu staddir en aðrir. Þeir eru þvert á móti, ef svo mætti að orði komast, í fremstu víglínu. Á þeim munu töpin skella fyrstum allra, þegar svo er komið, að framleiðslukostnaðurinn er orðinn hærri en útflutningsverðið getur borið. Ef þessir framleiðendur skilja ekki, hvað er í húfi, og skerast undan því að veita þessu máli fulltingi, þá er ekki von þeirrar almennu viðurkenningar á nauðsyn málsins, sem menu hafa gert sér vonir um.

Þá verður einnig að koma skýrt fram, að í sambandi við þessar ráðstafanir til þess að stöðva dýrtíðarflóðið og vernda verðgildi peninganna verður einnig að taka til endurskoðunar öll fjármál ríkisins með það fyrir augum, að ríkið komi sér upp öflugum sjóðum, til þess að standa síðar straum af þeim framkvæmdum, sem nú eru látnar bíða vegna óhagstæðra skilyrða, en óhjákvæmilega verða að vinnast í framtíðinni.

Ríkið verður að vera þess megnugt, að loknu þessu stríði, að leggja fram verulegt fjármagn til eflingar atvinnuvegunum, til þess að hafa forgöngu um ýmiss konar nýjungar í atvinnuháttum landsmanna, til þess að styðja landnám og heimilismyndanir í sveitum landsins o. fl. o. fl.

Þá fyrst, þegar öflugar ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að halda uppi verðgildi peninganna, skapast verulegur grundvöllur fyrir slíkum sjóðmyndunum til stuðnings atvinnulífi þjóðarinnar og nauðsynlegum framkvæmdum.

Ráðstafanir til þess að stöðva dýrtíðina og halda uppi verðgildi peninganna, auknir skattar á stríðstekjur, myndun sjóða. til framkvæmda og almennur sparnaður eru allt óaðskiljanlegir þættir sama málsins. Allt miðar þetta til þess að tryggja afkomu þjóðarinnar eftir styrjöldina. Allt eru þetta hlekkir í sömu keðjunni, og mun Framsfl. leggja fram á Alþ. tillögur um þessi mál, og ber að skoða þær sem eina heild.

Langminnugir eru menn ekki, ef menn hafa nú alveg gleymt því, hvert var eitt höfuðnauðsynjamál fyrir stríðið. Eitt mesta vandamálið var þá einmitt, hve litla fjármuni almenningur í landinu hafði handa á milli, en ekki sízt unga fólkið, til þess að leggja í ný fyrirtæki, nýjar framkvæmdir, stofna ný heimili, og þó einkum til þess að gerast sjálfstæðir atvinnurekendur.

Þróunin var því sú, að allur hinn stærri atvinnurekstur var í fárra manna höndum, en að sama skapi var allt of fátítt., að menn gætu átt atvinnutæki sín sjálfir og rekið sína eigin atvinnu. Af þessu leiddi það, að þegar eitthvað bjátaði á fyrir þeim, sem atvinnutækin áttu, þá stóðu heil byggðarlög á heljarþröm, og fjármunir oft engir meðal almennings til þess að efna til nýrra atvinnutækja, og var þá oft leitað til ríkissjóðs til úrlausnar. Afleiðingin af þessu varð óhjákvæmilega sú, að fyrirtæki, sem þannig var komið á fót með beinni eða óbeinni aðstoð ríkisvaldsins, nutu ekki þeirrar aðhlynningar, ekki þess aðbúnaðar frá þeim, sem unnu við þau, sem orðið hefði, ef fólkið hefði átt þau sjálft.

Einmitt nú hafa fjölmargir menn í landinu, og þá ekki sízt ungir menn og einhleypir, öðlazt möguleika til þess að eignast nokkurt sparifé, og margir hverjir hafa notað þá möguleika, þótt sumir hafi að vísu sóað fé sínu.

Allt þetta fólk, ekki sízt unga fólkið, ætti að hafa það að áhugamáli að leggja sitt lið til þess. að þeir fjármunir, sem það nú eignast, geti orðið því að sem mestu gagni, þegar á þarf að halda. Eftir stríðið verða miklu fleiri en nokkru sinni áður, sem þurfa að mynda sér ný heimili, leita sér nýrrar atvinnu, því að ekkert er augljósara en einmitt það, að margt af því, sem nú er arðvænlegt, hrynur saman í stríðslok eins og spilaborg.

Hvað verður þá hægt að gera fyrir þessa fjármuni? Þeirri spurningu er erfitt að svara, en það er þó víst, að það fer mjög eftir því, hvað gert verður til þess að koma í veg fyrir verðhrun peninganna.

Engum stendur nær að sinna því máli, sem hér er lagt fyrir, en einmitt unga fólkinu, sem á framtíðina fyrir sér og hefur nú alveg einstakt tækifæri til þess að koma fótum undir sig til frambúðar.

Frv. það, sem ég hef lagt hér fram, er borið fram af hálfu Framsfl. og var lagt fram í ríkisstj. af hans hálfu.

Við höfum orðið fyrir þeim miklu vonbrigðum, að hvorki ráðherra Alþfl. né ráðherrar Sjálfstfl. vildu fylgja frumv., og þjóðstjórnin hefur orðið að segja af sér vegna þess, að hún gat ekki staðið saman um þetta stærsta mál, sem fyrir liggur.

Þessi niðurstaða er í fullu ósamræmi við þær undirtektir, sem till. þær, sem frv. er byggt á, fengu hjá þeim aðilum, sem standa að miklum meiri hluta stjórnarinnar, þegar þær voru þar til meðferðar í septembermánuði, og æ síðan.

Mun verða gerð grein fyrir viðhorfi annarra flokka, og fer ég því ekki lengra inn á þetta atriði að sinni.

Hitt get ég ekki stillt mig um að draga fram, að það er ekki æskilegt tímanna tákn, að þeir flokkar, sem stóðu saman að lausn gengismálsins á sínum tíma, skuli ekki geta staðið saman að þeirri lausn, sem hér er fram lögð.

Þá var lögfest kaupgjald og afurðaverð, og þá var almenningi raunverulega ætlað að færa talsverðar fórnir. Hér er lagt til að lögfesta kaupgjald og afurðaverð, — en hver vill bera þá áhættu, ef hægt er að tala um áhættu í þessu sambandi, saman við þær fórnir, sem mönnum var ætlað að færa þá?

Enn furðulegri er þessi niðurstaða, þegar þess er gætt, að fulltrúar flokkanna hafa ekki þreytzt á að lýsa yfir því, að þeir teldu eðlilegt, réttmætt og öllum fyrir beztu, að kaupgjald og verðlag hækkaði ekki úr því, sem það er nú. Þetta gefur tilefni til þess að spyrja: Getur undir nokkrum kringumstæðum verið rangt að setja það í 1., sem menn eru algerlega sannfærðir um, að sé fyrir beztu?

Á að trúa því, að peningaflóðið hafi blindað háttv. Alþ. svo, að mönnum finnist nú bókstaflega ekkert til þess vinnandi að stöðva dýrtíðina ?

Væntanlega hafa menn gert sér það ljóst, að þetta mál er svo flókið og vandasamt, að það verður aldrei leyst á Alþ., ef meiri hluti þingsins er ekki ráðinn í því að gera það í málinu, sem rétt dæmist eftir málavöxtum, hvernig svo sem hinir, er í minni hluta vilja vera, reyna að nota eða misnota málið í viðskiptum við kjósendur landsins.

Framsfl. er það vel ljóst, að með ýmsu móti má túlka og hártoga þetta mál og að til beggja vona getur brugðið um vinsældir þess, ef öll öfl, sem til þess kynnu að vera fáanleg, legðust á eitt um að spilla fyrir málinu. Þetta skiptir hins vegar ekki máli. Rétt mál verður ekki rangt mál, þótt einhverjir hiki við að fylgja því.

Ég vil alls ekki ganga út frá því, að vonlaust sé, þrátt fyrir það, sem á undan er gengið, að mál þetta fái framgang hér á Alþ. Fari hins vegar svo, að háttv. Alþ. vilji ekki fallast á þessa lausn, þá er ég samt ekki vonlaus um, að sú alda, sem ég veit, að muni rísa með þessu máli, muni valda stefnubreyt. í verðlags- og fjárhagsmálum þjóðarinnar.