28.10.1941
Neðri deild: 7. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í C-deild Alþingistíðinda. (346)

7. mál, ráðstafanir gegn dýrtíðinni

Sveinbjörn Högnason:

Ég skal ekki lengja umr. mjög, en það eru nokkur atriði, sem ég tel, að þurfi að koma fram.

Það hefur komið í ljós, að allir telja mikla nauðsyn þess að gera ráðstafanir til að stöðva dýrtíðina, en lítið bólar samt á vilja til að koma slíkum ráðstöfunum áleiðis. Þetta strandar aðallega á hræðslu við lögfestingu kaupgjaldsins.

Þetta þarf að koma alveg ljóst fram, vegna þess að þessir sömu flokkar hafa hvor um sig ekkert talið athugavert við það að lögfesta afurðaverð bænda, nema þessi eina hjáróma rödd í Sjálfstfl., sem talin er nauðsynleg til þess að geta haldið uppi tvísöngnum, Því ef það vantaði, þá gæti verið, að stefnan væri of klár í flokknum. Þá hefur þetta og komið greinilega fram meðal annars hjá hæstv. atvmrh. Hann taldi, að ef hægt væri að áfellast ríkisstj. fyrir nokkuð, þá væri það fyrir það að hafa ekki fest verðið á landbúnaðarafurðunum. Allir hafa heyrt, hvernig hv. þm. Seyðf. talar, sömuleiðis hæstv. félmrh., þar sem alltaf er að heyra sama sönginn um það, að öll dýrtíð stafi af því, hvernig verðið sé á landbúnaðarafurðum. Og það er vitanlegt, að hæstv. atvmrh. hefur varið miklum tíma til þess í blaðaskrifum að reyna að sýna fram á það, að milljónagróði eimskipafélaganna á flutningsgjöldunum hækkaði vísitöluna ekki nema um brot úr stigi, en aftur á móti segir blað sama ráðh., að aðeins fárra aura hækkun á mjólkinni hafi valdið 6 stiga hækkun vísitölunnar. Þó vita allir, að gróði Eimskipafélags Íslands var á síðasta ári eins mikill og allt verð mjólkurinnar það ár. Menn liti á það, að þetta er bara gróði eins skipafélags. Og svo á að telja mönnum trú um, að nokkurra aura hækkun á mjólkur verði valdi allri hækkun vísitölunnar. Þeir, sem kryfja málin ekki dýpra en þetta, eru ekki líklegir til að hafa nokkurn vilja til þess að vinna gegn dýrtíðinni. Það er yfirleitt viðurkennt af þeim aðilum, sem andvígir eru þeirri leið, sem frv. gerir ráð fyrir, að ekki sé mikil tilhneiging til þess hjá verkamönnum að hækka grunnkaupið, enda eigi þeir ekki svo mikið á hættu, þó kaupið væri lögfest. Ég tók sérstaklega eftir því, hvað hæstv. félmrh. sagði um þetta í dag. Hann sagði : „Ég veit, að það er yfirleitt ekki nokkur tilhneiging hjá verkamönnum til þess að hækka grunnkaupið. Þeir munu yfirleitt una við að hafa það eins og það nú er.“ Hæstv. atvmrh. hefur haldið hinu sama fram. En hvernig geta þá þessir sömu aðilar verið svona andvígir því að lögfesta kaupið. Aftur á móti bændur eiga meira á hættu vegna lögfestingar kaupgjaldsins, vegna þess að það er ekki hægt að tryggja það, að hægt sé að halda sama kaupgjaldi við landbúnaðinn þrátt fyrir þessi ákvæði. Það, sem veldur því, að Alþ. er óstarfhæft til þess að afgreiða eitt mesta nauðsynjamál þjóðarinnar, eru viss „princip“ gagnvart einni stétt þjóðfélagsins, sem hefur enga fjárhagslega þýðingu fyrir hana. Og svo viðkvæmir eru menn fyrir þessum „principum“, að menn þora ekki, þrátt fyrir þann voða, sem við blasir þjóðinni, að hreyfa við þeim. En er ekki einkennilegt, að menn skuli allt í einu verða svona viðkvæmir fyrir þessum „principum“ og það þeir sömu hv. þm., sem ekki hafa verið hræddir við að fresta framkvæmd stjórnarskrárinnar? Ég er ekkert að áfellast þá fyrir það. Ég tel sjálfur, að það hafi verið þjóðarnauðsyn. En ef engin sérstök áhætta fylgir því, þá get ég ekki skilið, að þeir hinir sömu skuli ekki samvizku sinnar vegna geta vikið til hliðar svona ,,principi“, þegar viðurkennt er, að þjóðarnauðsyn krefjist þess. Það var talið nauðsynlegt að víkja ákvæðum stjórnarskrárinnar til hliðar til þess að tryggja samstarf og vinnufrið í landinu, en vegna þessa máls má allt fara í bál. Mér finnst, að þjóðin hafi þörf fyrir að velta því fyrir sér og ekki sízt hv. þm. sjálfir, í hvaða aðstöðu þeir eru komnir gagnvart sjálfum sér og þjóðinni. Hv. þm. A.-Húnv. sagði, að frv. væri svo meingallað, að ekki væri hægt að fylgja því. Nú veit hv. þm. það, að í till. um hina frjálsu leið er farið fram á sömu leiðir, aðeins sleppt því aðhaldi, sem lögfesting veitir. Er það allra meina bót að sleppa tryggingunni fyrir því, að till. verði framkvæmdar? Ég held, að það sé varla hægt að bera þetta fram fyrir nokkurn mann.

Hv. 4. þm. Reykv. var að tala um það, að hann hafi viljað ákveða vissa styrki til bænda til þess að halda dýrtíðinni niðri. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. A.-Húnv. sé hér á sama máli, því ekki virðist bera mikið í milli nú um skoðanir þessara tveggja hv. þm. Ég vil ekki ganga inn á það fyrir hönd bænda, að það sé farið að veita þeim beina styrki til þess að halda niðri afurðaverðinu. Mér virðist það vera miklu meiri skerðing á þeirra rétti heldur en lögfesting kaupsins gagnvart verkamönnum. Ég held, að það væri rangt að nefna slíkt styrki til bænda, heldur ætti að kalla slíkt styrki til neytenda. bændur þurfa áreiðanlega enga styrki. Þeirra afurðir standa áreiðanlega fyrir sínu verði og eru seljanlegri en flest annað á þeim tímum, sem nú ganga yfir. Ef veittir verða einhverjir styrkir til þess að halda niðri dýrtíðinni, þá eru það styrkir til neytenda, en ekki til bænda.