28.10.1941
Neðri deild: 7. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í C-deild Alþingistíðinda. (348)

7. mál, ráðstafanir gegn dýrtíðinni

Haraldur Guðmundsson:

Ég var ekki viðstaddur, þegar hæstv. viðskmrh, flutti sína ræðu, en ég hef fengið hjá öðrum hv. þm. frásögn um þau atriði í henni, sem sérstaklega lutu að ræðu minni fyrr í kvöld.

Hæstv. ráðh. virðist halda fast við það enn, að vísitölufyrirkomulagið út af fyrir sig sé orsök sívaxandi dýrtíðar. Ég reyndi nú lítillega í dag að sýna honum með dæmum, að þetta væri fjarri sanni. Ég sé ekki, að hann hafi viljað nema þá lærdóma, sem ég reyndi að flytja, og skal þá til viðbótar koma með nokkur atriði úr tiltölulega nýrri reynslu okkar sjálfra, sem ég hygg, að taki af tvímæli í þessu efni.

Í fyrri styrjöldinni var ekkert vísitölufyrirkomulag, og kaupgjaldið hækkaði þá langt á eftir dýrtíðinni og komst allt stríðið ekki í námunda við aukinn framfærslukostnað, en dýrtíðaraukningin var þá, engu síður en nú, gífurlega hröð, þótt vísitölufyrirkomulagið gæti engan þátt átt þar í. Ég athugaði þessar tölur eftir að hæstv. viðskmrh. flutti sína ræðu. Ef kaup og framfærslukostnaður hér í Reykjavík er hvort tveggja táknað með 100 1914, sýnir það sig, að kaupið er 1915 komið upp í 107, en vöruverðið upp í 123, 1916 er kaupgjaldið 125, en vöruverðið 155, og 1918 er kaupgjaldið 214, en vöruverðið komið upp í 333, og vöruverðið heldur enn áfram að hækka, og árið 1920 er það komið upp í 446. Þar var ekki um neitt vísitölufyrirkomulag að ræða. Verkalýðsfélögin fengu þetta fram með samningum. Þá var engin löggjöf, sem tryggði kauphækkun í ákveðnu hlutfalli við aukna dýrtíð. Hæstv. félmrh. sýndi fram á það í gær, að árið 1940, þegar kauphækkun mátti ekki fara fram úr 75%, hefði hækkun verðlagsins verið a. m. k. jafnör, ef ekki örari en nú, þegar kaupuppbótin er 100% af dýrtíðinni. Ég álít þetta sanna, að vísitölufyrirkomulagið út af fyrir sig sé engin ástæða til verðhækkunar. Ef verðhækkunarorsakirnar sjálfar eru burtu numdar, þá hættir áhrifa vísitölufyrirkomulagsins algerlega að gæta á mjög skömmum tíma, alveg eins og þegar steini er kastað í vatn, koma að vísu hringir á vatnið, en þegar komið er í vissa fjarlægð frá því, sem steininum er kastað, kennir gáranna ekki lengur. Ég bæti þessu við skjaldbökusöguna, ef hún hefur ekki verkað út af fyrir sig.

Þá gat hæstv. ráðh. þess, að Alþfl. hafi verið með kaupbindingunni 1939 og beri honum engu að síður að vera með henni nú. Hæstv. félmrh. svaraði þessu í gær í ræðu sinni, og get ég að mestu látið mér nægja að vísa til þess. Hæstv. félmrh. sýndi fram á, að ef um sjúkdóm er talað í þessu sambandi, þá eru sjúkdómseinkennin nú öll andstæð því, sem þau voru 1939. Þá voru atvinnufyrirtækin rekin með tapi, en nú til þessa með stórgróða. Þá voru bankarnir skuldum vafðir erlendis, en nú eiga þeir þar inni töluvert á annað hundrað millj. króna. Þá var atvinnuleysi, en nú er nóg atvinna. Þá var peningaleysi, en nú höftum við meiri peninga en við vitum, hvað við eigum við að gera. Fyrr má nú vera trúin á patentlyfin, ef menn eru sannfærðir um, að það lyf, sem átti við 1939, hljóti að eiga við þennan sjúkleika, sem nú er, þar sem einkennin eru gersamlega andstæð því, sem þá var. En auk þess er þess að gæta, að 1. frá 1939 voru öll önnur en það frv., sem hér er til umr. Í 1. frá 1939, 2. gr., eru ákvæði um, að kaupgjald þeirra, sem 1. ná til, sem eru verkamenn, iðnaðarmenn og sjómenn og yfirleitt þeir, sem hafa félagssamninga um kaup og kjör, skuli hækka um ákveðna hundraðstölu af dýrtíðinni á hverjum tíma. Það var beinlínis lögbundin kauphækkun, sem atvinnurekendur urðu að beygja sig undir. Og í þessu var vitanlega mikill styrkur fyrir hin smærri félög sérstaklega, sem höfðu vonda aðstöðu til að geta knúð fram kauphækkun. Félögin á hinum stærri stöðum hefðu vafalaust getað knúð þetta fram, en annars staðar víða hefði orðið mjög torsótt að fá þetta fram. Í 3. gr. eru svo ákvæði um kaupbindinguna almennt. Gegn þessari gr. greiddi ég atkv.; um það sagði ég þá í umr. það, sem nú skal greina :„Um einstök atriði frv. mun ég ræða nokkuð við 2. umr. Þá verða væntanlega komnar fram brtt., sem ég hef lagt fram, en um 3. gr. vil ég segja strax, að ég get alls ekki greitt henni atkv. Ég tel ekki vera nægilega ríka ástæðu til að gera svo stórfelldar ráðstafanir sem þar er gert ráð fyrir, þ. e. a, s. að svipta verkalýðsfélög og atvinnurekendur gersamlega rétti til samninga í heilt ár. Á síðasta ári var samþ. vinnulöggjöf. Þessum l. var ætlað — og ég hygg, að þau muni að miklu leyti ná þeim tilgangi, — að fella í ákveðið form meðferð deilumála milli atvinnurekenda og verkamanna, og ég tel enga ástæðu til að ætla, þótt þetta frv, yrði að 1., að til svo stór felldra vinnudeilna muni leiða, að það réttlæti, löngu fyrr en nokkuð slíkt sýnir sig, að banna með 1. alla viðleitni atvinnurekenda og verkalýðsfélaga til að semja sín á milli um kaup og kjör. Við afgreiðslu vinnulöggjafarinnar var lögð á það rík áherzla að skerða í engu samningsrétt aðila sjálfra.“

Þetta var mín afstaða til þessa máls þá, og hún er óbreytt enn. Þó má segja, að þá hafi verið enn ríkari ástæða til slíks, eins og ég áðan sagði, þar sem aðstæðurnar voru þá gersamlega andstæðar því, sem nú er.

Þá virtist mér, að hæstv. viðskmrh. héldi því fram í ræðu sinni, að Alþfl. vildi lögbinda verð á íslenzkum afurðum, en ekki leggja neinar hömlur á hækkun kaupgjaldsins.

Ég sagði ekkert það í minni ræðu, sem gæti gefið honum tilefni til slíkra fullyrðinga, enda er þessi fullyrðing röng. Hitt er rétt, að Alþfl. samþ. á sínum tíma með Framsfl. l. um afurðasölu landbúnaðarins, kjöt- og mjólkurl., — það er rétt, að hann gerði það að tilmælum og til stuðnings bændastéttinni í landinu í heild sinni. Og það mætti Framsfl. vel muna, að setning þessara 1. og framkvæmd hefði ekki náð tilgangi sínum án stuðnings Alþfl. Þessi l. voru sett af okkar hálfu af fullum skilningi á hag bænda og af fullum skilningi á þeirri nauðsyn, að bændur flosnuðu ekki upp af búum sínum og bættust í hóp hinna atvinnulausu verkamanna við sjávarsíðuna. Og það er rétt að segja það hér, að það var mjög reynt að nota þessa afstöðu Alþfl. honum til ófrægingar í bæjunum, þegar til kosninga kom, og sagt, að hann hefði hugsað minna en skyldi um hag verkamanna við setningu þessarar löggjafar. En nú eru aðstæður allar aðrar en þegar þessi löggjöf var sett. Það var ekki ætlunin, þegar þessi löggjöf var sett, að hún yrði notuð til þess að draga fram hlut framleiðenda umfram það, að til jafns og samræmis væri við hag annarra yfirstétta landsins. Ef nú á að lögfesta það verð, sem orðið er á landbúnaðarafurðum fyrir aðgerðir þeirra verka, sem enginn vill bera ábyrgð á, þá er ekki hægt að neita því, að við ákvörðun verðlagsins nú er tekið tillit til eins sérstaks sjónamiðs, þ. e. a. s. hins óvenjulega ástands — þúsundir erlends setuliðs í landinu — og hinnar stórkostlega auknu eftirspurnar eftir landbúnaðarafurðum af þeim sökum. Það getur að vissu leyti átt rétt á sér, að tekið sé tillit til hins óvenjulega ástands við ákvörðun verðs á landbúnaðarafurðum, en þá fellur líka niður nauðsyn sérstakrar verðuppbótar. Það er ranglátt að vilja bæði tryggja hæsta verð á vörunni og þar að auki verðuppbætur. En þetta er það, sem gert er með þessu frv.

Ég vil taka það fram út af því, sem hæstv. viðskmrh. sagði, að ef það á að tryggja það, að ein stétt landsins, bændastéttin, fái nákvæmlega sömu tekjur næstu 12 mánuði eins og síðustu 12 mán., þá er sjálfsagt, að verkamönnum verði einnig tryggðar sömu tekjur næstu 12 mán. eins og síðustu 12 mán. Hæstv. ráðh. sagði, að verkamönnum væri tryggð vinna á næsta ári, en þar hygg ég, að hann hafi sagt meira en hann er maður til að standa við. Ef gerbreyting yrði í þessu efni og öll vinna hjá setuliðinu félli niður, þá er hætt við, að verkamenn hefðu ekki 300 vinnudaga á næstu 12 mán.

Samkv. frv. viðskmrh. er hagur atvinnurekenda tryggður, jafnvel þó að dýrtíðin vaxi. Aftur á móti má kaup verklýðsins ekki vera hærra en eftir okt.-vísitölunni 1941. Það er ekki nægilegt, að ráðh. tali um að bera fram till. um stríðsgróðaskatt, — það hefði verið eðlilegra, að slíkar till. hefðu fylgt þessu frv.

Hv. 2. þm. Skagf. taldi meginorsök dýrtíðarinnar vera hækkun erlendrar vöru og hækkun flutningsgjalda. Það er að vísu rétt, að mikil hækkun stafar frá erlendri vöru, en hinu er ekki hægt að neita, að af þeim 72 stigum, sem vísitalan hefur hækkað, er meira en helmingur hækkun á landbúnaðarafurðum. — Nú er það að vísu rétt, að atvinna er næg handa hverjum, sem hafa vill, og yfirvinna og helgidagavinna með mesta móti. En ég hygg, að við getum allir verið sammála um það, að þó að það geti stundum verið nauðsynlegt fyrir verkalýðinn að vinna 4–6 tíma í yfirvinnu á dag og alla sunnudaga, þá er það meiri áreynsla en svo, að það geti gengið til lengdar. Enda hygg ég, að hv. þm. sé það kunnugt, að félagsmálalöggjöfin leggur hann við slíkri vinnu. Annars verð ég að segja það, að mér er erfitt um að skilja þá menn, sem sjá ofsjónum yfir því, þó að verkamenn auki tekjur sínar með því að vinna 4–5 tíma í eftirvinnu á dag og helgidagavinnu marga mánuði ársins. Ég hygg, að mörgum mundi ekki finnast þetta auðfenginn gróði, — þvert á móti mikið á sig lagt til að ná honum, En þegar á þetta er minnzt, má ekki gleyma því, að bændur hafa fengið mjög verulega tekjuaukningu umfram það, sem nefnt var um einstakar tegundir afurða. Til dæmis hafa selzt út úr landinu undanfarin ár 3 þús. tonn af kjöti, sem hefur þurft að verðuppbæta með því kjöti, sem hefur selzt innanlands. Á s. 1. ári var útflutt kjöt meira en 1100 tonn, eða 1/8 af því, sem áður var. Hefur því útflutningurinn minnkað um 2/8 hluta, og þar af leiðandi hefur það kjöt, sem selt hefur verið með hærra verðinu, vaxið allverulega. Hið sama er að segja um mjólkurframleiðsluna; sá hluti mjólkurinnar, sem selst beinlínis við háa verðinu, hefur vaxið nokkuð, en sá hluti mjólkurinnar, sem seldur er til vinnslu, hefur að sama skapi minnkað. — Ég skal ekki fullyrða, hvort afkoma bænda stendur betur en afkoma verkamanna, en vil þó benda á það, að þetta er þýðingarmikið atriði í afkomu og tekjuöflun bænda á þessu tímabili.

Þá undraðist hæstv. viðskmrh. það að ég spurði eftir þeim skýrslum, sem sýndu hið rétta verð á landbúnaðarafurðum. Ég vil benda hv. þm. á það, að í því frv., sem hér liggur fyrir, eru ákvæði um það, að það skuli greiða úr ríkissjóði uppbætur til bænda á það kjöt, sem flutt er út úr landinu, og tryggja það, að bændur fái sama verð og þeir fengu fyrir síðasta árs framleiðslu. Fyndist nú hv. þm. það mikil goðgá, þó að spurt væri um skýrslur, þar sem gert er ráð fyrir sama söluverði og í fyrra, og þó er gert ráð fyrir að greiða verðuppbætur, sem nemur 5 millj. kr.? Þá spurði hv. þm., hvar væru skýrslur frá útgerðarmönnum og verkamönnum. Mér finnst hv. þm. spyrja fávíslega. Það má benda á skýrslur um breyt. á framfærslukostnaði hér í Reykjavík með sundurliðuðum útgjöldum, sem sýna breyt. frá manni til manns. Þegar nauðsynlegt þótti að hlaupa undir bagga með útgerðinni, voru heimtaðar skýrslur af fyrirtækjunum um það, sem mestu máli skiptir. En hér ber svo bráðan að, að ekki er hægt að safna skýrslum, en það mun vera venja í flestum siðuðum löndum, að til séu glöggar skýrslur um rekstrarafkomu bænda. Það er ekki hægt að sjá, hvers vegna ekki er aflað slíkra skýrslna hér á landi, nema ef vera kynni vegna þess, að þeir, sem bera fram þessar till., séu hræddir um, að slíkar tölur, ef til væru, sýndu, að till. þeirra væru ekki á rökum reistar.

Ég fullyrði, að því er snertir hækkunina á kjötinu, að ekki er hægt að bera fram nein rök fyrir því, að sú hækkun sé rétt, hvort sem miðað er við framleiðslukostnað bænda og breyt. á honum frá því, sem áður var, eða hlutdeild hliðstæðra stétta í heildartekjum þjóðarinnar. Enda sér það hver maður, að þetta liggur í augum uppi. Ég veit ekki betur en að gert sé ráð fyrir því, að út verði flutt 1100 tonn af kjöti, en með því að lækka kjötverðið mætti fá markað fyrir allt kjöt í landinu sjálfu, og væri með því hægt að losna við að borga þá uppbót, sem gert er ráð fyrir í frv. Mér þykir annars rétt að taka það fram, að ég álít það illa farið, að farið yrði að auka meting milli verkamanna og bænda um það, hvor stéttin hafi betri kjör við að búa. Ég geri ráð fyrir því, að flestir séu á einu máli um það, að þessum stéttum beri að styðja hvor aðra í því að skapa sem lífvænlegust kjör hvor fyrir aðra. Það er því ákaflega leitt, að þeir, sem telja sig forsvarsmenn bænda, skuli nota aðstöðu sína til þess að hækka verðið á afurðum þeirra eins gífurlega og raun er á, án þess að rökstyðja þær hækkanir, samtímis því, sem hækkun á kaupgjaldi hefur ekki orðið nema rétt um helming á við hækkun á afurðum bænda. Að þessir sömu menn skuli nú snúast þannig við verkamannastéttinni í landinu, að þeir vilji láta lögbinda kaupgjald þeirra, einmitt þeirrar stéttarinnar, sem mestan þegnskap sýndi í sambandi við dýrtíðarmálin. Verkamannastéttin reyndi ekki að nota aðstöðu sína til þess að knýja fram kauphækkun, aðstöðu, sem var betri en undanfarin ár. Það er einmitt þetta fólk, sem hefur gert sér það ljóst, hvaða hætta stafar af dýrtíðinni, ef hún magnast. En viðurkenningin til verklýðsins á að vera sú, að taka af honum réttinn til þess að semja um kaup og kjör. Ég held, að það væri sæmilegra verkefni fyrir fulltrúa bænda og verkamanna að koma sér saman um það að taka af stríðsgróðanum, sem einmitt er eina meginorsök dýrtíðarinnar, svo að nægi til ráðstafana gegn henni og til að draga úr þeirri verðbólguhættu, sem stríðsgróðinn er að skapa í landinu.