03.11.1941
Neðri deild: 11. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í C-deild Alþingistíðinda. (357)

7. mál, ráðstafanir gegn dýrtíðinni

Jón Pálmason:

Við 1. umr. þessa máls gerði ég ýtarlega grein fyrir afstöðu minni til þessa frv. Ég tók þá fram, að ég væri ekki fáanlegur til að samþ. það í þeirri mynd, sem það nú er. Meðal annars tók ég fram, að ég gæti ekki heldur lagt í að gera brtt. við frv., vegna þeirrar forsögu, sem það hefur haft. En eins og kunnugt er, hefur það orðið til þess að sundra ríkisstj. að fá þetta frv. í gegn. Og í fjhn. hafa fulltrúar Framsfl. lagt til, að frv. yrði samþ. óbreytt. Af þessu hefur mér ekki þótt ástæða til að fara að gera tilraunir í þá átt að tæta það í sundur með brtt. og fá á því umbætur, svo að ég gæti fylgt því. Enda skilst mér, að engar líkur séu fyrir, að samkomulag geti orðið um afgreiðslu þess.

Við 1. umr. fór ég svo rækilega út í afstöðu mína til þessa máls, að ég get nú verið fáorður um, hvers vegna ég er ekki fáanlegur til að fara inn á þær brautir, sem hér er verið að stefna að. Ég vil þó stikla á því í aðalatriðum.

Aðalatriðið er lögfesting kaupgjalds. Í öðru lagi er það lögfesting afurðaverðs og stofnun dýrtíðar sjóðs.

Þessi 3 atriði eru náttúrlega mjög óskyld, og ég skal hvað dýrtíðarsjóðinn snertir geta þess, að í meginatriðum er ég því samþykkur, að farið verði inn á þá braut, sem þar er lögð til. En á lögfestingu kaupgjalds og afurðaverðs eru svo miklir annmarkar, að ég get ekki samþ. l., sem fela það í sér.

Um kaupgjaldið er það að segja, að það heppnaðist vel að lögfesta árið 1937 ákveðnar till. í vinnudeilum. Og einnig heppnaðist 1939 að lögfesta kaup, sem samningar voru um til ákveðins tíma, en menn verða bara að gæta þess, að það ástand, sem nú er, er ósambærilegt við það, sem þá var. Það, sem mestum erfiðleikum veldur, er sú mikla vinna, sem skapazt hefur hjá hinu útlenda setuliði. Þar er að finna höfuðorsök þess, hve straumur verkafólksins úr sveitunum hefur verið mikill á síðasta ári. Ég tel því, að fyrsta skilyrðið til verulegra breyt. og hagsbóta á þessu sviði sé það, að fá fasta samninga viðvíkjandi þessari vinnu hjá hinum útlendu mönnum. Hæstv. ríkisstj. virðist ekki hafa gert þær athuganir og þær tilraunir til samninga á þessu sviði, sem nauðsynlegar eru. Og ég held, að það hafi verið ástæða til að draga það að stofna til stjórnarskipta út af þessu, þangað til ríkisstj. var búin að þrautreyna að fá einhvern grundvöll á þessu sviði. Þá fyrst var hægt að komast að einhverri niðurstöðu, því það er ekki nóg, að í setuliðsvinnunni sé borgað hátt kaup, heldur er þar líka um að ræða þau vinnubrögð, að öllum heiðarlegum mönnum ofbýður.

Viðvíkjandi sveitavinnunni tók ég fram við fyrstu umr., að ég teldi í sjálfu sér, að verið væri að setja 1. út í hött með því að ætla sér að lögfesta kaupgjald í sveitum eins og nú er háttað. Hv. 3. landsk. vék lítils háttar að þessi, og það hefur komið í ljós, að ekki er hægt að framkvæma þann lið frv., sem um þetta fjallar. — Ég skal svo ekki fara út í deilur um það, hvað að öðru leyti kann að mæla með því að lögfesta það kaupgjald, sem samningsbundnir taxtar eru um. En út af því, sem hv. þm. V.- Húnv. var að tala um, að það væri að koma í ljós, að það væru sömu aðstæður að skapast hjá 3 flokkum þessa þings, Alþfl., Kommfl. og Sjálfstfl., um að æsa verkamenn upp til að fá hækkað kaup sitt, vil ég segja það, að þetta eru ákaflega undarleg og ómakleg ummæli. Ég vil í þessu sambandi víkja að því, að á tímabilinu síðan fyrir stríð, þegar núverandi stjórnarfl. tóku höndum saman, hefur verið miklu minna um deilur en áður hefur þekkzt, og tel ég það sönnun fyrir Því, hve gersamlega ástæðulausar þessar ásakanir eru. Þá má nefna það, að þau áhrif, sem Sjálfstfl. hefur á verkalýðinn, eru fyrst og fremst bundin við stærstu verkalýðsfélögin í Reykjavík og Hafnarfirði, verkalýðsfélögin Dagsbrún og Hlíf. Og það er nú komið í ljós, að engin þörf var á öllu þessu brölti til að koma í veg fyrir, að þau hækkuðu sitt grunnkaup, því að þau hafa lýst yfir, að þan ætli ekki að segja upp sínum samningum.

Ég skal ekki fara mikið út í að svara því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði um þessi atriði. En ég held, að ég megi fullyrða það, að mikil alúð hafi verið við það lögð í Sjálfstfl. að hafa sem bezt samtök milli stéttanna, en ekki reynt að Stofna til átaka, sem að sjálfsögðu yrðu til að æsa upp, eins og ef þetta frv. næði fram að ganga. Ég tel því rétt, eins og Sjálfstfl. hefur lagt til, að halda kaupgreiðslum í sem föstustum skorðum, eins og þær nú eru, með frjálsu samkomulagi. Hvað verkalýðinn snertir er það ekkert sérstakt, að það hafi verið ákveðið í samningum og með 1., að þeir fái verðlagsuppbót í samræmi við dýrtíðina. Þetta er leið, sem allir gengu inn á á síðasta þingi, vegna þess, hve langt var komið inn á þá braut. En ég held, að þar hafi verið of langt gengið, og heppilegra hefði verið að hafa þar takmörk á. En úr því að þessi 1. og samningar komust á og ekki virðast líkur fyrir, að hægt sé að breyta þeim, þá verður að miða að ,því — ekki sérstaklega að breyta grunnlaununum, heldur hinu, að koma, eftir því sem unnt er, í veg fyrir, að vísitalan hækki, og þá með öðrum ráðum en þetta frv. gerir ráð fyrir.

Þá er annað atriðið. Það er lögfesting afurðaverðsins. Það er í raun og veru aðalatriði frv., og það er gagnslaust að samþ. það, nema það nái fram yfir stríð, af því að öll þessi ákvæði verða þýðingarlítil og jafnvel stórlega til ills, ef ætti að raska þeim á hverju ári meðan stríðið stendur. Nú er afurðaverðið greinilega fyrir neðan framleiðsluverð bænda, og að ætla sér að fara að lögfesta það, — ekki aðeins um 1 ár, heldur lengri tíma —, það er atriði, sem ég sem bændafulltrúi get með engu móti samþ., því ég tel, að með því væri því eina vopni, sem sú stétt hefur til að ákveða verð framleiðsluvara sinna, kippt í burtu. Einu líkurnar fyrir, að afkoma bændanna verði nokkurn veginn tryggð, eru, að vegna vaxandi eftirspurnar og verðhækkunar sé hægt að selja þær í samræmi við þann tilkostnað, sem við þær er.

Þriðja aðalatriðið, sem ég minntist á um myndun dýrtíðarsjóðs, er, út af fyrir sig, gott. Þau 1., sem ég tel rétt, að sett verði um þetta, eiga, að mínu áliti, að fela í sér, að myndaður verði nægilega öflugur sjóður til að varna því með ráðstöfunum, eins og byrjað var á í vor, að dýrtíðin aukist frá því, sem nú er. Ef von er um að koma þessum kafla í gegn, Þá er ekkert nema gott um það segja, og ég bauð þeim mönnum í fjhn., sem fylgja þessu frv., að sníða frv. þannig, að felldar yrðu úr því 2. og 3. gr., en samtök virtust engin fáanleg á þessum grundvelli.

Annars er það að segja um önnur minni atriði, sem í frv. eru, svo sem um húsaleigu og fragt og hámarksverð á erlendum vörum, að það atriði eru í dýrtíðarl. frá í vor, og ríkisstj. hafði í því efni, áður en þetta aukaþing var kallað saman, frjálsar hendur til að gera þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar voru, og hefur að sumu leyti notað þær heimildir, þó að minna sé en skyldi. Þetta er því óþarft inn í þessi 1., því að það eru engin ákvæði í þessu frv. hæstv. viðskmrh. um, að þau 1. eigi að fella úr gildi.

Viðvíkjandi einstaka atriði, sem minnzt hefur verið hér á í sambandi við þetta mál, skal ég ekki fara mikið inn á það að svara þeim atriðum, sem fram hafa komið í ræðum hv. samnm. minna, umfram það, sem ég hef gert. Um brtt. hv. 3. landsk. vil ég þó segja það, að þær eru sumar þannig vaxnar, að ég get fylgt þeim og tel þær til bóta. Hins vegar eru þær ekki svo róttækar, að líklegt sé, að þær geri það að verkum, að leitt geti til þeirrar niður stöðu, sem ætlazt er til. Um það, hvað gera eigi í þessu sambandi, skal ég ekki frekar koma inn á heldur en ég gerði við 1. umr.

Það eru ekki miklar líkur fyrir, að samkomulag geti náðst um slíkar ráðstafanir sem þessar, þó það sé engan veginn reynt til hlítar. Og þó við fellum þetta frv., þá er komið hér fram annað frv., sem hægt er að gera brtt. við.

Ég skal að lokum aðeins víkja að því síðasta í ræðu hv. þm. V.- Húnv., frsm. fyrsta minni hl., þar sem hann var að tala um, að það liti út fyrir, að sumir vildu ekkert gera, að þeir láti dýrtíðarvofuna villa sér sýn og geri ekki neitt í þessu sambandi. Ég held, að þetta sé öfugt, því að ég held, að vilji allra, sem hér á þingi eru, sé að reyna að koma í veg fyrir, að þetta haldi áfram óbreytt, þó enn hafi ekki náðst samkomulag um leiðir í þessu efni. En ég verð að segja það, að þó það sé raunalegt að ná ekki samkomulagi um leiðir í þessu máli, þá sé þó betra að setja ekki l. um róttækar ráðstafanir heldur en að samþ. 1., sem fyrirsjáanlegt væri, að kæmu ekki að haldi og mundu kannske verða stórlega til ills frá því, sem nú er.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. V.-Húnv. var að tala. um, að við sjálfstæðismenn og Alþfl. menn ætluðum að elta dýrtíðarvofuna út í þokuna, en þeir væru að stefna til byggða, vil ég segja það, að á undanförnum árum hefur það verið svo, að Framsfl. er búinn að stjórna hér í. nálega 14 ár, og okkur virðist mörgum meðal þessarar þjóðar, að hann hafi meira gert að því að elta vofur en leiða á réttar brautir í okkar þjóðlífi yfirleitt. Og ég held, að það, sem hv. þm. V.-Húnv. var að tala um, — að það séu þeir, sem ætli að leiða inn á réttar brautir, — komi gersamlega í mótsögn við það, sem reynslan hefur sýnt að undanförnu. Og ég tel, að eins og sakir standa sé það vissulega ekki vegurinn til að leiða almenning og þjóðina alla að kasta inn í þingið meingölluðu og vanhugsuðu frv. og heimta, að það skuli samþ., ella muni þeir ekki starfa í samvinnu við aðra menn, heldur sé það beint að fara öfuga leið.