05.11.1941
Neðri deild: 13. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í C-deild Alþingistíðinda. (366)

7. mál, ráðstafanir gegn dýrtíðinni

Pétur Ottesen:

Það hafa, sem reyndar eðlilegt er, orðið allmiklar umr. um þetta mál, og langar mig til að bæta þar litlu við. Ég tel, að það sé rétt af mér að gera það, sérstaklega með tilliti til þess, að það virðist, eftir þeirri almennu skoðun, sem fram hefur komið bæði í umr. um þetta mál hér á þingi nú og líka í blöðum, að ég hafi nokkra sérstöðu að því er snertir trú manna á árangur af þessum ráðstöfunum til þess að halda niðri dýrtíðinni. Sú skoðun hefur komið fram hjá öllum flokkum, að ráð muni vera fyrir hendi til þess að hafa áhrif á gang þeirra mála, þó að þeir hinir sömu menn hafi hins vegar ekki orðið sammála um það, eftir hvaða leiðum eigi að fara til þess að ná þessu takmarki.

Ég verð að segja það, að ég er mikið veikari í trúnni á það, að þetta megi takast, eins og nú er komið þessum málum hér hjá okkur, heldur en almennt virðist vera skoðun manna hér á Alþ. Ég er t. d. afar veiktrúaður á það, að sú leið muni draga okkur langt á götu í þessu efni eða bera tilætlaðan árangur, að fara að leggja fram mjög mikið fé úr ríkissjóði, eins og frv. fer fram á og samþ. hafa verið l. um, þótt nú sé lengra gengið heldur en áður var í þeim till. Ég er líka veiktrúaður á það, að leggja mikið fé fram til þess að borga með dýrtíðina, eða eins og það er orðað, til þess að halda niðri verði á ýmsum vörum. Ég er ákaflega hræddur um, að þótt sú leið sé farin að afla fjár með nýjum sköttum í þessu augnamiði, — sem þá m. a. byggðist á því, að þeir, sem slíka skatta greiða, geta ekki ráðstafað því fé og koma þannig í veg fyrir, að það verði til þess að auka kaupgetu eða verðbólgu í landinu, — að það bæri ákaflega mikið að sama brunni með því að setja þetta fé inn í veltuna, eins og ætlazt er til í þessu frv. Ég hefði talið miklu heppilegra að því er þetta snertir að búa sig undir þá erfiðleika, sem er alveg fyrirsjáanlegt, að muni mæta okkur í ákaflega ríkum mæli, þegar sú breyt. verður hér í þessu þjóðfélagi, að það skeður hvort tveggja í senn, að sú vinna, sem setuliðið hér hefur stofnað til meðal landsmanna, hverfur úr sögunni, og verðfall verður á afurðum landsmanna, að það fé, sem við með slíkum hætti gætum aflað, sem ég er ekki á móti að gert sé, og að það fé, sem kann að vera afgangs í rekstri ríkisins nú, verði lagt í sjóð og geymt til þess tíma og notað til að mæta þeim erfiðleikum, sem koma fram þegar þessi breyt, verður.

Ég sé ekki, að með þeirri ráðstöfun, sem þetta frv. eitt út af fyrir sig felur í sér, sé hægt að ná þeim tilgangi, sem ætlazt er til af hv. flm. þessa frv. Enda hefur það nú komið fram á síðara stigi umr. um þetta mál, að bæði aðalflm. þessa frv., hæstv. viðskmrh., og hinir flm. þess hafa viðurkennt það alveg fullum fetum hér í umr. í gær eða fyrradag, að það séu engar líkur til þess, að frv. nái tilgangi sínum, ef ekki verði samtímis gerðar aðrar ráðstafanir, sem sé þær, að það takist að sporna við því, sem nú virðist blasa við okkur, að setuliðið, sem hér er að draga til sín, og það í auknum mæli, allan vinnukraft, sem til er í landinu.

Mér finnst þess vegna, að það, sem fyrst hefði átt að snúa sér að, áður en nokkrum slíkum tillögum, sem í frv. felast, var hreyft, að leita hófanna um samkomulag við setuliðið um hagnýtingu á vinnuaflinu í landinu. Haldi setuliðið áfram að draga til sín vinnuaflið, er samþ. þessa frv. gersamlega gagnslaus.

Ég er dálítið undrandi yfir því, að þeir menn, sem höfðu trú á þessari leið, skyldu ekki hafa leitað fyrir sér um þessa lausn, sem allur árangur samþ. þessa frv. hvílir á. Það virðist hafa legið svo opið fyrir, að hæstv. ríkisstj., sem vitanlega er sá aðilinn, sem þarna er um að ræða, hefði reynt að semja um þetta atriði, — því að þessu takmarki var ekki hægt að ná eftir . öðrum leiðum en þeim, að samkomulag hefði fengizt um það hjá ríkisstj., sem hefur á hendi fyrir Alþ. og landið allt allan málarekstur vegna samninga við setuliðið. Það er alveg augljóst, að á meðan slíku fram vindur eins og nú er í þessum efnum, þá stefnir það til algerðrar upplausnar í þessu þjóðfélagi, en það kalla ég fullkomna upplausn í þjóðfélaginu, ef landbúnaður og sjávarútvegur biðu þann hnekki, sem virðist blasa við, þar sem vinnuaflið er að tapast frá þeim atvinnuvegum og yfir til setuliðsins. Það er alveg augljóst öllum og vitað, að allar þær ráðstafanir og þau verk, sem setuliðið vinnur eða lætur vinna hér, eru öll unnin með það fyrir augum að koma að liði í þeirri alheimsbaráttu, sem nú er verið að heyja, en fela hins vegar ekki í sér uppfyllingu á neinum venjulegum lífsskilyrðum þessarar þjóðar.

Ég hef heyrt í tvö eða þrjú skipti, að lesin hefur verið upp auglýsing í útvarpinu, — það er víst frá manni, sem hefur tekið að sér á ákvæðisvinnu fyrir setuliðið hér í Reykjavík, — um það, að smiðir og verkamenn geti fengið vinnu hjá setuliðinu í nánd við Reykjavík, og kaup sé miðað við Dagsbrúnartaxta, mikil eftirvinna og sunnudagavinna, og þar að auki frítt húsnæði. Þessi boð er útvarpið látið flytja út um landsbyggðina. Það má því næmi geta, hvaða vonir geta vaknað í brjósti þeirra, sem heyra þessi boð til sín í gegnum útvarpið, og þá ekki sízt þegar þeim erfiðleika er hrundið úr vegi, sem hindraði margan mann utan af landi frá því að leita til þessarar vinnu hér í Reykjavík, en sá mikli erfiðleiki var húsnæðisleysið, sem hér hefur verið mjög mikið, og þeir þurftu þar að auki að borga það húsnæði dýrum dómum. Nú er þeim boðið frítt húsnæði ofan á Dagsbrúnartaxtakaup, en samkv. honum er borgað um tímann 2.49 í dagvinnu, 3.70 í eftirvinnu, og 4.64 í helgidagavinnu. Það er því augljóst mál, að það er gersamlega vonlaust að ná nokkrum árangri með slíkum ráðstöfunum sem þessum í baráttunni við dýrtíðina á meðan svona kapphlaup er með tilboðum í verkafólkið í landinu til þess að vinna hér að óarðgæfum verkefnum, en einungis til þess að kalla á nýja hættu fyrir þjóðfélagið.

En þetta mál er algerlega óleyst enn, og við vitum ekki, hvernig gengur að fá lausn á því, þar sem hér er líka um að ræða samninga við erlendar þjóðir, sem hér hafa setzt að.

Ég verð að segja það, að það eru einhver hin mestu öfugmæli, sem ég hef heyrt lengi, þegar því var varpað hér fram, að þetta frv. sé að draga fram stéttarhagsmuni bænda. Ég held, að þessi ummæli hafi fallið hjá hv. þm. Seyðf. og jafnvel að hann hafi endurtekið þau oftar en einu sinni. Ég get ekki betur séð en að þarna sé sannleikanum svo gersamlega snúið við, að það sé ekki hægt að gera það öllu freklegar.

Nú er talað mikið um það, og það liggja hér fyrir útreikningar um það, — því að það virðist að nú eigi að leysa allar þrautir með útreikningum, — að verð á landbúnaðarafurðum virðist hafa stigið um 124% síðan fyrir stríð.

Verð á mjólk virðist hafa hækkað um 100%, en nú er náttúrlega við þetta það að athuga, að þarna er miðað við útsöluverð þeirra vara á þeim stöðum, þar sem þær eru seldar. Og þess vegna gefur þetta alveg ranga hugmynd um það í raun og veru, hver hækkunin er heim til bændanna sjálfra. En ef hér er um samanburð á verðlagi og kaupgjaldi að ræða, kemur margt til frádráttar í þessu efni, þannig að hækkun á afurðum, sem væri sambærileg við hækkun kaupgjalds, gefur engan veginn rétta hugmynd um það raunverulega. í þessu. T. d. mun kaupavinnukaup á s. 1. sumri a. m. k, hér á þessum slóðum hafa hækkað um 100%, og sums staðar nokkuð meir. Það mætti þess vegna segja, að kaupavinnukaup væri ekki í mjög óeðlilegu hlutfalli við hækkunina á mjólkinni, sem hefur hækkað um 100% í útsölu, en þá verður þessi hækkun samt sem áður til óhagræðis fyrir bændur, því að þeir fá vitanlega ekki nema hluta af útsöluverði afurðanna.

En þó að þessi kauphækkun á s. l. sumri væri mikil, þá hefur hún þó orðið mun meiri í haust, t. d. hvað snertir vetrarmenn í sveitum. Sú hækkun mun nema um 300%. Mér er kunnugt um það, — bæði af eigin reynslu og annarra bænda, sem hafa verið að reyna að fá vetrarmenn.

Það eru engar líkur til, að þegar þarf að fara

að ráða fólk til vor- og sumarverka á næsta ári, að kauphækkunin verði minni þá en hún er nú orðin hjá vetrarmönnum, ef þá á annað borð verður hægt að fá nokkurt fólk til að sinna sveitavinnu, — og þá leiðir það af sjálfu sér, hver aðstaða bænda verður til þess, með því verði á afurðum, sem nú er og á samkv. þessu frv. að haldast óbreytt, að standa straum af slíku kaupgjaldi. Nú kann að vera, að einhver mundi svara sem svo, að þessi kauphækkun tæki ekki til nema þess vinnukraftar, sem þyrfti að sækja annars staðar að í sveitirnar. En þeim, sem svo hugsa, sést yfir það, að ógerningur er að halda því fólki kyrru í sveitum, sem þar er enn, t. d. uppkomnum börnum hjá foreldrum, nema því aðeins að það beri líkt úr býtum og annað vinnandi fólk í landinu. En það er loku fyrir það skotið, að svo geti orðið með því að halda afurðaverðinu óbreyttu eins og lögbinda á með þessu frv. Að því leyti er þetta frv. stórhættulegt fyrir framleiðsluna, stefnir beinlínis að því að leggja hana í rústir.

Nú á að ákveða samkv. þessu frv., að ekki megi ráða menn fyrir hærra kaup en var árið áður en þessi l. öðluðust gildi. Það á sem sé ekki að miða við það, sem var í haust, heldur haustið 1940, eða er það ekki rétt, hæstv. viðskmrh.? (Viðskmrh.: Ég hef lýst yfir því, að ég sé reiðubúinn til þess að taka það atriði til athugunar.) En þó að svona ákvæði yrðu sett í 1., þá verður um tvennt að ræða, taka fólkið fyrir það, sem upp er sett, eða að fá ekkert fólk, því að það, sem kemur til með að ráða hér, er framboð og eftirspurn, og eftir því markast kaupgjaldið, eins og yfirleitt verð á hverju sem er. Þess vegna er augljóst, að þó að svona ákvæði verði sett í 1., kemur það ekki að neinum notum, er gersamlega gagnslaust. Annaðhvort er að ráða fólk fyrir það kaupgjald, sem almennt er goldið, t. d. í Bretavinnu, eða að fá ekkert fólk.

Ekkert bendir til annars en að setuliðsvinnan verði áfram með svipuðum hætti og hingað til, máske stórum vaxandi, og verði jafnvel enn meiri hækkun næsta sumar, og sjá þá allir, hvert stefnir fyrir bændur og aðra framleiðendur.

Mér virðist þess vegna, að með samþ. þessa frv. sé svo sorfið að bændum, að engar líkur séu til, að þeir fái rönd við reist. Það er augljóst mál, að það verði mjög mikill hnekkir fyrir búrekstur þeirra, að slíkt sé í 1. tekið. Hjá því getur ekki farið. Með því skipulagi, sem er nú á sölu á aðalframleiðsluvörum landsmanna, þá er alveg víst, að þar yrðu uppfyllt ákvæði l., en við hitt verði ekki ráðið, sem á að koma þar á móti bændum til léttis, þ. e. ákvörðun um kaupgjaldið.

Hv. þm. V.-Húnv. flutti hér í fyrradag mjög skáldlega ræðu, a. m. k. var síðari hlutinn þannig, — hann er hagyrðingur eins og kunnugt er. Hann talaði um verðbólguna og seðlavofuna, eins og hann orðaði það, og sagði, að þeir menn, sem vildu ekki samþ. þetta frv., þeir eltu seðlavofuna út í þoku, jafnvel ofan í gljúfur og jökulsprungur og annað það, sem felur í sér dauða og tortímingu. En ég vil í þessu samlandi benda á, hvort þeir, sem trúa á þetta frv. eins og það liggur fyrir, án þess að nokkur úrlausn fáist önnur, því að það liggja ekki fyrir neinar till. um aðra úrlausn nú, t. d. samkomulag um setuliðsvinnu, þegar verið er að knýja fram atkvgr. um þetta frv., — hvort þeir elta ekki seðlavofuna út í þoku, ofan í gjár og jökulsprungur og þar bíði þeirra þau forlög, sem þeir segja, að þeir stefni að, sem vilja ekki samþ. þetta frv.

Það er vitað, að seðlaveltan hefur aukizt gífurlega. Í byrjun stríðsins mun hún hafa verið 10–12 millj. Nú mun hún vera komin upp í 40–44 millj. Þetta er geysileg breyt., og menn eru hræddir við þessa gífurlegu seðlaveltu, þessa miklu breyt. En af hverju eru menn hræddir við þessa aukningu? Seðlarnir eru eins og kunnugt er ávísun á verðmæti, þau verðmæti, sem til eru og arðgæf í þessu þjóðfélagi. Nú eru menn að mestu horfnir frá að miða seðlaveltuna við ákveðna fúlgu gulls, sem geymt sé í kjöllurum bankanna, og seðlaveltan fari ekki fram úr vissu hlutfalli af þeirri gulltryggingu. Það, sem liggur bak við seðlana nú, er hið raunverulega verðmæti í landinu. Hvers vegna eru menn þá hræddir við þessa miklu veltu? Af því að menn líta svo á, að þau arðgæfu verðmæti, sem til eru í landinu, séu ekki nægileg trygging fyrir henni. Við þetta mætti bæta hluta af stríðsgróðanum, sem geymdur er úti í Englandi, sem mun vera um 130–140 millj. kr. En þetta fé er bundið þar, og má líta á það sem vaxtalaust stríðslán til Englendinga, og þó að ég vilji ekki leggja dóm á það öryggi, sem felst í að hafa þetta fé geymt þar, þá hygg ég, að allir geti verið sammála um, að heppilegra hefði verið fyrir þjóðfélagið að geta flutt fyrir það inn í landið efnivörur til að byggja skip eða getað varið því til jarðræktarframkvæmda og annars þess, sem nauðsynlegt er til að vernda og styðja og halda við lífi og afkomu þessarar þjóðar. Það, sem er því aðallega hér um að ræða, eru þau arðgæfu verðmæti, sem eru til í landinu sjálfu. Og ég er ákaflega hræddur um, eins og sakir standa hjá okkur nú, að ef þetta frv. verður samþ. eins og það liggur fyrir, þá verði gengið ákaflega nærri þeim arðgæfu verðmætum, sem sú framleiðsla byggist á, sem mestu varðar til að viðhalda lífi þjóðarinnar, sem sé landbúnaðarframleiðslan, og gæti það mjög auðveldlega orðið til þess að draga úr, jafnvel í stórum stíl, þeirri nauðsynlegu framleiðslu, og þá erum við að koma inn á það atriði í þessum dýrtíðarmálum, sem er hættulegasta sporið, sem við getum stigið, hvað sem segja má um skiptar skoðanir manna um lausn þessara dýrtíðarmála. Frv. stefnir að því að draga úr framleiðslu og verndun þeirra verðmæta, sem ein geta veitt nokkurt öryggi gegn vaxandi seðlaveltu. Með frv. er því stefnt út í ófæru, gjár og gljúfur, eins og hv. þm. V.-Húnv. orðaði það. Það er því út frá þessu sjónarmiði, sem ég hef lýst hér, að ég treysti mér ekki til að samþ. þetta frv. Ég skal fullkomlega viðurkenna, að ef við getum fengið þá lausn á samningum við forráðamenn þess erlenda herliðs, sem hér er, að mjög verði dregið úr vinnu íslenzkra verkamanna hjá því, og að atvinnuvegirnir geti fengið nóg fólk fyrir það kaup, sem þeir gætu borgað, miðað við það verðlag, sem hér ætti að lögfesta, þá horfir málið talsvert öðruvísi við, en fyrir þessu höfum við nú enga vissu, þegar við eigum að greiða atkv. um þetta frv. og byggja vonir á þeirri lausn á þessum vandræðum þjóðfélagsins. Þar er við að eiga tvo hernaðaraðila, sem við vitum, að hafa í samningum svo oft reynzt okkur harla þungir í skauti og ekki ævinlega, að því er okkur hefur virzt, tekið nægilegt tillit til þeirrar nauðsynjar, sem fyrir hendi hefur verið um að fá viðunandi lausn í málum okkar.

Þetta, sem ég hef nú sagt, á við þann kafla þessa frv., sem stefnir að því að binda fast verð landbúnaðarafurða í nærri því heilt ár, eða 11 mánuði.

Hinu atriðinu í þessu frv., að afla fjár til þess að forða okkur frá skakkaföllum, eftir því sem hægt er, því get ég verið fullkomlega samþykkur, því ég verð að segja, að ég er ákaflega vonlítill um árangur, ef á að nota féð með þeim hætti, sem lagt er til í þessu frv. og öðru frv., sem lagt hefur verið hér fram. Hitt tel ég líklegra til góðs árangurs, að afla fjár, sem við gætum gripið til í þeim erfiðleikum, sem fram undan eru og ógna okkur nú, þegar þeir dynja á okkur og við verðum að horfast í augu við það erfiðleikaástand, sem við óttumst, að fram undan sé. Ég vil í því sambandi skjóta fram til athugunar í sambandi við þá hugmynd að safna fé til að grípa til á erfiðum tímum, að mér finnst, að til viðbótar því fé, sem við söfnum hjá íslenzkum þegnum, þá ættum við samkv. öllum málavöxtum að hafa sterka aðstöðu gagnvart þeim erlendu hernaðaraðilum, sem hér eru, að fara fram á, að þeir leggi með okkur í slíkan sjóð með tilliti til þeirrar geysilegu þjóðfélagslegu röskunar, sem þeir hafa stofnað til og eru enn að gera í vaxandi mæli, því að það er vitanlegt, að afleiðingin af því er þegar orðin geys:lega mikil, og þó að tækist að fá samninga um að draga eitthvað úr þeim bersýnilega voða, sem af því stafar, að þeir erlendu herir sópi meir og meir til sín vinnandi fólki í landinu, þá finnst mér við hafa eigi að síður sterka aðstöðu til þess að gera kröfu til, að þeir leggi fram fé til þess með okkur að mæta þeim erfiðleikum, sem vitað er að verða á leið okkar, þegar aftur þrengir að. Ég vil skjóta þessu fram til athugunar, bæði fyrir Alþingi og ekki síður fyrir ríkisstj., því að mér finnst, að eftir öllum málavöxtum geti enginn sanngjarn maður algerlega skellt skollaeyrunum við því, að hér höfum við réttmæta kröfu fram að bera, og það vitanlega því fremur sem annar þessara aðila bindur fyrir okkur aflafé þjóðarinnar í jafnríkum mæli og nú á sér stað.

Ég skal svo ekki lengja meira umr. um þetta mál. Ég vildi aðeins láta þau orð falla, sem ég hef nú gert. Ég vil ekki upp á nokkurn máta gera lítið úr vilja og tillögum, sem fram eru bornar í því augnamiði að draga úr erfiðleikum og fyrirbyggja hættu. En slíkar tillögur koma því aðeins að haldi, að þær séu á skynsamlegu viti byggðar, en það verður ekki sagt um þetta frv.