05.11.1941
Neðri deild: 13. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í C-deild Alþingistíðinda. (368)

7. mál, ráðstafanir gegn dýrtíðinni

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Aðeins örfá orð. Mér skilst menn færast undan fylgi við þetta mál af hinum ólíkustu ástæðum. Fyrst telja andstæðingar þessa frv. það óþarft, því að ná megi tilgangi þess eftir hinni „frjálsu leið“. Þessu var haldið allra fastast fram í ríkisstj. af þeim ráðherrum, sem treystust ekki til að fylgja frv. í einni eða neinni mynd. Í öðru lagi eru nú andstæðingar frv. teknir að fárast yfir, að það sé því miður óframkvæmanlegt og raunar ekkert hægt að gera, sem um munar, til að stöðva dýrtíðina, hvorki með þessu né eftir frjálsu leiðinni, og það fyrst og fremst vegna Bretavinnunnar. — Hvor undanfærslan er meiri alvara þeirra?

Ég hef talið það nauðsynlegt frá upphafi, að samið yrði um takmörkun á því vinnuafli, sem hinir erlendu herir mega á hverjum tíma taka frá atvinnuvegunum. Þeir, sem eru því máli kunnugastir, fullyrða, að ekki sé ástæða til að vantreysta því, að þeir samningar takist. Þannig var samið s. 1. vor. Sá samningur náði aðeins fram í sept. s.l., og ef nokkurn ber að ásaka fyrir það, að hann gilti ekki lengur, er það íslenzka ríkisstj., sem sá ekki ástæðu til að óska eftir, að hann gilti lengur, meðan ókunnugt var um atvinnuþörf hausts og vetrar og fólksþörf ýmissa atvinnuvega, eða kannske heldur þá ráðherra, sem sýnt hafa mest tómlæti í þessu í haust.

Sé það virkilega svo, sem fram kom hjá hv. þm. Borgf. og allt að því einnig hjá hv. þm. A.-Húnv., að þeir og þeirra flokkur mundi vilja fylgja þessu máli, ef tryggt væri, að samningar næðust um, að Bretar og Bandaríkjamenn tækju ekki fleiri menn í vinnu en íslenzka ríkisstj. óskar eftir á hverjum tíma, vil ég óska eftir uppástungu frá þeim um, að umr. sé frestað, til þess að hægt sé að ganga úr skugga um, hvernig þeir samningar ganga. Það ætti að vera hægt á stuttum tíma. Í öðru lagi óska ég þess, ef þeir eru með sjálfu málinu, en vilja ekki æskja eftir frestun á afgreiðslu þess, að þeir gefi þá bendingu um, að þeir samþ. frv., að þeim fyrirvara viðbættum, að það komi ekki til framkvæmda, nema umræddir samningar takist. Geri þeir hvorugt þetta, tel ég, að hér sé aðeins um ný undanbrögð að ræða í máli þessu.

Eins og hæstv. forsrh. tók fram, er hér um keðju ráðstafana að ræða og hægt að segja, að allt sé óvíst um árangur, ef einn hlekkur bilar. En á einhverjum hlekknum verður að byrja ef keðjan á að skapast, og vilji menn engan hlekk hennar fullgera, fyrr en þeir eru allir, þá verður keðjan aldrei smíðuð. Málin er hins vegar hægt að samþ. með fyrirvara að einhverju leyti, þar til sést, hverju fram vindur, ef menn vilja eitthvað nýtilegt gera.

Er það ósk hv. frsm. Sjálfstfl., þm. A.-Húnv. og hv. þm. Borgf., að umr. um frv. verði frestað út af því, sem hér hefur komið fram um Bretavinnuna?