30.04.1942
Sameinað þing: 10. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í D-deild Alþingistíðinda. (1049)

77. mál, menntaskólinn í Reykjavík

Flm. (Pálmi Hannesson):

Herra forseti 1 Á síðasta fundi, sem mál þetta var til umr., hafði ég gert grein fyrir nauðsyn þess, að koma upp nýju húsi fyrir Menntaskólann í Reykjavík. Síðara atriðið, sem í till. þessari felst, hvar þessi bygging eigi að vera, hafði ég ekki rætt. Flestir mundu telja æskilegt, að nýtt hús fyrir Menntaskólann í Reykjavík yrði reist á þeim sömu slóðum og skólinn hefur staðið síðastliðin 100 ár. En þegar málið er rannsakað, koma í ljós ýmsir meinbugir á því að byggja skólann á þessum stað. Eins og getið er í grg. till., hefur vel verið í upphafi séð fyrir landrými handa skólanum um langa framtíð. En eigi leið á löngu áður en yfirstjórn skólans samþykkti að selja lóðarskákir af landi þessu, og því létti ekki, fyrr en komið var mjög nærri skólanum. 1930 fór ég fram á það við bæjarstjórn Reykjavíkur, að bærinn legði til þá lóðarspildu handa skólanum, sem Hið íslenzka steinolíuhlutafélag á við hús K.F.U.M. Ástæðan var sú, að yfirvöld Akureyrarbæjar höfðu lagt Menntaskólanum á Akureyri til verulegt landrými, ókeypis til afnota. Þessari málaleitun minni var synjað og þannig útilokað, að skólinn gæti í bili fengið nauðsynlegt landrými til leikvallar og annars, sem hann þurfti með. Nú fyrir nokkrum árum gerðist það nýmæli, að reist var stórt steinhús á lóð skólans, hið nýja hús K.F.U.M. Er því svo komið, að ekki er auðið að reisa nýtt skólahús á þessari lóð, jafnvel þó að þau hús væru rifin, sem fyrir eru á lóðinni. Er þá um annað hvort að gera: flytja skólann á nýjan stað eða kaupa það land, sem áður hefur verið selt burt af skólalóðinni. Þetta land nemur 2000 m2. Og með því lóðarverði, sem nú tíðkast, mundi þurfa of fjár til slíkra kaupa. Einnig ber á það að líta, að skólahúsið er enn, þrátt fyrir hinn mikla aldur sinn, vel stæðilegt; það var í upphafi vel gert og stílhreint, enda reist af einum færasta húsameistara á Norðurlöndum .á sínum tíma, og það mundi vera verulegt tap fyrir miðbæinn, ef hús þetta væri tekið á braut. Enn kemur það til, að þar sem húsið hefur óneitanlega sögulegt gildi, álit ég misráðið að taka það burt, og gæti vel komið til mála að gera því til góða og láta það geyma sögulegar minjar um nokkur ár ókomin. Mundi húsið vel sóma sér til slíkra nota þó að það uppfylli ekki þær kröfur, sem gerðar eru til menntaskólahúss, enda er það ónothæft sem slíkt. Ég vil geta þess hér, að þegar húsið var reist, fylgdi því konungleg tilskipun, þar sem ætlazt var til, að það stæði í lengsta lagi í 60 ár, en þá var gert ráð fyrir miklum umbótum og byggt yrði nýtt skólahús. Nú eru liðin 100 ár, og enn er sama menntaskólahúsið við lýði, þó að talsvert sé búið að endurbæta það.

Ef byggja ætti skólahús á öðrum stað í bænum, kemur upp mikill vandi. Ég var áður búinn að hugsa mér stað fyrir skólann, sem nú mun vera fyrir miðju flugvallarins, og var það af þeim ástæðum, að miðbærinn mundi verða, er tímar liðu, nokkurs konar „city“ eða verzlunarborg, en byggðin færast suður og vestur. Á þessum stað gætu nemendur sótt til skólans hvaðanæva úr bænum. En Reykjavík er orðin svo stór, að kalla má ókleift fyrir þá nemendur, sem búa í fjarlægum bæjarhlutum, að sæk ja skólann. Ef skólinn yrði fluttur af þeim stað, sem hann er nú, mundu vafalaust koma fram óskir um heimavist í sambandi við hann fyrir utanbæjarnemendur og þá, sem ættu lengst að úr bænum. En ef komið yrði upp heimavist fyrir nokkurn hluta nemenda, væri mjög erfitt að koma á skipulagi um aga og reglur. Ég mundi undir öllum kringumstæðum ráða frá því að setja þannig upp heimavist fyrir nokkurn hluta nemendanna hér í Reykjavík. Það gæti komið að haldi í litlum bæjum, þar sem heimavistin yrði fjölmennari og hefði yfirráðin, eins og t.d. í Menntaskóla Akureyrar, en undir öðrum kringumstæðum færi allt í handaskolum.

Eins og stendur í grg. till., hlýtur að vakna sú spurning, hvort ekki sé rétt að flytja skólann út fyrir bæinn með heimavist fyrir alla nemendur. Ég skal játa, að mér þykir mjög eðlilegt, að slík hugmynd komi ókunnuglega fyrir sjónir fyrst í stað, en ég vil biðja menn að athuga málið með gaumgæfni, áður en þeir skapa sér fullnaðarskoðun um það. Ég benti á það í till. minni, að rannsakað yrði, hvar setja ætti skólann niður, og ekki væri útilokað að flytja hann burt af bæjarlandinu. Í raun og veru horfir málið þannig við, ef hugsað er frá skólalegum rökum, í fyrsta lagi: skólann á að setja þar, sem kennslan kemur að mestu haldi fyrir nemendur, í öðru lagi þar, sem hann getur náð til sem flestra hæfra nemenda. Fleiri sjónarmið koma skólanum ekki við. Sumir telja það metnaðarsvipti, ef skólinn er fluttur burt úr bænum, en slíkt eru ekki skólaleg rök.

Ég skal nú til gamans benda á, hvað meiri hluti embættismannanefndarinnar frá 4. júlí 1839 skrifar um þetta mál, þegar hann gerir grein fyrir afstöðu sinni. Þar segir meðal annars, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er alkunnugt, hvað útdráttarsamt sé að búa í Reykjavík. Ekki ætlum vér okkur í þessu tilliti að fara smásmugulegar að lýsa Reykjavíkurbæ en vér þegar höfum gert hér að framan, þar sem þess gjörist ekki þörf, og þar að auki kynni að verða lagt okkur svo út, eins og við vildum fella rýrð á þá umgengnisháttsemi og bæjarbrag, sem nú er í Reykjavík…… Það er ætlun vor, að það enda með mestu árvekni og starfsemi af hlutaðeigenda hálfu, muni verða miklu örðugra í Reykjavík að sjá um það, að skólapiltar séu siðsamir og leggi fram þá iðni og ástundun, sem vera ber, en á Bessastöðum, því að þar var skólinn dálítið afsiðis, og að því leyti eru Bessastaðir miklu betri skólastaur heldur en Reykjavík. 1785 vildu Íslendingar hann allra sízt niður kominn í Reykjavík.“

Reynslan af Bessastaðaskóla er sú, að aldrei hafa komið að tiltölu jafnmargir úrvalsmenn og þaðan, á því skamma skeiði, er hann starfaði, sérstaklega í íslenzkri tungu.

Víða erlendis eru heimavistarskólar utan borg anna, þótt smábæir hafi vaxið upp í kringum þá. Má þar t.d. nefna Eton skóla í Englandi. — Margir þessara skóla eru frægir og viðurkenndir ágætir, en þeir eru dýrir, vegna þess að enskir skólar eru tíðast „prívat“skólar, sem er haldið uppi með skólagjöldum nemendanna eingöngu. Það að auki er. skólaárið langt, því að þar hefur ekki viðgengizt sá siður, sem hér á landi tíðkast, að nemendur vinni á sumrin fyrir skólavistinni á vetrum. Á Norðurlöndum eru þessir sveitaskólar margir kostaðir af ríkisfé, og gefa þeir betri raun um líkamlegt og andlegt uppeldi unglinganna heldur en bæjaskólarnir. Ég tel mér skylt að skýra frá þessu. Hér í Reykjavík er mjög útdráttarsamt og vantar þá ró, sem ungum mönnum er nauðsynleg, þegar þeir stunda nám. — Þá er og eitt atriði, sem til greina kemur. Það eru hin góðu áhrif, sem nemendur verða fyrir hver af öðrum í heimavistarskólunum. Ég þekki marga, sem hafa verið í heimavist og minnast þeirra tíma sem eins hins bezta, er þeir hafa lifað.

Ég hef þau 13 ár, er ég hef verið skólastjóri, reynt að kynna mér frístundanotkun nemenda hér í Reykjavík. Hér eru hinar helztu menningarstofnanir landsins, en ég hef komizt að því, að fáir nemendur nota þær að nokkru verulegu ráði. — Frístundirnar fara mest í bíóin og þá nýtízku tónlist, sem bæði útvarp og kvikmyndahúsin hafa innleitt, bílakstur, og hin bóklegu hugðarmál virðast helzt vera erlend mynda- og fréttablöð. — Mér virðist ungdómurinn í Reykjavík verða of snemma fullorðinn, því að hann fær ekki tóm til að notfæra sér æskuna á hinn rétta hátt. Þessar eru í stuttu máli mínar niðurstöður. — Ég hef lesið íslenzka stíla eftir nemendurna og komizt að því, að hin skapandi gáfa virðist vera minni heldur en fyrir 20 árum. Enn fremur virðast nemendurnir lesa stórum minna af ljóðum og bókmenntum þjóðarinnar yfirleitt. Ég hygg það almenna niðurstöðu, að þekkingu í tungu og bókmenntum þjóðarinnar fasi hér hnignandi. — Einn kennari við barnaskóla hér í bænum sagði mér, að orðfæð í íslenzkum stíl fari í vöxt meðal barnanna og mikið verði vart áhrifa, sem berast með lélegum kvikmyndum hingað til landsins. Að vísu er menntun í góðum kvikmyndum á sínu sviði, en ég býst við, að flestir séu þeirrar skoðunar, að stuðla beri að því, að unglingar kynnist sögu og bókmenntum þjóðarinnar fyrst og fremst. Ég skal ekkert segja um, hvaða áhrif hið svokallaða „ástand“ kann að hafa á þetta, en það er vafalaust nokkuð og kann að aukast. Mjög veigamikið atriði er það, hvernig hægt sé að tryggja fátækum nemendum aðgang að framhaldsskólum þjóðarinnar. Ýmsir segja, að ég vilji með því að flytja skólann útiloka hina fátæku nemendur hér í bænum úr menntaskólanum. Eins og nú er háttað, eiga hinar fátækari fjölskyldur erfitt með að undirbúa börn sín undir menntaskólann. Vafalaust segja þá sumir, að þetta sé af hindrun, sem sett hefur verið viðvíkjandi inntökuskilyrðum í skólann. En það er ekki rétt, því að þeir fara þá í aðra skóla og þreyta gagnfræðapróf. En um þetta atriði ætla ég ekki að ræða hér, heldur um kostnaðarhlið málsins. Það kostar í raun og veru mikið fyrir foreldra hér í bænum að hafa börn sín í menntaskólanum. Í fyrsta lagi er það fæðið, í öðru lagi fatnaður og í þriðja lagi það, sem ekki er minnsti útgjaldaliðurinn, sem sé eyðslueyrir unglinganna, því að hann er mikill hér í Reykjavík. Ég leyfi mér að efast um, að dýrara sé að hafa börn sin í heimavistarskóla úti á landi, þar sem þau fá frítt húsnæði, ljós og hita, heldur en hér í bænum. — Þá er eitt atriði enn, sem taka verður til íhugunar. — Á undanförnum árum hefur utanbæjarnemendum farið sífækkandi við menntaskólann hér. Árið 1930 voru 63.5% utanbæjarnemendur og 36.5% innanbæjarnemendur, en árið 1941 voru aðeins 25% utanbæjarnemendur. Þetta — þarf einnig að taka til greina, því að ekki ber síður að hugsa um, hvernig fátækir utanbæjarnemendur fái kost á að notfæra sér þessa menntastofnun. Ég gæti dregið fram fleiri atriði máli mínu til sönnunar, en það yrði kannske aðeins til þess, að hv. þm. færi að leiðast. Þó er eitt, sem ég býst við, að verði einhver sterkasta stoðin undir minn málstað, að þeir unglingar, sem alast upp við þá kosti að þurfa ekki annað en rétta hönd til foreldra sinna eftir hverjum hlut, verði ekki eins einhlítir að komast áfram í lífinu síðar meir og hinir, sem snemma verða að sjá sér farborða að nokkru. Ég hef heyrt í sambandi við þessa till. mína, að talsverð óánægja sé ríkjandi hér í bænum. Mér er borið á brýn, að ég vilji með þessu ræna Reykjavík skólanum. Ég endurtek það, sem ég sagði áðan, að ég tel það skyldu mína nú, þegar þessu máli er hreyft, að koma fram með þessa skoðun, sem hefur þróazt hjá mér þau 13 ár, sem ég hef verið skólastjóri, og óska eftir, að sú skoðun mín sé rannsökuð. Ég þekki svo mörg heimili hér í bænum, að ég tel engan efa leika á því, að ef foreldrar skilja, að æskilegt sé að setja skólann í sveit barnanna vegna, þá mundu þeir ekki hika við að fylgja því, enda þótt þeir ættu erfitt með að sjá af þeim í fyrstunni.

Hér hafa komið fram brtt. frá tveimur hv. þm. um að fella niður síðari hluta till. minnar, en sá hluti er um að rannsaka, hvort ekki sé tiltækilegt að flytja menntaskólann úr bænum, t.d. að Skálholti í Biskupstungum. Mér finnst undarlegt, að ekki skuli mega rannsaka þetta, því a, fjöldi manna er enn þá hér á landi, sem vill setja menntaskólann á hið forna skólasetur Skálholt. Ég hef fengið allmikið af bréfum því viðvíkjandi, og gæti ég lofað hv. þm. að heyra þau, en ég læt nægja að minnast á eitt bréf, sem ég fékk frá merkum klerki sunnanlands, séra Gísla Skúlasyni á Eyrarbakka. — Þótt eigi væri nema vegna þessara manna, þá finnst mér, að vel megi athuga þetta mál nánar.