24.04.1942
Efri deild: 40. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í B-deild Alþingistíðinda. (121)

41. mál, læknaráð

*Frsm. (Magnús Gíslason):

Herra forseti! Frv. þetta er borið fram af ríkisstj. og hefur gengið í gegnum Nd. óbreytt. Frv. gengur í þá átt, að setja skuli á stofn nýja stofnun, sem kallast læknaráð. Það á að vera skipað 9 læknisfróðum mönnum undir forsæti landlæknis. Starfssvið þessa ráðs á að vera þrenns konar. Í fyrsta lagi er því ætlað að láta í té umsagnir um hvers konar læknisvottorð, sem lögð eru fyrir dómstóla, þó því aðeins, að þeim sé beint þangað samkvæmt dómsúrskurði, sem þar um hefur gengið. Þó er sú takmörkun gerð á þessu í 3. gr., að læknaráð lætur ekki í té umsagnir um sakhæfi manna, nema áður liggi fyrir umsögn sérfræðings á því sviði. Sömuleiðis lætur það ekki í té umsagnir um dánarmein, nema áður liggi fyrir álit sérfræðings.

Í öðru lagi er ætlazt til, að læknaráð láti stj. heilbrigðismálanna í té álit sitt um, hvort tiltekin framkoma lækna og annarra manna í þjónustu , heilbrigðismálanna er tilhlýðileg eða ekki.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir, að heilbrigðismálastjórnin geti borið undir læknaráðið ýmis mál, sem varða mikilsverðar heilbrigðisframkvæmdir, sérstaklega sóttvarnarráðstafanir, sem mikil ábyrgð fylgir og mikill vandi er talinn að taka ákvörðun um.

Fyrsta atriðið tel ég mjög til bóta. Það hefur mjög vantað yfirdómstól í þessu efni, þar sem hægt væri að fá fullnaðarúrskurð um vafamál, sem upp koma bæði við dómsmál og sérstaklega skaðabótamál út af slysum og einnig við opinber mál. Dómarar hafa oft orðið að láta sér nægja að afla sér vottorða frá þeim, sem ekki hafa verið sérfræðingar í því sambandi, og það, sem verra er, að fyrir hefur komið, að fyrir dómstólana hafa verið lögð vottorð frá læknum, sem ekki hafa verið á sama máli. Til þess að taka af tvímæli í þessu efni, er dómara heimilt samkv. þessu frv., ef að l. verður, að skjóta slíkum vottorðum til læknaráðs til álita og umsagnar, og mundi þá að sjálfsögðu vera álit þess, sem lagt yrði til grundvallar í málinu, vegna þess að þetta ráð ætti að geta gefið fullkomnari upplýsingar um þessi mál en óbreyttir læknar.

Viðvíkjandi því að láta í té álit sitt um ávirðingar þerrra manna, sem eru í þjónustu heilbrigðismálanna, þá er það atriði, sem að sjálfsögðu hefur heyrt undir landlækni. Má vera, að ekki sé mjög mikil þörf á breyt. í því efni, en þó virðist ekki vera nema til bóta, að heilbrigðisstj. geti í vissum tilfellum skotið slíkum málum til læknaráðs og fengið álit þess þar um.

Loks eru það sóttvarnarráðstafanirnar. Það getur oltið á mjög miklu, hvernig tekst að gera ráðstafanir, sem skyndilega þarf að gera, ef næmar sóttir koma upp eða geisa í nágrannalöndunum og öðrum þeim löndum, sem við höfum miklar samgöngur við. Það hefur verið á valdi landlæknis, hvaða ráðstafanir væru gerðar í slíkum efnum. Hér er mál, sem getur haft svo víðtækar afleiðingar, að aldrei er of vel til þess vandað, hvernig brugðizt er við slíku. Það er því til bóta, að heilbrigðisstj. skuli l. samkvæmt hafa slík ráð til að ráðgast við og fá álit þess um, hvernig slíkar ráðstafanir skuli upp teknar og framkvæmdar.

Gert er ráð fyrir, að slík stofnun fái einhverja þóknun fyrir starf sitt, og verður ríkissjóður sjálfsagt fyrir einhverjum útgjöldum í sambandi við það, en ætla má, að þau séu ekki svo mikil, að á nokkurn hátt sé horfandi í það, samanborið við þá kosti, sem það ætti að hafa í för með sér, að þessi nýskipun yrði tekin upp.

N. hefur farið yfir þetta frv. og ekki fundið, að hún mundi geta breytt því til batnaðar. Leggur hún því til, að frv. verði samþ. óbreytt.