20.04.1942
Neðri deild: 38. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í B-deild Alþingistíðinda. (1234)

70. mál, stríðsgróðaskattur

*Haraldur Guðmundsson:

Eins og hv. frsm. gat um, varð samkomulag um það í n. að gera nokkrar breyt. að því er snertir hámark þeirrar upphæðar, sem ríkissjóður greiðir hlutaðeigandi sveitarfélögum af þeim stríðsgróðaskatti, sem þar er á lagður og innheimtur. Í langflestum tilfellum ætti þessi gr. að nægja til að tryggja, að sveitarfélög fái hæfilegan hluta af skattinum, en það getur staðið svo á, að þetta þrengi nokkuð umráðasvið sveitarfélaganna í þessu efni, og skilst mér, að till. á þskj., 204 byggist á því, að flm. hafi verið kunnugt um, að svo var ástatt, a.m.k. á einum stað. Ég gat þess í n., að ég hefði óbundnar hendur um þá till.

Um meginagnúann á frv., ákvæði 4. gr., sem bannar alveg, að tekjuútsvör séu lögð á þann hluta af hreinum tekjum gjaldenda, sem er umfram 200 þús. kr., vil ég vísa til grg. minnar í nál. 199. Það er að vísu rétt, sem hv. frsm. segir, að stríðsgróðaskatturinn og sá hluti hans, sem til bæjanna rennur, hækkar, ef frv. verður samþ. En ég tel, að það réttlæti ekki svo mikla breyt. sem þá, að svipta bæjar- og sveitarfélög rétti til að leggja útsvör á alla borgara sína eftir sömu reglum. En með því að banna álagningu á hæstu tekjurnar er bert, að svo er gert.

Ég fæ ekki séð, að ástæða sé til að óttast, að svo nærri yrði gengið þeim aðilum, að fjárhag þeirra stafaði hætta af. Við skulum taka t.d. félag, sem hefur 6 millj. kr. gróða og fengi að halda 2 mill j. 400 þús. kr. alveg ósnertum. Þó að á væri bætt einhverjum hluta útsvars á skattfría féð, sem rennur í varasjóð, sé ég ekki, að því sé hætt. Ef þetta ákvæði verður samþ., veldur það sveitar félögunum miklum örðugleikum. Hér í Reykjavík eru áæltuð útsvör 10–11 millj. kr., en stríðsgróðaskatturinn ekki nema 100–200 þús. kr. En samkv. þessum l. komast allir gjaldendur, sem hafa yfir 200 þús. kr. í tekjur, með mikinn hluta teknanna undir ákvæði þessara l., svo að ekki er hægt að leggja neitt á þær tekjur, sem fara fram úr 200 þús. kr. Það er því bersýnilegt að hækka verður útsvör á öllum almenningi, ef . þetta ákvæði verður samþ. hér. Ég held því, að þetta ákvæði sé hvort tveggja í senn hættulegt fyrir bæjarfélagið og ekki sanngjarnt gagnvart öðrum gjaldendum. Því hefur verið haldið fram hér, bæði við 1. og 2. umr., að þetta væri ekki nema á pappírnum, þó að samþ. yrði, því að þótt bæjar- og sveitarfélögum sé bannað að leggja útsvar á tekjur, sem fara fram úr 200 þús. kr., geti þau eftir sem áður lagt á veltuútsvar eftir vild. En hvað vinnst þá við að samþ. þessa gr.? Ég fæ ekki séð það. En ég geri ráð fyrir, að um þetta atriði hafi verið samið milli sjálfstæðis- og framsóknarmanna og ekki eigi að leggja útsvar á tekjur, er fara fram úr 200 þús. kr. Minn skilningur á greininni er því réttur. Það mælir því allt með því, að brtt. mín verði samþ.