19.05.1942
Sameinað þing: 17. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í D-deild Alþingistíðinda. (1285)

139. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Flm. (Jónas Jónsson):

Vantraust það, sem framsóknarmenn bera — fram á hina nýskipuðu ríkisstj., er ekki af persónulegum, heldur pólitískum ástæðum, bæði til að sannprófa, hvort stjórnin hafi nægilegan þingstyrk að baki sér, og í öðru lagi, til að í ljós komi, hversu háttað er samstarfi þeirra sundurleitu flokka, sem talið er, að standi að þessari stjórnarmyndun. Í þriðja lagi vilja framsóknarmenn vekja borgara landsins til athugunar á því afleiðingaríka máli, sem stjórnin telur vera sitt mesta viðfangsefni.

Eftir kosningarnar 1937 var hafizt handa um aukið samstarf milli lýðræðisflokkanna. Vegna atvinnuörðugleika í landinu og aðsteðjandi óveðurs í stórlöndum heimsins fundu dugandi menn í öllum flokkum nauðsyn til bera vegna þjóðarhagsmuna að leggja mikið til hliðar af hversdagslegum deiluefnum stjórnmálaflokkanna. Síðan mynduðu Íslendingar samstjórn allra lýðræðisflokkanna missiri áður en ófriðurinn skall á. Íslendingar urðu í þessu efni á undan öðrum lýðræðisþjóðum um þjóðstjórnarmyndun. Og þrátt fyrir óhjákvæmilega galla, sem jafnan verða á slíku samstarfi, þá mun því aldrei neitað, að hið aukna og friðsamlega samstarf lýðræðisflokkanna í þrjú ár hefur verið til ómetanlegs gagns fyrir þjóðina.

Nú er þetta samstarf rofið og komin á veik flokksstjórn. Það er þjóðinni til sóma að hafa skilið nauðsyn þjóðstjórnar á undan öðrum þjóðum. En á sama hátt er það sérstakur álitshnekkir fyrir Íslendinga að hafa rofið samstarfið um stjórn landsins á hinum mesta háskatíma og á undan öðrum frjálsum þjóðum. Því miður er svo komið hag þjóðarinnar, að í stað þess að halda góðum friði milli lýðræðisflokkanna, e r hafin hatröm deila um mál, sem engin frjáls þjóð nema Íslendingar hefur látið sér til hugar koma að fást við á tímum heimsstyrjaldar.

Ófriðurinn í landinu er hafinn í byrjun þessa árs, þegar Alþýðuflokkurinn lét félmrh. hverfa úr stjórninni, af því að hinir flokkarnir vildu í baráttunni við dýrtíðina láta lög landsins ná til verkamanna eins og annarra stétta. Áður hafði þjóðstjórnin, með almennum stuðningi Alþingis, hindrað hækkun á húsaleigu, sett hámarksverð á aðflutta vöru og innlenda framleiðslu. Allir höfðu í þessu efni beygt sig fyrir þjóðarnauðsyn, þar til Alþfl. sagði: „Við viljum, að ein stétt, sú, sem við viljum hljóta kjörfylgi frá, hafi meiri rétt en allir aðrir þegnar þjóðfélagsins: Áður en hér var komið, hafði íslenzka verkamannastéttin miklu hærri dýrtíðaruppbót en í Svíþjóð og Englandi, til þess að nefna aðeins tvö öndvegislönd lýðræðisins.

Framsóknarmenn og Sjálfstfl. gerðu nú starfssamband um gerðardómslög til að halda dýrtíðinni í skefjum og fara með stjórn landsins. Til samans voru þessir flokkar nógu sterkir til þess að ráða fram úr þessum vandamálum. Þetta sést í verki á þann hátt, að síðan gerðardómurinn tók til starfa, hefur dýrtíðin ekki vaxið. Á betra varð ekki kosið.

Alþfl. undi þessu illa. Hann vildi sundra þjóðstjórninni til fulls, til þess að gerðardómurinn hætti að halda dýrtíðinni í skefjum. Alþfl. kemur þá með stjórnarskrárbreytingu, sem miðar að því einu að taka með lögum sex þingsæti af Framsfl. og gefa þau sjálfstæðismönnum, þó að þeir væru í minni hluta í hverju þessu kjördæmi. Engin þjóð í veröldinni hefur fyrirmæli um svo augljós rangindi í stjórnarl. sínum. Hér var farið fram á að gera óhæfuverk, sem ekki á sér fordæmi í kosningal. nokkurrar frjálsrar þjóðar. Alþfl. bjóst við, að Sjálfstfl. mundi ekki standast freistinguna, þiggja illa fengin kjördæmi sem gjöf frá óvinveittum og öfundsjúkum nábúaflokki. Þetta var orð að sönnu. Verzlunarstéttin í Reykjavík varð yfirsterkari í Sjálfstæðisflokknum gagnstætt því, sem gerðist 1939, þegar Framsfl. og framleiðendur sjálfstæðismanna komu á gengisbreytingu til þess að bjarga útgerðinni frá hruni í óþökk mikils hluta kaupmannastéttarinnar. Að þessu sinni stóðu framleiðendur í Sjálfstfl. illa að vígi, því að kaupmannastéttin hefur meirihlutavald yfir Morgunblaðinu og Vísi og beitti þeim blöðum báðum til stuðnings hrekkjabragði Alþfl. Niðurstaðan varð sú, að Sjálfstfl. ákvað að meta meira væntanlegan atkvæðahagnað sinn heldur en þörf tandsins. Þannig var þjóðstjórnin rofin með tveimur óafsakanlegum atkvæðaveiðibrellum Alþfl. og sjálfstæðismanna.

Þetta er ekki í fyrsta sinn, sem Alþfl. gerir stjórnarlög landsins að leikfangi og reynir að bæta augnabliksaðstöðu sína með fljóthugsuðum ævintýrum, sem hafa átt að vera hyggindi. Árið 1931 gerði Alþfl. leynisamning við Sjálfstfl. um að gerbreyta öllu kosningaskipulagi þjóðarinnar og eyðileggja sjálfstæði héraðanna, sem er nátengt sögulegri þróun landsins í meira en tíu aldir. En þegar málið var lagt undir dóm kjósendanna vorið 1931, dæmdu þeir báða flokkana, sem stóðu að hinni óhæfilegu meðferð á stjórnarlögum landsins, mjög hart. Alþfl. var réttilega dæmdur til enn harðari hegningar heldur en Sjálfstfl., fyrir að hafa undirbúið tilræðið. Framsóknarflokksmenn, sem átti að eyðileggja, unnu glæsilegan sigur. Sá sigur var svo afleiðingaríkur, að síðan þá og þar til nú hefur enginn þorað að ráðast á sjálfstæði héraðanna.

Alþfl. fékk þá ráðningu hjá verkamannastéttinni vorið 1931, að hann greip ekki til sérstakra óyndisúrræða sér til framdráttar í næstu ár, og í kosningunum 1934 naut hann að maklegleikum allmikils trausts. En þegar leið að kosningunum 1937, afréðu forsprakkar flokksins að afla sér kjörfylgis með því að koma fram með frumvarp um að leggja umfangsmikið útgerðarfyrirtæki, sem stóð undir stjórn manna úr Sjálfstæðisflokknum, að velli með Alþingisdómi. Framsóknarmenn tóku þá vopnið úr höndum óvitans. Framsóknarmenn björguðu landinu frá milljónatapi og þinginu frá að verða verkfæri í höndum byltingamanna. Tilgangur Alþfl. í þetta sinn var að afla sér kjörfylgis hjá sjómönnum í Reykjavík. En þeir voru manna óánægðastir með ævintýrapólitík þá, sem þeim var boðin. Missti Alþfl. 1000 atkv. í Reykjavík einni á því að hafa ætlað að leika með kjósendur, og síðan þá hefur flokkurinn aldrei náð sínum fyrri styrkleika.

Enn var höggvið í sama knérunn, þegar Alþfl. rauf þjóðstjórnina í byrjun þessa árs og bauð Sjálfstfl. að gera stjórnarlög landsins að loddaraleikfangi. Þá var enn verið að hugsa um hið sama og fyrr: Að safna atkvæðum með grunnfærum og miður sæmilegum aðferðum.

Enn mun fara sem fyrr. Íslenzka þjóðin mun rísa gegn þeirri óvirðingu, sem henni er sýnd. Á kjördegi í vor munu gætnir menn haga atkvæðagreiðslu sinni á þann veg, að Framsfl. vinni nægilega mörg þingsæti til að geta stöðvið þá skrípamynd af stjórnarlögum, sem nú stendur til boða.

Framsfl. bauð hinum lýðræðisflokkunum samstarf, meðan stríðið stæði, til að verja sjálfstæði þjóðarinnar og bjarga atvinnuvegunum til lands og sjávar yfir erfiðleika yfirstandandi tíma. Allir gætnir og þjóðhollir menn í lýðræðisflokkunum eru samdóma um, að þessi stefna sé hin eina rétta. Í stað þess hefur Alþfl. nú gert atkvæðaveiðar sínar að höfuðmáli, þó að það kosti hatrammlegar deilur og upplausn í öllum atvinnumálum landsins. Takist Sjálfstfl. að vinna loddaraspilið um stjórnarskrána, sem að vísu er ósennilegt, þá mundi hann að líkindum fjölga þingmönnum í bili, en veikjast að sama skapi. Sjálfstfl. er byggður á aðskildum deildum. Þegar gengismálið var leyst og samstjórn mynduð, réðu framleiðendur Sjálfstfl. mestu í það skipti. Nú hafa aðrar deildir undirtökin, enda er þá gert bandalag við kommúnista og Alþýðuflokksmenn, þó að öllum landslýð sé fullljóst, að báðir þessir flokkar eru nú algerlega óábyrgir gerða sinna. Meðan svo háttar, getur Sjálfstfl. ekkert aðhafzt í dýrtíðarmálum eða verkamálunum. Kommúnistar heimta, að reistar verði stórar byggingar jafnvel þar, sem loftárásarhættan er mest, til að auka hina sjúku eftirspurn um vinnuaflið. En á meðan dregst garðræktin saman, kúm og kindum er fækkað, bátar eru dregnir á land eða lagt við festar, af því að vinnuafi landsins streymir stjórnlaust til miður þarfrar vinnu.

Þjóðin hefur gefið Alþfl. og Sjálfstfl. heilsusamlega áminningu 1931 og 1937, svo að ekki séu nefnd fleiri dæmi. Enn er nauðsyn að leiðbeina báðum þessum flokkum. Það þarf ekki nema nokkur þúsund af kjósendum beggja flokka til að rétta taflið við, með því að flytja fylgi sitt á kjördegi til framsóknarmanna. Þá verður deilan um kjördæmaskiptinguna lögð til hliðar fram yfir stríðslokin, en þjóðhollir menn í öllum lýðræðisflokkum taka saman höndum til að vernda sjálfstæði þjóðarinnar og atvinnulíf landsmanna. Vald kjósandans á kjördegi er mikið. Hann getur valið milli ljóss og myrkurs, hamingju og óhamingju, viðreisnar og glötunar. Vegamótin eru glögg, forðizt veginn, þar sem þjónustulið Rússa á Íslandi dreifir eitruðum þistlum í götuna.