19.05.1942
Sameinað þing: 17. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í D-deild Alþingistíðinda. (1293)

139. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti! Hv. 1. flm. þessarar till., sem hér liggur fyrir, er Jónas Jónsson, hv. þm. S. Þ. Till. er þess efnis, að sameinað Alþingi lýsi vantrausti á núv. ríkisstj., sem Ólafur Thors er forsrh. fyrir. Ég hygg, að fyrir öllum þeim, sem fylgzt hafa með stjórnmálaviðburðum síðustu missirin, sé þetta furðulegt fyrirbrigði og ekki einasta furðulegt, heldur líka broslegt, að hv. þm. S.-Þ. skuli verða til að flytja vantraust á sinn pólitíska vin og samherja, Ólaf Thors. Það kom líka fljótt í ljós, að lítil alvara fylgdi vantraustinu, þegar hv. 1. flm. fór að gera grein fyrir till. sinni. Hann byrjaði á því að lýsa yfir því, að hér væri ekki um persónulegt vantraust að ræða, heldur pólitískt, og þessu fylgdu persónuleg vinmæli til hæstv. forsrh., þar sem hv. 1. flm. gaf í skyn, að hann vonaðist eftir, að traustið yrði betra þeirra í milli persónulega, heldur en nú væri í bili. Hins vegar sneri þessi hv. þm. máli sínu mjög til Alþfl., og ræða hans var einn reiðilestur yfir þeim flokki og vantraust á hann. Þar fylgdi hugur máli, og var ekki úr vantraustinu dregið. Þessi flokkur vilji ekki una því að nota sömu lög og aðrir landsmenn, og hann þykist vera meiri, æðri og rétthærri heldur en aðrir landsmenn. Nú er bezt að spyrja þjóðina, hvort henni finnist kjör verkamanna og launastétta í landinu meiri og æðri heldur en kjör annarra stétta. Aftur á móti hefur verið gerð óafsakanleg tilraun til að taka réttinn af þessum mönnum með frv. um þetta efni, sem liggur nú fyrir þinginu. Þetta þykja hv. þm. S.-Þ. smámunir einir. Svo er annað verra, sem Alþfl. hefur gert. Í stað þess að taka hæfilega refsingu í fyrstu atlögu og rétta fram hina kinnina, hættir flokkurinn samstarfinu við ríkisstj., og hefur það hinar verstu afleiðingar. Og Alþfl. heldur áfram að gera illt af sér. Hann tekur sig til, setur álitlegt agn á öngulinn og beitir fyrir Sjálfstfl., sem er svo saklaus og hrekklaus. Hv. þm. talaði um formanninn, ég vil ekki segja sem auðtrúa einfeldning, þó að hann gæfi það í skyn, en sem svo auðtrúa mann, að Sjálfstfl. beit á öngulinn og gleypti agnið. Hv. þm. S.Þ. var fullur hryggðar yfir þessari atlögu, og til þess að sýna hæstv. forsrh. fram á, hversu fráleitt það væri að láta ginnast af þessu agni, sagði hann, að Alþfl. hefði reynt þetta fyrr. Árið 1931 til 1933 hafi verið samstarf milli Jóns heitins Þorlákssonar og Jóns heitins Baldvinssonar um að koma leiðréttingu á kjördæmaskipunina. Sagðist hv. þm. S.–Þ. una þessum breyt. illa, og ef þær hefðu ekki verið gerðar, væri ríki Framsfl. meira á Alþ. heldur en nú er. Hann sagði líka, að Alþfl. væri ekki betri en það, að hann með alþingisdómi hefði ætlað sér að leggja milljónafyrirtæki í rústir, en þá kom Jónas Jónsson og bjargaði því, skildist mér. Ég ætla ekki að rekja þá sögu, enda yrði það of langt mál. En ég man, að á þeim tímum stóð mikill styrr um þessi mál, og var fullyrt, að það væri ekki einasta fjárhagslegur voði, að þessi auður væri í höndum tiltekinna bræðra, heldur stríddi það móti siðferðiskennd allra „óspilltra“ Íslendinga. Ég mun ekki ræða þetta mál frekar, enda er landsmönnum kunnugt um það. Hitt er rétt, að Framsfl. breytti stefnu sinni, og Jónas Jónsson hefur átt mikinn þátt í að láta fyrirtækið lifa.

Ég hygg, að þetta nægi hv. 1. flm. Ég uni málflutningi hans vel, og hann er í samræmi við vinnubrögð hans í þessu efni.

Hæstv. forsrh. var ekki alveg á sömu nótum og Jónas Jónsson. Hann flutti mjög magnaðan reiðilestur yfir samverkamönnum sínum, en fékk auk þess tíma til að víkja nokkuð að Alþfl., og ég vil leyfa mér að leiðrétta lítið eitt af því, sem hann sagði.

Hann hélt því fram, að Alþfl. hefði slitið samstarfinu við ríkisstj. vegna brbl. um gerðardóm í kaupgjalds og verðlagsmálum, sem sett voru í byrjun þessa árs, í þeim tilgangi að skapa sér betri kosningaaðstöðu í bæjarstjórnarkosningunum, sem þá fóru í hönd. Hér hafi þó verið um sams konar l. að ræða og Alþfl. beitti sér fyrir 1939. Þetta veit hæstv. forsrh., að eru fullkomin ósannindi. Hann veit, að brbl. voru sett 8. jan., en framboðsfresturinn til bæjarstjórnarkosninganna rann út 1. jan. Það var ekki ráðh. Alþfl., sem skapaði þessa kosningaaðstöðu, heldur í félagi ráðh. Sjálfstfl. og Framsfl., sem settu þessi ranglátu l. Það voru þeir, sem rufu friðinn með því að setja þessi l. Ég hef áður sýnt fram á, m. a. í útvarpi, að ekki sé saman berandi ástandið 1939 og 1942. Nú, þegar auðnum er velt yfir þjóðina, er kaup verkamanna og launastétta takmarkað, til að auka tilsvarandi gróða hjá öðrum stéttum. Ef verkamennirnir taka þátt í einhverju af þessum stríðsgróða, er þjóðarvoði á ferðinni. 1939 var ástæða til að takmarka kaupið, en ekki nú. Auk þess var sá mikli munur, að 1939 var leitað samstarfs verkalýðssamtakanna í landinu og þeirra samþykki fengið. En nú er beinlínis verið að vinna það verk, sem gert er af fullum fjandskap við verklýðsfélögin. Enda hefur reynslan orðið sú, að eins og gengisl. 1939 voru framkvæmd án nokkurra árekstra, þrátt fyrir afstöðu kommúnista, þá hafa gerðardómsl. sýnt sig vera dauðan bókstaf og í sumum tilfellum meira en það. En ef framkvæmd gerðardómsl., ef þau verða samþ. í þinginu, verður á þá lund, að Framsfl. láti sína fulltrúa fara úr gerðardómnum, eins og nú hefur komið á daginn með Vilhjálm Þór, — þá skal ég engu spá um framtíð hans.

Ég vil minna hv. þm. Str. á, að 1938 tók Sjálfstfl. upp samstarf við Framsfl. til að leysa sjómannadeiluna í Reykjavík. Það var þá gert með gerðardómi, til þess að firra hv. þm. þeirri ábyrgð að mæta fyrir kjósendum sínum og segjast hafa sjálfir ákveðið kaupið. Afleiðingin varð sú, að Alþfl. tók ráðh. sinn úr ríkisstj. Það sama endurtekur sig 1942, og bæði Framsfl. og Sjálfstfl. vissu vel, að væru þessi l. samþ., mundi Alþfl. taka ráðh. sinn úr ríkisstj., og að hér væri um að ræða bein samningsrof, sem bægðu samstarfinu frá Alþfl., um leið og grundvöllurinn var sagður að þjóðstjórninni. Það er alveg furðulegt, þegar þessir menn standa svo hér upp hver af öðrum og jarma hátíðlega í áheyrn allrar þjóðarinnar af sorg yfir, að samstarfinu skuli vera slitið og friðurinn rofinn. (EystJ: Hver jarmaði?) Það er gott, að hv. 1. þm. S.-M. skuli líka hafa tekið eftir þessari einkennilegu framkomu flokksmanna sinna og fyrrverandi samherja sinna.

Ég hygg, að þetta nægi til að sýna, að það er ekki til neins fyrir hv. frsm. að leyna þeirri staðreynd, að það var víðtækur ágreiningur um eitt meginmál þjóðfélagsins, sem gerði samstarfið ómögulegt. Þegar svo fyrrv. stjórn tók við völdum, eftir að ráðh. Alþfl. fór úr ríkisstj., gaf hún út yfirlýsingu um, að nú væri þjóðinni borgið um langa framtíð og friður fenginn. Verkamenn mundu ekki fá kauphækkun nema sem næmi dýrtíðinni, — þeir ættu að vera góðu börnin og una vel sínum kjörum. Bændur mundu fá verkafólk fyrir sama kaup og í fyrra. Stríðsgróðann ætti að taka næstum allan, og opinberar framkvæmdir ætti að auka stórkostlega með sama kaupi og í fyrra. Og til þess að tryggja þessum málum framgang, var ráðh. Alþfl. vikið úr stjórninni. Traust Ólafs á Hermanni fór vaxandi, og Jakob dáðist að Eysteini, og þessi samhenta stj. átti svo að afgreiða þær beztu dýrtíðarráðstafanir, sem til væru. En sannleikuritin var sá, að þessi ríkisstj. var gersamlega máttlaus, og fullkomið upplausnarástand ríkti í landinu. Þrátt fyrir ákvæði gerðardómsl. hafði kaupgjald í sveitum hækkað um 50%, og stórkostleg vöruhækkun var í aðsigi, ef ekkert yrði að gert. Það er vitað, að í Reykjavík hefur verið tekinn upp sá siður að borga fyrir svo og svo marga tíma, sem ekki er unnið, til þess að bæta á þann hátt upp kaupið. Síðan kóróna þeir samstarfið með því, að tveir af ráðh. úr þessari sterku samsteypustjórn, sem nú er nýfarin, flytja vantraust á hinn helminginn, sem eftir situr. Þetta eru efndirnar á þeim stóru loforðum, sem gefin voru í jan. s.l. Mér kemur í hug í þessu sambandi eitt erindi úr Hávamálum, sem er á þessa leið:

„Eldi heitari

brennur með illum vinum

friður fimm daga,

en þá slokknar,

er inn sjötti kemur

og versnar allur vinskapur.“

Ég verð að segja, að samkv. ræðu hv. þm. Str. hefur vinskapurinn heldur farið versnandi. Þar kemur fram ljót lýsing á hæstv. forsrh. og flokki hans og allt, sem hann hafði lofað, verið svik frá byrjun til enda. Mér virðist, eftir þessari lýsingu, að heill þjóðfélagsins væri hætta búin, ef samstarfið héldi áfram, og að það sé öllum . aðilum fyrir beztu, að svo fór, sem raun varð á. Mér fannst töluvert annar blær á ræðu hv. þm. Str. og aðrar lýsingar á fyrrv. samstarfsflokki hans heldur en í ræðu hv. þm. S.-Þ. Hvort það er af því, að samstarfið hafi mjög versnað upp á síðkastið milli ráðh. eða verið nánara í einstökum atriðum, skal ég ekki segja um, en ég held, að aðrar ástæður valdi. Ég sé ekki mikinn mun á þeirri stjórn, sem nú tekur við völdum, og hinni, sem fór, að því undanskildu, að þessi stjórn hefur bundið sig til að sjá kjördæmamálinu farborða, sem hv. þm. Str. og öðrum þm. Framsfl. sýnist þjóðarvoði.

Um friðarsókn Jónasar Jónssonar vil ég segja þetta. Alþfl. gaf kost á því að ræða þátttöku í nýrri samstjórn, ef málefnagrundvöllur fengist og Framsfl. féllist á að beygja sig fyrir þingmeirihlutanum og láta kjördæmabreytinguna ná fram að ganga, að sjálfsögðu að því tilskildu, að það mál, sem olli því, að Alþfl. gat ekki lengur tekið þátt í samstjórninni, gerðardómurinn, yrði lagt á hilluna. En er það kom í ljós, að Framsfl. vildi ekki á þetta fallast, sá Alþfl. ekki ástæðu til að halda þeim umr. áfram. Um vantrauststill. og afstöðu Alþfl. til núv. ríkisstj. vil ég segja þetta. Alþfl. flutti frv. um kjördæmbreytinguna og stendur einhuga að því og mun fylgja því eftir, unz fullnaðarafgreiðsla fæst. Alþfl. taldi ekki rétt að taka þátt í stjórn með Sjálfstfl. þann stutta tíma, sem væntanlega tekur að afgreiða málið til fulls.

Hæstv. forsrh. hefur lýst yfir því fyrir hönd ríkisstj., að hún sé mynduð vegna þessa máls og telji það sitt höfuðverkefni að sjá því farborða. Alþfl. mun því ekki styðja að falli núv. ríkisstj. þann síma, sem þarf til þess að koma kjördæmamálinu heilu í höfn. Hann mun því ekki greiða atkv. með till. Framsfl. um vantraust, þar sem hún beinlinis er flutt í þeim tilgangi að stöðva kjördæmamálið. Hæstv. forsrh. hefur og lýst yfir því fyrir hönd ríkisstj. og Sjálfstfl., að hvorki stjórnin né flokkurinn muni taka upp né styðja ný mál, er valdið geti ágreiningi milli þeirra flokka, sem að kjördæmabreyt. standa. Meðan svo er, mun Alþfl. eigi taka upp né styðja till. um vantraust á ríkisstj. Alþfl. litur svo á, að stjórnin sé í raun réttri bráðabirgðastj., og ber að sjálfsögðu enga ábyrgð á einstökum stjórnarframkvæmdum, þar sem hann tekur ekki þátt í stjórninni.

Um kjördæmamálið vil ég aðeins fara fáum orðum, en fyrst vil ég slá því föstu, enda yfirlýst af öllum. flokkum, að réttur þegnanna eigi að vera jafn til áhrifa á löggjafarsamkomu þjóðarinnar, án tillits til efnahags, kynferðis, atvinnu eða þess, hvar á landinu þeir séu búsettir. Þetta er af öllum viðurkennt í orði og að verulegu leyti líka á borði, því að allar breytingar, sem gerðar hafa verið á stjórnarskránni, hafa hnigið í þá átt að tryggja jafnrétti landsmanna í þessum efnum. 1915 voru tímarnir að ýmsu leyti svipaðir því, sem nú er. Þ á var stórveldastyrjöld í algleymingi, en þá voru gerðar veigamiklar breytingar á stjórnarskránni. Þá fengu konur og hjú í fyrsta skipti kosningarrétt, þó að aldurinn væri miðaður við 40 ár. Þá voru konungkjörnir þm. felldir niður, en landskjörnir teknir í staðinn, og þá fékk Reykjavík 2 þm. Þetta þorði þjóðin þá að gera á stríðstímum.

1920 var næsta breyting gerð. Þá var aldurstakmarkið fært niður í 25 ár fyrir alla jafnt, og Reykjavík fékk 4 þm. 1933 var kreppan skollín á, hér sem annars staðar, og mjög erfiðir tímar voru á skollnir, en þá var enn gerð breyt. á stjórnarskránni.

Aldursmarkið var fært niður í 21 ár. Ákvæðið um, að þeir, er hefðu þegið sveitarstyrk, hefðu ekki kosningarrétt, var afnumið, þm. í Reykjavík fjölgað í 6, og í stað 6 landskjörinna þm. voru nú uppteknir 11 uppbótarþm. til jöfnunar á milli flokka. Breytingin á stjórnarskránni nú er svo í beinu framhaldi, fjölgun þm. í Reykjavík upp í 8, Siglufjörður að sérstöku .kjördæmi og hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmunum til þess að komast hjá því að fjölga uppbótarsætunum og þar með þm.

Ástæðan fyrir þessari breyt. er sú, að það kom í ljós við kosningarnar 1934 og sérstaklega 1037, að jöfnuður á milli flokka náðist alls ekki og mikið skorti á, að skipun Alþingis væri í samræmi við vilja og þjóðmálastefnur þjóðarinnar. Ef uppbótarsætin hefðu ekki verið tekin upp 1933 hefði Framsfl. fengið um helming þingsæta, en ekki haft á bak við sig nema tæplega 1/4 hluta þjóðarinnar, og beztu rökin fyrir þessu máli eru raunverulega þau, að bæði hv. þm. Str. og hv. þm. S.-Þ. eggjuðu hér í útvarpsumr. menn sina mjög að standa nú saman, svo að Framsfl. fengi stöðvunarvald á næsta þingi.

1937 fékk Framsfl. 24.9% eða tæplega 1/4 hluta atkvæða í landinu. Ekki er vitað, að þessum flokki hafi aukizt fylgi. Hins vegar benda bæjarstjórnarkosningarnar hér í Reykjavík á hið gagnstæða, þar sem flokkurinn tapaði allmiklu frá síðustu kosningum og fékk nú engan bæjarfulltrúa kosinn. En þrátt fyrir allt þetta, gera framsóknarmenn sér vonir um að fá stöðvunarvald á Alþingi. Þarf hér framar vitnanna við? Ég vil engu um það spá, hvort þeim tekst þetta eða ekki, en það er ekki snefill að réttlæti í því fólginn að viðhalda slíku skipulagi, sem getur skapað slíka möguleika. Hvaða vit er í því, að 13 þús. kjósendur Framsfl. utan kaupstaða skuli fá 19 þm., en 14 þús. kjósendur Sjálfst.- og Bændafl. aðeins 6 þm.?

Ein röksemd framsóknarmanna er sú, að þeir séu að hugsa um rétt kjördæmanna. Ég hef aldrei getað skilið þennan hugsunarhátt. Ég get ekki hugsað mér rétt kjördæmanna annan en rétt fólksins, sem í þeim býr. Eitt atriði enn hefur komið hér fram, það, að þetta þing sé umboðslaust og hafi því enga heimild til þess að afgreiða stórmál sem þetta. Þegar kosningafrestunin var samþykkt, áleit Alþfl. ekki rétt að taka upp stórmál án kosninga. Þetta var brotið af Sjálfstfl. og Framsfl., er þeir knúðu fram I. um gerðardóminn. Um þetta mál gegnir öðru máli, því að því er beinlinis skotið undir dómstól kjósendanna. Ástæðan til þess, að Alþfl. gat fallizt á að fresta kosningum, var óttinn við beinar árásir hernaðaraðila á landið. Innanlandsófrið má hins vegar aldrei nota til þess að fresta kosningum. Auk alls þessa eru nú 5 ár síðan kosningar fóru fram. Slíkar breytingar kunna að hafa átt sér stað, og er því ekki viðunandi annað en að vilji kjósenda fái að koma í ljós.

Ég verð svo hér, áður en ég lýk máli mínu, að beina eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. fyrrv. forsrh., Hermanns Jónassonar. Af hvaða ástæðum og með hvaða rétti leigir hann að Alþingi fornspurðu ríkisprentsmiðjuna Gutenberg? Mér er sagt, að þetta hafi verið hans síðasta embættisverk. Og þessi leiga fer fram, án þess að forstjóri prentsmiðjunnar fái nokkuð um það að vita. Mér er enn fremur sagt, að leigan sé 51/2% af bókfærðu verði, sem mun vera 200 þús. kr., en það er ekki meira en 1/4 eða 1/5 af sannvirði nú. Hagnaður af prentsmiðjunni mun hafa numið 100 þús. kr. s.l. ár. Með hvaða heimild er þetta gert? Samkv. stjórnarskránni er það óheimilt. Hvað veldur þessu? En hér er auðveldur eftirleikurinn. Ráðh. geta, ef þessi regla er upp tekin, leigt allt, sem undir þá heyrir, leigt t.d. síldarverksmiðjur ríkisins einhverjum einstökum gróðamönnum, leigt Morgunblaðinu ríkisútvarpið o.s.frv.

Þessi ráðstöfun er svo furðuleg og forkastanleg, að stórkostlegri furðu gegnir.

Ég vil um leið beina annarri fyrirspurn til núv. hæstv. ríkisstj. Það er haft eftir framsóknarmönnum, að ríkisstj. hafi verið ákveðin í því að hætta starfsrækslu prentsmiðjunnar sem ríkisfyrirtækis, og hefði í hyggju að selja hana. En Hermann Jónasson hefði bjargað málinu við með þessu snarræði sínu. Ég vil spyrja núv. ríkisstj., hvað hæft sé í þessum orðrómi og hvort nokkur fótur sé fyrir honum. (Forsrh.: Það er enginn fótur fyrir þessu.) Ég skil, að prenturunum þyki gott að fá þessar kjarabætur, það er ekki nema eðlilegt, en í það má ekki horfa, því að hér er hreinn voði á ferðum, ef þessi regla er upp tekin. Og ég verða að segja það, að það var heppilegt, að fyrrv. forsrh. gafst ekki tími til að ráðstafa lengur eignum ríkisins.