20.05.1942
Sameinað þing: 18. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í D-deild Alþingistíðinda. (1302)

139. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Atvmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti! Ég vil byrja með því að þakka flm. till. þeirrar, sem fyrir liggur, fyrir þetta heillaóskaskeyti, sem lagt var á borðið fyrir framan hina nýju ríkisstj. nokkrum mínútum eftir að hún settist í stóla sína. Og sérstaklega viðkvæmt verður þetta þakklæti vafalaust frá mér, sem bæði er nýr af nálinni í þessari stöðu og hef auk þess kjörið mér að verkefni sérstaklega það mál, sem vantrauststill. hefur valdið.

Ég ber þetta þakklæti mitt ekki fram í gamni aðeins og ekki heldur af því, að ég meti þá menn svo lítils út af fyrir sig, sem hafa flutt till., eða þann flokk, sem bak við hana stendur, að mér þyki fengur í vantrausti þeirra. En þegar þeir villast svo af öllum sæmilegum leiðum, að þeir gera beinlínis rangindi í stjórnarskrá landsins, misrétti þegnanna og skerðing almennra mannréttinda að stefnumáli sínu, þá þykir mér vænt um að eiga fullt vantraust þeirra í því máli og á það skilið, því að fyrir sigri þess máls mun ég berjast eftir frekustu getu og heldur falla með því en standa með óréttinum.

Þegar ég virði fyrir mér ræður flm., einkum ræðu þm. Str., Hermanns Jónassonar, og reyndar líka ræðu 1. þm. S.-M., Eysteins Jónssonar, og hugleiði, að þetta eru menn, sem nú hafa í 8 ár farið með mestu ábyrgðarstörf þjóðfélagsins, og að þetta eru menn, sem bera sífellt í munni sér væmið skraf um frið í þjóðfélaginu, ábyrgðarþunga stjórnmálanna og hættuna á upplausn í kosningahitanum, þá alveg blöskrar mér, hvað þessir menn halda, að hægt sé að bjóða íslenzkum alþingiskjósendum. Ég þarf ekki að lýsa þessum ræðum fyrir þeim, sem á hlýddu. Allir hafa heyrt, að bæði uppistaða og ívaf er ekkert annað en tilraun til æsinga, til lýðæsinga, ofboðs og annars þess, sem jafnan þykir helzt ráð til þess að fá menn burt frá rólegri íhugun og skynsamlegum tökum á málefnunum.

Ég spyr mig sjálfan: Hvað veldur því, að þessir menn, sem þjóðin hefur falið vandasömustu mál sín um langan tíma, bregðast svo trausti hennar og virðingu fyrir sjálfum sér?

Mér detta í hug þrjú svör.

1. Mennirnir hafa orðið svona ægilega reiðir af því að þurfa að víkja úr stöðu sinni. Og ýmislegt bendir til þess, að a.m.k. þm. Str., Hermann Jónasson, hafi varla haft stjórn á skapi sínu síðan hann víssi, að hann átti að fara frá. Á það benda sumar stjórnarathafnir hans síðustu dagana, og er þar frægust hin vanhugsaða tilraun hans að afhenda prentsmiðjuna Gutenberg og það, að hann fer alrangt með það, að það hafi verið gert með samþykki ráðh. Sjálfstfl.

2. Annað svarið er þetta: Þeir naga sig svo í handarbökin, að þeir verjast ekki hljóðum fyrir að hafa sjálfir stofnað til þessara atburða, og mun ég sýna fram á það hér síðar í ræðu minni. Kveinaði Eysteinn Jónsson mjög undan þessu og barmaði sér yfir misreikningi þeirra.

3. En þriðja svarið og vafalaust aðalsvarið er það, að þeirra helzta haldreipi er að fara sundur. Þeir hafa hingað til átt mestan styrk sinn í röngu kosningafyrirkomulagi, og þeir eru nú að reyna með þessum óskapahljóðum og kveinstöfum að fá þjóðina og þá einkum bændur og búalið til þess að taka á sig sökina, fá kjósendur úti um byggðir landsins til þess að taka upp þykkjuna, þó að enginn veitist að þeim. En þetta hefur ekki tekizt hingað til og mun ekki takast heldur að þessu sinni. Allir Íslendingar vita það vel, að sveitamenn og framsóknarmenn eru sitt hvað, og sveita menn ekki síður en aðrir neita því blátt áfram að taka á sig þær sakir, sem með réttu eru bornar á Framsfl. Og þeir gangast ekkert upp við það, þó að þeim sé gefið nýtt nafn og þeir kallaðir „dreifbýli“. Þeir hlæja að því og ekkert annað og gera gys að þessum herrum, sem sjálfir vilja búa í þéttbýlinu og dásama dreifbýlið — þegar það er í nógri fjarlægð frá þeim sjálfum.

Þm. Str., Hermann Jónasson, sagði t.d., að nýtt tímabil væri að hefjast með valdatöku sjálfstæðismanna. Ég gæti nú ekki harmað það að öllu leyti, þó að svo reyndist í ýmsum efnum, og ég býst við, að ákaflega mikill meiri hluti þjóðarinnar taki undir það með mér. Framsóknarstjórn fyrr og síðar hefur ekki kostað landið svo lítið, hvorki í fé, sæmd né menningu, að það geti verið eintómt hryggðarefni, þó að eitthvað dragi úr í svip. — En jafnvel þótt þessi tímamót væru túlkuð eins og hann vill láta túlka þau, að nú væri rofinn friður, öryggi kastað á glæ og stefnt til innanlandsdeilna, þá má Hermann Jónasson vara sig að kasta grjóti í því húsi, þar sem hann sjálfur er staddur.

Hver var það, sem rauf fyrstur friðinn í haust, sagði af sér af svo að segja engu tilefni, neitaði að gegna störfum og ætlaði að kasta þinginu og þjóðinni út í stýrislausan bát á hættulegu vatni? Það var Hermann Jónasson, þm. Str., og meðráðh. hans, Eysteinn Jónsson.

Hver tók síðan við aftur að öllu óbreyttu, en gerði það með svo lítilli karlmennsku, að hann kvaðst enga ábyrgð bera? Það var sami maður, Hermann Jónasson.

Hver lýsti yfir því, að öll grið, sem Alþingi hefði sett með kosningafrestun, skyldu rofin og stefnt til kosninga í vor? Það var sami maður, Hermann Jónasson, í áramótaboðskap sínum. Og hann bar við hlægilegum ágreiningi um skilning á smáatriði í samkomulagi flokkanna. Ef kosningar eru sá voði, sem þær eiga nú að vera, og það geta þær verið, þá á Hermann Jónasson stærstan hlut að því, — og því ægilegar sem hann málar upp myndina af ógn upplausnarinnar, því hlægilegri verður þessi tylliástæða, sem hann ber fram fyrir því að stofna þjóðinni í slíkan voða að eigin dómi.

Hermann Jónasson má vara sig á að vera stórorður í þessu máli, en hann bar ekki gæfu til þess að vara sig á því í gærkvöld. Hann sagði, að með lævísi ætti að stela einhverju, að vantað hefði orðheldni og drengskap, hann talaði um yfirklór og hræsni, að aðrir ættu að blygðast sín, um þokkaleg vinnubrögð. Öll þessi ráðherralegu orð brenna nú eins og hrísköstur á hans eigin baki. Ég vorkenni honum, þó að nokkuð svíði undan, og ég vona, að aðrir taki undir há vorkunnsemi með mér. Hann á verulega bágt að vera svona reiður. En það dregur úr vorkunnseminni, að hann á sjálfur sök á þessu, og sérstaklega það, að hann skuli vera að reyna . ð koma þessu á aðra.

Ég get ekki elt ólar við nema fátt eitt af því, sem þm. Str. sagði, enda var fátt þess eðlis, að því þurfi að svara, því að hávaði svarar sér bezt sjálfur. Hann sagði t.d., að svik sjálfstæðismanna við kosningafrestunina sæjust á því, að þeir hefðu lagt til að fresta afgreiðslu fjárl. til hausts. En bæði er nú það, að afgreiðslu fjárl. mátti fresta til hausts án kosninga, — og svo komu þessar till. sjálfstæðismanna, eftir að Hermann Jónasson og flokkur hans höfðu ákveðið, að kosið skyldi.

Hann kallaði stjórnarskrána skrípi, af því að þar væri talað um konung. Ég veit ekki, hvernig hann hugsar sér annað en svo verði, þangað til því verður breytt. Og við leggjum einmitt til, að slík breyting verði nú þegar undirbúin og afgreidd á þessu ári til fulls. — En hann og hans flokkur vilja setja á þetta, sem hann kallar skrípi, þeir vilja setja það á um óákveðinn tíma. Hirði hann því sína eigin sneið.

Þá lagði hann mikið út af því, að hlutfallskosningar mundu leiða til fjölda flokka í þinginu. Allt heldur hann, að megi bjóða mönnum. Hlutfallskosningar um tvo menn bjóða aðeins tveimur þeim öflugustu upp á þingsæti, og hann býst þó varla við að komast niður úr því, að tveir flokkar séu í landinu. Annars er þetta, að hlutfallskosningar efli marga flokka, ein grýlan, sem verður að reyk, ef ljósi er á hana varpað. Hér í Reykjavík þykist t.d. Framsókn vera heilmikill flokkur með allt sitt setulið, sem hefur flúið dreifbýlið þeirra. En samt tókst þeim ekki að koma að einum manni af 15 við bæjarstjórnarkosningarnar. Svona er nú þessi hættan voðaleg.

Ég skal ekki fara langt út í þá kennslustund í kosningasvindli, sem Hermann Jónasson gaf okkur í gærkvöld og Eysteinn Jónsson vék einnig að. Ég efast ekki um kennarahæfileika þeirra í þessu efni. En óheppilegt var, að Hermann Jónasson skyldi minnast á samvinnu Sjálfstfl. og Bændafl. síðast í þessu efni, því að þótt sjálfstæðismenn yrðu þá sem áður fyrir barðinu á hinni ranglátu kjördæmaskipun, þá urðu þó Bændaflokksmenn enn harðar úti. Þeir fengu með uppbótarsætum og öllu þingmann fyrir 9werja 1789 kjósendur móti Framsókn með þm. fyrir hverja 766. 1789 — 766. — Svona var nú það svindl. Menn dæmi svo um, hvor svindlaði.

Ég má ekki tímans vegna taka fleiri atriði úr ræðu hv. þm. Str., Hermanns Jónassonar, til meðferðar, vegna þess að ég vil verja meginmáli ræðu minnar til þess að ræða það mál, sem hér er haft sem aðalrök fyrir vantrauststillögunni.

Þá get ég ekki vikið nema mjög stuttlega að ræðu 1. þm. S.-M., Eysteins Jónssonar. Var fyrri hluti hennar sýnilega í þeim anda, sem hann hefur ætlað að tala, ef stjórnarskrármálið hefði ekki komið. Það var skrumskæld frásögn af samstarfi flokkanna, ónot til sjálfstæðismanna og Alþfl., en jafnframt harmagrátur yfir því, að samstarfið skyldi rofna. Hann lýsti samstarfinu sem því herfilegasta, en vildi þó telja þjóðinni trú um, að upplausn og vandræði mundi af því leiða, að þessu samstarfi var slitið.

Eysteinn Jónsson tók undir söng síns gamla embættisbróður um það, að þessi tími væri sérstaklega illa valinn til stjórnarskrárbreytinga. Í gærkvöld var það rifjað upp, að stjórnarskránni var einmitt breytt í mjög mikilvægum atriðum á tímum heimsstyrjaldarinnar, 1915. Ég vil minna á, að sambandsl. voru sett í hinum miklu umbrotum stríðslokanna. En framsóknarmönnum þykir alltaf óhentugur tími til þessara hluta. Í nefndaráliti þeirra um stjórnarskrárbreytinguna 1932 segja þeir, að þeir „telji núverandi tíma óhentugan til þess að stofna til stórdeilna um málið“. Ekki var þá heimsstyrjöld, en tíminn er alltaf óhentugur fyrir þann, sem á að láta sérréttindi af hendi.

Þá sagði hann, að undarlegt væri að ætla sér að breyta stjórnarskránni í tveim áföngum. Nei, það er einmitt nauðsynlegt, — vegna Framsóknar. Við þekkjum framkomu þeirra í þessu máli. Við, sem óskum eftir stjórnarskrá íslenzka lýðveldisins sem fyrst, vitum, að Framsókn fæst aldrei til samstarfs um hana fyrr en réttlætismál kosninganna er leyst. Því að svo lengi sem Framsókn heldur sérréttindum sínum þorir hún aldrei að hrófla þar við neinu.

Enn talaði hann með mikilli fyrirlitningu um „minnihlutaþingmenn“ í tvímenningskjördæmunum, ef hlutfallskosningar færu fram. En hann ætti að tala varlega. Hann er sjálfur minnihlutaþingmaður í sínu tvímenningskjördæmi. Og framsóknarmenn mega vel heita minnihlutaþm. allir saman í öllum undanförnum kosningum. Flokkur þeirra er allur minnihlutaflokkur.

Því hefur verið haldið fram í nál. framsóknarmanna, að stjórnarskrárbreyt. 1933 hafi verið „rækilega undirbúin“, og þau ein rök færð fyrir því, að þófið um málið hafði þá staðið í um 3 ár. — Þetta er mjög fjarri sanni. Það var einmitt allra manna mál, að stjórnarskrármálið væri engan veginn leyst með stjórnarskránni 1933. Það var vandræðalausn og eingöngu gerð til þess að fá einhvern enda á málið í bráð.

Þetta kom líka greinilega fram í kosningum þeim, er síðan fóru fram.

Stjórnarskráin sjálf mælir svo fyrir, að hver þingflokkur skuli hafa „þingsæti í sem fyllsta samræmi við atkvæðatölu sína við almennar kosningar“. Meginreglan er því sú, að þingflokkarnir séu skipaðir í sömu hlutföllum eins og kjósendurnir í landinu eru.

En hvernig hefur þetta tekizt? Hvað segja kosningarnar?

Ég ber t.d. saman Sjálfstfl. og Framsfl.: 1934 fær Sjálfstfl. 21974 atkv., eða 42.3% atkvæða, en Framsfl. 113771/2 atkv., eða 21.9% atkvæða.

Framsfl. fær því hér um bil nákvæmlega helmingi færri atkv., en hann fær kosna 15 þm. og Sjálfstfl. 16 þm.

En nú kom hin „rækilega undirbúna“ stjórnarskrá og miðlaði málum. Sjálfstfl. fékk 4 uppbótarþm. Sú réttarbót náði þó ekki lengra en það, að nú hafði Framsókn þm. fyrir hverja 758 kjósendur, en Sjálfstfl. 1098. Sjálfstfl. fékk þá alls 20 þm., en hefði átt að fá 29 til jafns við Framsókn.

1937 fékk Sjálfstfl. 24132 atkv., eða 41.3% atkvæða, en Framsfl. 14556 atkv., eða 24.9% atkvæða.

Þrátt fyrir uppbætur hélzt sama óréttlætið. Framsókn fékk þm. fyrir hverja 766 kjósendur, en Sjálfstfl. fyrir hverja 1419 kjósendur. Sjálfstfl. fékk alls 17 þm. á sín 24000 atkv., en Framsókn 19 þm. á sín 14500 atkv. Sjálfstfl. hefði átt að fá 31 þm. í stað 17.

Svona rækilega var þessi stjórnarskrá undirbúin, sett og samin.

Flokkar þeir, sem svona herfilega urðu fyrir barðinu á þessu kosningafyrirkomulagi, létu þó við svo búið standa. Þeir höfðu engin samtök um lausn málsins, enda voru þeir engan veginn sammála um lausn málsins, eins og kom í ljós í fyrri stjórnarskrárbaráttunni. Sjálfstfl. vildi hrófla sem minnst við því, sem verið hefur, halda kjördæmum þeim, sem verið hafa og hrófla sem minnst við hlutfallinu milli sveita og sjávarsíðu. Alþfl. vildi annað, enda gekk hann nú til fulls samstarfs við Framsókn, og málið þagnaði.

En Sjálfstfl. beið og lét sér lynda það, sem var. Hann beið tækifæris og hafði nóg önnur verk að vinna.

Svo kom þetta þing saman, og þá taka viðburðirnir að gerast. Ég játa það hreinskilnislega, að ég var og er fylgjandi kosningafrestun, eins og ástatt er, og hef talið, að ekki hafi átt að rjúfa samstarf, helzt allra þeirra þriggja flokka, sem þjóðstjórnina mynduðu 1939. Og ég segi það hiklaust, að enn vitum við ekki með neinni vissu, hvort hér verður hægt að kjósa í vor. Það getur farið eftir viðhurðum, sem við höfum engin tök á.

En þetta er allt liðin tíð. Það er búið að ákveða kosningar, og það er þingmeirihluti með því að breyta stjórnarskránni.

Hverjir ollu þessu? Hverjir hófu þennan hættulega leik, sem Framsókn atyrðir okkur svo fyrir?

Það gerðu framsóknarmenn sjálfir, - þeir sjálfir og enginn annar.

Þetta veit hvert mannsbarn, sem kann að lesa og hlusta.

Sjálfstæðismenn sýndu þá ábyrgðartilfinningu, að þeir gengu í þjóðstjórnina 1939, þegar allt var að keyrast í dróma hjá hinum. Það var mikil flokksleg fórn, en það var skylda gagnvart þjóð og fósturjörð.

Sjálfstæðismenn samþykktu kosningafrestunina í fyrra, þó að margir þeirra teldu það einnig mikla flokkslega fórn. Það hefði verið auðveldara til sigurs að sleppa þessu hvoru tveggja, berjast í stjórnarandstöðu, láta allt fara í rúst og handaskol fyrir andstæðingunum og heimta svo kosningar. Það er þetta, sem Framsfl. vill nú reyna. — En Sjálfstfl. mat meira að vera ábyrgur flokkur og standa vörð um öryggi lands og þjóðar. Það getur verið, að kjósendur landsins launi þetta engu nú við kosningarnar. Það fer sem vill. Sjálfstæðismenn gera það, sem þeir telja rétt, og eru ekki á neinum veiðum. Og ég þekki þá ekki hugsunarhátt þess hluta þjóðarinnar, sem Sjálfstfl. væntir fylgis hjá, ef þeir menn meta ekki þessa framkomu okkar.

Sjálfstfl. einn hafði nægilega ábyrgðartilfinningu til þess að vilja halda fast við kosningafrestunina enn þá.

En hvert er svo hlutverk Framsóknar, siðameistarans stranga, í þessu efni?

Það er napurt háð örlaganna, að það skuli einmitt vera Framsfl., sem stofnar til þessarar kjördæmabreytingar. Það er einkennilegt að athuga, hvernig sagan endurtekur sig í þessu. Þegar fyrri kjördæmadeilan varð, var það einmitt Framsóknarstjórnin, sem hóf leikinn. Það var hún, sem bar fram breytingu á stjórnarskránni á fyrra þingi 1931. Hún gat ómögulega þolað, að í stjórnarskránni væri sá snefill af jafnrétti milli flokka, sem fólst í landskjörinu, og ætlaði að afnema það.

Og nú færir þessi sama frú, Framsókn, upp ballið með því að lýsa yfir því, að ekki skuli lengur staðið við samþykkt Alþingis um kosningafrestun.

Þetta er bein og ótvíræð byrjun þess, sem nú er orðið.

Alþfl. hafði einnig lýst yfir því, að hann vildi kosningar, enda var hann nú kominn í stjórnarandstöðu. Og því var yfir lýst af miklum meiri hluta þingmanna, að kosið skyldi í vor.

Alla ábyrgð á þessu bera vitanlega þeir menn og flokkar, sem að þessu stóðu.

Sjálfstfl. gat engu um þetta ráðið. Hann varð að taka því, sem að höndum bar. Kosningarnar í vor, sem ég, eins og margir, horfi til með ugg og ótta sakir þess, sem í fyrra olli frestuninni, eru því alveg á ábyrgð Framsfl., sem gaf þessu tiltæki öruggan meiri hluta á þingi. Þetta veit þjóðin öll og mun hafa í huga, þegar hún metur og vegur ábyrgðartilfinningu hinna einstöku þingflokka. Sjálfstæðismenn einir hafa haft þrek til þess að rjúfa ekki gerða ákvörðun um kosningafrestun meðan hættan vofir yfir. Till. frá einum af forustumönnum Sjálfstfl., forseta sameinaðs Alþingis, Gísla Sveinssyni, um það, að Alþingi beinlínis lýsti fylgi sínu við kosningafrestunina, er eina röddin, sem heyrzt hefur úr þeim flokki, en flm. hefur ekki talið hana tímabæra eins og komið er, vegna þeirra viðburða, sem gerzt hafa og ég skal víkja að.

Þegar Framsfl. hafði skorið úr því að kjósa skyldi í vor, var stíflan tekin úr flóðgáttinni. Þetta var beinlínis tilboð frá Framsókn um að nota nú tækifærið til stjórnarskrárbreytingar.

Það eitt stóð þar í vegi, að ágreiningur hafði verið milli Sjálfstfl. og Alþfl. um breyt. á kosningafyrirkomulaginu. Við vildum, eins og ég vék að áðan, ekki hagga við hinum fornu kjördæmum, heldur leitast við að samrýma kjördæmakosninguna því, að unnt væri að ná því flokkslega réttlæti, sem stjórnarskráin sjálf gerir ráð fyrir. Þetta mátti m.a. gera með því að koma á hlutfallskosningum í tvímenningskjördæmunum og nálgast þannig rétta hlutfallið milli flokkanna, án þess að þurfa að fjölga þingmönnum nema lítið eða jafnvel ekkert. Þessa hugsun settum við fram í nefndaráliti á þinginu 1933, núv. forsrh., Ólafur Thors, og ég. Við lögðum það til, að þessar hlutfallskosningar mætti innleiða með einföldum l. Ekki fórum við freklegar í það mál en svo.

Síðan hafa margar og miklar stoðir runnið undir þetta, og það frá öllum hliðum. Framsóknarmenn hafa ýtt undir þetta og játað réttmæti þess með því að taka einmitt þetta fyrirkomulag upp við kosningar til búnaðarþings. Þá er þetta orðin alveg viðurkennd regla, svo að segja hvar, sem kjósa á tvo menn, t.d. skrifara á Alþingi. Þessi hugmynd hefur því fengið meiri og meiri byr og hvað eftir annað verið um það skrifað. Við gátum meira að segja haft fulla von um það, að Framsfl. mundi styðja þetta, og hann ætti að styðja það, ef hann færi eftir málefnum, en væri ekki að verja sérréttindi sín umfram aðra flokka.

En annað var í veginum, og það var afstaða Alþfl. Hann hafði yfirleitt mælt með öðrum leiðum, og var því hæpið, að unnt yrði að ná þar samstarfi og nota kosningarnar, sem Framsókn bauð upp á, til þess að sækja þetta réttlætismál.

En þá skeður annað undrið á þessu þingi. Alþfl. ber fram frv. til breytingar á stjórnarskránni, þar sem einmitt þessi stefna sjálfstæðismanna er farin: Hlutfallskosning í tvímenningskjördæmunum.

Hvað var nú að gerast? Það er stundum talað um, að ekki sé hægt að vænta þess, að steiktar gæsir fljúgi upp í mann. En hér virðist þetta vera að gerast.

Framsókn heimtaði kosningar, og þá varð þeim ekki afstýrt.

Alþfl. bauð þá lausn á kjördæmamálinu, sem við höfðum haldið fram.

Og svo koma hv. framsóknarmenn og ætla að telja þjóðinni trú um, að það sé eitthvert dæmalaust ábyrgðarleysi, að við grípum þessa gæs, þegar hún gefst. Það á að vera eitthvert afskaplegt glapræði, að við afsölum ekki þeim rétti, sem við gátum fengið til handa þeim þúsundum kjósenda Sjálfstfl. úti um allt land, sem hingað til hafa verið gerðir að hornrekum og hálfdrættingum á við aðra. Ég fyrir mitt leyti afsegi alveg að bregðast svo trausti þessara ágætu og marghrjáðu kjósenda um allt land.

Mér þykir vænt um, að málið hefur greiðzt svona vel, og ég þakka báðum þessum flokkum, en einkum Framsfl., sem fyrst hefur greitt fyrir þessu máli. Og þetta þakklæti verður hún að þiggja, þó að hún segist hafa gert þetta af einfeldni.

Hér verður engum vífilengjum komið við af hendi framsóknarmanna. Það þýðir ekkert að tala eins og hv. þm. Str. um „stuttar og friðsamlegar“ kosningar. Kosningar eru kosningar. Og vilji menn losna við þær, þá er ekkert annað ráð til þess en að hafa engar kosningar.

En auk hlutfallskosninganna er svo farið fram á dálitla fjölgun þingsæta í kaupstöðum. Þetta mun nú eiga að blása upp í ósköp.

Við skulum athuga skjöld hv. framsóknarmanna í þessu efni, áður en við látum hrífast af rökum þeirra.

Á Alþingi 1933 báru fulltrúar Framsóknar fram svolátandi tillögu: „Hver sýsla og hver kaupstaður, sem hefur full kaupstaðarréttindi, skal vera kjördæmi. Nú breytist tala sýslufélaga eða kaupstaða, og breytist þá tala þingmanna eftir því.“ (Þskj. 584.)

Hvað þýðir nú þetta? Það þýðir það, að hér er af Framsóknarþm. farið einmitt fram á þetta, sem nú á að ganga landráðum næst. Það er einmitt þessi Framsóknarhugsjón, sem Alþfl. hefur borið fram í frv.

En við vildum þetta ekki þá. Og við viljum það ekki enn. Þó að við viljum láta kjördæmin haldast, þá teljum við ekki heppilegt að fara að mynda mjög smá kjördæmi, eins og hér yrðu. Seyðisfjörður situr vegna síns sögulega réttar, en við teljum ekki rétt að stofna til fjölgunar þm. af þessum sökum og höfum því fengið þetta fellt úr frv.

Allt annars eðlis eru tillögurnar um fjölgun þm. í Reykjavík og stofnun kjördæmis á Siglufirði. Þar myndast nýtt fullkomlega stórt kjördæmi, og Eyjafjarðarsýsla er eftir sem áður fjölmennasta tvímenningskjördæmið. Um rétt Reykjavíkur má náttúrlega munnhöggvast endalaust, en hér er nú þriðjungur allra landsmanna, og þá væri í sjálfu sér engin ofrausn, þó að hér væri kosinn einn sjötti hluti þingmanna, eða helmingi færri en fólksfjöldi segir til um. En annars vil ég benda á, að fjölgun þm. í Reykjavík er í raun og veru alveg þýðingarlaus upp á fjölda þingmanna að gera, ef á annað borð á að jafna milli flokka. Fjölgun þm. Reykjavíkur þýðir ekkert annað en fækkun uppbótarþingsæta.

Hér er því um einn þm. að ræða á Siglufirði. Er það þá hann, sem öll þjóðin á að rísa upp gegn og mótmæla? Ég held, að það sé til nokkuð mikils mælzt. Það er fram á of mikið farið við þúsundir kjósenda um allt land, að þeir afsali sér réttarbót frv. til þess að losna við einn þm. kosinn á Siglufirði.

Og svo vil ég minna Framsfl. á eitt, áður en hann dæmir alla landráðamenn, sem verða með þessari réttarbót handa Siglufirði og hagga þannig hlutfallinu milli kaupstaða og sveita. Þeir ættu að líta í þingtíðindin 1927 og sjá þar sín eigin handaverk. Eitt fyrsta verk Framsfl., eftir að hann komst til valda, var að taka einn þm. af sveitakjördæmi og afhenda hann kaupstað. Það var ekki nóg með að bæta einum við kaupstaðina, heldur var einn tekinn af sveitinni.

Svona stendur þá þetta mál, og enginn bægslagangur né hótanir munu geta komið af stað nokkrum æsingum um það, m.a. af því, að þær æsingar ættu þá að beinast jafnt gegn öllum. fyrst gegn Framsókn, sem opnaði dyrnar og sagði: Gerið þið svo vel, síðan gegn Alþfl., sem gekk inn á undan með till. okkar, og svo þá loks gegn sjálfstæðismönnum, sem þáðu boðið, úr því að kjósa átti.

En auk þess er málið sjálft svo fjarri því að vera fallið til æsinga sem frekast er unnt, nema þá aðeins fyrir þá menn, sem ekki vilja sleppa sérréttindum. Framsóknarmenn berjast um á hæli og hnakka eins og allir þeir, sem sérréttindum vilja halda. Það bara vorkennir þeim enginn. Það er til of mikils mælt að biðja sveitir og dreifbýli að taka þessa þykkju upp fyrir Framsókn. Það er ekki dreifbýlið, sem á að svipta neinu, þar helzt allt óbreytt. En það er einn ákveðinn pólitískur flokkur, sem nú er ætlazt til, að hafi fulltrúa á sama hátt og aðrir þingflokkar. Það er allt og sumt.

Ég þarf að minnast dálítið meira á þetta atriði, vegna þess að Framsfl. reynir að nota þetta sem eitt aðalvopn í sinni vonlausu baráttu. Það má þegar sjá á nál. minni hl. í stjórnarskrármálinu. Þar er sí og æ klifað á orðunum þéttbýli og dreifbýli, dreifbýli og þéttbýli, og undir þessum uppnefnum á nú að sigra. Við þekkjum þennan söng. Öll þjóðin er farin að þekkja þetta útburðarvæl, þennan þjóðsöng upplausnar og úlfúðar, þéttbýli — dreifbýli. Þetta hefur alltaf verið hættulegasta mein hvers þjóðfélags, og verstu eitursnákar hverrar þjóðar eru þeir, sem á þessu ala: Þéttbýli, dreifbýli. Ungt fólk, sem flytur í bæi og stofnar þar heimili og vinnur sína vinnu á sjó og landi, það á að vera orðið að einhverjum ekifjendum sinna fornu æskustöðva, eitthvert úrhrak. Þéttbýlið, það er óvinurinn sjálfur, þéttbýlið, sem myndazt hefur eftir atvinnuháttum, þéttbýlið, byggt sama fólki eins og dreifbýlið. Ég veit það vel og kannast við það, að straumur fólks til sjávarsíðunnar getur verið um of. Ég er fullkomlega samþykkur því, og mun stuðla að því eftir megni, að það sé ríflega búið að þeim, sem hafa skapfestu til að skilja ekki við jörð landsins, moldina og allt það frjómagn, sem hún ein getur veitt líkama og sál. En þessi viðbjóðslegi rógur milli barna fósturjarðarinnar, eftir því, hvar þau búa, skal aldei fá mitt fylgi.

En sérstaklega verður þessi bardagaaðferð ljót, þegar hún er auk þess byggð á ósannindum og rangri meðferð málavaxta, eins og hér er.

Í kosningunum 1931 tókst Framsfl. að ná miklum sigri á fölskum flutningi þessa máls. Og ég get í raun og veru vel skilið það, eins og málið lá þá fyrir. Framsókn hafði sjálf, eins og ég gat um áðan, lagt fram frv. til stjórnarskrárbreytingar, þar sem nema átti burtu einu ljósglætuna, sem þá var fyrir Sjálfstfl. og Alþfl. Þeir tveir flokkar tóku þá höndum saman og sögðu: Úr því að breyta á, þá er líka bezt að lagfæra kosningafyrirkomulagið, svo að fullt réttlæti fáist. En málið var nýtt. Það var alveg órætt. Engar tillögur lágu fyrir um það, hvernig þetta var hugsað. Sumir töluðu um fá, stór kjördæmi, sumir um landið allt eitt kjördæmi o.s.frv. Svo var þingið rofið undir miklum ærslum. Og kosningarnar urðu einhverjar mestu æsingakosningar.

En það er alveg vonlaust að gera þetta þaulrædda og sauðmeinlausa frv. að neinum slíkum Þorgeirsbola. Nú er málið alkunnugt. Það er ljóst og einfalt. Framsóknarmenn tala um, að þetta frv. sé lítið undirbúið. Þetta er hin mesta fjarstæða. Tillögurnar eru þrautræddar í mörg ár. Sveitamennirnir þekkja vel, hvernig hestar fælast bílana fyrst, einkum ef þeir koma brunandi og hvæsandi í myrkri. Þannig gátu kjósendurnir einnig fælzt, þegar Framsókn kom hvæsandi í myrkrinu. En hestarnir hætta brátt að fælast. Þeir sjá það brátt, að bílarnir eru alveg meinlausir, og það er alveg vonlaust að ætla að nota þá sem grýlu. Það er of lítið traust á kjósendum að halda, að þeir hafi ekki gripsvit og hræðist sí og æ sama málið.

Breyting á kosningum til Alþingis er nú þrautrætt mál, og framsóknarmenn vita það alveg eins vel og aðrir, að þessi breyting kemur. Þeir fá ekki að halda sérréttindum sínum.

Þm. S.-M., Eysteinn Jónsson, var eitthvað að tala um, að við kæmum hér eins og úlfar í sauðargærum. En það eru fleiri sögur um dýr, sem reyna að breiða yfir sig húð af öðru dýri til að villa á sér heimildir. Það er til saga um asna, sem breiddi yfir sig ljónshúð, og ætlaði með því að hræða öll dýr merkurinnar. En eyrun voru stór, og þau stóðu út undan ljónshúðinni, og þetta mistókst alveg.

Framsóknarmenn byrsta sig mjög hér í útvarpinu og halda, að þeir geti hrætt menn um allt land. Þeir vilja líta út eins og ljón, en allir sjá, að þetta er bara venjulegur Framsóknarasni.

Nei, „dreifbýlið“ þarf ekkert að óttast og óttast ekkert í þessu frv., heldur þvert á móti. Því er nú ætlað að fá meiri ítök í stærsta og voldugasta flokki landsins. Rangindin í kosningafyrirkomulaginu hafa svipt þennan flokk fulltrúum fyrir sveitirnar, þó að hann eigi þar geysimikið fylgi, og þetta veldur því, að Sjálfstfl verður bundnari við kaupstaðina. Þó að ég sé þm. Rvíkur, þá er ég gamall sveitamaður í húð og hár, og ég vil ekki, að flokkur minn sé slitinn frá sveitinni. Ég vil, að sveitirnar eigi sína sterku fylkingu fulltrúa í Sjálfstfl., svo að kjósendur hans um land allt fái sín réttmætu áhrif á gang mála á þingi.

Hvernig lítur nú dæmið út, ef við lítum á dreifbýlið, sveitirnar? Ég hef tekið atkvæðatölurnar upp frá seinustu kosningum. Í kjördæmunum utan kaupstaðanna, sem Framsókn mundi væntanlega kalla dreifbýlið, fengu framsóknarmenn þá 12915 atkv. og 19 þm., en Sjálfstfl. og Bændafl., sem voru í samkosningu, fengu 13716 atkv., eða 800 atkv. fleira, en aðeins 6 þm. kosna. — Þetta er nú rétturinn, sem Framsókn vill skapa og skera handa sínu elskaða dreifbýli. Ef við tökum svo annað dæmi, sveitir landsins allar frá og með Skagafirði og allan hringinn til og með Austur-Skaftafellssýslu, þá féllu atkvæði þannig: Framsfl. fékk 6431 atkvæði, en Sjálfst.- og Bændafl. 4552 atkvæði. En útkoman var sú, að Framsókn fékk 11 þingmenn kosna á þessu svæði, en hinir alls engan. Er ekki þetta traustur lýðræðisgrundvöllur? Halda menn ekki, að þessi fylking kjósenda, yfir hálft 5. þúsund manna, sé ánægð? Ég vil fyrir þeirra hönd og annarra þúsunda sjálfstæðismanna um land allt mótmæla þessari skammarlegu skrípamynd af lýðræði, sem Framsókn ættar sveitunum að búa við.

En aðalatriðið er það, að fulltrúatalan verðar alveg sú sama úr sveitunum. Framsfl. er gert jafnhátt undir höfði og öðrum flokkum, vald sveitanna er óbreytt, en vald þeirra og áhrif eru tryggð í stærsta og sterkasta stjórnmálaflokki landsins, flokki, sem alltaf hlýtur að verða áhrifamikill um úrslit stórmála.

Ég minntist í þessu sambandi á traustan lýðræðisgrundvöll. Það er eitt af öfugmælum Framsóknar í þessu máli, að þeir séu að skapa traustan lýðræðisgrundvöll. Það er leitt að þurfa að hlusta á slíkt þvaður. Og svo er leitað út um lönd eftir öllu, sem unnt er að finna fjærst okkar hugsun. Osló og Englandi er veifað og Ameríku, rétt eins og það sé þessu viðkomandi, hvernig við hugsum hér heima. Sú var tíðin, að Íslendingar þorðu að hugsa fyrir sig. Þeir stofnuðu lýðveldi og settu lög eftir eigin höfði. En svo kom upplausnin. Kardínáli sunnan úr löndum var fenginn til þess að tala mjög svipað um þetta eins og framsóknarmenn gera nú. Það væri „úsannligt, að Íslendingar þjónuðu ekki undir einhvern konung eins og aðrar þjóðir“. Nú á það að vera úsannligt, að við viljum ekki taka upp kosningafyrirkomulag eins og einhverjar aðrar þjóðir.

Það er ekkert á móti því að athuga þá líka sögulega, hvað þessi „trausti lýðræðisgrundvöllur“ Framsóknar er í raun og veru traustur. Í kosningunum 1931 var kosið eftir þessari reglu, og Framsókn kom inn með hreinan meiri hluta þings, 23 þm., á þriðjungi atkvæða. Þetta var alveg eftir kokkabókinni. Svona er það stundum í Englandi, og svona er það allt traustast. En hve traustur reyndist þessi grundvöllur? Það vita þeir, sem fylgdust með á þeim árum. Grundvöllurinn reyndist vitanlega eitt kviksyndi., og allt hrundi og fór í rúst. Það hékk riðandi, að mig minnir, á annað ár og hrundi þá á sínu eigin ranglæti og vitleysu. Samsteypustj. varð að taka við rústunum, og upp úr því var okkar núverandi stjskr. hnoðað saman. Þeir, sem eru eitthvað, nærri því að trúa á tal framsóknarmanna um hinn trausta lýðræðisgrundvöll, sem þeir prédika, ættu að kynna sér þessa sögu. Eftir íslenzkum hugsunarhætti er svona þingmeirihluti, byggður er minni hluta kjósenda, ranglátur og réttlaus. Honum helzt hér aldrei uppi að fara með völd til lengdar. Frv. okkar til leiðréttingar á þessu er lífsnauðsyn til verndar lýðræðinu í þessu landi.

Fyrrv. forsrh., Hermann Jónasson, færði þau ein rök fyrir því, er hann sagði af sér, að hann vildi ekki taka ábyrgð á svona vinnubrögðum. Segjum við tveir. Ég mundi ekki vilja taka þátt í hans vinnubrögðum, þegar hann vill byggja lýðræðið íslenzka á líku kviksyndi eins og meiri hlutinn og stjórnin 1931. Ég vil taka þátt í þeim vinnubrögðum að láta ávallt tryggan og þéttan meiri hluta kjósenda, dreifðan jafnt um landið allt, standa bak við þingmeirihlutann. Það mun reynast lýðræðinu og þingræðinu hollast, a.m.k. hér á landi.

Ég verð nú að ljúka máli mínu.

Sú stjórn, sem Framsókn vill lýsa vantrausti á, er að þeirra dómi veik stjórn. Þeir ættu ekki mikið um að tala. Í þessari stjórn eru þó fulltrúar framt að helmingi fleiri kjósenda en þeir hafa ráðið yfir. Það tel ég mikinn og ómetanlegan styrk. En þingstyrkur hennar byggist á því mikla réttlætismáli, sem 3/4 hlutar landsmanna heimta, og hann er nógur.

Allir þessir flokkar standa saman um þetta mikla mál. En hver er stefna Framsóknar?

Að stöðva, að spyrna fæti við, að streitast á móti.

Þessi flokkur, sem kallar sig Framsóknarflokk, gerir sínu fagra nafni litla sæmd.

Og ef hann fengi þessu framgengt og fengi stöðvunarvald með sínum fáu kjósendum, hvað ynni hann?

Ég veit, að hann þorir ekki sjálfur að horfa framan í það, sem þá tæki við.

Einn stæði hann uppi, vargur í véum, einn og yfirgefinn á sínum brauðfótum fylgisleysisins. Þá mundi þjóðin fá að horfa á pólitískt hrun. Enginn mundi óska eftir slíku á þessum hættulegu tímum.

Þess vegna getur enginn, — ekki einu sinni Framsókn sjálf —, óskað eftir því stöðvunarvaldi.