14.04.1942
Sameinað þing: 6. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í D-deild Alþingistíðinda. (1332)

10. mál, fangagæzla

Flm. (Brynjólfur Bjarnason):

Ég sé ekki, að nauðsynlegt sé að fresta þessu máli, þar sem ekki er nokkur þörf á að hafa um það lengri umr. fyrr en rannsókn hefur farið fram. Um það virðast allir sammála.

Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir undirtektir hans í þessu máli. Hann lítur einnig svo á, að hér sé um að ræða svo alvarlegar ásakanir, að hvað sem líði sannleiksgildi þeirra, sé óviðunandi, að ekki verði látin fara fram rannsókn á þessum málum. Ef rannsóknin leiddi í ljós, að þessar ásakanir reyndust rangar, kæmi fram ábyrgð á hendur Hallgrími, sem bar þær fram. Um þetta er hæstv. forsrh. alveg sammála.

Hæstv. ráðh. andmælti því, sem ég hafði sagt í ræðu minni, að aðbúnaður fanganna á Litla-Hrauni væri svipaður og hjá einræðisþjóðunum. En ég sagði, að fanginn hefði að sumu leyti haft sömu aðstöðu eins og meðal einræðisþjóðar. Hann var fleiri vikur að reyna að koma umkvörtunum sínum á réttan stað, og það tókst ekki, vegna þess að skrifstofustjóri dómsmálaráðuneytisins neitaði að taka við nokkrum bréfum frá þessum fanga. Eftir því sem hæstv. dómsmrh. hefur upplýst, hafði hann ekki gefið nein fyrirmæli um, að ráðuneytið mætti ekki taka við neinum umkvörtunum frá þessum fanga. Ég trúi því fyllilega, að hæstv. dómsmrh. eigi ekki sök á þessu, en þá verður málið því alvarlegra að því er snertir starfsmenn dómsmálaráðuneytisins. Ég talaði við skrifstofustjórann í síma og bar þessar umkvartanir fram við hann, en fékk ekkert annað en ónot sem svar. Hæstv. dómsmrh. munu ekki hafa verið allir málavextir kunnir fyrr en löngu seinna, enda er hann sammála öllum þeim hv. þm., sem hér hafa talað, um að nauðsynlegt sé að rannsaka þetta mál. En mér finnst mjög óviðeigandi að bera fram afsakanir fyrir málsaðila, áður en málið fer í rannsókn. Það er ekki rétt, að hér sé um að ræða skýrslu til dómsmálaráðuneytisins, heldur venjulega blaðagrein, nokkurs konar „reportage“, og kemur þess vegna ekkert þessum ásökunum við. Ég ætla alls ekki að ræða um sannleiksgildi þessara umkvartana, en ég get sagt það í tilefni af þeim umr., sem hér hafa farið fram, að allt það, sem ég hef getað fylgzt með af þessum ásökunum, er rétt. Mér er persónulega kunnugt um, að eins og maður sagði við mann, veður allt uppi í skít á Litla-Hrauni. Er mikill munur á fangahúsinu hér í bænum, þar sem gætt er ýtrasta hreinlætis. Áður hafa komið fram líkar ásakanir og hér er um að ræða. T.d. hefur Eggert Þorbjarnarson skrifað ýtarlega grein um fangelsið á Litla-Hrauni, þar sem hann heldur því fram, að búrekstrinum sé mjög ábótavant, og nefndi hann mörg dæmi máli sínu til sönnunar. Ég get þessa hér, ef til rannsóknar skyldi koma á þessum málum, þá sé þetta atriði rannsakað um leið. Ég er hv. 2. þm. Árn. sammála um það, að mjög vandasamt verk sé að vera fangavörður, en því meiri nauðsyn ber til þess, að valdir séu hæfir menn í það starf. Það má vel vera, að þessi fangavörður á Litla-Hrauni hafi marga mannkosti til að bera. Ég vil ekki rengja hv. 2. þm. Árn. um það, hann mun vera honum persónulega kunnugur. En af því, sem ég veit um framkomu fangavarðarins, hlýtur hann að skorta hæfileika til starfsins. Ef rannsókn málsins leiddi í ljós, að það væri rétt hjá hv. 2. þm. Árn., að fangavörðurinn hefði aðeins breytt eftir reglum fangahússins, sem hann var settur yfir, er málið enn alvarlegra. Þegar menn ræða um fangagæzlu, eru menn auðvitað ósammála, en um höfuðatriðið hygg ég þó, að allir séu sammála, sem sé það, að fangavörður þurfi að vera starfi sínu vaxinn. Ég vil þá minnast á eitt atriði, þ.e. innilokun fanganna fyrst eftir að þeir koma á hælið. Þessi innilokun er í sjálfu sér réttmæt, þar til rannsókn hefur farið fram á föngunum af læknis hálfu, en það er óeðlilegt, að þeir skuli þurfa að bíða eftir þessu læknisvottorði í viku til hálfan mánuð. Hér er ekki hægt að hreinsa fangavörðinn undan sökum, því að hann hafði ekki gert lækninum aðvart í þessu tilfelli, er um ræðir, fyrr en eftir 4 sólarhringa. Maður frá Eyrarbakka kom og kvartaði yfir þessu, þegar fangarnir höfðu kvartað, en fangavörður svaraði, að þetta væri ven ja þarna, því að fangarnir hefðu gott af að vita það, að þetta væri ekkert hótel. Þetta svar sýnir vel hugsun fangavarðarins.

Það skiptir á rauninni litlu máli, hvort þessi till. til þál. verður samþ. eða beinni verður vísað til ríkisstj., aðeins ef rannsókn fer fram á þessu, sem um ræðir, og ég er ekki mótfallinn því, að till. verði vísað til ríkisstj., ef rannsókn verður látin fara fram.