19.03.1942
Neðri deild: 22. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í B-deild Alþingistíðinda. (134)

13. mál, skemmtanaskattur

*Haraldur Guðmundsson:

Ég hef skrifað undir þetta nál. með fyrirvara. Ég hefði kosið, að gerð hefði verið ein breyt. á þessu frv., en það náðist ekki samkomulag um hana, sem sé, að undanþága 1. gr. yrði færð nokkuð út og látin einnig þá til skemmtana, sem félög halda til tekjuöflunar fyrir menningarstarfsemi. Áskil ég mér rétt til að koma við síðari umr. með brtt. um það efni, ef mér virðist það líklegt til árangurs.

Ég er hinum nm. sammála um, að rétt sé að láta þessa heimild ná lengra en til næstu áramóta, því að óheppilegt er að þurfa að gefa út bráðabirgðal. til þess að framlengja þessi lagaákvæði, en gera verður ráð fyrir, að ekkert haustþing verði. Ég hefði talið nægilegt, að þau hefðu verið látin gilda til 1. júní, en tel það þó ekki skipta miklu máli.

Að því er snertir brtt. um, að í staðinn fyrir 80% verði skemmtanaskattur af kvikmyndasýningum innheimtur með 204% viðauka, þá hef ég ásamt öðrum þm. borið fram frv. um sérstakan skatt á kvikmyndasýningar. Ég tel gerlegt nú að hækka þennan skatt vegna hinnar gífurlegu aðsóknar, sem nú er að kvikmyndahúsunum, en ég tel, að slíkir „ástandspeningar“ eigi fyrst og fremst að ganga til þess að vinna á móti dýrtíðinni. Ég get því ekki greitt till. atkv., fyrr en ég veit, hvernig tekið verður undir frv. það, sem ég á hér á þingi um þetta efni

Annars vil ég kasta því fram, að mér finnst full ástæða fyrir Alþ. til að athuga, hvort ekki sé ástæða til að tryggja með löggjöf, að sú sérstaða, sem tveir menn eða félög hafa nú í Reykjavík til fjáröflunar með kvikmyndahúsarekstri, verði ekki lengur látin haldast. Það má segja, að nær væri, að bæjarstjórn tæki þetta til athugunar, en ég álít, að rétt sé að athuga, áður en þetta frv. er afgr., hvort rekstur kvikmyndahúsa eigi ekki að vera á hendi þess opinbera, annaðhvort þannig, að bærinn hefði hann, eða þá, ef bærinn kynni að óska þess, að ríkissjóður tæki hann að sér.