20.04.1942
Neðri deild: 38. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í B-deild Alþingistíðinda. (1346)

70. mál, stríðsgróðaskattur

*Emil Jónsson:

Hv. þm. Seyðf. hefur svarað að sumu leyti því, sem hv. frsm. veik að mér um þetta mál. En ég vil aðeins út af þeim útreikningi, sem hann hafði hér yfir um áætlaðan stríðsgróðaskatt í Hafnarfirði, segja nokkur orð. Hann áætlaði, að stríðsgróðaskatturinn mundi verða þar 312 þús. kr. á hvert skip, og við skulum láta það liggja á milli hluta, hvort það er rétt eða ekki. Ég efast þó um, að það sé rétt. En við skulum ganga út frá því, að vertíðin verði svo og að þá kæmu 140 þús. kr. af hverju skipi í hlut bæjarins. Og ef það er reiknað af 9 skipum, sem hann reiknaði með, þá yrði það samt ekki 11/2 millj., heldur 11/4 millj. kr. (SkG: Ég sagði 11/4 millj. kr.). Vantar þá nokkuð til þess, að búið sé að ná inn 1800 þús. kr. í bæjarsjóð af þessu. En togararnir eru ekki 9, heldur 7, sem greiða þennan skatt, og þetta lækkar upphæðina í 980 þús. kr., þannig að útsvörin þurfa að verða um það bil 1 millj. kr., eins og áætlað er, þó að þessi skattur verði okkur greiddur að fullu, enda veitir alls ekki af því, að það verði. Þetta sýnir bara það, að það er alls ekki út í öfgar stefnt, þó að brtt. mín verði samþ., því að samkv. þessum útreikningi fáum við nákvæmlega það, sem við höfum gert ráð fyrir á fjárhagsáætlun bæjarins.

Hv. frsm. sagði, að bæjarútgerðin í Hafnarfirði hefði grætt svo mikið, að hún gæti borgað að sínum hluta til þarfa bæjarsjóðs. Hún hefur að vísu grætt vel eins og aðrir nú á tímum, sem útgerð hafa rekið. Hún hefur nú bjargað bæjarfélaginu eins og áður í atvinnumálum. En hennar hlutverk á ekki að vera að létta undir með öðrum skattgreiðendum í gróðaári, heldur að geta búið sig undir að sinna sínu aðalhlutverki, að vera til atvinnubóta á erfiðari tímum. Mér finnst það tæplega vera í samræmi við skoðanir hv. þm. V.-Húnv. (SkG), að gróði bæjarútgerðarinnar ætti að verða til þess að létta sköttum af öðrum gjaldendum. Þetta dæmi, sem hv. frsm. kom með hér, hefur orðið til þess að sýna, hver nauðsyn er á að fá brtt. mína samþ., því að útkoman úr reikningsdæmi hans, ef rétt er reiknað, verður nákvæmlega sú, að við Hafnfirðingar fáum í tekjur af stríðsgróðaskattinum yfir árið það, sem gert var ráð fyrir og þörf er fyrir. Ef hv. þm. V: Húnv. vill margfalda 140 þús. kr. með 7, þá fær hann út 980 þús. kr., sem er hluti bæjarins af stríðsgróðaskattinum, sé gert ráð fyrir þessari tilteknu upphæð af hverju skipi. Ef svo bætt verður við 1 millj. kr., þá nægir það til þess að ná þeirri upphæð, sem í fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir.