07.05.1942
Efri deild: 51. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í B-deild Alþingistíðinda. (1365)

70. mál, stríðsgróðaskattur

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Þeirri einu brtt., sem fyrir liggur við þetta frv., var útbýtt hér á þessum fundi, og þar af leiðandi liggur í hlutarins eðli, að fjhn. hefur ekki tekið hana sérstaklega til meðferðar. En þess ber þó að geta, að n. var vel kunnugt efni hennar fyrirfram. Því að hv. 10. landsk. þm. (ErlÞ), sem ber brtt. fram og á sæti í fjhn., hreyfði einmitt þessari sömu uppástungu í n., og gátum við hinir nm. ekki fallizt á. hana. Hv. 1. þm. Reykv. hefur nú þegar gert grein fyrir sinni afstöðu, eins og hv. þdm. hafa heyrt, og skal ég nú aðeins með örfáum orðum víkja að þeim ástæðum, sem til þess liggja, að ég get ekki heldur á þessa brtt. fallizt.

Ein ástæðan til þess, að ég get ekki á þessa brtt. fallizt, er sú, eins og ég reyndar veik að í fyrri ræðu minni, að ég álít, að eins og ástæðurnar eru nú í þjóðfélaginu, þá sé brtt. þýðingarlaus, því að hún breyti engu í framkvæmd. Mun með núverandi ástæðum í þjóðfélaginu ekki vera hætta á því, að lögð verði úfsvör, hvort sem er, á síðustu 10% af tekjum félaga eða einstaklinga, þó að háar séu. Og ég hygg, að það hafi ekki verið nein viðleitni í þá átt. Ég hygg, að því sé nú betur, að nú sé hag bæjar- og sveitarfélaga þannig komið, að þess þurfi ekki. Og það, að breyta á þessu frv., sem ég get ekki séð, að hafi praktiska þýðingu a.m.k. til næsta þings, get ég heldur ekki séð, að eigi rétt á sér hér í seinni d., eins og áliðið er þingtímans. Ég get ekki séð, þar sem frv. er nú í seinni deildinni og svo er áliðið þingtímans, sem maður verður að gera ráð fyrir, að það eigi rétt á sér að breyta frv. fyrir þannig lagað atriði, sem engin nauðsyn krefur, að samþ. verði, jafnvel þó að maður gæti gengið inn á þá hugsun, sem bak við brtt. liggur.

Annars skal ég játa það, að þrátt fyrir þessa niðurstöðu mína, þá var ég, almennt séð, ýmsu sammála af því, sem hv. 10. landsk. þm. (ErlÞ) sagði. En mér fannst það ekki allt styðja hans eigin niðurstöðu. Hann var að tala um það t.d., að það væri rétt, ef þessum ákvæðum 4. gr. frv. væri haldið á annað borð, að setja þá slíkt tryggingarákvæði, að því er snerti alla landsmenn. Ég get vel fallizt á, að það væri rétt að setja það í l., að ekki mætti ganga nær mönnum í útsvarsálagningu heldur en að einhverju vissu marki, sem hæstv. Alþ. þá teldi hæfilegt. Að vísu getur þörf bæjar- og sveitarfélaga orðið meiri heldur en hægt væri að fullnægja, ef slíkt ákvæði væri sett í l., og yrði þá vitanlega að fylgja þessu það, að þegar búið væri . að nota löglega möguleika til tekjuöflunar, þá yrði ríkið að hlaupa undir baggann. En bollaleggingar um þetta atriði koma ekki þessu máli beint við, sem fyrir liggur, því að það eru nú, því miður, fæstir landsmenn, sem búizt er við að greiði stríðsgróðaskatt, og hér er verið að ræða um stríðsgróðaskatt. En slík ákvæði ættu að sjálfsögðu heima í útsvarsl., og væri ég sízt á móti því, að einhver slík ákvæði væru sett inn í þau og yfirleitt settar nánari reglur um það, hvernig niðurjöfnunarnefndir ættu að jafna niður útsvörum. Því að það er nú svo, að það gildir um það sín regla kannske í hverju bæjarfélagi eða sveitarfélagi.

Hv. 10. landsk. þm. var að tala um það, að bæjarfélögunum mundu bregðast vonir, ef 4. gr. frv. yrði samþ., eins og hún er. Þau hefðu ætlað sér að rétta við fjárhag sinn nú í góðærinu með því að leggja á há útsvör. En ég vil aðeins benda á það, að a.m.k. allmörg bæjar- og sveitarfélög þessa lands fá allríflegar tekjur af stríðsgróðaskattinum. Og ég hygg, að a.m.k. bæjarfélag hér í næsta nágrenni Reykjavíkur muni fá svo miklar tekjur af stríðsgróðaskattinum, að það verði fram yfir allar þær þarfir, sem nú eru fyrir hendi. Þetta tal hv. 10. landsk. þm. um það, að bæjarfélögin yrðu að leggja það, sem á vantaði, á tekjur fyrir neðan 200 þús. kr., þegar hitt væri takmarkað, það er ég alveg sannfærður um, eins og nú er ástatt, að er talað alveg út í hött. Því að það er engin þörf á því að leggja hlutfallslega hærri útsvör á þessar lægri tekjur heldur en hinar, þannig að það er alrangt, miðað við það ástand, sem fyrir hendi er, að þeim, sem mestar tekjurnar hafa, sé nokkuð ívilnað með þessari 4. gr. frv. Þar við bætist svo það, að eins og hæstv. ráðh. tók hér fram, eru engin takmörk sett um það, hve há veltuútsvör má leggja á stærstu fyrirtæki.

Ef það kæmi fyrir, að bæjar- eða sveitarfélag vantaði tekjur, er opinn möguleiki til þess að ná tekjum af stærstu fyrirtækjunum með veltuútsvörum. Hv. þm. sagði sjálfur, að veltuútsvarið mundi aldrei verða svo hátt, að 10% afgangurinn hrykki ekki til að greiða það. hað þarf líka að vera. Fyrirtækin þurfa að hafa tekjur til að geta greitt opinber gjöld. Ég skal ekki fara frekar út í þetta, en ég taldi það skyldu mína að gera grein fyrir afstöðu n.

Ég vil að lokum minna hv. 10. landsk. þm. á það, að eftir því, sem ég bezt veit, var það fulltrúi Alþfl. í mþn. í skattamálum, sem fyrstur stakk upp á þessu hámarki, og í raun og veru vildi hann ganga lengra en gert er í frv. Hann miðaði að vísu við 90%, en gerði ráð fyrir, að frá væru dregnir skattar liðins árs, og það átt í þá að vera meiri partur af tekjunum, sem þannig var verndaður, en er í frv. Þessi hv. þm. er því í mótsögn við þennan flokksbróður sinn. En ég held einmitt, að fulltrúi Alþfl. í mþn.

hafi í þessu efni haft réttar fyrir sér en hv. 10. landsk. þm., ef á annað borð á að halda því áfram, að atvinnureksturinn sé í höndum einstaklinga.

Ég mun ekki þreyta kappræður um þetta, því að ég álít, að það hafi svo litla praktiska þýðingu, hvað ofan á verður.