19.03.1942
Neðri deild: 22. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (139)

13. mál, skemmtanaskattur

*Frsm. (Stefán Stefánsson):

Hv. 7. landsk. þm. vildi draga í efa, að þær hvatir, sem fjhn. hefði gengið til að mæla með þessari skatthækkun, hefðu verið góðar, og hann sagði, að það væri ekki af umhyggju fyrir þjóðleikhúsinu, heldur hefðum við lagt þetta til til þess að ná okkur niðri á kvikmyndahúsunum hér í Reykjavík. Ég vona samt, að þessi hv. þm. sannfærist um það, að ef n. hefði verið þess hugar virkilega að hefna sín á einhvern hátt á þessum kvikmyndahúsum hér í Reykjavík, sem ég veit ekki til að ástæða sé til að gera, þá hefði hún farið aðrar leiðir til þess heldur en hér er lagt til, því að þessi hækkun kemur öll niður á leikhúsgestum, en ekki á nokkurn hátt niður á kvikmyndahúsunum sjálfum. En ég vil geta þess fyrir hönd n. að þessi hækkun skattviðaukans upp í 200% er miðuð við gildistöku l., en ekki ársbyrjun.

Hv. þm. Ak., hv. 7. landsk. og hv. þm. Borgf. gera mikið úr þessari óttalegu hækkun á aðgöngumiðunum. En þessi hækkun er ekki eins óttaleg eða hættuleg eins og menn vilja vera láta. Almennir aðgöngumiðar munu kosta nú kr. 2.25 hér í Reykjavík. Og sú skatthækkun, sem yrði eftir frv., er 25 aurar á hvern miða. Þetta álít ég ekki óttalega hækkun. (PO: Ég var ekki að andmæla hækkuninni út af fyrir sig.) Þessi kvikmyndahús eru sótt að allmiklu leyti af erlenda setuliðinu, sem dvelur hér á landi, og finnst mér ekki ástæða til að vera með neina sérstaka hlífni við það um að greiða þennan skatt.

Í sambandi við það. sem hv. þm. Ak. spurðist fyrir um, hvort þetta ætti einnig að taka til skattsins, sem á að renna til kennslukvikmynda, þá er það að segja, að eftir orðanna hljóðan á þetta að ná til þeirra. En ég veit ekki til, að kennslukvikmyndir hafi verið sýndar hér á landi. En þó svo væri, mætti koma þeim undir 3. gr. l., sem ákveður, að skemmtanir, þar sem haldnir eru fræðandi fyrirlestrar, skuli vera undanþegnar skemmtanaskatti. Ég býst við, að ráðuneytinu sé fært að koma kennslukvikmyndum þar undir, því að fræðandi fyrirlestrar munu vera haldnir í sambandi við þær myndir.

Ég gat um það áðan, að ég teldi ekki ólíklegt, að þessum l. um skemmtanaskatt og þjóðleikhús yrði breytt, þannig að þegar lokið er að fullnægja þeirri skyldu, sem á Alþ. hvílir um að skilja sómasamlega við þjóðleikhúsmálið með byggingu þjóðleikhússins, þá yrði haldið áfram að innheimta skemmtanaskattinn, sem yrði þá látinn renna til annarra kaupstaða á landinu til þess að styrkja þá til að koma upp leikhúsum hjá sér, því að allir þeir kaupstaðir á landinu, sem hafa yfir 1500 íbúa, hafa verið og eru látnir greiða þennan skatt til þjóðleikhússins, eða sem ætlaður var til þess. Og hv. þm. Borgf. var að ræða um, hvort n. vildi ekki fyrir 3. umr. gera brtt. við frv. í þessa átt. Ég skal færa þetta í tal við n. En mér finnst ekki þurfa að flýta sér að því að setja l. um þetta atriði málsins, vegna þess að fyrirhugað er, að skatturinn renni allur næstum a.m.k. 3 til 4 árin til þjóðleikhússins her í Reykjavík. Og að skatturinn renni eftir þann tíma til byggingar leikhúsa utan Reykjavíkur er því framtíðarmál, en ekki aðkallandi til ákvörðunar á þessum tíma. Ég skal þó gera mitt til þess, að n. taki þetta til athugunar. Og einnig mun ég leggja til, að n. taki til athugunar till. frv. 7. Landsk., sem hann bar fram af umhyggju fyrir kvikmyndahúsum utan Reykjavíkur, að losa þau við þennan skattauka. En ég er eindregið fylgjandi því, að skatturinn nái til allra landsmanna, og vil ekki frá því hvika.