23.03.1942
Neðri deild: 24. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

13. mál, skemmtanaskattur

*Finnur Jónsson:

Ég tel, að skemmtanaskatturinn eigi í rauninni að renna til sveitarsjóðanna eða almennra menningarframfara á þeim stöðum, sem hann er greiddur, en eigi að síður mundi ég geta látið það vera óbreytt með þann skatt, sem er innheimtur samkv. núgildandi I., að hann rynni til þjóðleikhússins, þar til það er fullbúið, en ég tel ástæðulaust, að sú viðbót, sem hér er farið fram á, renni til þjóðleikhússins. Þetta munar þjóðleikhúsið ekki miklu, en getur munað hina einstöku bæi talsverðu. Ég vænti þess, að þeir, sem standa fyrir þessu meirihlutanál., hafi tækifæri til að greiða atkv. um, að þeir efni það loforð, sem hv. frsm. gaf hér, að skemmtanaskatturinn renni þá til þeirra staða, þar sem hans er aflað, þegar þessu marki er náð, en ég óttast, að vanhöld verði í þeim efnum, þegar búið er að byggja húsið, því að þá þarf að reka það, og það kostar mikið fé. Ég vil því fá því slegið föstu með samþykkt þessarar till. frá okkur hv. þm. Borgf., að það væri prinsipmál þingsins, að skemmtanaskatturinn renni framvegis til þeirra staða, þar sem hans er aflað, þó að látin sé gilda undanþága sú, sem nú er í gildandi l., en viðbótin fari í þann farveg, sem skemmtanaskatturinn á að renna í.