17.04.1942
Neðri deild: 37. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í B-deild Alþingistíðinda. (1505)

92. mál, vátryggingarfélag fyrir fiskiskip

*Frsm:

(Sigurður Kristjánsson): Þetta er lítil breyting á l. um Samábyrgð Íslands, sem hér er farið fram á. Samábyrgðin er stofnuð fyrir 35 árum. Þá voru flest skip ekki meira en 35–40 þús. króna virði. Í samræmi við það var ákveðið, að Samábyrgðin mætti ekki tryggja nema 15 þús. kr. hvert skip á eigin ábyrgð. Nú eru mörg skip 100–200 þús. króna virði, en samt sem áður má Samábyrgðin ekki hækka þessa tryggingu. En Samábyrgðin tryggir fyrir 30–40 skipafélög, svo að skipafjöldinn, sem hún tryggir, er mikill. En tekjur Samábyrgðarinnar hafa reynzt of litlar og svara alls ekki til þeirrar áhættu, er hún ber. Það er því alveg nauðsynlegt fyrir starfsemi Samábyrgðarinnar að hækka hlutdeild hennar í tryggingunum. Hér er farið fram á, að hlutdeild hennar verði hækkuð úr 15 þús. upp í 35 þús. kr. Með því móti getur Samábyrgðin komizt á rekstrarhæfan grundvöll.

Frv. er samið af stjórn og sérfræðingum Samábyrgðarinnar og flutt af sjútvn. þessarar hv. deildar. — Ég vona, að málið mæti skilningi hér á þinginu, og vil ég óska eftir, að því verði vísað til 2. umræðu að þessari lokinni.