24.04.1942
Efri deild: 40. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (155)

13. mál, skemmtanaskattur

Bernharð Stefánsson:

Eins og hv. frsm. gat um og nál. á þskj. 203 ber með sér, höfum við tveir nm. skrifað undir nál. með fyrirvara.

Það er ekki allskostar rétt, sem hv. flm. sagði, að okkur þætti hækkunin á skemmtanaskattinum of mikil. Hvað mig snertir er það ekki. Ég álít, að eins og ástandið er í landinu, þegar allir virðast hafa fullar hendur fjár, ekki sízt það fólk, sem slíkar skemmtanir sækir aðallega, þá sé ekkert á móti því að hækka skemmtanaskattinn eins og hér er farið fram á. Það var hitt, sem fyrir mér vakti, sem hv. 10. landsk. minntist á í ræðu sinni, að mér finnst ekki alls kostar sanngjarnt, að allt þetta fé, sem innheimt er víðs vegar um landið, renni til þjóðleikhússins í Reykjavík, því að þótt það sé kallað þjóðleikhús, þá vita allir, að þegar það verður tekið til notkunar, þá verður það hér um bil eingöngu leikhús fyrir Reykjavík. Og þótt leikstarfsemi í Reykjavík eigi við mikla örðugleika að stríða og rétt sé að styðja framgang hennar, þá er á það að líta, að leikstarfsemi úti um land á við enn meiri örðugleika að stríða. Mér finnst því sanngjarnt, að einhver hluti a.m.k. renni til kaupstaða, þar sem skemmtanaskattur er innheimtur, og væri varið til leikstarfsemi þar. En það er svipað að segja um mig og hv. meðnm. minn, er síðast talaði, að ég hef þó ekki borið fram brtt. um þetta við þessa umr., aðallega sökum þess, að eins og hann gat um, var borin fram í Nd. brtt. um þetta efni, en hún var felld. Ég geri því ráð fyrir, að þótt brtt. í þessa átt yrði samþ. hér, þá yrði hún numin burt í Nd. En ég vil a.m.k. með þessum fyrirvara mínum áskilja mér rétt til þess við 3. umr., ef slík till. kemur fram, að greiða henni atkv., hvort sem ég sé ástæðu til að flytja hana sjálfur, með öðrum eða ekki.