30.04.1942
Neðri deild: 45. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í B-deild Alþingistíðinda. (1695)

84. mál, jarðræktarlög

*Sveinbjörn Högnason:

Ég vildi segja fáein orð um brtt. um afnám 17. gr. Hver trúir, að það yrði ekki til að auka jarðabraskið? Það, sem hér skiptir mestu máli, er að veita styrkinn í jörðina, þar sem hann haldist, en ekki til ábúandans í hverju tilfelli.

Ég vil nefna 2 dæmi. Ríkið veitir 1/4 í styrk til að reisa mjólkurbú og hið sama til frystihúsa. Nú hefur einstaklingur selt bændunum eitt slíkt mjólkurbú og ríkisstyrkinn með, svo að hann lendir hjá verzlunarfélagi í Reykjavik í stað þess að vera bundinn í búinu. Það hljóta allir að sjá, hvílík misnotkun og ranglæti þetta er. Það brýtur beint í bága við anda laganna, tilganginn með styrknum. Hér þarf að setja 17. gr., en ekki afnema hana. Styrkinn má ekki selja, hann verður að vera í búinu.

Sala annars mjólkurbús er nú og fyrir hendi. Þó er enn meiri hætta á þessu með frystihúsin, — því að þau eru miklu meira í höndum einstaklinga, — að styrkurinn verði seldur með.

Ég vildi benda vel á þetta. Það er nauðsynlegt að tryggja til fulls, að styrkirnir komi að þeim notum, er löggjafarvaldið hefur ætlazt til. Nú kaupa stríðsgróðamenn jarðir í sveitum, setja á stofn bú eða mjólkurbú og fá til þess styrk. Síðan selja þeir. Ætti því styrkurinn frá því opinbera að verða til þess eins að auka á okurverð jarðanna og renna beint í vasa þessara einstaklinga?

Ég vil svo lýsa þökk minni á því, ef flm. þessarar brtt. vildu flytja hana á hverju þingi. í að mundi opna augu manna betur fyrir því, sem hér er stefnt að.