07.05.1942
Efri deild: 51. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í B-deild Alþingistíðinda. (1804)

43. mál, húsaleiga

*Frsm. (Magnús Gíslason):

Herra forseti l Eins og hv. þm. er kunnugt, þá voru samþ. á aðalþinginu 1941 breyt. á l. um húsaleigu. Og þessi l. voru svo staðfest af hæstv. ríkisstj. 8. sept. s.á. En sama dag gaf hæstv. ríkisstj. út bráðabirgðál. um breyt. á þessum l., sem siðan voru samþ. á hæstv. Alþ. á s.l. hausti með nokkrum breyt. Og sú breyt., sem þá var gerð á l., sem skiptir máli í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir til umr., var í því fólgin, að ákveðið var, að húseiganda væri óheimilt að segja upp leigusamningum um húsnæði, nema honum væri nauðsynlegt að nota húsnæðið fyrir sjálfan sig og viss nánar tiltekin skyldmenni og hann hefði verið orðinn eigandi hússins áður en l. gengu í gildi. Um þetta ákvæði voru nokkuð skiptar skoðanir, þar sem mögum fannst, að réttur húseigenda væri með þessu óeðlilega skertur. En álit þingsins var þá, að það þyrfti að setja þetta í l. En nú hefur það opinbera orðið fyrir barðinu á þessu ákvæði, þannig að það hefur komið fyrir það atvik, að embættismaður, sem skipaður var í embætti eftir að l. öðluðust gildi, hefur flutt sig úr öðrum landsfjórðungi, en hefur ekki getað fengið húsnæði á þeim stað, þar sem hann á að gegna embætti sínu, vegna þessara l. Hann keypti að vísu hús, sem hann bjóst við, að hann kæmist inn í 14. maí í vor, en það er útilokað með úrskurði fasteignamatsnefndar á staðnum samkv. ákvæðum l. Þess vegna er nú komið fram frv. frá allshn. Nd. um breyt. á þessu ákvæði, eftir beiðni hæstv. ríkisstj. Og frv. gengur í þá átt, að þegar sérstaklega standi á, geti húsaleigunefnd vikið frá þessu ákvæði, þegar um aðflutta opinbera starfsmenn er að ræða.

Allshn. hefur haft þetta frv. til meðferðar, en ekki orðið að öllu leyti sammála um afgr. þess, þannig að 2 nm. hafa lagt til, að frv. yrði samþ. óbreytt, en hv. 2. þm. S. M. hefur sérstaka aðstöðu í málinu og ber fram brtt. á þskj. 325. Ástæðan fyrir því, að við þessir 2 nm. erum samþykkir frv., — og ég hygg, að hv. 2. þm. S.-M. sé samþykkur því, að nauðsyn beri til að víkja frá þessu ákvæði, þegar svo stendur á eins og getið er um í grg. frv. —, er sú, að það getur farið svo, að ekki fáist til að sækja um opinberar stöður og embætti menn, sem heima eiga utan viðkomandi héraðs eða bæjar, af þeirri einföldu ástæðu, að þeir geti e.t.v. hvergi fengið húsnæði. Og það nær ekki nokkurri átt, að til séu í löggjöf ákvæði, sem hindri það, að ríkið geti komið því fram að skipa menn í embætti í landinu. Fyrir því hefur n. fallizt á, að þessi breyt. verði gerð á l.

Þessi l., sem samþ. voru um húsaleigu, þ.e.a.s. lagabreyt., átti ekki að gilda lengur en til 15. júní 1942. En á meðan n. hafði þetta mál til athugunar, barst henni erindi frá hlutaðeigandi ráðuneyti, þar sem farið var fram á það, að 1. væru framlengd um eitt ár, þannig að þau verði látin gilda til 15. júní 1943. Og allshn. hefur fallizt á að verða við þessari beiðni. Ástæðurnar til þess, að bráðabirgðal. voru sett 8. sept. í fyrra, voru þær, eftir því sem stendur í grg. frv. til þeirra l., að þá hefði skömmu áður farið fram rannsókn á því, hve margir væru húsnæðislausir hér í Reykjavík. Og í grg. er þess getið, að það hafi komið í ljós, að mörg hundruð fjölskyldur mundu verði húsnæðislausar þá á komandi hausti og fjöldi einstaklinga. Eftir því sem ég bezt veit, hefur ekki farið fram rannsókn á því nú, hve mikil húsnæðisvandræðin eru í bænum. En viðkomandi ráðuneyti hefur fullyrt, að mjög mikil vandræði væru nú í þessu efni. Og eftir þeim upplýsingum, sem n. hefur fengið, bæði frá borgarstjóra og húsaleigunefnd, þá lítur út fyrir, að ástandið í þessu efni hér í bænum hafi litið batnað frá því í fyrrahaust. Það hafa að vísu verið teknar nokkrar nýjar íbúðir til notkunar síðan í haust. En það virðist ekki hafa verið fullnægt meiri þörfum með því heldur en sem því nemur, að ungt fólk hefur gifzt og stofnað heimili, og hef ég það eftir húsaleigunefnd. Af þessum ástæðum hefur allshn. fallizt á, að það væri óhjákvæmilegt, eins og ástatt er, að framlengja þessi l. enn um eitt ár.

Hvað viðvíkur brtt. á þskj. 325 frá hv. 2. þm. S. M., þá höfum við tveir hinir nm. ekki getað fallizt á hana. En hún felur það í sér að setja ákvæði um það, að leigusala sé óheimilt að segja upp húsnæði, nema honum sé þess brýn þörf fyrir sjálfan sig eða skyldmenni, svo sem til er tekið nánar í brtt., og í kaupstöðum með 2000 íbúa eða fleiri sé slík uppsögn því aðeins heimil, að leigusali hafi verið orðinn eigandi hússins áður en l. þessi öðluðust gildi. Í þessari brtt. liggur því það, að þetta ákvæði viðvíkjandi því, hvað húseigandi hafi átt húsið lengi í sambandi við uppsögn á leigusamningum, á ekki eftir brtt. að gilda um staði, þar sem íbúatalan er undir 2000. Allshn. er ekki kunnugt um annað en að á þessum stöðum séu sömu húsnæðisvandræði og í Reykjavík. A.m.k. er það vitað viðvíkjandi sumum kauptúnum við Faxaflóa og sums staðar annars staðar, að líkt muni ástatt um húsnæðisvandræði og í Reykjavík, a.m.k. á Austfjörðum. Allshn. hefur því ekki getað orðið þessum hv. nm. samferða í þessu efni. Og ég fyrir mitt leyti tel ekki, að það sé rétt að undanskilja hin minni kauptún frá því, að þessi ákvæði l. gildi um þau, eins og ástandið er.