07.04.1942
Neðri deild: 29. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í B-deild Alþingistíðinda. (1865)

15. mál, málflytjendur

*Frsm. (Bergur Jónsson):

Ég minntist á þetta atriði, sem hv. 7. landsk. gerir nú brtt. um, við 1. og 2. umr., en hann var ekki við við 2. umr., og þess vegna varð bið um að greiða atkv. um þessa till.

Ég get vísað til þeirra ástæðna, sem ég gat um þá, að ég tel ekki rétt, — og um það erum við 4 nm. sammála —, að sett séu eins ströng skilyrði og brtt. gerir ráð fyrir. Það er að vísu rétt hjá hv. 7. landsk., að oft getur þetta orðið til þess, að ýmsir stúdentar leggi harðara að sér, þegar þeir vita, að 1. einkunn er skilyrði til að öðlast ákveðinn rétt, en mér finnst samt ekki mega taka svo mikið tillit til þess, þó að í einstökum tilfellum geti þetta haft áhrif, þegar hins er gætt, að í mörgum tilfellum getur það verið svo, þegar þess er gætt, að menn, sem gætu orðið góðir lögfræðingar, hafa misst af 1. einkunn við próf, en reynast síðar mjög dugandi og engu síður góðir málfærslumenn en þeir, sem með meiri og minni heppni geta komizt yfir markalínuna og fengið l. einkunn. Ég legg því miklu meira upp úr reynslunni, sem fyrir því er, að 2. einkunnar menn geti reynzt góðir lögfræðingar, heldur en einkunn við próf. Segja má, að þeir, sem hljóta 2. einkunn, geti gengið undir próf á ný til þess að reyna að fá 1. einkunn, en það er kostnaðarsamt og erfitt að setjast við próflestur á nýjan leik, svo að fæstir munu sjá sér slíkt fært. Ég verð því að leggja á móti þessari till. Mér finnst þannig um búið í þessu frv., að nokkurn veginn sé öruggt, að ekki fái aðrir að flytja mál fyrir hæstarétti en þeir, sem hafa sýnt nokkuð berlega, að þeir séu til þess færir, og ég býst við, að flestir mundu heldur vilja losa meira um þetta heldur en að halda í þetta skilyrði.