07.04.1942
Neðri deild: 29. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í B-deild Alþingistíðinda. (1868)

15. mál, málflytjendur

Jóhann G. Möller:

Á s.l. þingi bar ég, ásamt þeim hv. þm. Ísaf. Og hv. þm. V.- Húnv., fram frv., er gekk mjög í svipaða átt og frv. það, sem hér liggur fyrir.

Við umr. um það frv. og eins þetta frv. hefur komið í ljós, að aðallega deila menn um tvö atriði: 1. einkunnina og prófmálin.

Þetta frv. siglir nokkuð bil beggja. Það afnemur skilyrðið um 1. einkunn, en heldur prófunum, veitir þó þar nokkrar undantekningar. Ég hef ákveðið, að fylgju þessu frv., og hið sama hygg ég, að meðflm. mínir frá því í fyrra geri, vegna þess að þetta frv. gengur að ýmsu leyti til móts við skoðanir okkar.

Ég man eftir því, að hæstv. dómsmrh. lét þess getið í umr. um þetta mál í fyrra, að athuganir þyrftu að fara fram á því, hversu þessum málum skyldi hagað í framtiðinni. Mér skilst líka, að þetta frv. sé fram komið fyrir atbeina hans að víssu leyti og sé eins konar compromis.

Ég var mjög undrandi á andstöðu hv. 7. landsk. við þetta frv., þó að þetta frv. hljóti að vera miklu aðgengilegra í hans augum en frv. það, sem við fluttum í fyrra og vildi afnema prófin. En ástæðan til þess, að ég nú stend upp, er sú, að mér virðist, að ákvæðin um undanþágur frá prófunum séu ekki nógu tæmandi, og þess vegna höfum við, ég og hv. þm. N.-Þ., ákveðið að bera fram skriflega brtt., með leyfi hæstv. forseta. Við leggjum til, að niðurlag 9. gr. orðist svo:

„Maður, sem hefur verið hæstaéttardómari, prófessor í lögum, dómari í Reykjavík, bæjarfógeti eða dómsmálaráðherra, er undanþeginn ákvæðum 7. tölul. 1. málsgr.

Eins og af þessu sést, viljum við bæta inn í, að menn, sem hafa sinnt dómaræmbætti í Rvík, séu undanþegnir þessu prófi, og eftir atvikum þykir okkur líka rétt, að sama máli gegni um bæjarfógeta. Í rauninni ætti þetta að ná til allra héraðsdómara. Þeir dæma oft um líf og eignir manna og virðist svo sem þeir ættu að vera færir um að flytja mál fyrir hæstarétti, þar sem aðrir dæma. En praksis héraðsdómara er svo slitróttur og misjafn, að ekki þótti ástæða til að láta þetta ná til annarra en þeirra, er sitja stærstu embættin. Var þar farið bil beggja.

Það kann að virðast óeðlilegt, að undanþágan nái einnig til þeirra, er hafa verið dómsmálaráðherrar, því að út af fyrir sig þarf það ekki að skapa neina reynslu eða þekkingu til málflutnings að vera pólitískur ráðherra stuttan tíma. En þó verður að ganga út frá því, eftir að þessi l. eru komin í gildi, að engir aðrir verði dómsmálaráðherrar en þeir, er hafa staðgóða þekkingu á íslenzum lögum, og er það vel farið. Við getum fylgt þessu ákvæði, en leggjum til, eins og áður er sagt, að undanþágan verði rýmkuð nokkuð. Vil ég svo leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa till.