16.05.1942
Efri deild: 59. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í B-deild Alþingistíðinda. (1883)

15. mál, málflytjendur

*Hermann Jónasson:

Það hefur orðið nokkur ágreiningur í d. um þetta mál, og það er óneitanlega erfitt að ganga svo frá ákvæðum 9. gr., að ekki brjóti í bág við almennt réttlæti, ef farið er að telja upp ýmsa embættismenn, svo að sanngirni ríki í þeirri upptalningu. Ég hef því orðað skrifl. brtt. við síðasta málslið og vænti þess, að hún falli d. í geð. Sú aðfinnsla, sem sérstaklega kom fram hér síðast, var sú, að sýslumenn voru ekki teknir með í þessari upptalningu, en þó að þeir væru nú teknir með, þá er engan veginn fyrir það girt, að ekki séu einhverjir enn ótaldir, sem öll sanngirni mælir með, að nytu sömu fríðinda. Mér dettur t.d. í hug doktorar í lögum. Ég fann því strax, að hér var hængur á og aðfinnslur þær, sem hér hafa komið fram, eru á rökum reistar. Nú hefur formaður málflytjendafélagsins rætt um þetta mál við mig, og í samráði við hann legg ég til, að niðurlag 9. gr. orðist svo:

„Hæstiréttur getur veitt manni undanþágu frá framan greindri prófraun að nokkru eða öllu leyti, ef dóminum er það kunnugt af lögfræðilegum störfum hans, að hann sé hæfur til að flytja mál fyrir hæstarétti.“

Með þessu er komizt hjá allri upptalningu, en það lagt á vald hæstaréttar að meta, hvenær hann áliti mann þess færan, að honum verði undanþága veitt frá prófrauninni.

Legg ég svo þessa till. fram og afhendi hana hæstv. forseta.