16.04.1942
Neðri deild: 36. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

14. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég get ekki fallizt á að vera með því, að þessi l. falli úr gildi 1. sept. þ. á., af því að þótt gera megi ráð fyrir, að mikill hluti þessa fjár verði þá á einhvern hátt notaður til þess að greiða skatta og útsvar, þá má gera ráð fyrir, að þá verði komnar nýjar innstæður.

Hv. þm. virtist ganga út frá því, að bankarnir mundu kaupa það, sem félögin þyrftu til greiðslu á sköttum og útsvari, en það hefur ekki verið gengið enn frá þeirri hlið málsins, og ég dreg í efa, að nokkur banki hafi skyldu til að gera það, en það má taka þetta til athugunar í sambandi við skattal., sem hér eru til meðferðar.