29.04.1942
Efri deild: 42. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í B-deild Alþingistíðinda. (218)

14. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

Frsm. (Erlendur Þorsteinsson):

Herra forseti ! Áður en ég ræði þá brtt., sem hér liggur fyrir frá hv. þm. Vestm., vil ég aðeins drepa á tvö atriði, sem komu fram í ræðu hæstv. viðskmrh. Það fyrra var, að hæstv. viðskmrh. minntist á það, að komið hefði til mála að binda hluta af tekjum manna í setuliðsvinnunni og hluta af tekjum þeirra, sem seldu fisk samkv. brezka samningnum. Mér þykir allmerkilegt, að nokkrum manni skuli hafa komið til hugar slík binding. Að mínu áliti er það alls ekki meiningin með lögunum. Þar stendur, að einungis skuli binda gjaldeyri erlendis fyrir reikning eigenda, en það er öllum vitanlegt, sem til þekkja, að hvorki verkamaðurinn né sjómaðurinn eiga erlendan gjaldeyri. Ef um bindingu væri að ræða fyrir setuliðsvinnu, mundi þurfa að linda féð hjá setuliðinu, sem eignast gjaldeyrinn, og ef um fé fyrir fisk væri að ræða, þá hjá þeim, sem kaupir hér fyrir ísl. peninga, sem mun vera Ministry of Food. Mér finnst aldrei geta komið til mála að binda kaup þessara manna. Það hefur aldrei komið fram, og ég býst ekki við, að neinum hafi dottið það í hug nema hæstv. viðskmrh. að binda kaup þeirra, sem aðeins hafa þurftarlaun, — og hafi ensku samningarnir orðið þess valdandi, að íslenzki fiskveiðiflotinn verði rekinn með stórtapi, getur það aldrei komið til mála, að tilætlunin hafi verið með þessum lögum að setja fastan erlendis gjaldeyri, sem þarf að nota hér heima á Íslandi til þess að greiða slík töp.

Þá talaði hæstv. viðskmrh. um, að þörf væri að taka til athugunar að binda gjaldeyri fyrir nokkurn hluta af þeim ísfiski, sem seldur er í Englandi. En eins og nú háttar, fæst þessi fiskur greiddur í dollurum, sem notaðir eru til kaupa á nauðsynjavörum vestan hafs. Út af þessu vildi ég spyrja, hvort það sé rétt, að gjaldeyrisnefnd hafi neitað um gjaldeyrisleyfi fyrir járnvörum og öðrum slíkum vörum, sem þurfti að fá forgangsleyfi fyrir í Ameríku, og ekki þýðir að sækja um nema gjaldeyrisleyfi sé til staðar. Ef svo skyldi vera, að nægir dollarar séu til, nær það ekki nokkurri átt, að hægt sé að neita um gjaldeyrisleyfi fyrir nauðsynlegum vörum eftir geðþótta eins eða tveggja manna og valda með því mikilli töf á afgreiðslu vörunnar, eða jafnvel, því, að hún fáist ekki.

Þetta var að vísu útúrdúr, en var nauðsynlegur vegna ræðu hæstv. viðskmrh.

Ég minntist í framsöguræðu minni á það atriði, sem kom fram í ræðu hv. þm. Vestm. N. Hefur ekki tekið afstöðu til þess, enda kom engin slík tillaga fram — þar, og enginn nm. minntist á það að taka hana upp. Það, sem ég segi hér, segi ég því einungis sem mína skoðun, og bera meðnm. mínir enga ábyrgð á því.

Ég tel það út af fyrir sig réttlátt, að þessi lög verði látin gilda, ef aðeins er tekinn toppgróðinn þannig, að öruggt sé, að nauðsynlegar yfirfærslur fáist til þess að greiða verkakaup, og þannig að alltaf sé tekið til athugunar, þegar um aðrar vörur er að ræða en ísfisk, hvort sala slíkra vara þoli bindingu. Það kom beinlínis fram í ræðu hv. þm. Vestm., að togaraútgerðin hefur engan hnekki beðið af þessu, og ég get ekki fallizt á það, sem hann segir, að eldri félögin hafi orðið sérstaklega fyrir barðinu á þessari löggjöf. Það, að lögin hafi komið misjafnt niður, hlýtur að koma af því, að þau félög, sem um er að ræða, hafi aðeins flutt út á þeim tíma, sem lögin voru til framkvæmda, en hvorki fyrir né eftir. Mér skilst því, að með slíku reglugerðarákvæði mætti gefa þeim heimild til þess að fá þetta fé laust. En ég get ekki séð, út af fyrir sig, að nokkur ástæða sé til að nema þessi lög úr gildi. Ef framkvæmd þeirra er skynsamlega hagað, geta þau komið að notum, t.d. með því að taka úr — umferð óhæfilegar fjárfúlgur.

Og ef til þess kæmi, eins og hæstv. viðskmrh. minntist á, að nægileg dollareign myndaðist, þá væri það mjög óeðlilegt að láta bankana eina bera ábyrgð á öllum þeim innistæðum eða gróða einstaklinga, sem af þessum sölum myndaðist.