22.05.1942
Neðri deild: 64. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í B-deild Alþingistíðinda. (2279)

125. mál, verðlagsuppbót embættismanna og starfsmanna ríkisins

Skúli Guðmundsson:

Ég vildi með örfáum orðum gera grein fyrir minni afstöðu til þessa máls.

Ég býst við, að það sé rétt, sem haldið hefur verið fram,. að það séu erfiðleikar hjá ýmsum opinberum starfsmönnum, sem eru meðal hinna lægst launuðu og hafa mörg börn á framfæri sínu, og að þeir því hafi fulla þörf fyrir slíka uppbót. Hins vegar vil ég benda á það tvennt, að ef ríkið og ríkisstofnanir greiða þannig lagaða sérstaka uppbót, sem miðuð er við ómagafjölda hjá starfsmönnum, þá má gera ráð fyrir, að önnur fyrirtæki í landinu, sum a.m.k., verði að fara einnig inn á þá braut. Í öðru lagi vil ég benda á það, að þessu fylgir sá galli, að það er nokkur hætta á, að við starfsmannaráðningar verði frekar gengið fram hjá fjölskyldumönnum heldur en einhleypum, ef á þennan hátt verður að greiða fjölskyldumönnum í raun og veru meiri laun, þegar tillit er tekið til þessarar uppbótar. Á þetta vil ég benda. Einnig hitt, að ef farið er inn á þá braut yfirleitt að greiða. nokkurs konar barnauppeldisstyrk til þeirra, sem eru í þjónustu þess opinbera, þá er spurning, hvort ekki er sanngjarnt að láta það ná til fleiri manna í landinu, og jafnvel þó að þeir séu ekki í annarra þjónustu. Mér finnst, ef inn á þessa braut væri farið yfirleitt, að greiða þessa uppbót til þeirra, sem eru í annarra þjónustu, gæti hitt komið til athugunar, hvort ekki væri sanngjarnt að breyta þessu í það að greiða öllum. sen hafa ómaga á sínu framfæri, eitthvert slíkt framlag.

Þrátt fyrir þessa agnúa, sem ég tel vera á þessu fyrirkomulagi, sem brtt. er um, þá geri ég ekki ágreining út af þessu í n. við mína samnefndarmenn, þannig að ég greiddi ekki atkv., á móti þessari breyt., en áskildi mér hins vegar rétt til þess að sitja hjá við atkvgr. og mun gera það.