22.05.1942
Efri deild: 66. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í B-deild Alþingistíðinda. (2333)

144. mál, Eyri við Ingólfsfjörð

Ingvar Pálmason:

Mér finnst þetta mál ekki vera sambærilegt við neitt annað mál, sem við höfum afgr. hér í d. nú með mikilli fljótaskrift.

Það kann vel að vera, að hv. 9. og 10. landk. hafi þarna kunnugleika, en hitt er alveg víst, að það hefur þótt full ástæða til, að' hliðstæð mál væru athuguð allnákvæmlega í n. í báðum d., enda hefur einatt komið í ljós, að þótt málið hafi verið athugað í annarri d., þá hefur þurft að breyta því í hinni d., og mér finnst engin goðgá, þó að ég bendi á, að afgreiðsla þessa máls er með óvenjulegum hætti, sérstaklega þegar það er upplýst í grg. frv., að hlutaðeigendur hafi þetta land nú á leigu, og ég legg ekkert upp úr, þó að Nd. hafi tekið þessi mannanöfn út úr frv., því að ef þarna verður byggð síldarverksmiðja, þá verða það þessir menn, sem gera það.

Sem sagt, þó að hv. dm. fleiri eða færri séu þessu svo kunnugir, að þeir geti tekið að sér að afgr. málið, þá breytir það á engan hátt afstöðu minni, að ég tel mig bresta allan kunnugleika til að mynda mér fullnaðarskoðun á þessu máli. Þess vegna er það, að ég greiði ekki atkv. um þetta frv.