18.05.1942
Neðri deild: 60. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í B-deild Alþingistíðinda. (2449)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. 1. þm. S.M. (EystJ) spyr, hvers vegna ekki sé farin sú leið að skipta í einmenningskjördæmi. Það er af því, að meiri hl. n. vill fá hlutfallslegt jafnrétti milli flokka á þann hátt, að hinn sterkasti verði sterkastur, en hinum minni verði ekki heldur varnað máls á Alþ. Ef um allt landið utan Reykjavíkur væru einmenningskjördæmi, gæti einn flokkur unnið þau öll, án þess að hann hefði kjósendameirihluta bak við sig. Hann spyr, hví Akranes og Nes í Norðfirði hafi verið felld úr frv. Það var gert eftir ósk frá Sjálfstfl., og þarf ég sem Alþflm. raunar ekki að svara því. En Framsóknarflokksmenn, sem telji sig mótfallna fjölgun þm., geta skilið, að ekki þótti æskilegt að fjölga þm. meir en í 52, og sá Alþfl. þá ekki ástæðu til að gera þessi kjördæmi að kappsmáli.

Hv. 1. þm. Rang. (SvbH) hélt því fram, að minni hl. gæti fengið bæði minnihlþm. og uppbótarþm. úr sama kjördæmi. Mér blöskrar þetta ekki, því að vitanlega væru þá atkv. úr öðrum kjördæmum bak við uppbótarþingmanninn. Þm. finnur það mest að réttlæti þessa frv., að Framsfl. skaðist á því. En ég mundi alls ekki treysta mér til að finna þann réttlætisgrundvöll kjördæmabreyt., sem treysti og tryggði hagsmuni Framsfl., jafnvel gæfi honum fleiri þm. en nú, meðan sá flokkur lifir einmitt á ranglætinu í því efni. Ég hygg, að eigi verði hjá því komizt, að afskiptari flokkar njóti góðs af hverri breyt. í réttlætisátt. Þetta er sá einfaldi sannleikur og ekkert við það athugavert, að flokkarnir, sem að frv. standa, hafi hagsmuni af framgangi þess. Hv. 1. þm. S.-M. hélt, að óvandur yrði eftirleikurinn og hver flokkur, sem óánægður væri með úrslit kosninga, gæti hrundið fram nýrri breyt. á .kjördæmaskipun. En hafi sá flokkur ekki styrk réttlætisins að baki till. sínum í því efni, þá hefur hann engan styrk. Óánægja dregur þar ekki ein til, heldur þarf að vera ljóst, að flokkur eða ,flokkar hafi víssulega verið afskiptir: Þm. (EystJ) þótti ég gera lítið úr kostum núv. kjördæmaskipunar og uppbótarþingsæta. Það gerði ég ekki, þótt þau nái ekki tilgangi sínum nærri því að fullu. Stjskr. kveður svo á, að uppbótarþingsætum skuli útbýtt þannig, að hver þingflokkur fái sem jafnasta þingmannatölu. Væru ekki uppbótarsætin, gæti munað margfalt meira en nú á atkvæðatölu að baki þm. í hverjum flokki. Hún gæti í einum, orðið þreföld, fjórföld eða fimmföld á við það, sem væri í einhverjum öðrum. Það er því ómögulegt að segja annað en breyt. frá 1933 hafi gert gagn. Ég hélt ég hefði tekið það fram á Alþ. þá, að ef þessi breyt. nægði ekki nokkurn veginn til að skapa jafnrétti, mundu koma fram till. um frekari breyt., og það er ekki vonum fyrr, sem þær koma. Vilji hv. þm. koma með aðrar till., sem tryggi jafnréttið enn betur, skal ég strax fylgja þeim.

Þetta mál verður frekar rætt síðar í útvarpi, svo að ég hirði ekki að fara lengra út í það. En mig skyldi ekki undra, þótt sú breyt., sem nú verður gerð, dugi um langt skeið. En ekki má búast v ið, að nein slíkt breyt. dugi að eilífu.