05.05.1942
Sameinað þing: 12. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í D-deild Alþingistíðinda. (2584)

103. mál, fjölgun hæstaréttardómara

*Flm. (Jóhann G. Möller):

Þetta mál þarf ekki langa inngangsræðu. Ástæðurnar fyrir því, að ég flyt það, eru greindar í grg. till., og get ég því verið stuttorður um málið í ræðu.

Eins og menn vita, þá greinist löggjöfin í þrjá þætti, löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Eru þeir allir þýðingarmiklir, en margir álíta, að dómsvaldið sé jafnvel allra þýðingarmest um það, hvort þjóð getur talizt menningarþjóð eða ekki. Það verður því að teljast ákaflega mikilsvert fyrir þjóðfélagið, að þessu valdi sé þannig skipað, að þegnarnir geti fundið þar fyllsta traust. Það er sagt um það heimsveldi, sem lengst hefur lifað og nú er til, að það, sem einna mest hafi orðið til að halda þess veldi við, sé það, að það eigi þá eign, sem enginn blettur megi á falla, allir krjúpi fyrir og enginn megi kasta steini að, og það hefur valdið því, að brezka heimsveldið hefur verið til sem réttarþjóðfélag og menningarþjóðfélag lengur en nokkurt annað veldi, og einn þátturinn í því er það, að það hefur haft öruggt dómsvald.

Hér á Íslandi hefur enginn slíkur hlutur verið til, nema ef helzt vær í hæstiréttur, Því miður er ekki langt síðan deilur stóðu um hæstarétt, en nú er það ekki lengur. Það má telja, að við eigum þar hlut, sem sé samboðinn menningarþjóð. Það virðist, að þar höfum við eign, sem ekki standa deilur um, en allir geti kropið fyrir í lotningu, og það er skilyrði fyrir því, að allir finni þar fyllsta traust og hliðstætt því, sem aðrar þjóðir vildu hafa, ef þær ættu hlut að máli.

Það kann að vera, að sumt í réttarfarslöggjöf okkar mætti betur fara, og þá líka um hæstarétt okkar, og ég tel, að eitt af því, sem þar mætti betur fara, vær í að fjölga dómurum hæstaréttar úr þremur í fimm. Í því liggur þó engin ásökun á þá þrjá valinkunnu menn, sem nú skipa hæstarétt, heldur tel ég, að í framtíðinni sé öryggi borgaranna enn meira, ef dómararnir eru fimm en þrír. Það liggur í hlutarins eðli, að á undanförnum árum hafa dómurum hæstaréttar verið falin fleiri og færri störf, sem eru erfið og hafa tekið mikinn tíma. Það væri þeim því að þessu leyti mikill léttir, ef þeir væru fleiri. Auk þess tel ég það styðja fjölgun í réttinum, að dómauppsögn mundi verða öruggari, ef dómarar væru fleiri, án þess að ég vilji fara frekar inn á að skýra það atriði.

Annars tel ég ekki þörf að fara langt út í að rökstyðja þetta mál. Dómararnir voru upphaflega 5, en í l. um hæstarétt er svo ákveðið, að þeir skuli ekki vera nema þrír, þar til öðruvísi verður ákveðið. M.ö.o. það var fjárhagsatriði fyrir Alþ., að dómarar væru þrír, en ekki fimm. Nú er engum blöðum um það að fletta, að sú ástæða getur var la verið lengur fyrir hendi, og þá finnst mér, að Alþ. verði að rækja skyldu sína við hæstarétt með því að framkvæma að fullu þau i., sem það hefur sett, að dómarar skuli vera fimm. Í þessu sambandi er vert að minna á, að hæstiréttur á að vera nokkurs konar kóróna sjálfstæðis okkar. Hann var fluttur heim, þegar við fengum sjálfstæði, og hefur síðan verið sem innsigli á sjálfstæði okkar, og tel ég því heppilegt, að nú verði fjölgað í þá tölu, sem þar var upphaflega.

Þá má einnig benda á það, sem hefur ekki hvað minnsta þýðingu, að nú mun af stórveldunum vera litið til okkar litlu þjóðar ekki sízt með tilliti til þess, hvernig við skipum innri málum okkar, og þá ekki hvað sízt réttarfarsmálum okkar og dómsvaldi, og á það verður litið ekki hvað sízt eftir stríðið, þegar setzt verður við samningaborðið og réttur smáþjóðanna ákveðinn.