11.03.1942
Neðri deild: 17. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í B-deild Alþingistíðinda. (262)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

*Atvmrh. (Ólafur Thors):

Mál það, er hér er til umr., bráðabirgðal. um gerðardóm í kaupgjalds- og verðlagsmálum, er þegar orðið alþjóð kunnugt. Af hendi þeirra, er að löggjöfinni standa, hafa verið fluttar um það 4 útvarpsræður, auk þess sem blöð Sjálfstæðisflokksins hafa frá því prentaraverkfallinu lauk, birt nokkrar reinar því til skýringar. En Alþýðuflokkurinn, sem með mjög óheiðarlegum herbrögðum tryggði sjálfum sér einkarétt til blaðaútgáfu í höfuðstað landsins, notaði sér þá aðstöðu til þess að flytja daglega blekkingar og rangfærslur um þessa löggjöf, löggjöf, sem þó áreiðanlega verður, þegar fram líða stundir, talin merkasta löggjöf síðari ára, og sú lagasetning, sem öllu öðru fremur stefnir að því að bægja vá frá dyrum verkamanna og annarra launastétta landsins. Málið hefur auk þess verið mikið rætt í útvarpsumr. þeim, er fram hafa farið út af bæjarstjórnarkosningum þeim, er fram eiga að fara hér í Reykjavík næstkomandi sunnudag.

Ég get því að þessu sinni látið mér nægja að drepa á nokkur helztu grundvallarrök þeirra, er að löggjöfinni standa, en vísa að öðru leyti fyrst og fremst til þeirra raka, er ríkisstjórnir hefur áður fært fyrir málinu í útvarpsræðum þeim, er allir ráðh. hafa flutt um málið. Tel ég einnig fyrir það síður þörf á að tína til öll rök, að andstaðan gegn lögunum hefur farið þverrandi með hverjum degi, sem líður, jöfnum höndum og almenningur hefur fengið aðstöðu til að kynnast réttum málavöxtum, og má nú teljast lokið, að undanskildu andófi nokkurra stjórnmálaleiðtoga, sem enn freista þess að afla sjálfum sér fylgis með falsrökum gegn þessu þrifamáli.

Allt fram til þess, er þessi löggjöf var sett, hefur enginn dirfst að andmæla því, að vaxandi verðbólga væri geigvænlegt þjóðarböl. Og af engu hefur ríkisstjórnin, og þá einnig ráðh. Alþfl., hlotið meira ámæli en einmitt því, að hann hafi skort vilja eða getu, eða hvort tveggja, til þess að sporna við vexti dýrtíðarinnar.

Á vorþinginu 1941 var sett löggjöf um þessi mál, sem þó ekki kom að liði. Á haustþinginu var að nýju borið fram frv. um málið. Náðist sem kunnugt er ekki um það samkomulag. Vildi Framsfl. þá lögbinda ýmis fyrirmæli, en þó í ýmsu ólík þeim, er bráðabirgðal. þessi mæla fyrir um. En Sjálfstfl. og Alþfl. beittu sér gegn því, út frá beim rökum, að hægt væri að ná öllu hinu sama án löggjafar. Hefur sú saga verið margrakin og er öllum löngu kunn. Aðalatriðið er, að allir flokkar töldu höfuðnauðsyn að stemma stigu við vexti dýrtíðarinnar, en frumskilyrði þess er að stöðva kapphlaupið milli afurðaverðs og kaupgjalds, þ.e.a.s. hindra allar hækkanir, jafnt á afurðaverði sem grunnkaupi. Sjálfstfl. og Alþfl. tóku að sér að rannsaka, hvað verkalýðsfélögin hefðu í hyggju í þeim efnum. Að lokinni þeirri rannsókn tók Sjálfstfl. á sig ábyrgð á því, að tvö stærstu verkalýðsfélög landsins mundu una óbreyttu grunnkaupi, en Alþfl., eða ráðh. hans, fullyrti, að flest félög innan Alþýðusambandsins mundu gera hið sama, og aðeins fá félög fara fram á smávægilegar lagfæringar, sem engu gætu orkað á dýrtíðina, eins og hann komst að orði. Talaði ráðherrann um, að ekki væri sæmilegt að „væna“ — hann sagði „væna“ — menn og félög um að svíkja þau fyrirheit, og var í öllu hinn öruggasti, hvað þetta áhrærði. Var þá talið óhætt að treysta því, að grunnkaup héldist óbreytt, og með því að Framsfl. vildi lögbinda afurðaverð óbreytt til 1. september 1942, þótti sýnt, að hvorugt þyrfti að óttast hækkun grunnkaups né afurðaverðs.

Kvað nú Sjálfstfl. upp úr á haustþinginu um stefnu sína með svo hljóðandi úrskurði:

„Ef hægt er að tryggja, að grunnkaup og afurðaverð hækki ekki svo neinu nemi, sýnist mögulegt að ná öllu því sama án nýrrar lagasetningar.“

Hins vegar tók flokkurinn jafnframt af öll tvímæli um það, að ef út af brygði um fullan trúnað í þessum efnum, neyddist hann til að beita löggjafarvaldinu til þess að tryggja það meginstefnumál flokksins að stöðva dýrtíðarflóðið. Var um þetta sagt í framsöguræðu af hálfu flokksins um dýrtíðarmálin á haustþinginu:

„Þótt Sjálfstfl. óski eftir, að þetta mál verði leyst með frjálsum samtökum, þá liggur ekki í því nein synjun um að leggja inn á lögþvingunarleiðina, ef annað reynist árangurslaust.“

Var nú að þessu ráði hnigið á haustþinginu af meiri hluta Alþ., og væntu menn, að treysta mætti því, að frjálsa leiðin héldi.

Dómur reynslunnar varð annar. Lægst launuðu stéttirnar sýndu þegnskap, og var það í senn í þágu þeirra eigin framtíðarheilla og þjóðarheildarinnar. En betur launuðu stéttirnar, þær, sem Stefán Jóhann Stefánsson taldi skömm að „væna“ um kauphækkunarkröfur, brugðust. Nokkrar þeirra heimtuðu hækkun grunnkaups frá 20–30%, og er þeim kröfum fékkst ekki fullnægt, fylgdu þær stéttir, er hlut áttu að máli, þeim eftir með verkföllum.

Þannig var málum komið um áramótin.

Um tvennt var að velja. Annaðhvort að ný dýrtíðaralda riði óbrotin yfir eða að bregða skjótt við og stöðva flóðið viðstöðulaust með nýrri lagasetningu, er setti skorður við nýju kapphlaupi kaupgjalds og verðlags.

Það var að sjálfsögðu metnaðarmál þeirra flokka, er ábyrgð tóku á frjálsu leiðinni, að girða fyrir, að oftraustið á frjálsu leiðinni færði bölvun yfir þjóðfélagið. Að sönnu gat Sjálfstfl. látið sér vel líka, að hans ábyrgð hafði ekki brugðizt. Félögin, sem hann rannsakaði, stóðu við sín heit. Það voru orð Alþfl., sem reynzt höfðu ómerk, eins og svo oft áður. En þetta var ekki aðalatriðið, heldur hitt, að úr því að svo fór, þá fyrir að velja milli nýrrar dýrtíðar eia nýrrar löggjafar.

Stjórnarflokkarnir áttu í rauninni ekkert val. Þeir höfðu marglýst yfir því, að þjóðarnauðsyn væri að berjast gegn dýrtíðinni og tjáð sig reiðubúna til þátttöku í þeirri baráttu. Fyrir þeim lá því annaðhvort að eiga þátt í nýrri löggjöf eða svíkja stefnu sína og heit.

Sjálfstfl. valdi að sjálfsögðu hið fyrra. Alþýðuflokkurinn hið síðara, — eins og svo oft áður.

Í þessari löggjöf er ekki fyrirskipuð kauplækkun, eins og gert hafði verið 1939 með atkvæðum og einlægu fylgi Alþfl. Ekki einu sinni er fyrirskipað óbreytt grunnkaup. Nei, heimilt er að hækka grunnkaup til lagfæringar og samræmingar, en síðan skal goldin alveg full og ótakmörkuð uppbót, eftir því, sem vísitala verðlagsn. segir til um.

Jafnframt eru gerðar margvíslegar aðrar ráðstafanir til stöðvunar á verðlaginu. Þannig er óheimilt að hækka verð á innlendum afurðum umfram það, sem sannað er, að framleiðslukostnaður hafi vaxið, og hvorki má hækka álagningu né vöruverð á erlendum og innlendum vörum, þar með taldar iðnaðarvörur, og ekki heldur farmgjöld, nema að fengnu samþykki gerðardóms, er í eiga sæti 5 eiðsvarnir menn, en dómur sá úrskurðar einnig kauphækkanir allar.

Það er þessi löggjöf, sem Alþfl. hefur tekið upp baráttu gegn. Jafnframt hefur hann bætt nýjum tilli við sitt virðulega nafn, svona eins og- þegar menn hengja í hnappagatið nýtt heiðursmerki, og kallar sig nú flokk launastéttanna. Nákvæmara heiti hefði þó verið flokkur hálaunastéttanna, þ.e.a.s. flokkur forkólfa Alþfl.

Tvær tylliástæður hefur Alþfl. reynt að færa fram til varnar sínum ábyrgðarsnauða loddaraleik.

Í fyrsta tagi vill Alþfl. aldrei skerða hinn helga samningarétt verkalýðsins varðandi kaup og kjör.

Í öðru lagi eru lögin árás á launastéttina. en samkvæmt hinu nýja heiti og heiðursmerki Alþfl, er hann sjálfkjörinn verndarvættur allra launamanna í landinu.

Varðandi hið fyrra nægir að minna á, að þeir, sem Alþfl. hefur tekið sér til fyrirmyndar og talið sér helzt til frama að stæla í hvívetna, svo sem jafnaðarmenn í Danmörku undir forustu Staunings og jafnaðarmenn í Noregi undir forustu Nygaardsvold, hafa a ofan í æ lögskipað gerðardóm til þess að gera út um kaupdeilur, og það á friðartímum.

Að hér á landi hefur hið sama verið gert a.m.k. tvisvar,

að í annað skiptið var það gert samkvæmt beinni beiðni forsprakka Alþfl.,

að í ársbyrjun 1939, áður en styrjöldin hófst, hafði Alþfl. gengið ólíkt fastar á hinn helga samningarétt og hagsmuni launastéttanna. Þá flutti Alþfl., ásamt fleirum, frv. til l. um gengislækkun, þ.e.a.s. um hækkandi verðlag. Í sama frv. bannaði Alþfl. skilyrðislaust að hækka grunnkaup. Þá var ekki eins og nú á valdi neins gerðardóms að hækka kaupið til lagfæringar og Samræmingar. Nei. Alþfl. hafði sjálfur setzt í sæti dómarans og kveðið upp dóminn. Enga kauphækkun, piltar, ekki eyri, ekki einn einasta eyri, hversu sem á stendur.

Þetta er hálfleiðinleg æskumynd af hinum virðulega verndara launastéttanna. En sagan er ekki hálfsögð. Í þessum sömu l. Alþfl. frá 1939, lögunum um hækkandi vöruverð, er ekki látið nægja að taka réttinn af launamönnunum til að semja um grunnkaup sitt. Nei, — það er líka tekið af hinum nýju vinum Alþfl., launastéttunum, öll fyrirhöfn og allar áhyggjur út af baráttunni fyrir dýrtíðaruppbót þeim til handa. Alþfl., málsvari launastéttanna, tók einnig það hlutverk að sér. Hann setti í l. heil og ótvíræð ákvæði um það, hversu mikið af dýrtíðinni atvinnuveitandi skyldi greiða verkamönnum og hversu mikið skyldi tekið úr buddu launþeganna sjálfra.

Það, sem verndari launastéttanna þá skammtaði launastéttunum, var þetta:

Engir launamenn áttu að fá neinar bætur, nema verkamenn og sjómenn og þeir fjölskyldumenn í Reykjavík, sem höfðu minna en 300 kr. í mánuði, — segi og skrifa þrjú hundruð krónur á mánuði. Og skammtur þessara allra lægst launuðu manna var svo þessi:

Ef verðlagið hækkaði um minna en 5%, áttu þeir að borga brúsann sjálfir — allan brúsann sjálfir.

Af fyrstu 10% hækkuninni áttu þeir aðeins að fá helming bættan, og eingöngu 2/3 af því, sem dýrtíðin óx þar fram yfir.

Þetta eru sporin, sem verndari launastéttanna skildi eftir sig í löggjöfinni. Þetta er það fordæmi, sem hann þá setti þeim til fyrirmyndar og eftirbreytni, er nú og síðar telja þjóðarnauðsyn að lögbjóða um kaupgjald.

Í þessum kapítula í reyfarasögu Alþfl. stendur skýrt og ótvírætt:

Ef Alþfl. er við völdin, þá er ekki aðeins heimilt að svipta alla launþega hinum helga samningarétti, þá er ekki eingöngu leyfilegt að lögbanna allar breytingar á grunnkaupi. Nei, þá er líka ekki aðeins heimilt, heldur og líka rétt og sjálfsagt að lögfesta kauplækkanir eftir vild, er leggjast með fullum þunga á þá, er hafa yfir 300 krónur á mánuði, og hálfum þunga á hina.

Þetta er ljót saga af þeim, sem nú allt í einu telja samningaréttinn óskerðanlegan, hvernig sem á stendur, og skyldi enginn misvirða það við leiðtoga Alþfl., þótt þeir að undanförnu hafi reynt að koma við strokleðrinu og afmá eða óskýra þetta leiða letur. Formaðurinn hefur þá líka í útvarpsumr. og í nokkrum fremur veigalitlunt og dálitið ósannsöglum pistlum í Alþýðublaðinu verið að reyna að skálda í eyðurnar. Hann reynir auðvitað ekki að neita því, að Alþfl. hafi átt þátt bæði í þessari löggjöf og svipuðum I. frá 1940. enda stendur það allt skráð og skjalfest í Alþingistíðindunum. Nei. Alþfl. var með, það skal játað. En tengst af var hann að glíma við sér verri öfl — og alltaf að sigra, að sögn Stefáns Jóh. Stefánssonar. Hann sigraði 1939, þegar launastéttirnar voru sviptar samningsrétti og stórvægileg launalækkun lögfest. Hann sigraði einnig 1940, þegar l. var breytt, og tap launastéttanna náði hámarki. Þannig er allt ein rakin röð sigra, þar til sett eru l. í því skyni að bægja versta fjanda launastéttanna, vaxandi verðbólgu, frá dyrum þjóðfélagsins, l., sem ekki banna hækkun grunnkaups eins og Alþfl. gerði, þegar hann var að sigra, heldur þvert á móti heimiluðu hækkun til samræmingar og lagfæringar, l., sem, ekki svipta launastéttirnar ýmist allri eða hálfri dýrtíðaruppbót, eins og Alþfl. gerði, þegar hann var að sigra, heldur l., sem þvert á móti tryggja öllum launþegum fulla dýrtíðaruppbót, 100%, allt upp að 650 kr. mánaðarkaupi. Það er fyrst, þegar þessi l. eru sett, að Alþfl. snarkippist við í valdastólnum, steytir hnefann og segir: Hingað og ekki lengra, annars stend ég upp og er farinn.

Hver getur fellt saman framkomu Alþfl. 1939 og nú, hver skýrt heljarstökkið?

Stefán Jóhann Stefánsson hefur verið að reyna það. Hann segir: 1939 stóð atvinnulífið höllum fæti, nú blómgast það.

En er ekki samningsrétturinn helgur og óskerðanlegur jafnt fyrir það?

Og er ekki verkalýðurinn, að dómi Stefáns Jóhanns Stefánssonar, einfær um að dæma það, hvenær hans atvinna er í voða, hvenær hans hagsmunir mæla með óbreyttu kaupi eða kauplækkun? Á ekki verkalýðurinn rétt á að segja: Hvað vill Stefán Jóhann Stefánsson og hans nótar vera að taka af mér samningsréttinn og lögbjóða auk þess stórfelldar kauplækkanir? Ég skal sjálfur dæma, hvað mér er fyrir beztu.

Þessu á Alþfl. eftir að svara. Kannske verður verndara launastéttanna stirt um svarið. En brúna milli fortíðar og nútíðar er létt verk að byggja.

1939 blasti valdastóllinn við. Þá varð helgi samningsréttarins að víkja fyrir þjóðarnauðsyn og lögfesting kaups og kauplækkunar beinlínis til blessunar.

1942 blasa kosningar við.

Hinn deyjandi Alþfl. hugsaði: Nú eru góð ráð dýr. Þá er gerðardómur og lögskipuð full dýrt íðaruppbót kúgun og svívirðing, þótt það sé gert til þess að stöðva dýrtíðina. Þá er Alþfl. ófáanlegur til að hafast við í ráðherrastóli með þeim fólum, sem slík níðingsverk fremja.

Þetta er nærri því of greinilegt, til þess að verðskulda heitið kosningabrella. Það er feigðarsvipur á þessum myndum af verndara launastéttanna.

En hversu sterkt er þá hitt haldreipi Alþfl.? Er stöðug kauphækkun til hagsbóta fyrir launastéttirnar?

Í öllum siðmenningarlöndum er nú háð hörð hríð gegn dýrtíðinni. Og alls staðar er þeirri herferð hagað á sama hátt. Allir stefna öllum árásum á sömu tvo höfuðóvinina, hækkun kaupgjalds og hækkun afurðaverðs. Hvers vegna? Það er vegna þess, að allir hafa fyrir löngu gert sér ljóst, að það er þetta tvennt, kaupgjaldið og afurðaverðið, sem skapar verðbólguna. Hvort verðlagið eltir annað, en bæði skapa þau dýrtíðarskrúfuna, sem allt veltur á að stöðva.

Íslendingar eiga mörgum öðrum betri aðstöðu til að öðlast fullan skilning á þessum málum. Innlendar afurðir ráða vísitölunni að 4/5 hlutum. Hækki kaupgjaldið, vex framleiðslukostnaðurinn að sama skapi. Framleiðendur krefjast að fá það bætt með hækkuðu afurðaverði. Sú verlagshækkun veldur svo aftur því, að kauphækkunin verður launþeganum einskis virði. Hann fær að sönnu fleiri krónur, en þær eru verðminni, svo að hann getur ekki aflað sér meiri lífsþæginda eftir kauphækkunina en fyrir. Hann krefst því nýrrar kauphækkunar, sem svo leiðir til nýrrar hækkunar á afurðaverðinu, o.s.frv. Þetta er dýrtíðarskrúfan. Í rauninni hækkar hún hvorki afurðaverðið né kaupgjaldið. Hún lækkar verðgildi peninganna. Hún ræðst á spariféð, ellitrygginguna, líftrygginguna, peningakröfuna í hverju formi sem er. Gerir peningana stöðugt verðminni, þar til þeir eru að engu orðnir.

En sá, sem berst fyrir dýrtíðinni, er ekki aðeins fjandmaður sparifjáreigandans, gamalmennisins,- ekkna og munaðarleysingja og annarra, er afkomuvonir hafa byggt á peningaeign eða peningakröfum. Nei, hann er einnig böðull framleiðenda og launamanna og raunar alþjóðar.

Við okkur íslendingum blasir bölvun framtíðar óvenju skýr og ótvíræð, sé verðbólgan látin óhindruð.

Ég geri hér ekki að umræðuefni, hvort auði muni að tryggja, meðan ófriðurinn stendur, nægjanlega hátt verð á útflutningsvörunni til þess að standa undir því kaupgjaldi, er leiðir af taumlausri innanlands verðbólgu. Ég vek aðeins athygli á því, að bregðist það, er hrunið skollið á.

En eftir stríðið? Hvað skeður þá? Þá missa þær þúsundir manna atvinnu, er lífsframfæri hafa haft af þjónustu í þágu hervaldsins. Allir, sem grætt hafa á auknum tekjum þeirra manna, og allir, sem hagnazt hafa beint og óbeint af eyðslueyri erlenda setuliðsins, missa spæni úr aski sínum. Sú alda breiðist út í hvern afkima fjármálalífs þjóðarinnar. Loks hverfur svo sá stríðsgróði, sem ríkissjóður hefur gert sér að mikilli tekjulind, einmitt þegar nýjar framfærslukvaðir leggjast á ríkissjóðinn.

Næsti þáttur er fljótlesinn.

Segjum, að Alþfl. og kommúnistar hefðu sigrað og kaupgjald og verðlag fengið óhindrað að eigast við. Segjum, að vísitalan hefði ekki verið stöðvuð neitt nærri 183 stigum, eins og nú er, heldur t.d. komizt í 500, eða rétt hærra en í síðustu styrjöld, og auðvitað væri kaupgjaldið og afurðaverðið í réttu samræmi.

Hvað skeður þá?

Það, sem skeður, er þetta: Þegar tekjur ríkissjóðs bregðast, en jafnframt hlaðast á hann nýjar kvaðir og skyldur, þá lækkar Alþ. á einni kvöldstund með einni lagabreyt. dýrtíðaruppbætur embættis- og sýslunarmanna úr 400% í 300°% — 200% eða 100%, eftir því sem fjárhagur ríkissjóðs krefst. Í kjölfarið og fast á eftir sigla ríkisstofnanir, verzlanir, sem viðskiptin missa, framleiðendur, sem þola verða markaðsmissi verðfall o.s.frv. Verkalýður til lands og sjávar mótmælir. verkföll og verkbönn neyta átaka og afls. Kannske lækkar tímakaupið lítið, en tímunum fækkar, atvinnan minnkar. Atvinnuleysið heldur innreið sína með sult og seyru sitt til hvorrar handar.

Þetta er það, sem koma mun, ef barátta Sjálfstfl. og Framsfl. gegn dýrtíðinni yrði brotin á bak aftur.

Sækist nokkur eftir þessu? Hver er sá, er vill skipta á þessu og því að spyrna nú við fæti, stöðva dýrtíðina, una sínu, festa gildi þeirra peninga, sem þjóðin með áratuga striti hafði eignazt og nú óvænt og sumpart óverðskuldað hafa aukizt meir en nokkrar vonir stóðu til, tryggja verðgildi sparifjár og líftryggingarfjár, og vígbúast þannig á öllum sviðum gegn þeim óhemju örðugleikum, er óhjákvæmilega bíða okkar sem annarra þjóða á sviði atvinnu- og fjármálalífsins að ófriðnum loknum?

Hver þorir að segja, að hann vilji þetta?

Enginn.

En kommúnistar vilja það. Þeir skilja, hvað í vændum er, ef þjóðin æðir áfram í gullleit og gróðavímu á feigðarbraut vaxandi dýrtíðar. Þeir sjá hrunið, sem þá bíður Íslendinga, verðleysi peninganna, afnám eignarréttar, upplausn sjálfs þjóðskipulagsins.

Það er þetta, sem þeir vilja. Þess vegna berjast þeir fyrir dýrtíðinni. Þess vegna mundu þeir hlakka eins og hrafnar yfir hræi, ef ríkisstjórnin yrði að lúta í lægra haldi í baráttunni gegn dýrtíðinni.

En Alþýðuflokkurinn? Villist honum sýn um, hvað í vændum er?

Eða er það þetta, sem hann vill?

Við skulum spyrja hann sjálfan. Rödd Alþfl. hefur oft kveðið við í þessu máli. Talsmaður flokksins, Jón Blöndal hagfræðingur, hefur fyrr og síðar sagt frá skoðun flokks síns í því. Af mörgu, sem hann fyrir flokksins hönd hefur um þetta sagt, mun ég aðeins rifja tvennt upp. Hið fyrra er skrifað í Alþýðublaðið í- árslok I940 og hefur nýlega verið gert að umræðuefni. har segir Jón Blöndal:

„Ég vil halda því fram, að engin stétt geti til lengdar grætt á því verðhækkunarkapphlaupi, sem hér hefur verið háð undanfarið. Máske getur sá gróði enzt fram yfir næstu kosningar, en óvíst, að það verði miklu lengur. Haldi verðhækkunarskrúfan áfram, leiðir hún óhjákvæmilega til þess, að framleiðslukostnaðurinn hækkar, atvinnuvegirnir hætta á ný að ber sig, þeir, sem nú græða, fara að tapa, og hrunið blasir við fyrr en menn kann að óra fyrir nú“. Þetta sagði Jón Blöndal þá.

Alveg nýverið hefur svo hagfræðingurinn Jón Blöndal, ekki Alþýðuflokksmaðurinn, sagt álit sitt af nýju. Í greinargerð varðandi skyldusparnað, sem hann ásamt hagstofustjóra og Ólafi R. Björnssyni hagfræðingi hefur sent ríkisstjórninni og dagsett er 10. f. m., segir meðal annars:

„Þeir, sem fyrst og fremst verða fyrir barðinu á verðbólgunni, eru fólk, sem á peningakröfur, svo sem sparifjáreigendur, eigendur peningakrafna á hendur einstaklingum o.s.frv. Þeir, sem aftur á móti græða á verðbólgunni, eru atvinnurekendur,“ segir Jón Blöndal. Þennan gróða af verðbólgunni athuga svo hagfræðingarnir nánar- og komast að þessari niðurstöðu:

„En haldi verðbólgan hér á landi áfram, hlýtur gengislækkun að verða óumflýjanleg fyrr eða síðar, en hún mundi koma af stað nýrri dýrtíðaröldu.“ —. „Þegar verðbólgan hefur náð vissu stigi, skapast hætta á því, að kapphlaup verði um þær vörur, sem á boðstólum eru, þar eð allir vilja reyna að koma peningum sínum í vörur, áður en kaupmáttur þeirra minnkar meir. Skapast þá hætta af vöruþurrð. Algert verðhrun peninganna mundi líka sennilega skapa slíkt öngþveiti í atvinnulífinu, að vafamát er, hvort það mundi ekki einnig í þágu atvinnurekenda, sem framleiða fyrir innlendan markað, eða þeirrar stéttar, sem líklegust er til þess að græða á verðbólgunni, að hún yrði stöðvuð, þannig að segja megi með enska hagfræðingnum Keynes, að ráðstöfunum gegn verðbólgunni megi líkja við umferðarreglurnar, þannig að þær séu til hagsbóta fyrir alla hlutaðeigendur:

Þannig talar Jón Blöndal nú í hópi hagfræðinga, þ.e.a.s. þegar hann segir það, sem hann meinar.

Hér lýsir Jón Blöndal prýðilega blóðferð verðbólgunnar. Ímyndaður gróði og töp. Gengisfall. Öngþveiti í atvinnulífinu. Niðurstaðan er að ráðstöfunum gegn verðbólgunni megi líkja við umferðarreglur, þannig að þær séu til hagsbóta fyrir alla hlutaðeigendur.“ Með öðrum orðum, Jón Blöndal segir: Það er jafnnauðsynlegt að stöðva verðhækkunarskrúfuna, festa grunnkaup og afurðaverð — eins og ríkisstjórnin hefur nú lagt til að gert verði — sem það að setja umferðarreglur í mannmargri borg. Sé þetta ekki gert, þ.e.a.s. ráði þeir, sem berjast gegn gerðardómsl., þar á meðal fyrst og fremst Alþfl., tapa fyrst sparifjáreigendur, gamalmenni, ekkjur og munaðarleysingjar, en síðan skapast öngþveiti, sem allir tapa á.

Þannig mælir þessi framsögumaður Alþfl. í fjármálum. Að þetta er einnig skoðun Alþfl., vita allir, sem til þekkja. En það sannast m.a. af því, að um svipað leyti lýsti einn af aðalleiðtogum Alþfl., Jónas Guðmundsson, því í Alþýðublaðinu, hvernig fara mundi, ef stjórnina brysti kjark til að berjast gegn dýrtíðinni. Hann komst þannig að orði:

„Þegar stríðinu loks lýkur og allt fer aftur að lækka, verður kaupgjaldið, húsaleigan og verð á innlendum afurðum í algerðu ósamræmi við afurðaverð það á erlendum markaði, sem þá fæst, kyrrstaða og ný kreppa steðjar að atvinnulífinu, og sama sagan, sem við höfum þekkt síðustu 10 árín, endurtekur sig.“ — „En framkvæmd þessara mála þarf að vera sterk og örugg, og engin undanbrögð mætti leyfa neinum. Þjóðinni er skylt að bera sameiginlega byrðarnar, og sá, sem ætlar þar undan að svíkjast. ætti að gjalda þess grimmilega.“ — „Það haf, áreiðanlega oft verið sett bráðabirgðalög hér á landi af ekki brýnni nauðsyn en hér er nefnd og af minna tilefni.“ Svona talar þessi aðalforvígismaður Alþfl.

Þessi hlið málsins er útrædd. Hér er ekkert um að villast. Alþfl. veit, eins og allir aðrir, að vaxandi dýrtíð færir ógn og öngþveiti yfir alla, en þó bitnar bölvun sú fyrst og mest á sparifjáreigendum og þeim, er aðrar peningakröfur eiga, og launamönnum öllum.

Barátta Alþfl. gegn ríkisstjórninni í þessu máli er því eigi aðeins barátta gegn réttum og góðum málstað, heldur og barátta gegn betri vitund.

En hvers vegna gerist Alþfl. sekur um slíkt athæfi? Hvers vegna ræðst Alþfl. gegn augljósum hagsmunum almennings? Hvers vegna vegur Alþfl. þyngst að þeim, sem hann þykist vilja vernda?

Spyrjum Jónas Guðmundsson.

Hann segir í áðurnefndri grein um nauðsyn á útgáfu bráðabirgðal. til að stöðva vöxt verðbólgunnar:

„Það skal játað, að það þarf nokkurt hugrekki til þessara framkvæmda.“

Mundi þetta ekki vera svarið? Það stóðu fyrr dyrum bæjarstjórnarkosningar. M.a. vegna ákveðinnar synjunar prentsmiðju Alþfl. á því að verða við kaupkröfum prentara skalt á prentaraverkfall. Þessi prentsmiðja Alþfl. hafði skriflega heitið að halda hópinn með öðrum prentsmiðjum. Þegar verkfallið var riðið yfir, sveik hún það heit og hefur nú verið dæmd fyrir. Þar með tryggði Alþfl. tvennt. Í fyrsta lagi að geta sjálfur gefið út blað. Í öðru lagi, að aðrir flokkar gætu ekki gefið út blað.

Jafnframt afneitaði ráðh. alþfl. sinni eigin og flokksins fortíð og skoðunum í höfuðnauðsynjamálum þjóðarinnar, dýrtíðarmálunum, skarst úr leik og sagði sig úr ríkisstjórninni. Þannig sveik Alþfl. gefin heit um að berjast gegn hækkun á grunnkaupi. Hann setti sig í þess stað sjálfan í fararbrodd fyrir verkföll og óreiðu og notaði illa fenginn einkarétt til blaðaútgáfu eftir fremstu getu til árása á ríkisstjórnina út af viðleitni hennar til að stöðva dýrtíðina. Hann lagðist á sveif með kommúnistum í baráttunni gegn hagsmunum launastéttanna, gegn hagsmunum sjúkra, gegn hagsmunum gamalla og munaðarlausra, í baráttunni fyrir öngþveiti í þjóðfélaginu.

Þetta er það, sem Alþfl. gerði. Allt þetta. Og hvers vegna ?

„Það þarf hugrekki“, sagði Jónas Guðmundsson. Kosningar stóðu fyrir dyrum. Bæjar- og sveitarstjórnarkosningar og þingkosningar. Í mörg ár hefur Alþfl. verið brýndur á því, að hann væri deyjandi flokkur. Nú var komið að kosningum, að dómsdegi. Alþfl. víssi, hver dómurinn yrði. Hann brast hugrekki til að hlýða á þann dóm. Í örvinglan kastaði hann öllu fyrir borð, eigin fortíð í málinu, skoðun sinni, velferð umbjóðenda sinna og hagsmunum alþjóðar, allt í því sama skyni að reyna að rétta bardagann, reyna að afla sér kjörfylgis á kostnað alþjóðar. Silfurpeningarnir urðu að vísu nokkrir, Júdasarlaunin einhver. Alþfl. fékk skárri kosningaúrslit í kaupstöðum landsins en hann áður hafði gert sér vonir um.

En nú er aftur komið að skuldadögunum. Nú eru svikin komin í dagsins ljós. Nú veit Alþfl., hvað bíður hans. Nú mundi Alþfl. einskis fremur óska en þess að hafa átt dálítið meira hugrekki, þegar gerðardómsl. voru sett, því að nú brestur hann hugrekki til að horfast í augu við dóm þjóðarinnar yfir þeim svikum, sem hann þá framdi, ofan á allt annað.