11.03.1942
Neðri deild: 17. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í B-deild Alþingistíðinda. (276)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

Stefán Stefánsson:

Herra forseti ! Þar sem ég er einn meðal hinna fáu bænda, sem sæti eiga á Alþ., tel ég mér skylt að fara nokkrum orðum um verðlag landbúnaðarafurða og kaupgjald í því sambandi.

Oft hafa verið nokkur brögð að því, einkum þó frá því er ófriðurinn hófst, að menn hafi ráðizt bæði í ræðu og riti allharkalega á verðlag landbúnaðarafurða. Það hefur verið talið allt of hátt, svo hátt, að óverjandi væri, og væri sízt ástæða til þess af neytendum að láta bjóða sér slíkt.

Er því fram haldið, að verð á afurðum landbúnaðarins eigi mestan þátt í hinni vaxandi dýrtíð, og frá því er ófriðurinn hófst, hafi verðlag á þeim hækkað meira en kaupgjald í landinu. Bændur hljóti því að vera orðnir stórgróðamenn.

Að sjálfsögðu vilja neytendur fá afurðir landbúnaðarins við sem vægustu verði, svo sem aðrar vörur, sem hafa þó í mörgum tilfellum stigið til jafns við þær eða meira. En svo virðist sem neytendur sjái ekkert nema afurðir landbúnaðarins.

Blöð hinna pólitísku flokka hafa haldið uppi áróðri um þetta mál. Einkum hefur Alþýðublaðið upp á síðkastið gengið þar fram fyrir skjöldu.

Blöð Framsfl. birta þó engar óánægjugreinar. Til þess eru þau of hyggin, enda þótt þeir neytendur, sem fylgja þeim flokki, séu engir eftirbátar annarra í því að bölsótast yfir hinu háa verði á afurðum landbúnaðarins. Halda þau hins vegar drjúgum á lofti aðfinnslum annarra blaða. Þeir vita, hvað við á, framsóknarmenn.

Um verðlag á landbúnaðarafurðum miðað við kaupgjald er rétt að geta þess, að sé miðað við ófriðarbyrjun, hefur verðlag þeirra hækkað meira hlutfallslega en kaupgjald, og er þá hvort tveggja miðað við Reykjavík. En þessi staðreynd er fjarri því að vera nokkrir sönnun þess, að ver ð landbúnaðarafurða sé of hátt.

Til þess að finna, hvort svo sé, verður að leita nokkuð aftur í tímann, en þó jafnframt að miða við núverandi ástand.

Hvert var hlutfall milli afurðaverðs landbúnaðarins og kaupgjalds árið 1914, og hvernig er hlutfallið nú miðað við sama tíma?

Menn munu spyrja: Hvers vegna að taka þetta ár til samanburðar?

Vegna þess, að þá var verðlag eðlilegt, atvinnulíf var heilbrigt, óraskað af völdum gengisbreytinga og styrjalda.

Jafnvægi, er skapazt hafði milli kaupgjalds og verðlags, raskaðist á ófriðarárunum, og allt fram til ársins 1939 hafði jafnvægi eigi skapazt af nýju, og svo er enn.

Kaupgjald verkamanna í Reykjavík er enn þá allmiklu hærra hlutfallslega en verðlag á kjöti og mjólk miðað við árið 1914. Verð ég að fara hér með nokkrar tölur þessu til sönnunar.

Árið 1914 var kaup verkamanna í Reykjavík kr. 0.40 á klukkustund. Heildsöluverð á dilkakjöti. var þá kr. 0.58 á kg, og verð á mjólk kr. 0.22 á lítrann. Verkamaðurinn var því tæplega hálfa aðra klukkustund að vinna fyrir einu kg af kjöti, en rúmlega hálfa klukkustund að vinna fyrir einum lítra af mjólk.

Nú er verkamannskaup í Reykjavík kr. 2.65 á klst. Heildsöluverð á dilkakjöti var síðastliðið haust kr. 3.20 á kg og verð á mjólk kr. 0.92 á lítrann. Nú er því verkamaðurinn hér um bil 1 klst. og 13 mínútur að vinna fyrir einu kg af kjöti, eða nokkru skemur en árið 1914. Hins vegar er hann aðeins rúmar 20 mínútur að vinna fyrir einum lítra af mjólk, eða um þriðjungi skemmri tíma en árið 1914. Árið 1914 var því verkamaðurinn rúmlega klst. að vinna fyrir 2 lítrum af mjólk, en árið 1942 er hann rúmlega klst. að vinna fyrir 3 lítrum af mjólk.

Frá 1914 hefur heildsöluverð á dilkakjöti hækkað úr kr. 0.58 á kg í kr. 3.20 á kg, eða um 552%.

Frá 1914 hefur mjólk hækkað úr kr. 0.22. í kr. 0.92 á lítrann, eða um 418%.

Frá 1914 hefur kaup óbreyttra verkamanna í Reykjavík hækkað úr kr. 0.40 á klst. í kr. 2.65 á klst., eða um 663%.

Hefði heildsöluverð á dilkakjöti og útsöluverð á mjólk hækkað hlutfallslega jafnmikið og kaupið frá 1914, þá væri verð þessara vörutegunda nú:

Heildsöluverð á kjöti kr. 3.84 á kg í stað 3.20, og verð mjólkur kr. 1.46 á lítrann í stað kr. 0.92. Bændur hafa eigi enn þá fengið leiðrétta þá röskun, er varð á kaupgjaldi og verðlagi landbúnaðarafurða eftir 1914. Þeir eiga kröfu á að fa þá röskun leiðrétta.

Kaupstaðabúum er kunnugt um flótta bændanna úr sveitum landsins nú og undanfarin ár. Ber hann vitni um gróða hjá bændum? Er vanalegt, að menn hlaupi frá þeirri atvinnu, sem arðvænleg er og veitir góðar tekjur? Til þess geta verið einhverjar sérstakar ástæður, en almennt er það ekki.

En einhleypa fólkið, hvers vegna flýr það sveitirnar? Ég geri ráð fyrir því, að þeir, sem mest tala um gróða bænda, segi það stafa af því, að bændur tími ekki að greiða því kaup. Getur verið, að slík dæmi séu til, en almennt er það ekki heldur.

Hið sanna í þessum málum er það, að flóttinn byggist fyrst og fremst á því, að landbúnaðurinn er eigi og hefur eigi verið samkeppnisfær við aðrar atvinnugreinar um kaupgreiðslur, hvorki um kaupgjald húsbænda né verkafólks.

Fyrst þegar það er tryggt, að þeir, sem stunda landbúnað, hvort sem þar er að ræða um húsbændur eða verkafólk, fái sambærilegt kaup við aðrar stéttir þjóðfélagsins, þá er einhver von til þess, að flóttinn stöðvist.

Mér er það vel ljóst, að ýmsir íslenzkir bændur, sem vel eru í sveit settir og þar sem aðrar aðstæður eru góðar, hafa bætt hag sinn undanfarin 2 eða 3 ár. En nú er mikið talað um stríðsgróða og það, að margir bæti hag sinn og safni fé, þar á meðal launamenn, eða réttara sagt verkamenn, því að um gróða hjá opinberum starfsmönnum, sem oft eru kallaðir launamenn, er eigi að ræða. Hvers vegna mega þá bændur eigi einnig hagnast? Er það einhver goðgá, að bændur grynni á skuldum eða safni einhverju fé, þeir sem skuldlausir eru? Slíkt ætti að vera öllum kaupstaðabúum, öllum landsmönnum mesta fagnaðarefni.

Því meira verð, sem neytendur greiða fyrir afurðir landbúnaðarins, því meira bera bændur úr býtum.

Eyfirzkir bændur fengu á síðastliðnu ári kr. 0.46 fyrir hvern lítra meðalmjólkur, og er þá auðvitað ógreiddur allur kostnaður við framleiðsluna, einnig flutningskostnaður. Meðalútsöluverð mjólkurinnar var kr. 0.51 á hvern lítra.

Miðað við útsöluverð var þetta ágæt útkoma og framkvæmdastjóra samlagsins, Jónasi Kristjánssyni, til sóma. En ekki skal farið út í það hér, hvort útsöluverð mjólkurinnar hefur verið nógu hátt eða of hátt. Það er aðeins hægt að fullyrða, að þrátt fyrir 46 aura verð á hvern lítra mjólkur er langt frá því, að eyfirzkir bændur séu samkeppnisfærir um kaupgreiðslur við aðrar atvinnugreinar. En eigi landbúnaðurinn að eiga einhverja framtíð, þarf svo að vera.

Meðalútsöluverð mjólkur hér í Reykjavík mun s.l. ár hafa verið hér um bil fjórðungi hærra en á Akureyri. Eigi er enn vitað, hvað bændur fá, en ýmsir kunnugir draga það nokkuð í efa, að það muni verða meira en í Eyjafirði. Ef sú verður reyndin á, er ekkert undarlegt, þótt sunnlenzkir framleiðendur dragi það í efa. að öll framkvæmd mjólkurl. hér sé svo sem vera ætti, og þá jafnframt það, að eigi mætti koma henni í betra og hagkvæmara horf.

Það virðist óneitanlega dálítið undarlegt, að þeir, sem telja sig til hinna útvöldu málsvara launastéttanna hér á Alþ., svo sem hv. þm. Seyðf. og Ísaf., skuli telja það eitt helzta ráðið í dýrtíðarmálunum að koma í veg fyrir einhvern ímyndaðan stórgróða bænda. Þeir tala mikið um það hér á þingi, að hlutur bænda sé dreginn fram á kostnað annarra stétta, að afurðaverð bænda sé á undan tilkostnaði, að fulltrúar bænda á Alþ. haldi áfram að fita dýrtíðarpúkann á fjósbitanum hjá bændum o.s.frv. Svo leyfa menn þessir sér að tala um málefni, sem þeir eru með öllu ókunnugir og bera ekkert skyn á. Framhleypni ein ræður orðum þeirra og gerðum. Blað þessara manna sagði t.d. á síðastliðnu ári, að það væri til hagsbóta einum stjórnmálaflokki, að bændur flosnuðu ekki upp í sveitum landsins. Eftir því skiptir það þjóðfélagið í heild engu, þó að sveitirnar leggist í auðn.

Nú má ætla, að margur spyrji: Hver er hugur þessara manna til sveitanna og landbúnaðarins? Vilja þeir koma íslenzkum landbúnaði fyrir kattarnef ? Eigi ætla ég þeim svo illt. En árás þeirra á landbúnað og bændur byggist á tvennu: fáfræði og kjósendaveiðum. Eigi þó kjósendaveiðum meðal bænda, heldur meðal launamanna. En lágt er lotið vegna flokkshagsmuna, og meira en vafasöm mun uppskeran verða.

Ég vildi nú taka mér það bessaleyfi f. h. þessara manna, sem gegna mörgum opinberum störfum, að fara þess á leit við hæstv. ríkisstj., að hún gerði hvort tveggja í senn, leysti þá frá störfum og útvegaði þeim land til nýbýlagerðar eða jarðir til ábýlis. Á þann hátt geta menn þessir sannfærzt um stórgróða bænda. Báðir eru menn þessir vanir háum tölum bæði í sínu eigin reikningshaldi og þeirra stofnana, sem þeir eru við riðnir. Kemur það sér vel, þegar þeir fara að gera upp búreikningana og stórgróðann. Búreikningaáhuga sinn hafa menn þessir hvað eftir annað opinberað hér á Alþingi.

En vera má, að þeir menn, sem reka áróður um stórgróða bænda og fullyrða jafnvel, að lækka eigi afurðir þeirra til þess að minnka gróðann, fái einu áorkað, og er þá eigi til einskis barizt. Ef til vill flykkjast launastéttirnar upp í sveit til þess að verða þátttakendur í hinum mikla bændagróða.

En vilja nú eigi þessar stéttir reikna út stórgróðann sjálfar? Því að eigi er rétt að taka of mikið mark á útreikningi eða skrumi þm.

Samkvæmt upplýsingum búnaðarmálastjóra á þingi í haust er meðalbú á Íslandi 3 kýr og 75 ær. Hvar halda menn, að sé að finna stórgróðann, þá búið er að klæða og fæða heimilið, greiða skatta og skyldur, vexti af skuldum eða fé því, sem bundið er í jörð og búi, kaupgjald o.fl.?

Áróður þessara hv. þm. eru blekkingar einar, sem launamenn skulu varast að taka mark á. Aðeins vil ég skjóta því fram til launastéttanna, að þar sem menn þessir eru uppvísir að blekkingum um eitt mál, eru þeir þá eigi einnig reiðubúnir til þess í öðrum málum, t.d. í máli því, er hér er sérstaklega til umr.?

Það, að afurðir landbúnaðarins hafa hækkað meira hlutfallslega frá stríðsbyrjun en kaup verkamanna, byggist fyrst og fremst á því þrennu, að réttlæta varð gamalt ranglæti um kaup bænda til móts við kaup launamanna og gera varð ráðstafanir til þess að framleiðslan félli eigi í rústir vegna stórlega hækkaðs kaupgjalds og annars aukins tilkostnaðar.

Verðlagsnefndum landbúnaðarafurða er að skiljast það, að bændur hvorki þola né eiga að vera einhver olnbogabörn þjóðfélagsins.

Mér er það vel ljóst, að hagur verkamanna hefur víða verið mjög erfiður undanfarin ár vegna stopullar vinnu, eins og hagur bænda. En þegar kaupstaðabúar safna nú fé, launamenn einnig, hvers vegna mega þá bændur og aðrir, er framleiða matvæli í sveitum landsins, ekki bera eitthvað úr býtum líka?

Bændur og annað sveitafólk þola það ekki, að sveitirnar séu skoðaðar sem einhver hjáleiga kaupstaðanna og laun þeirra fyrir framleiðslu landbúnaðarafurða séu skömmtuð svo naumt, að einungis sé tekið tillit til hinna sárustu þarfa, um leið og kaupstaðirnir eða þeir, er þar búa, velta sér í peningum.

Sveitafólk muni eigi skorast undan að taka á sig byrðar þjóðfélagsins, ef þörf gerist, en það gerir jafnframt kröfu til þess að verða eigi með öllu afskipt, ef vel árar.

Landbúnaður á Íslandi á enga örugga framtíð, meðan það er eigi tryggt, að þeir, sem að honum vinna, hvort heldur eru húsbændur eða aðrir, beri eitthvað hliðstætt úr býtum og fólk þetta getur fengið við aðra vinnu. Trygging fyrir þessu er aðeins hægt að fá á einn veg, með réttu verðlagi á áfurðum landbúnaðarins.

Afurðirnar eru kaup sveitafólksins. Því verður að skoða verðlag þeirra á hverjum tíma, svo að öruggt sé, að þeir, er landbúnað stunda, beri eigi minna úr býtum fyrir störf sín en þeir, sem stunda aðra atvinnu með þjóð vorri.