13.04.1942
Neðri deild: 33. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í B-deild Alþingistíðinda. (370)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

*Frsm. meiri hl. (Bergur Jónsson):

Ég hef ekki ástæðu til að lengja frekar þessar umr. það hefur nú orðið nokkuð mikið málþóf í sambandi við þetta frv., og setti það frekar við um málflutning heldur en umr. á Alþ. Ég hef áður drepið á aðalatriði þessa frv. í framsöguræðu minni, og jafnvel hv. þm. Ísaf. hefur ekki hrakið eitt einasta atriði. Hann flutti 21/2 tíma langa ræðu á þeim dögum og kom þar með ýmsar spurningar bæði til mín og hæstv. viðskmrh. En að hann kæmi nokkuð nálægt því, sem ég hef sagt, það heyrði ég ekki. Ég vil aðeins geta þess, út af fyrirlestri hv. þm. A.-Húnv., að hv. þm. flytur slíka fyrirlestra á hverju þingi, án þess að þm. kæri sig um. Ég hef ekki ástæðu til að svara spurningum hv. þm. Ísaf., sem hann beindi til mín, því að hæstv. viðskmrh. hefur þegar svarað þeim. Ég vil þó geta um eitt atriði, sem sýnir, hve hv. þm. stendur höllum fæti í þessum málflutningi sínum. Hann varði fjórða hluta af ræðutíma sínum til að tala um nafnið á stofnun þeirri, sem samkv. brbl. á að gefa úrskurði í þessum málum. Ég skal fúslega játa, að það, sem hv. þm. sagði, er að mestu leyti rétt, hvað þetta atriði snertir. Það eru til tvenns konar gerðardómar, fræðilega séð. Annar er nefndur félagsdómur, og hann er samningur milli manna, ef ágreiningur rís, um, að aðilar skuli tilnefna jafnan fjölda manna í dómstól, en óhlutdrægur aðili nefnir oddamann. Aftur á móti er til lögþvingaður gerðardómur, sem settur var 1938, og þar nefna deiluaðilar einnig dómsaðila, en hæstiréttur tilnefnir oddamann. Ég fyrir mitt leyti hef ekkert á móti því, að nafninu á þessum gerðardómi yrði breytt og hann kallaður „verðlagsdómstóll“ eða því um líkt, einkum ef nafnbreytingin hefði þau áhrif, að hv. þm. Ísaf. yrði málinu fremur fylgjandi. (iðrum spurningum hv. þm. held ég, að hæstv. viðskmrh. hafi svarað. En það er einkennilegt og þó afsakanlegt, að hv. þm. skuli ganga fram — hjá einu atriði í ræðu minni, þar sem ég talaði um framkomu þessa hv. þm. nú fyrir 3 árum. Við skulum nú athuga fortíðina hjá þessum hv. þm.; en fortíðin getur verið hættuleg fyrir suma stjórnmálamenn, og það. virðist hún vera í þessu tilfelli. Þskj. 119 frá 1939 er frv. til l. um gengisskráningu og ráðstafanir í því sambandi, og einn af flm. þess er hv. þm. Ísaf. Með þessu frv. var ákveðið að lækka gengi íslenzku krónunnar, með þeim afleiðingum, að kaup launastéttanna í landinu lækkaði um 22%. Þetta flytur hv. þm. Ísaf. 1939, en nú kallar hann það kúgunarlög, að dómstóll skuli eiga að úrskurða í þessum málum og grunnkaup megi ekki hækka. Nú er hér ekki talað um kauplækkanir eins og þá, auk þess, sem hér er ætlazt til, að greidd verði full dýrtíðaruppbót í samræmi við vísitöluna. Ég ætla að lesa hér upp úr 3. gr. þessa frv. á þskj. 119 frá 1939, með leyfi hæstv. forseta:

Á sama tíma er óheimilt að hækka kaup fastra starfsmanna við fyrirtæki einstaklinga, félaga, ríkis, bæjar- og sveitarfélaga, nema ákveðið sé í lögum eða það falli undir ákvæði 2. gr.

Með öðrum orðum : hv. þm. Ísaf. gengst inn á að lögfesta launalækkun, sem í frv. fólst. Það voru þá til menn, sem kölluðu frv. þetta kúgunarlög, þegar umr. fóru fram um það. Það getur verið, að aðstaðan hafi verið önnur 1939 en nú, en þá var um að ræða geysilegt atvinnuleysi hér á landi, og fjöldi verkamanna hafði ekkert að gera. En nú hefur aftur á móti hver maður, sem nokkuð getur, nóga atvinnu allt árið. Ég veit ekki, hvað hv. þm. Ísaf. vill láta kalla þessi lög frá 1939, fyrst hann kallar lögin um gerðardóminn þrælalög og kúgunarlög, þar sem heimiluð er fullkomin dýrtíðaruppbót og gerðar eru víðtækar ráðstafanir til að halda verðlaginu niðri. Ef til vill er hægt að gefa þá akýringu á framferði hv. þm., að 1939 stóð til, að mynduð yrði þjóðstjórn og einn ráðherranna átti að vera úr flokki hv. þm. Ísaf. Ætli þetta sé ekki skýringin? En nú stendur öðruvísi á. Einmitt þegar fjórir ráðherranna urðu sammála um ráðstafanir gegn dýrtíðinni, hljóp ráðherra Alþfl. úr ríkisstjórninni. Ég held, að betra væri fyrir hv. þm. Ísaf. að athuga fortíð sína, áður en hann viðhefur stór orð um þessar ráðstafanir, sem hér er verið að gera.

Hv. þm. hefur vísað til dýrtíðarinnar í Þýzkalandi og sagt, að þar sé nú annað viðhorf, þar sem dýrtíðin hafi aðeins aukizt um ö stig, en hér sé hún komin upp í 83 stig. Hv. þm. hrósar mjög verðlagsráðstöfunum Þjóðverja, en hann talar ekki um kaupgjaldsráðstafanir þeirra. Hvernig ætli sé með verkfallsréttinn og mannréttildi verkamanna í þeim löndum, sem nazistar stjórna? Hvað er þar gert við menn sem gera verkföll? (FJ: Það sama og hér.) Annað er nú að heyra á Alþýðublaðinu, og það getur verið, að hætt sé að skjóta menn fyrir að sýna mótþróa við yfirmenn sína. Allir vita, að eftir síðasta stríð sultu menn í Þýzkalandi heilu hungri. Bæði höfðu þeir lítið til að kaupa fyrir og svo var mikill skortur á matvælum: Það getur skeð, að þeim líði betur núna af þeim ástæðum, að þeir hafa hertekið mörg lönd, sem höfðu gnægð matvæla. Eru það kannske einhverjar slíkar ráðstafanir, sem þessi hv. þm. vill láta gera hér? Ég vil biðja hv. þm. að gefa upplýsingar um, hvaðan hann hefur þessa heimild um dýrtíðina í Þýzkalandi. Veit hv. þm. Ísaf., hvernig mönnum líður yfirleitt í Þýzkalandi? Hvað er þar um verkfallsréttinn og mannréttindin yfirleitt? Það væri mjög æskilegt, ef hv. þm. Ísaf. gæfi upplýsingar um það.

Yfirleitt virðist tilgangurinn með ræðum hv. þm. Ísaf. og hv. 4. þm. Reykv. vera sá að þæfa þetta mál og tefja fyrir því. Hv. þm. Ísaf. sagði í sinni löngu ræðu, að venjan væri sú, þegar slík mál kæmu í Alþ., að senda þau viðkomandi aðilum til umsagnar. Ég vil benda hv. þm. á það, að þar sem hann klauf n. þegar á fyrsta fundi hennar um þetta mál, hefur meiri hluti n. unnið út af fyrir sig, leitað umsagnar, þar sem hann þurfti, þegar hann tók sínar ákvarðanir. Hv. þm. veit ekkert um, hve mikla vinnu meiri hl. hefur lagt í frv., og það kemur ekki í ljós, fyrr en brtt. koma fram við 3. umr. Ég býst við, að þá muni hv. þm. Ísaf. halda nýja tveggja daga ræðu, en hvort margir muni hlusta á hana, veit ég ekki, eri eftir reynslunni geri ég ekki ráð fyrir því, að þeir verði margir.