27.04.1942
Neðri deild: 42. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í B-deild Alþingistíðinda. (385)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

*Frsm. meiri hl. (Bergur Jónsson):

Það eru hér brtt. á tveimur þskj., sem meiri hl. allshn. hefur borið fram við frv. Þessar brtt. eru ekki allar mjög varðandi efni málsins. Í 1. brtt. er ætlazt til að komi 2 nýjar gr. í frv., og þær lúta eingöngu að því að setja ákvæði í frv. um starfshætti þeirrar stofnunar, sem gert er ráð fyrir. að stofnuð verði, gerðardómsins. Við 5. gr. er önnur brtt. Þar er ætlazt til, að inn í frv. komi ákvæði um, að gerðardómurinn skuli staðfesta allar breytingar á kaupi og kaupsamningum, sem greitt var á árinu 1941. Í 4. brtt. eru nokkkuð miklar efnisbreytingar. Þar er lagt til að leggja niður núverandi verðlagseftirlit á erlendum vörum og fá starf þeirra í hendur gerðardómnum svo nefnda. Auk þess á hann að hafa úrskurðarvald um innlendar framleiðsluvörur, en getur krafið þær nefndir, sem um þau mál fjalla„ um till. þeirra. Sem afleiðing af þessum breyt. koma inn í lögin ákvæði í samræmi við lög, sem gilda nú um verðlagseftirlit. Skulu þau lög falla úr gildi, meðan þessi lög gilda, eða til ársloka 1942. Ákvæði bráðabirgðalaga um hámarksverð og hámarksálagningu munu haldast fyrst um sinn, þar til sett hafa verið ný í þeirra stað. Ég hygg, að með þessu fyrirkomulagi geti orðið sterkara verðlagseftirlit og betur séð fyrir því aðalatriði frv. að halda sem mest í hemilinn á verðlaginu. Þá höfum við borið fram till. um að breyta nafninu á þessum dómi, sem á að kveða upp úrskurð í kaupgjalds- og verðlagsmálum. Er þessi till. í samræmi við það, sem ég sagði við 2. umr. málsins, að ekki væri réttnefni að kalla dóm þenna gerðaldóm, þar sem um ríkisskipaðan dóm er að ræða. Þeir dómstólar eru venjulega kallaðir gerðardómar, þar sem aðilar hafa rétt til að nefna dómarana, hvort sem þeir neyta þess réttar eða ekki. Höfum við lagt til, að dómur þessi verði nefndur dómnefnd.

Við getum ekki mælt með því, að brtt. hv. 5. þm. Reykv. verði samþ. 1. brtt. gæti vel staðizt, þrátt fyrir brtt. okkar, en hún er að láta hæstarétt skipa menn í dómnefndina, sem ég kalla svo. Hér er ekki um stórvægilegt atriði að ræða, og gæti vel hugsazt, ef hæstiréttur hefði skipað menn þessa í upphafi dómnefndarinnar. En þar sem ríkisstjórnin hefur einu sinni gert þetta og enginn sérstakur ágreiningur risið út af vali hennar, er ekki ástæða til að breyta þessu, þar sem frv. er ekki ætlað að gilda svo langan tíma. Annars koma brtt. þessa hv. þm. í bága við okkar brtt., eins og ég gerði grein fyrir við 2. umr.

Ég vil, áður en ég skil við málið, skýra afstöðu mína til þess. Með því að láta dómnefndina, sem ég vil kalla svo, taka í sínar hendur verðlagseftirlit með innlendum og erlendum vörum, eins og fram kemur í brtt. meiri hl. allshn., þá tel ég, að einfaldara og virkara eftirlit skapist. Vegna þekkingar minnar á því, að mál þessi yrðu á þann hátt í höndum samvizkusamra manna, tel ég verðlagseftirlitinu eftir atvikum vel borgið á þann hátt. Mér dettur ekki í hug að neita því, að þetta frv. sé engin allsherjarbót á dýrtíðinni, en það ætti að geta gert mikið gagn. Frv. hefur verið kallað kúgunarlög og þrælalög, vegna þess að sérstakur dómstóll á að hafa úrskurðarvald í kaupgjalds- og verðlagsmálum og bann sett við verkföllum. En ég tel slík ummæli mjög fjarri sanni, og munu þau vera sett fram í áróðurs- og æsingaskyni. Ég er sannfærður um, að þegar greindir menn láta sér slík ummæli um munn fara, eins og hv. þm. Ísaf., þá meina þeir ekkert með því, sem þeir segja. Ef séð er vel fyrir verðlagseftirlitinu, er sjálfsagt að halda þeirri meginreglu að grunnkaup skuli ekki hækka, nema til lagfæringar og samræmingar, enda er það óþarfi, þar sem full dýrtíðaruppbót bætist við launin, eins og til er ætlazt. Þetta meginatriði frv. er svo ljóst og einfalt, að allir hljóta að skilja það, sem vilja. En það verður að athuga það, hvort frv. getur að þessu leyti náð tilgangi sínum og hvort því tekst að stemma stigu fyrir því kapphlaupi, sem þegar er orðið milli kaupgjalds og verðlags, sem verður undirrót vaxandi dýrtíðar. Ég býst við, að þetta gæti tekizt að sumu leyti með þessu ákvæði, ef vel er á haldið. En það verður að athuga eitt atriði í þessu sambandi. Þessi löggjöf getur orðið magnlítil eða jafnvel magnlaus, ef svo fer, að meginhluti vinnuafls —landsmanna verði hrifsaður til að starfa við hernaðaraðgerðir. Sumir halda því fram, að það sí. skylda þjóðar okkar að taka beinan þátt í hernaðarframkvæmdum. Ég álít, að hér sé um ranga skoðun að ræða. Það er skylda þess herveldis, sem hefur tekið að sér hervernd Íslands, að framkvæma landvarnir og allt, sem að þeim lýtur. Þeir hafa tekið þá skyldu á sínar herðar og reyna vitanlega að sjá fyrir henni, enda þeim miklu hægara heldur en okkar fámennu þjóð. En á óbeinan hátt mun þjóðinni bera skylda til þess að vinna einnig að þessu marki, vinna að því að sigur náist fyrir þau öfl í styrjöldinni, sem hún á mest undir komið og hún vill helzt, að sigri, en það getur hún ekki gert á neinn hátt betur en að beina orku sinni að aukinni framleiðslu til sjávar og sveita. Þar er um fullkomlega nægilegt verkefni að ræða, og það er það eina verkefni, sem þessi þjóð er virkilega fær um að inna af hendi. Menn verða að athuga afleiðingar þess, að mikið af vinnuafli þjóðarinnar fari frá framleiðslunni til annarra starfa. Hvar mundum við standa þá, ef siglingar til landsins tepptust? Á hverju ætti þjóðin sjálf og verndarar hennar að lifa, ef fólkið væri horfið frá framleiðslunni, þegar framleiðslan er meira og minna rýrnuð og meiri hluti fólksins kominn í að byggja flugvelli og aðra hernaðarvinnu? Þetta er atriði, sem rétt er að geta um í þessu sambandi, því að það er meginástæðan, sem kemur til greina, þegar rætt er um það, hvort það þýði að berjast móti dýrtíðinni, hvort hægt sé að halda áfram þeirri framleiðslu, sem rá að bjarga okkur frá hungri, ef svo skyldi fara, að landið yrði að meira eða minna leyti einangrað.