12.05.1942
Neðri deild: 56. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í C-deild Alþingistíðinda. (499)

78. mál, ábyrgð fyrir lánum til rafveituframkvæmda

*Eiríkur Einarsson:

Ég sé, að samkv. frv. þessu og brtt. þeim, sem fyrir liggja, eru komnar fram allmargar óskir, víðs vegar að af landinu, um heimildir til ábyrgðar fyrir lánum til rafveituframkvæmda, og tel ég ekki mitt hlutverk að gera þar á nokkurn hátt upp á milli. Þar sem margir hv. þm. hafa orðið til þess að óska eftir ábyrgðarheimild ríkisins fyrir þessum lánum, þá fannst mér sanngjarnt að fara fram á slíka heimild fyrir væntanlega rafveitu til Selfoss, Stokkseyrar og Eyrarbakka. Það mun vera óumdeilt, að rafleiðsluskilyrði eru þarna örugg fyrir hendi og fullnægja fjölda fólks. or rannsakað er til hlítar af fagmönnum ríkisins, að þessi rafveita muni bera sig. Frv. um rafveitu þessa mun hafa orðið að l. á Alþ. í dag, þ.e.a.s. rafveitu til kauptúnanna í þéttbýlinu austanfjalls. Selfoss, Eyrarbakka og Stokkseyrar. Ég skal taka það fram, að það er ekki víst, að þessi rafveita þurfi á slíkri heimild að halda, en yfirleitt er alltaf gott að hafa slíka ábyrgðarheimild frá ríkinu til staðar, ef til hennar þarf að taka. Þó að þessar tölur, sem hér liggja fyrir, séu samtals nokkuð háar fjárhæðir, þá finnst mér í rauninni ekkert ægilegt við það, þar sem um slíkt þjóðþrifamál er að ræða sem þessi rafveitumál. Ef brtt. mín verður færð í letur, þá geri ég ráð fyrir, að hún hafi til þess fullan rétt að fylgjast þarna með. Ég vil leyfa mér að tilkynna. með leyfi hæstv. forseta, að ég er hér með brtt. við frv., sem er búið að afhenda til prentunar. en er ekki komin úr prentun, og vil því leyfa mér að bera fram skrifl. brtt. við 1. gr., sem er á þessa leið: „og allt að 1 millj. kr. lán til rafveitufélags í Árnessýslu, til rafmagnsveitu frá orkuveri Sogsins til kauptúnanna og annars þéttbýlis í neðanverðri sýslunni.“ Ég vil taka það fram, að þar sem ég hef nefnt allt að 1 millj. kr., þá er það að vísu enginn hnitmiðun á því milli, þannig að það hefur engan möguleika í sér til þess að vera hnitmiðað. Ég hef í brtt. minni nefnt upphæð, sem gera má ráð fyrir, að sé rífleg. en það ætti ekki að koma að sök, þó að áætlað sé ríflega, heldur þvert á móti, því að ríkisstj. hefur það alltaf í hendi sér að veita ekki meira fé en nauðsynlegt er.

Ég vil þá leyfa mér að afhenda hæstv. forseta hina skriflegur brtt. mína.