04.05.1942
Efri deild: 48. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í B-deild Alþingistíðinda. (559)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti ! Ég skal segja það strax, að þetta mál, sem nú liggur hér fyrir til umr. og hæstv. viðskmrh. hefur gert nokkra tilraun til þess að reifa af hálfu ríkisstj., er það mál, sem kunnugt er um, að hefur valdið mestum deilum, ekki aðeins hér á hæstv. Alþ., heldur einnig almennt meðal þegnanna í þjóðfélaginu. Og það er því ekki óeðlilegt, þó að málið hafi verið mikið rætt í hv. Nd., að einnig verði um það nokkrar umr. hér í hv d. En það skal fram tekið, að ég geri þó ekki ráð fyrir, að umr. um málið breyti kannske neitt viðhorfinu, þegar farið verður að greiða atkv. um málið hér í þessari hv. d. En Alþtíð. verða þó ávallt fyrir eftirkomendurna til að fletta upp í um það, hvernig viðhorf einstakra þm. og flokka hefur verið til jafnmikils deilumáls eins og þess, sem hér er um að ræða, og ekki eingöngu í annarri hv. þd., heldur í báðum deildum hæstv. Alþ.

Það er ekki hægt að tala hér um þetta mál án þess að víkja nokkrum orðum að aðdraganda málsins. Og þó að þar verði stiklað á stóru, þá gefur það nokkrar upplýsingar um það, hvernig þetta mál hefur áður borið að og hver er raunverulega hinn rauði þráður og kjarni uppistöðu þess frá upphafi.

Það er kunnugt, að þegar fjárkreppan var komin í algleyming árið 1939, sem var farið að bóla á fyrir þann tíma, og talið var, að atvinnuvegir þjóðarinnar væru í svo mikilli yfirvofandi hættu, að til þjóðargjaldþrots mundi jafnvel horfa, þá var talað um það af ráðandi flokkum í þjóðfélaginu, að nú þyrfti að taka höndum saman, eins og það var kallað, til þess að bjarga því, sem bjargað yrði. Og lausnin á því máli varð sú, sem kunnugt er, að fella gengi íslenzku krónunnar. Og þá þótti rétt um leið, úr því að inn á þá braut var farið, að allir þeir flokkar, sem stóðu að því máli, mynduðu stjórn til þess að framkvæma þau l. Ég þarf ekki að fara mjög langt út í gengislöggjöfina hér. Hún var kannske hörð í garð sumra. M.a. þótti hún harðdræg í garð verkamanna fyrir það, að þeim var ekki ákveðin full uppbót á laun sin fyrir hvert stig, sem dýrtíðin mundi hækka í landinu. Og hún þótti harðdræg gagnvart innlendum framleiðendum, því að þeir fengu ekki meira uppbætt verð afurða sinna heldur en verðlagsvísitalan sagði til um samkv. þeim l. Hins vegar áttu þær ráðstafanir að skapa atvinnuvegum þjóðarinnar skilyrði til þess að geta haldið áfram til að firra þjóðina gjaldþroti og skapa verkalýðnum starf í hönd. En ella þótti synt, að atvinnuleysi ykist hröðum skrefum, eins og það var túlkað. Ég verð að láta þess getið hér, af því að ég var lítið hrifinn af þessum ráðstöfunum á sínum tíma, að upphaflega mun hugmyndin hafa verið sú, að verkalýðurinn fengi enga kaupuppbót, þrátt fyrir þá dýrtíð, sem verða kynni. Og m.a. þegar svo þótti horfa, taldi Alþfl.— á þeim tíma betra, að hann væri inni í málinu til þess að hafa þau áhrif á úrslit þess, að hagur verkalýðsins yrði ekki fyrir borð bor inn um að fá uppbót á launum sínum. Niðurstaðan varð þá sú, að þeir lægst launuðu fengu kaup sitt að hlutum upp bætt miðað við aukningu dýrtíðarinnar, en aðrir allt niður í það, sem svaraði helmingi af verðlagshækkuninni. Og þá var einnig bundið verðlagið á innlendu afurðunum, þannig að það átti að vera hægt og var hægt að halda dýrtíðinni niðri með þessum ráðstöfunum, sem gerðar voru þá, því að frá því í apríl 1939 og þangað til kom fram á haust s. á. hafði dýrtiðin vaxið mjög litið og ekki tilfinnanlega. Þessar ráðstafanir höfðu því haft þessi áhrif. En eins, og kunnugt er, brauzt styrjöldin út þá um haustið, og margt breyttist hér í þessu landi í sambandi við það. Það fór að hækka verð á útfluttum afurðum, og atvinnuvegirnir yfirleitt komust í það horf, að meira var um atvinnu og meira um gróða fyrir atvinnurekendur, sem gerði það að verkum, að fjör færðist í atvinnulífið. En þetta fer í raun og veru ekki fyllilega að koma í ljós fyrr en komið var fram á árið 19.10, þegar fiskverzlun okkar í Bretlandi fór ört vaxandi og sala á ísvörðum fiski hækkaði svo mjög sem raun varð á. Og hjá þeim fyrirtækjum sérstaklega, sem áttu skip eða seldu fisk, hrúguðust þá smátt og smátt upp miklar fjárhæðir, svo sem öllum er kunnugt. En þetta þoldu ekki framleiðendur landbúnaðarafurðanna, eða réttara sagt hinir pólitísku fulltrúar þeirra, er vildu einnig mega vera þátttakendur í kapphlaupinu um gróðann, sem var að myndast við sjávarsíðuna. Og út úr gengisl. var svo,. að mig minnir árið 1940, tekið það ákvæði, að verðlag á íslenzkum framleiðsluvörum skyldi fylgjast moð þeim ráðstöfunum, sem gerðar voru um kaupgjaldið í landinu. Og það er ekki vafi á því, að þessi stefna, sem við Alþfl.-menn urðum, því miður, að taka á móti, móti okkar vilja, þýddi það, að hér var búið að sleppa úr höndum sér kannske mjög þýðingarmiklu atriði í sambandi við að halda niðri verðlagi í landinu. Og reynslan varð þá líka sú, að í þessu kapphlaupi um gróðann töldu ráðamenn á því sviði að því er snerti landbúnaðarframleiðsluna alveg tvímælalausa nauðsyn á að hækka verð á landbúnaðarafurðum svo mjög sem alkunnugt er nú, en þá skapaði hækkun á öllu verðlagi, og kom það berlega fram í vísitölunni, sem þýddi aukinn stigafjölda og þar með vaxandi dýrtíð.

Eins og kunnugt er, var þessi binding á kaupgjaldinu, sem fólst í l. frá 1939, numin úr gildi með l. á þinginu 1940, þannig að það var frjálst fyrir verkamenn í hverri stétt, hvort sem þeir voru iðnaðarmenn, sjómenn eða aðrir, að semja á frjálsum grundvelli um kaup sitt og kjör upp úr áramótunum og 194I. Og ég vil undirstrika það, að í blaði bændanna, Tímanum, var lögð mikil áherzla á það, að það væri sjálfsagt, að verkamenn fengju að semja frjálst um kaup sitt, það væri ekki nema sanngirniskrafa, eins og allt væri í pottinn búið. Ég hef ekki þetta blað hér hjá mér nú, en hygg, að ég fari rétt með efni úr þessum skrifum blaðsins. En mér kom til hugar, þegar ég las þetta, að það væru einhver straumhvörf í skoðunum á þeim bæ. En samtímis var þá líka verið að spenna upp verðlagið á öllum innlendum framleiðsluvörum, sem hafði þær verkanir, að verkamenn til lands og sjávar voru neyddir til þess að biðja um kauphækkanir í einni og annarri mynd.

Nú er rétt að benda á, hvernig ástandið var um hið svo kallaða grunnkaup í byrjun þessa stríðs.. Því að það, sem hefur sérstaklega valdið deilunum í þessu máli, er hin svo nefnda grunnkaupshækkun hjá verkamönnum. Og mér hefur þótt kenna afskaplega lítils skilnings hjá þeim mönnum, sem um þetta mál hafa talað, á því ástandi yfirleitt, sem var hér í launamálum verkalýðsins víðs vegar á landinu. Því að kaup verkámanna var svo mismunandi eftir því, á hvaða stað var eða við hvaða störf þeir unnu.

Og, ég ætla að nefna hér nokkrar tölur um það, hvernig ósamræmið var í þessum efnum, ósamræmi, sem enn í dag á sér stað og ekki hefur fengizt leiðrétting á nema að nokkru leyti.

Grunnkaup í Reykjavík og Hafnarfirði er, eins og allir vita, hjá verkamönnum kr. 1.45 á klst. í dagvinnu. Svo þarf ekki lengra að fara en til Keflavíkur, þar var grunnkaupið 30 aurum lægra og í Garði 35 aurum lægra en í Keflavík. Á Akranesi var kaupið kr. 1.27. Þetta er sem sagt við sama flóann, Faxaflóa. (Hér er talað um kaup karla í dagvinnu). Á Hellissandi var kaupið þá kr. 1.00 og í Ólafsvík 90 aurar. Ég get farið svona kringum landið og sýnt fram á, að það eru vissir staðir á landinu, þar sem verkamannakaupið er enn lægra, þótt ekki verði séð, af hvaða ástæðum svo þurfi að vera. Kaupið var á þeim tíma í Stykkishólmi kr. 1.12, í Flatey 85 aurar, á Patreksfirði og í Tálknafirði kr. 1.20, nokkru hærra en á Snæfellsnesi og í Flatey. Á Bíldudal, þar sem nákvæmlega eru sömu lífsskilyrði hvað snertir verðlag og á Patreksfirði, var kaupið þá kr. 1.00 og á Þingeyri kr. 1.05. Í Önundarfirði var kaupið hærra, eða kr. 1.20, og hver vill halda því fram, að það sé ódýrara að lifa í Dýrafirði heldur en í Önundarfirði, nema siður sé? Ég bendi á þetta til þess að sýna ósamræmið, sem yfirleitt er í þessum kaupákvörðunum. Á Ísafirði er kaupið hæst á Vestfjörðum, kr. 1.30, en í smáþorpunum þar í kring er það miklu lægra. Í Bolungavík, Hnífsdal, Súðavík og á Hesteyri var það kr. 1.00, og má vera, að það sé nokkru ódýrara að lifa á þessum stöðum en á Ísafirði, en ekki mun munurinn þó svo mikill sem nemur mismuninum á kaupinu. Úr því að ég hef nefnt þessar tölur, vil ég halda áfram kringum landið Á Ingólfsfirði, þar sem ekki er nema mjög takmarkaðan tíma af árinu, sem verkamenn hafa almenna verkamannavinnu, þ.e. á meðan síldveiðitíminn er, þar er kaupið þá kr. 1.15 yfir hábjargræðistímann, á Djúpavík er það kr. 1.06, á Drangsnesi kr. 1.00, á Hólmavík kr. 1.00. En á Hvammstanga og Blönduósi, sem að vísu eru ekki síldarpláss, þar var kaupið þá kr. 0.90. Á Skagaströnd, þar sem ekki sýnist mikill munur á lífsskilyrðum hvað verðlag snertir og á Blönduósi, er kaupið samt 10 aurum hærra en á Blönduósi, eða kr. 1.00. Á Sauðárkróki, sem er allstórt kauptún, var kaupið þá kr. 1.00. En á Siglufirði, þar sem talið er, að verkamenn hafi komið verkakaupinu það hátt upp, að betra var en víða annars staðar, var kaupið þá kr. 1.35. Í Ólafsfirði var það kr. 1.10, Hrísey kr. 1.25, á Dalvík 90 aurar, en á Akureyri og í Glerárþorpi kr. 1.25. Á Raufarhöfn var kaupið kr. 1.15. á Þórshöfn kr. 1.10, í Vopnafirði kr. 1.00, á Seyðisfirði kr. 1.30, Norðfirði kr. 1.10, Eskifirði kr. 1.li?, en í Reyðarfirði 90 aurar. Kr. 1.00 var kaupið þá á Fáskrúðsfirði, Djúpavogi, Hornafirði, Vik í Mýrdal og á Stokkseyri, en á Eyrarbakka kr. 1.11. Og svo kemur vegavinnan, sem var víðast greidd með kr. 0.90 á klst. í dagvinnu. Í nágrenni Reykjavíkur var kaupið nokkuð hærra.

Ég hef nú bent á, hvernig ástandið var í þessum málum áður en gengisl. voru sett, og á þessu fékkst náttúrlega engin breyt., meðan þau voru í gildi og allt þangað til losað var um þetta um áramótin 1941, að nokkur félög úti um land geta þá náð nokkrum grunnkaupshækkunum, þó mismunandi miklum, en vantaði þó mikið á, að öll félög á þeim stöðum, sem ég hef nú talið upp, hafi fengið þá grunnkaupshækkun til samræmingar, sem þau að réttu lagi hefðu átt að fá.

Nú er talað um það, og það kom fram í ræðu hæstv. viðskmrh., að það hafi verið skoðun ráðandi manna í Alþýðusambandi Íslands, að grunnkaupshækkanir ættu ekki að vera gerðar eins og sakir stóðu í haust. Ég mótmæli þessu sem algerlega ósönnu máli. Því að, eins og ég hef fært fram með því að lesa upp það grunnkaup, sem hin ýmsu félög á landinu áttu við að búa fyrir stríðið, þá var kaupgjaldið mjög misjafnt í ýmsum tilfellum, og það var skoðun Alþýðusambands Íslands. sem samnefnara allra verkalýðsfélaga landsins, að það væri full nauðsyn á að hækka grunnkaup á ýmsum stöðum á landinu frá því, sem það er nú, og jafnvel að hækka grunnkaupið þar, sem það er enn þá talið hæst, sökum hinnar miklu dýrtíðar, sem ekki hvað minnst stafar af hinu háa verðlagi á innlendum neyzluvörum.

Ég skal ekki við þessa umr. fara mjög langt út í það, hvernig tókst svo að framkvæma þær ráðstafanir, sem bæði hæstv. Alþ. og almenningur í landinu ætlaðist til, að gerðar væru til þess að hamla upp á móti vaxandi dýrtíð. En það er kapítuli út af fyrir sig að ræða um, og hefur að sjálfsögðu verið í hv. Nd. farið mjög út í að ræða þá hlið málsins, og ég geri ráð fyrir, að einnig verði nokkuð farið út í það hér í hv. d., því að núverandi hæstv. ráðh. eiga mjög miklar ádeilur skilið fyrir það, hvernig þeir hafa haldið á því máli, að halda niðri dýrtíðinni í landinu. Það var vanrækt af hæstv. ráðh. Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins að fylgja þeim reglum, sem þeim voru settar eftir miklar bollaleggingar á aðalþinginu 1941. Og þegar þessar framkvæmdir, verða að engu í höndunum á hæstv. ríkisstj., þá er farið á þeim háu stöðum að hugsa sér leiðir í dýrtíðarmálunum, sem skyldu vera á annan veg heldur en þær ráðstafanir, sem þingið lagði fyrir á aðalþinginu 1941. Það var gert ráð fyrir að lækka innflutningsgjöld af öllum innfluttum vörum, sem bein áhrif höfðu á vísitöluútreikninginn, því að allir voru sammála um það, að ein af aðalástæðum dýrtíðarinnar væri hin vaxandi farmgjaldahækkun. En það var ekki heldur gripið til þess að lækka farmgjöldin frekar m tollaálagninguna, sem hvort tveggja hafði sín áhrif á vöruverðið í landinu og á vísitöluna. Hins vegar var af hæstv. ríkisstjórn leitað að öðrum leiðum, þegar þessar leiðir, að hennar dómi, þóttu ekki færar, og þá var horfið að því ráði að beita sér gegn hinum vinnandi stéttum landsins og því haldið fram og talið nauðsynlegt, að það þyrfti að stöðva allt, sem heitir hækkun á kaupgjaldi og umbætur á kjörum verkalýðs- og launastéttanna í einhverri mynd.

Öllum er kunnugt um þau átök, sem urðu á haustþinginu 1941, þegar hið svo kallaða kaupbindingarfrv. og launaskattsfrv. kom fram í þinginu, þegar bæði ég og aðrir litum svo á, að nú væri hættan liðin hjá um það, að öðrum ráðstöfunum yrði beitt en Alþingi hafði samþ. Og þá skeður það, er nokkur félög í Reykjavík höfðu sagt upp samningum sínum og gert till. sínar um það, hvað þau teldu sig geta samið um við atvinnurekendur og í einu og öllu farið eftir þeim leiðum, er lög landsins mæla fyrir um, að gripið er til þess ráðs, svo sem kunnugt er, að komið er í veg fyrir samningaleiðirnar, svo að útilokað væri að samningar gætu tekizt á frjálsum grundvelli.

Ég get ekki látið hjá líða að minnast á það, jafnvel við þessa umr., að þau félög, sem hér deildu við atvinnurekendur, sem í fyrsta lagi var Hið íslenzka prentarafélag og svo Félag bókbandssveina, Félag járníðnaðarmanna og Félag klæðskera- hér í bænum, sem sagt, nokkur félög, sem enga grunnkaupshækkun höfðu fengið síðan löngu fyrir stríð, en bjuggu að gömlu grunnkaupi, sem var ekki í samræmi við þær breyttu aðstæður, sem voru orðnar í landinu um það, hvað kostaði að lifa, — eins og kunnugt er, fóru þessi félög allar þær leiðir, sem löggjöfin um stéttarfélög og vinnudeilur fyrirskipar að fara skuli í vinnudeilum. En það virtist nokkur tregða vera meðal atvinnurekenda á að koma strax til móts við þessi félög og ræða við þau um kauphækkun. Og það er ekki fyrr en um áramótin, að atvinnurekendum skilst, að full alvara er á ferðum í þessum efnum og að verkamenn ætla ekki að láta málið renna út í sandinn án þess að samningar verði um nokkra grunnkaupshækkun. Vitanlegt er, að það var ekki nema herzlumunurinn, að samningar tækjust við flest af þessum félögum um kaupgjaldið. Sum þeirra sömdu, eins og klæðskerasveinarnir. Þeir frestuðu yfirlýstu verkfalli eftir ósk atvinnurekenda og sömdu. En eftir því, sem fram hefur komið, var ekki um það að ræða að fá samninga við aðra atvinnurekendur hér í bænum, af ástæðum, sem ég kem að síðar. En mér er kunnugt um það, og ég leyfi mér að halda því fram á hæstv. Alþ., að ef farið hefði verið til hins ýtrasta þær leiðir, sem vinnulöggjöfin mælir fyrir um, að sáttanefnd væri sett strax um áramótin í deilumál prentara og bókbandssveina til þess að reyna að koma á sættum, þá hefði það sennilega tekizt, eins og vitanlegt var, að henni mundi hafa tekizt í járniðnaðarmannadeilunni, ef hún hefði getað starfað einum degi lengur, en hins vegar mun hæstv. ríkisstj. hafa staðið þar á bak við til þess að koma í veg fyrir, að deilan yrði leidd til lykta með sætt í málinu. En hæstv. ríkisstj. hefur oft áður fyrr beitt áhrifum sínum á þá lund, að þeir, sem deildu um kaup og kjör, gætu náð saman höndum til samkomulags, en að þessu sinni kom hún í veg fyrir, að sættir gætu tekizt. Þegar sjómenn áttu í deilu um áhættuþóknun, þá beitti ríkisstj. áhrifum sínum á þá lund, að sættir mættu takast. En það er þetta, sem hæstv. ríkisstjórn forðaðist alveg að gera í vetur um áramótin, að beita áhrifum sínum á atvinnurekendur til samkomulags um það, sem um var deilt. Og mér er kunnugt um það, að það munaði ekki nema hársbreidd í deilu járniðnaðarmanna, að samkomulag næðist fyrir milligöngu sáttanefndar. Um prentarana var öðru máli að gegna. Þar virtist vera harka í málinu, sem stafaði af því, sem ég kem nú að. Þegar málum var þannig komið á gamlaárskvöld síðast, að það leit út fyrir, að verkföll mundu verða hjá nokkrum félögum, sem ég hef áður nefnt, — verkfall, sem kynni að hafa staðið í eina viku, er ekki verulegt atriði eða til þess að fárast yfir, þegar um deilu er að ræða á milli atvinnurekenda og verkamanna; þjóðfélagið hefur á undanförnum árum orðið að þola miklu lengri verkföll en útlit var fyrir að standa mundu um áramótin síðustu —, þá skeður það, sem ég tel ein hin mestu mistök og um leið einhverja þá misvitrasta ráðstöfun, sem gerð hefur verið um langt skeið af nokkrum stjórnmálamanni hér á landi, er hæstv. forsrh. kemur með nýársboðskap sinn, ef svo má kalla, á gamlaárskvöld til atvinnurekenda, sem í aðalatriðum var á þessa leið: Verið þið ekki að leggja ykkur í líma við verkamenn, sem nú gera óbilgjarnar kröfur, því að við sjáum sennilega fyrir því á annan veg, að málum ykkar verði svo fyrir komið, að þið megið vel við una. —. Boðskapurinn var í þessum anda, m.ö.o., að það mundu verða full tök á því hjá hæstv. ríkisstj. að koma í veg fyrir, að til samninga þyrfti að koma milli atvinnurekenda og verkamanna hér í iðnfélögum bæjarins. Og ég verð að segja það, að ég minnist þess ekki, öll þau ár, síðan ég fór að geta lesið og fylgzt með hvað gerzt hefur og gerist í íslenzku þjóðlífi, að jafngálausleg og jafnafdrifarík yfirlýsing hafi nokkurn tíma verið gefin og í þetta sinn, hvaða hvatir, sem hafa til þess legið. Ég harma það, að sá forsrh. skyldi vera til á voru landi, sem ekki skildi, hve miklar og þungar skyldur hvíldu á herðum hans, þegar um það var að ræða, hvort vinnufriður héldist í landinu eða ekki og samkomulag tækist milli þjóðfélagsþegnanna í jafnstóru máli sem þessu. Og ég mun aldrei gleyma þessu kvöldi, þannig greip það mínar tilfinningar. Þessi boðskapur varð þess valdandi, að allar samningaumleitanir, sem fram höfðu farið í þessum málum, fóru út um þúfur. Sáttanefnd gat ekki meira að gert. Þetta stappaði stálinu í atvinnurekendur, svo að þeir héldu að sér höndum um samninga, verkföllin hófust, sem kunnugt er.

Næsta Stigið var svo að gefa út hin alkunnu brbl. þann 8. jan. Um efni þeirra l. er ef til vill ekki þörf að ræða nú við þessa umr., því að það er öllum kunnugt, og ég hef í raun og veru lýst því áður í ræðu minni. En með þeim er tekinn af verkalýðnum sá réttur, sem þjóðfélagið hefur veitt honum að lögum, frelsið til þess að semja um kaup sitt og kjör, en lögleitt bann við því, að verkalýðurinn noti sín samtók í einni eða annarri mynd til þess að knýja fram þær réttarbætur, sem hann telur sér tvímælalaust nauðsynlegar og réttmætar. Og ekki nóg með það. Ef út af þessum ákvæðum er brugðið á einn eða annan hátt, þá skulu sjóðir þessara stéttarfélaga vera teknir upp í sektir, og sektarákvæði eru sett hærri en dæmi eru til áður, til þess að beita þeim við þá verkamenn, sem settir eru í fararbrodd samtakanna til þess að fá málefnum verkalýðsins framgengt í viðskiptunum við atvinnurekendur. Þetta hefur að líkindum átt að vera í samræmi við það, sem hér á árunum voru kölluð tukthúslögin í Noregi, sem illræmd voru þar á sínum tíma. Það var svipaður andi í þeim 1., sem íhaldsstjórnin þar kom á á sínum tíma, þar sem skipuðu harðræði var beitt gagnvart forustumönnum verkamanna og verkalýðnum yfirleitt, sem varð til þess að þjappa norskum verkalýð saman í eina órjúfandi samtakaheild. [Fundarhlé.]

Þegar umr. var frestað kl. 4 í dag, var ég kominn þar að að tala um gerðardóminn og hafði aðeins minnzt á sektarákvæðin eða viðurlögin. En það er rétt, að það komi fram, . að gerðardómurinn hefur tvöfalt hlutverk að vinna fyrsta lagi ber honum að sporna við allri grunnkaupshækkun hjá þeim, sem laun taka, og yfirleitt standa í vegi fyrir allri tekjuaukningu manna, í hverri mynd, sem er, og svo að öðru leyti, að sjálfsögðu, að hafa afskipti af öllu verðlagi í landinu. Um þann þátt fjölyrði ég ekki, það er nú út af fyrir sig, en það virðast vera ýmsar smugur, sem hægt er að komast í gegnum og hægt að sniðganga ýmis atriði verðlagsmálanna, ef svo ber undir. En hitt hlutverk dómsins er aðalatriði, að halda niðri öllu kaupgjaldi í landinu. Og það er rétt að geta þess, hvernig hann hefur rækt þá skyldu sína og hlutverk.

Hér í Reykjavík hafði félag klæðskerasveina samið við meistarana, og höfðu þeir samningar gengið greiðlega. Þessi samningur var svo borinn undir gerðardóminn, en hann dæmdi kauphækkunina ógilda og lengdi vinnutímann frá því, sem um hafði samizt. Þetta er dæmalaus ósanngirni. Það vita allir, sem þekkja þessi mál, að fólk, sem stundar saumaskap og verður að una við miklar innisetur og óholla vinnu, þarf að hafa stuttan vinnutíma. Það er enginn vafi á því, að ef til væru skýrslur um aldur þessa fólks, mundi það koma í ljós, að aldur þess væri mun skemmri en annars fólks. Hins vegar fengu sumar iðngreinar, eins og t.d. járniðnaðarmenn, betri kjör, eftir að gerðardómurinn hafði lagt hönd sina á samningana, heldur en þeir hefðu fengið með frjálsum samningum. En þeir voru samtaka og samhent stétt og starf þeirra mikilvægt fyrir stórútveginn í landinu. En það kveður við annan fón, þegar kemur að bókbandssveinunum. Félag þeirra má sín líka minna og starf þeirra reiknast ekki eins mikilsvert fyrir þjóðina. Þrátt fyrir allt voru líkur til, að þeir gætu fengið samninga, en gerðardómurinn gat ekki fallizt á neina kauphækkun hjá þeim.

Á Akureyri eru þeir, sem stunda þar verksmiðjuvinnu, mjög lágt launaðir. Félagi verksmiðjufólks þar hafði tekizt að fá samninga upp á 5% grunnkaupshækkun. Dómurinn skar það niður. Hann notaði ekki einu sinni þá heimild, er hann hefur til þess að samræma kaupið. Þetta sýnir, að dóminum eru mislagðar hendur. Sá veikari geldur veikleika síns, en sá sterkari nýtur styrkleika síns.

Í Vestmannaeyjum höfðu samningar tekizt, og höfðu atvinnurekendur fúslega gengið að kröfum verkamanna, — en dómurinn dæmdi þá samninga ógilda.

Hér við Faxaflóa hafði hins vegar félag Gerða- og Miðneshrepps gert samninga og fengið verulegar kjarabætur, t.d. rýmkuð hlutaskipti allverulega. Þessi samningur var aldrei lagður fyrir gerðardóminn, hann stendur því óhaggaður enn. Verkamenn þar njóta því sinna kjarabóta, og er það vel. En hins vegar er hér um skýlaust lagabrot að ræða. Hið sama gerðu þeir, er unnu við hina svonefndu dráttarbraut. Fleiri dæmi mætti nefna, er sýna, að dóminum eru mislagðar hendur og að eitt gengur ekki yfir alla. Mér er nú ekki kunnugt um, að upp á síðkastið hafi gerðardómurinn kveðið upp neina dóma í kaupgjaldsmálum. Stafar það einkum af því, að verkamenn vilja ekki eiga háls sinn undir öxi hans og vilja heldur láta kyrrt vera. Svo var það t.d. með prentara, sem ekki vildu láta auðrekja sig og þiggja smánarbætur. Vildu þeir heldur taka sama kaup og áður og standa á rétti sínum. Enda er það svo, að atvinnurekendur veifa þessum I. framan í verkamenn, er þeir fara fram á kjarabætur. Svo. var það t.d. er sjómannafélögin hér leituðu eftir umræðum við Skipaútgerð ríkisins o.fl. skipafélög um launahækkanir handa þeim,, er vinna við strandferðirnar og aðra slíka flutninga. Útgerðar félögin sögðust ekki vilja ræða við sjómenn, það væri þýðingarlaust, því að gerðardómsl. bönnuðu alla kauphækkun.

— Þessi l. bitna því einkum á þeim fátækustu, á lítils megandi félögum og félögum úti á landi. Þau leggjast því á lítilmagnann.

Ég hef svo ekki enn minnzt á, hvernig þessi l. eru haldin. Áður en ég minnist á það, vil ég geta þess, að mér er ekki kunnugt um, þó að þessi l. séu hrotin meira en dæmi eru til um okkur önnur lög, sem sett hafa verið í þessa landi, að sektarákvæðum l. hafi verið beitt. Er það vegna þess, að atvinnurekendur brjóta lögin, með því að borga hærra kaup en þau heimila.

Það. er alkunna, að hér í Reykjavík er öllum stéttum í byggingariðnaðinum t.d. greitt miklu hærra kaup en löglegt er. Hins vegar er það svo með verkamenn, að kaup þeirra er kr. 2.65 á klst. í dagvinnu, en þeir fá bara fleiri tíma borgaða en þeir vinna. Það er almælt, að jafnvel opinberar stofnanir verði að fara inn á þessa braut. Það er ekkert fleipur, sem ég fer hér með, ég get sannað það, ef einhver ber á það brigður. Nýjasta dæmið, sem ég hef heyrt um, er um það. þegar bílstjórarnir hjá Mjólkursamsölunni sögðu upp. Varð þá uppi fótur og fit hjá samsölunni, og var það ráð tekið að kaupa af þeim gálgafrest fyrir kr. 50.00 á dag, meðan verið var að koma því í kring, með hvaða hætti væri hægt að bæta þeim upp kaupið án þess að brjóta l. beint og opinbert. Ég hef fyrir satt, að leitað hafi verið eftir, hvað bilstjórar fengju mest í kaup, svo að borga mætti þeim það. En það er öllum vitanlegt, að bílstjórar hér eru yfirleitt ráðnir fyrir svo hátt kaup sem þeir geta fengið á hverjum stað. Það er misjafnt, en yfirleitt mjög hátt, svo hátt, að það er brot á l.

Ég gæti tekið mörg fleiri dæmi um, að þessi l. séu brotin af atvinnurekendum, enda held ég. að þeir séu ekki síður andvígir þessari bindingu kaupsins en verkamenn, því að ef hún væri ekki, ætti sér ekki stað hið leynilega uppboð á vinnuafli, eins og nú er, og hafa því l. verkað alveg gagnstætt því, sem þau áttu að verka, a.m.k. á sumum sviðum. En l. hafa einnig um leið verkað lamandi á samtök vinnandi fólks, og það, sem ég nú er að átelja, er árangur þeirra.

Ég hef nú lítið eitt lýst framkvæmd l. hér í Reykjavík og nágrenni. En úti um land, þar sem minna er um vinnu, er frekar hægt að beita þeim. Ég vil benda á opinbera vinnu, t.d. vegavinnu. Alþýðusambandið lagði til í fyrra, að grunnkaup í vegavinnu yrði hækkað úr kr. 0.94 upp í kr. 1.15 um tímann, og virtist almenningur fallast á það. En stj. vildi ekki koma nálægt að semja við verkamenn fyrir milligöngu Alþýðusambandsins, heldur gaf hún vegamálastjórn leyfi til að borga kr. 1.00 um tímann í grunnkaup. Enda sýndi það sig, að fólkið forðaðist þessa vinnu og leitaði til sjávar og sveita jafnvel, þar sem því buðust betri kjör. Hvaða skynsemi er í svona ráðstöfunum?

Það fór líka svo, er leið á, sumarið 1941, að vegamálastjóri varð að fá víða heimild til að hækka grunnkaup í samræmi við það kaup, er greitt var í annarri vinnu á hverjum stað. Hv. þm. hljóta að líta svo á, að engin skynsemi hafi verið í svona ráðstöfunum. Þetta er nefnilega einkum vinna fyrir sveitamenn vor og haust, til þess að draga í búið.

Það er vitanlegt nú, að setuliðsvinnan hefur hér sín áhirf. Þar er hið sama og hrjá íslenzku atvinnurekendunum, að bjóða verður kaup fyrir fleiri tíma en unnir eru. Í Hvalfirðinum hef ég fyrir satt, að verkamenn fái kr. 3.00 um tímann og frítt húsnæði, en innfluttir verkamenn frá Ameríku fá bæði frítt fæði og húsnæði og 80 cent um tímann, og þeir standa alveg undrandi yfir því, að hér skuli borgað helmingi lægra.

Ég hef nú drepið á ýmislegt, þótt nefna mætti fleiri dæmi um það, hvernig gengið hefur að framkvæma þessi l. hér. En nú eiga þessi l. að ná til fleiri en verkamannanna, — til launamanna einnig. Flestir atvinnurekendur munu þó hafa orðið að hækka grunnkaup fólks síns; og um eina stétt (póstmenn) er það, að þeir fóru fram á grunnkaupshækkun um áramót og fengu hana, og fékk sú hækkun að standa, að því er í ég bezt veit. Þó berja menn höfðinu við steininn og segja, að l. séu í fullum gangi. En þau gera aðeins þeim erfiðara um, er versta aðstöðu hafa í þjóðfélaginu, en létta undir með hinum, er betur mega sín. Ég vil, að þau komi þeim eins að notum, er lítils mega sín og verst eru settir. En nú hafa þau komið af stað þeirri ólgu í þjóðfélaginu, er alls ekki hefði þurft, ef skynsamlega hefði verið á spilunum haldið.

Ég ætla ekki að fara út í, hvernig farið hafi um aðrar framkvæmdir þessara l. Hæstv. viðskmrh. veit bezt um það, en vera má, að hann hafi ekki alveg hreina samvizku af því að hafa haldið verðlaginu í skefjum eftir gildandi I.

Nú munu menn því spyrja, hvort það hafi náðst, er til var ætlazt í þessum l. Í því sambandi er óspart bent á það, að verðvísitalan hafi haldizt óbreytt frá setningu þessara l. En þetta er hin mesta blekking. Vísitalan hefur ekki staðið í stað fyrir það, því að kaupið hefur hækkað. Þetta er líka viðurkennt í blaði hæstv. viðskmrh., er segir, að með kaupbindingarákvæðunum verði ekki hægt að halda niðri verðbólgunni. Og við höfum dæmi frá síðasta stríði, er vísitalan komst upp í 168 stig, en kaupgjaldið þó svo langt niðri sem allir muna. Vöruverðið fór aftur á móti upp úr öllu valdi. Það er því hin mesta blekking, að kaup sé uudirrót dýrtíðarinnar að nokkru leyti. Ég játa þó, að það sé helzt gagnvart landbúnaðinum. Og nú er ekki nema um tvennt að gera fyrir bændur, að fara einhverjar krókaleiðir, t.d. að borga fleiri tíma en unnir eru, eða brjóta beint lögin og borga þá hærra kaup en leyfilegt er. Þetta er allt út í hött með bindingu kaupgjaldsins, því að hvað sem líður verði á innlendum vörum„ ráðum við ekkert yfir verði á þeim erlendu vörum, er við flytjum inn, og við getum ekki greitt hækkunina á þeim úr ríkissjóði svo að neinu nemi, og þannig hlýtur verðlagið á vörumarkaðinum að stíga. Að vísu er nú farið að ganga inn á þá braut, að ríkið greiði mismuninn á flutningsgjöldum, eins og þau voru fyrir stríð og eru nú, til þeirra, er flutningana annast. Ég vil að það sé „dokumenterað“ í þingtíðindunum, að þetta, sem hér er nú farið að gera, var till. Alþfl. á Alþingi 1941 til þess að halda dýr tíðinni í skefjum, að greiða úr ríkissjóði mismun farmgjaldanna af þeim vörum, er grípa inn í vísitöluna. Ég býst við, að þessar ráðstafanir gætu haldið niðri dýrtíðinni að einhverju leyti. Ég segi þetta af því, að okkur Alþfl.-mönnum hefur verið núið því um nasir, að við vildum ekkert gera til þess að halda dýrtíðinni niðri. Þetta er rangmæli og ósannindi. Enginn flokkur hefur viljað gera meira í þá átt en einmitt Alþfl. En ímyndaðir hagsmunir hinna flokkanna hafa valdið því, að þeir hafa ekki viljað fara inn á þessa braut fyrr en nú, en betra er þó seint en aldrei. En við viljum ekki ganga á rétt þeirra stétta í þjóðfélaginu, er minnstan hlut hafa haft af stríðsgróðaflóðinu, því að það væri hrein undantekning, ef launamaður græddi svo, að það gæti kallazt því nafni. En það virðist markmiðið að tryggja stríðsgróðann sem mest og bezt í vasa þeirra, er hann hafa hlotið.

Ég skal nú ekki fara inn á það, hvað hinir flokkarnir vilja gera til þess að jafna þetta, þennan mismun. Þar eru nefnd skattafrv. þau, er nú liggja fyrir þinginu, frv. um tekju- og eignarskatt og frv. um stríðsgróðaskatt. En þar með er ekki nema hálfsögð sagan, því að stríðsgróðamenn fá að halda svo miklum hluta teknanna fyrir utan alla skatta.

Þá vitna menn í lönd eins og Kanada og Bandaríkin og benda á, að þau hafi farið þessa kaupbindingarleið. Sannleikurinn er sá, a?S grunnlaun verkamanna í Bandaríkjunum hafa hækkað um 25% síðan stríðið hófst, en dýrtíðin aðeins um 6%, eða 19% minna. Auk þess hefur vinna aukizt þar svo, að nú er atvinnuleysið óþekkt, er áður var svo álkunnugt. En þar hefur einnig verið svo um hnútana búið, að hið mesta, er milljónamæringarnir fá að halda eftir, er 25 þúsund dollarar, eða um 150 þúsund í íslenzkum krónum. Þar er því verið að gera jöfnuð á allt annan veg en hér er gert.

Slyngur maður hér í þinginu hefur reiknað út, að af 1 milljón hér aftur á móti væri hægt að halda eftir um 400 þúsund í sjóðum og öðru. Um Kanada er ég ófróðari, en ég held, að þar sé ekki alls kostar rétt frá skýrt. Um Ástralíu er það, að þar er verkamannaflokkurinn í meiri hluta, og þarf enginn að segja mér, að þar yrði gengið eins á rétt vinnandi manna og hér er gert. Auk þess megum við ekki gleyma, að þessar þjóðir eiga í styrjöld. Milljarðar fara forgörðum í verðmætum talið, og þá verða allir að leggja eitthvað á sig. En hér lifum við eins og blóma í eggi, og menn fá að græða á tá og fingri. Hér er því um allt annað að ræða og aðstaðan ekki sambærileg. Ég er ekki í neinum vafa um það, að ef hér væri hernaður rekinn, mundi íslenzki verkalýðurinn ekki láta sitt eftir liggja né krefjast neinna fríðinda sér til handa, en þó yrði líka ábyggilega gengið nær gróðamönnunum. Ég vildi draga þetta fram hér, því að um svo ójafnt er að ræða. Og ég vil segja það, að það er ekki að undra, þótt við Alþfl.-menn greiðum atkv. á móti þessu frv. Ég harma það, að hér skuli á gullæðistímum búa sú þjóð, er vill lækna allt með hnefaréttinum, en virðir einskis samningaleiðina og skerðir frelsi einstaklinbanna. Ég hef aldrei séð bóla á einræðiskennd í íslenzku þjóðlífi, ef það er ekki nú. En á móti öllu slíku mun ég jafnan leitast við að vinna allt hvað ég get.