10.04.1942
Efri deild: 30. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í C-deild Alþingistíðinda. (744)

57. mál, skattgreiðsla h/f Eimskipafélags Íslands

Páll Zóphóníasson:

Ég lýsti afstöðu minni til þessa frv. í gær og stóð einn uppi með þá skoðun að vilja ekki framlengja fríðindi þau, sem Eimskipafélagið hefur notið. Nú vil ég ekki endurtaka það, sem ég því sagði, og ekki heldur færa ný rök fyrir því, að ég tel rangt að samþ. þetta frv. Hins vegar vil ég leggja hér fram brtt. við l. gr. frv. um, að lögin skuli gilda í 1 ár í staðinn fyrir 2, og ég vona, að þeir hv. þm., sem sjá ekki annað en að Eimskipafélagið þurfi að hafa mörg sérréttindi fram yfir önnur félög hér á landi, geti fallizt á það, að þótt tímarnir séu svo núna, að afsakanlegt sé að samþ. þetta. þá geti fljótt breytzt veður í lofti. Þess vegna legg ég til, að þessi hlunnindi gildi aðeins til eins árs í senn, og er það miðlunartillaga.