16.03.1942
Efri deild: 16. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í B-deild Alþingistíðinda. (78)

3. mál, útsvör

Frsm. meiri hl. (Magnús Gíslason):

Ég sé ekki ástæðu til að þreyta langar umr. um þetta mál.

Ég skildi hv. 1. þm. N.-M. svo, að hann vildi halda því fram, að einungis Ísafjörður og einn ataður annar hefðu notað sér þetta ákvæði um skiptingu útsvara til hlítar. En ég veit til þess, að s.l. ár hafa komið kröfur um skiptingu útsvara frá enn fleiri stöðum en áður, t.d. Presthólahreppi og Hafnarfirði. Mig furðar á því, ef það er rétt, sem hv. 10. landsk. sagði, að síðastliðið ár hefði aðeins komið til greina að skipta útsvari þriggja manna frá Reykjavík, sem atvinnu reka á Siglufirði, þm` sem 10 eða 12 kröfur um skiptingu útsvars bárust frá Presthólahreppi einum Ef ekki sækja fleiri en 3 menn frá Reykjavík til Siglufjarðar, þá finnst mér ekki vera mikil þörf þeirrar breyt., sem þeir fara fram á. Hv. þm. sagði líka, að þeir ætluðust ekki til þess, að tekin yrði upp gamla reglan um álagningu á atvinnurekstur utan heimilissveitar, en góð meining gerir enga stoð, því að í till. segir, að leggja beri á mann utan heimilissveitar, ef hann rekur þar atvinnu eigi skemur en 8 vikur.

Hv. þm. sagði líka, að ekki væri hætta á, lögð yrðu útsvör á sölu síldarbáta, sem seldu afla sinn annars staðar en í heimilissveit sinni. Það getur verið, að hv. flm. ætlist ekki til þessa, en samkv. till. yrði samt að gera það. En nú er í b-lið 9. gr. gert ráð fyrir því, að útsvarinu sé skipt, ef skip leggur upp afla sinn utan heimilissveitar útgerðarmanns eða eiganda a.m.k. samtals 4 vikur af útsvarsárinu. Og þetta er sitt hvað. Hér er raunar bara talað um það, að skip leggi upp afla sinn. En ef brtt. verður samþ., þá verður það gert að aðalreglu, að síldarsala verði útsvarsskyld, hvar sem hún fer fram. Það yrði því að breyta orðalagi 9. gr. þannig, að síldarsala, sem fram fer utan heimilissveitar, skuli ekki vera útsvarsskyld, heldur skuli skipta útsvarinu, því að annars verður eilífur ágreiningur um það, hvort heldur skuli vera.

Hv. 1. þm. Eyf. sagði það óþarfa athugasemd hjá mér, að fella yrði niður 1. lið a. 9. gr., ef brtt. ætti að ná fram að ganga. Mér skildist hann skýra þetta svo, að ef ekki hefði verið lagt útsvar á mann í heimilissveit hans, mætti skipta því samkv. 9. gr. En mér á gjaldandinn líka hlut að máli. Hann krefst þess, að útsvarinu sé skipt, en sveitarstj. krefst þess, að útsvarið sé lagt á. Hér yrði því sífellt tilefni til ágreinings.

Hv. flm. sagði líka, að of langt hefði verið gengið árið 1926, þegar sú regla var upp tekin, að leggja yfirleitt ekki á atvinnurekstur utan heimilissveitar. En ég vil minna á, að Magnús Guðmundsson tók það fram í þingræðu, að aðalreglurnar, sem farið hefði verið eftir við samningu þessara l., hefðu verið teknar eftir l., sem eru í gildi á Norðurlöndum, hafa verið reynd í mörg ár og gefizt vel. T.d. hefðu Danir og Norðmenn tekið upp þetta fyrirkomulag, sem þeir nefna „den interkommunale Beskatning“, en við skiptingu. Ég hygg, að í Noregi a.m.k. sé fyrirkomulagið líkt og hér, enda atvinnuhættir að ýmsu leyti líkir. Og ég hef ekki heyrt þær ástæður bornar fram gegn þessu fyrirkomulagi, að rétt geti verið að víkja frá því, þar eð reynsla er á það komin í öðrum löndum, þar sem líkt stendur á og hér.