27.04.1942
Efri deild: 41. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í C-deild Alþingistíðinda. (799)

110. mál, orlof

Brynjólfur Bjarnason:

Ég sé ekki ástæðu til að halda hér langar ræður fyrir þessari háttv. samkomu um það, hve frv. þetta sé fullkomið. Hinu held ég, að væri nauðsynlegra að gefa gaum, að frv. þyrfti að vera betur úr garði gert, heldur en löggjöf um þetta annars staðar á Norðurlöndum, þar sem auðveldara er að koma þessum málum í framkvæmd heldur en hér.

Viðvíkjandi því, hvernig reikna skal nætur- oh helgidagavinnu, og að eftir frv. á að reikna hana sem dagvinnu, þegar reiknað er út orlofé, þá vil ég segja það, að það gæti verið nokkur uppbót, ef þessi vinna væri ekki aðeins reiknuð sem dagvinna, heldur reiknuð 4% af því kaupi, sem verkafólk raunverulega fær greitt, í þeim tilfellum, sem kaup verkamanna er fyrir neðan visst lágmark. Það væri nokkur trygging fyrir því, að fyrir verkamenn, sem hefðu stopula vinnu, gæti þetta komið að gagni, þannig að þeir fengju þó einhverja orlofsdaga.

viðvíkjandi Dagsbrún og þeim samningum, sem það félag hefur haft um þetta efni, vil ég segja það, að þau ákvæði eru til ákaflega lítils gagns. Og ég held. að það sé einróma skoðun núverandi stjórnar þess félags, að það hafi verið ákaflega lítið í það varið að fá þau fram. Þau eru ákaflega erfið í framkvæmd og einnig litilfjörleg fríðindi, enda þótt framkvæmdin væri sæmileg, og enn þá lítilfjörlegri fríðindi heldur en verða mundu eftir þessu frv.. ef samþ. væri. Hitt er náttúrlega ágætt, að frv. verði lagt fyrir verkalýðsfélögin, þannig að þau hafi tækifæri til að ræða það og láta álit sitt í ljós um það.