17.04.1942
Efri deild: 35. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í B-deild Alþingistíðinda. (902)

45. mál, sveitarstjórnarkosningar

Fjmrh. (Jakob Möller):

Ég tel, að mál þetta hafi komizt í nokkuð annað horf við þá brtt., er fram hefur komið, út frá því munu hugleiðingar hv. 10. landsk. hafa vaknað.

En ég veit ekki, hvort breyting sú, er hann vill, er svo aðkallandi, þar eð varla mun hafa borið við, að fleiri flokkar kæmu fram með einn lista, þótt ég hafi nú ekki kynnt mér þetta mál sérstaklega.

Hins vegar tel ég sanngjarnt, að þetta verði athugað fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar. Þá hefur það komið fram hér í umr., að kjósendur ættu helzt til auðvelt með að breyta röð frambjóðenda á listum. Þetta stafar af því, hvernig útreikningi á atkvæðamagni listanna er nú háttað. Ég tel einnig rétt, að þetta verði athugað fyrir næstu kosningar.