16.04.1942
Efri deild: 34. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í D-deild Alþingistíðinda. (963)

87. mál, útgáfa lagasafnsins

*Flm. (Jónas Jónsson):

Ég get ekki sagt um form bókarinnar. Því verður sú ríkisstj. að ráða, sem sér um verkið í samráði við þann mann, sem vinnur það. Ef notað yrði það form, sem hv. þm. minntist á, yrðu teknar sérprentanir af vissum lagabálkum og sett á þá sérstakt blaðsíðutal. Ég held, að hv. þm. ætti að halda þessu vakandi við ríkisstj. og þann mann, sem veitir verkinu forstöðu. Þetta eru ekki annað en sérprentunaratriði með ákveðna lagabálka. En eins og ástatt er hjá okkur, mundi öllum þorra manna þykja bezt að hafa lagasafnið í einu lagi. Ég álit nauðsynlegt, að í bókinni væri skrá yfir reglugerðir, og ef til vill, að þær yrðu teknar upp í hana eða tilvitnanir í þær.

Að því er snertir útgáfu lögbókarinnar 1932, samdi ég við Ólaf Lárusson um það, því að ég áleit hann vera manna færastan til þess, en ýmsir menn unnu með honum, eins og t.d. Gissur Bergsteinsson, Sveinn Ingvarsson og fleiri ungir menn. Mér er kunnugt um, að forseti Sþ. er á sama máli um hæfi Ólafs Lárussonar til þessa starfs og telur sjálfsagt, að hann taki nú við því sem aðalmaður, því að auðvitað hefur hann menn með, þar sem lög okkar hafa breytzt svo mikið á 10 árum.

Hvað við kemur formi bókarinnar, álit ég, að hv. þm. ætti að hreyfa því við þá. sem við verkið fást.