19.08.1942
Efri deild: 10. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (118)

7. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Brynjólfur Bjarnason:

Ég hafði ekki ætlað mér að taka þátt í þessum endurtekningum um þetta mál. Ég er orðinn hundleiður á öllum þessum svokölluðu rökfærslum. Ég vildi aðeins fagna því, sem mér skildist af ræðu hv. frsm. meiri hl., að svo yrði um hnútana búið, um leið og þessi 1. yrðu afnumin, að hægt yrði að segja upp gildandi kaupsamningum með litlum fyrirvara, því að eins og ég hef áður tekið fram, er þetta nauðsynleg ráðstöfun, til þess að afnámið nái tilgangi sínum. En hröðun málsins er þó það nauðsynlegasta. Hér stendur nú yfir vinnustöðvun á hinum þýðingarmesta vinnustað, og þarf ekki að skýra fyrir hv. þm., hversu þýðingarmikið er, að þar verði byrjað að vinna hið bráðasta, eftir að gerðir hafa verið allsherjar samningar við verkamannafélagið Dagsbrún. En gerðardómurinn stendur í vegi fyrir þessu.

Ég sé því enga ástæðu til að hafa ekki þá meðferð á þessu máli, sem viðhöfð hefur verið oft í málum, þar sem meira hefur orkað tvímælis, að afgreiða það með afbrigðum. Ég fór fram á það við 1. umr. málsins, að svo yrði gert. En hæstv. ráðh. taldi þá enga ástæðu til þess. En þetta er fjarstæða.

Hér er í raun og veru enginn ágreiningur um þetta mál, og jafnvel hefur hv. þm. Str. boðizt til að tefja það ekki og talaði fyrir hönd flokks síns. Og ekki er þetta svo vandasamt mál. Ég óska svo eftir, að hæstv. stj. segi um þetta álit sitt. Ég sé, að enginn ráðh. er hér viðstaddur, og beini ég þá þessari ósk minni til hæstv. forseta.