02.09.1942
Sameinað þing: 12. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í D-deild Alþingistíðinda. (1231)

31. mál, flutningastyrkur til hafnleysishéraða

Jónas Jónsson:

Það voru mjög fróðlegar umr., sem síðasti ræðumaður kallaði svo, að asninn hefði komizt inn í herbúðirnar. Ég veit, að hann þekkir svo vel til í þeim herbúðum, þar sem hann kom frá, að honum er ljóst, að þetta hefur ekki verið ofsagt. Það var a. m. k. ekki ég, sem leiddi asnann inn í þessa hv. d., hann kom sjálfur eða var leiddur af öðrum.

Af því að síðasti ræðumaður minntist á „þjóðgatið“, sem er merkilegur hlutur í þessum umr., ætla ég að segja um það nokkur orð. Það var Gestur á Hæli, sem ég hygg, að hafi verið einn af gáfuðustu mönnum á Suðurlandi og jafnvel þótt víðar væri farið, sem bjó til þetta orð, og það stendur fyrst í því blaði, sem þessi látni merkismaður gaf út. Sá maður var svo vel gerður, sem þetta sagði, að venjulega, þegar hann hafði lýst einhverju, þá þurfti ekki að lýsa því betur. Og hann fann það orð yfir þessa vitleysu, sem kom öllum til að hætta við að minnast á þetta. Hv. þm., sem er fæddur í Árnessýslu og fer oft þennan veg, veit það vel, að marga vetur er langan tíma svo djúpur snjór, að ekki er hægt að komast nema á skíðum eða þá troða ófærðina á gamla mátann. Hann hefur vafalaust oft farið Hellisheiðina, þegar aðeins síminn er upp úr og vörðurnar í kafi. Honum er vafalaust kunnugt, að bílstjórarnir, sem flytja meðal annars mjólk til Rvíkur, eiga að búa við óskaplega örðugleika, jafnvel þessa tiltölulega snjólitlu vetur, sem hafa verið nokkur síðustu ár. Og úr því að við tölum um benzín, þá hafa bílstjórar oft sagt við mig, að það sé að vísu lengri leið að fara í Krýsuvík, en þeir mundu eyða minna benzíni í meðalferð þar heldur en nú gegnum ófærðina á Hellisheiði.

Það gæti verið fróðlegt fyrir þessa veru, sem hv. síðasti ræðumaður minntist á, að athuga hvernig Björn Kristjánsson vildi haga vegargerð yfir Hellisheiði. Hann áleit rétt að byggja veggi báðum megin við veginn og hafa þak yfir. Ég veit ekki, hvað hv. síðasti ræðumaður veit um þessa hluti, en ég hef hvergi séð í veröldinni steypta veggi báðum megin við veg 20 km á lengd og þak yfir. Ég held hv. þm. viti af kunnugleik sínum í Árnessýslu, að jafnvel jarðskjálftakippirnir þar gætu lagt „þjóðgatið“ saman. En úr því að reyndur maður og sparsamur og kunnugur í Árnessýslu taldi það svo mikils virði að geta komið vögnum gegnum snjóinn, að hann vildi gera þessar óskaplega dýru framkvæmdir, þá vona ég, að meiri hl. þingsins, sem stóð að því að leysa þetta mál, hafi skilið hina miklu nauðsyn þess, því að Krýsuvíkurleiðin er lausnin, og það dettur engum í hug að vera á móti því máli nema af pólítískri þrákelkni, en slík mótstaða er máttlaus og áhrifalaus, og slíkir menn verða sér til minnkunar fyrr eða síðar. Það dettur engum annað í hug en að fullgera þennan veg. Jafnvel þessi hv. þm., sem hefur í þrjú ár átt vegamálaráðh. úr sínum flokki, hefur ekki djörfung til að minna flokksbróður sinn á að rannsaka þetta, — eða þá að ráðh. hefur `verið svo skynsamur að gera ekkert með það. Því að hvaða leið er eftir handa þessum hv. þm. fyrir veg austur? Er ekki vegur til Þingvalla? Á vegurinn að vera yfir Grafninginn, Háhengilinn eða Lönguhlíðina? Þetta eru möguleikarnir, sem eru eftir. Hv. þm. hefur leikið sér að því að koma með till., eins og til þess að koma leiðtogum flokks síns í sök fyrir ódugnað um það, sem mögulegt er að gera. Geir Zoëga var búinn með feikna miklum fjálgleik að láta útlendinga leita að leið til þess að bjarga Sunnlendingum frá snjóþyngslunum, stundum menn með tekníska menntun, en stundum var hann bara sjálfur við það. Jón Þorláksson hafði lengi þá skoðun, að þarna skyldi járnbraut vera og ekki kosta neitt smáræði. Og þó vita allir, að bílar voru fullkomlega komnir til sögunnar, ekki sízt, þegar Geir Zoëga var með norska verkfræðinga að leita á heiðinni. Og verkfræðingarnir strönduðu. Þeir fundu aldrei neitt og gátu aldrei neitt. Sunnlenzku bílstjórarnir börðust við snjóinn ár eftir ár. Og þessi hv. þm. var þm. í 4 ár eftir stríð, eftir að vinur hans sagði, að járnbrautin væri vonlaus, og samt gerðist ekkert. Hv. þm. ætti að muna það, þegar hann talar um þessi mál, að sómi hans af þeim er sá, að honum sem Árnesing og þingmanni hefur ekkert orðið úr verki. Það var bara borin lausamöl í þennan gamla veg, sem Sigurður Thoroddsen lagði, og þar við sat. Þessa vesalmennsku var ekki hægt að þola lengur. Og við Jón Baldvinsson tókum þetta mál fyrir, fyrir utan allan „lærdóm“, en með heilbrigðri skynsemi. Við lögðum alla útreikninga til hliðar, sem Sverre Möller og Geir Zoëga höfðu gert, og bárum fram frv., sem jafnvel menn úr fjarlægum sveitum, eins og Jón Auðunn, sáu, að var lausn málsins. En þess má geta, þegar það var orðið að lögum, að vegamálastjóri vann að málinu eins og skyldurækinn embættismaður. Og ég vona, að hv. síðasti ræðumaður leiði hugann að því, að það hæfir þeim illa að ráðast á Krýsuvíkurveginn, sem aldrei hafa lagt neitt af mörkum nema barnalegar óskir um einhverja rannsókn á vegi yfir Hengilinn eða Lönguhlíðarfjöllin. Það, sem dómfellir þennan hv. þm., er ekki einungis það, að hann var máttvana í málinu, meðan það var óleyst, heldur hitt, að hann reynir af veikum mætti og árangurslaust að spilla fyrir því, að gert sé það eina, sem byrjað er á af viti og menn hafa trú á og vita, að verður gert. Það, sem hv. þm. gengur til, er einhver álappaleg stífni. (Forseti: Það væri æskilegt að halda sér betur við efnið). Þetta er efni, sem hæstv. forseti hefur leyft að tala um. (Forseti: Hver leyfði það?) Það er sagt, að asninn hafi komið með það. Hitt er rétt hjá hæstv. forseta, að ég er með fyrri afskiptum og nú búinn að ganga frá hv. þm. og ekki þarf meira við hann að gera.

Þá er það þessi ágæta persóna, sem síðasti ræðumaður titlaði með orði, sem ég býst við, að hæstv. forseti leyfi mér ekki að nota, þó að ég vilji ekki efast um, að þetta orð hafi verið af þessum „orðkynduga“ manni rétt valið og af þeirri kynngi, sem hann á yfir að ráða. (GJ: Hvaða orð er það?) Þessi maður á að hafa getað heyrt það. (GJ: Hver er „þessi maður“?) Það er maðurinn, sem skrítna orðið var haft um. (Hlátur. Forseti hringir.).

Ég ætla þá að snúa mér að hv. þm. Barð., sem sagði, að það hefði verið ósköp illa farið með Barðastrandarsýslu áður fyrr. Þegar Einar Jónasson, flokksbróðir hv. þm., var sýslumaður vestra og nýlega var búið að láta skoða fjárreiðurnar hjá honum og kom í ljós 100 þúsund króna sjóðþurrð ... (Forseti: Þetta kemur ekki dagskrármálinu við). Það kemur því við, af því að þm. kjördæmisins hefur verið að bera saman ástand þessa kjördæmis fyrr og nú, þegar þeir höfðu þennan merkilega sýslumann, og svo þann, sem ég hafði þá ánægju að senda vestur, sem var þar svo ástsæll, að meðan hann hafði heilsu, felldi hann alla frambjóðendur íhaldsins og líka þennan. Aðeins af því að maðurinn, sem tók við af Einari Jónassyni, var veikur s. l. vor og gat ekki komið vestur til að „bursta“ þennan mann, eins og hann var vanur, hefur farið sem fór. Enda mála sannast, að þessum eftirmanni Bergs var ljóst, að það væri alveg ómögulegt nokkurn tíma að ná kjördæminu, hvað mikið sem hann byðist til að vera póstur fyrir þá vestra og kaupa og selja fyrir þá og gera öll möguleg erindi í Rvík. ómögulegt, meðan Bergur var annars vegar, maðurinn, sem ég hafði þá ánægju að senda vestur til að taka við af þeim manni, sem ég nefndi. Það er bezt að segja það eins og það er, að Barðstrendingar fögnuðu, þegar Framsfl. skipti þar bæði um þm. og sýslumann. Og það er þess vegna ógætilegt af þessum hv. þm. að vera nokkuð að minnast á þetta. Flokksmenn hans gera það ekki, þeir sem betur eru gefnir en hann. Annars er þessi hv. þm. vel að sér og hélt einu sinni ræðu í Flatey, — rétt áður en hann féll í framboði, — þess efnis, að einu sinni hefði Gústaf Svíakonungur ætlað að verða konungur yfir Norðurlöndum og þar með Íslandi, og voru ýmsar bollaleggingar hjá honum, hvernig Íslendingar ættu að taka þessu. Í þessu kom fram hans hærri stjórnmálavizka.

En það er bezt að koma að því, sem hann vakti máls á, en það var ádeila á tilraunina til þess að leyfa Sunnlendingum að ná til Rvíkur með samgöngur. Hv. þm. sagði, að járnbrautarmálið hefði strandað á stríðinu. Hvaða herir voru hér þá? Það gerðist ekkert í járnbrautarmálinu í sambandi við stríðið. Aðalmaður járnbrautarmálsins bauð sig fram árið 1919, nefnilega eftir að búið var að semja frið. Hann féll, og bændum í Árnessýslu var orðið ljóst, að þetta var ekki lausnin á samgöngumálunum. Að öðrum kosti hefði verið ákaflega lítil skynsemi í að fella greindan og myndarlegan mann, sem Jón Þorláksson var, á þessu máli. Hann féll líka í Rvík á þessu máli. Þó að hann væri verkfræðingur og margt gott um hann, þá var það svona, að fólkið vissi, að eins og fjárhag landsins var komið, þá átti að tryggja samgöngurnar austur, sem nauðsynlega þurfti að tryggja, með því að leggja veg, þó að hann kostaði 5 milljónir. Þá kom yfirbyggði vegurinn hans Björns Kristjánssonar. Sú till. var drepin með einu orði af gáfaðasta bónda á Suðurlandi. Enda var þessi till. mikilsverð að því leyti einu, að hún sýndi, hve maðurinn var fákænn. En fólkið beið enn útilokað frá markaðnum vegna örðugra vetrarflutninga. Það var boðuð rannsókn á málinu, en svo var ekki meira um það. Getur hv. síðasti ræðumaður sagt, ef hann vill ræða þetta á flokkslega vísu, að það hafi hvorki verið lögð járnbraut né yfirbyggður vegur vegna þess, að sjálfstæðismenn hafi aldrei haft möguleika? Jón Þorláksson, aðalmaður járnbrautarmálsins, varð fjármálaráðherra og áhrifamesti maðurinn í stj. landsins frá því í ársbyrjun 1924 til 1927. Hvað gerðist þá? Ekki neitt. Það kom engin járnbraut, enginn bílvegur, og málið hefur enga lausn fengið, nema hvað búið er að leggja veg gegnum Ölfusið til Krýsuvíkur. Þegar málið var til umr. á Alþ., kom hv. 10. landsk. þm. fram með brtt. um, að vegurinn skyldi falla niður nema frá Ölfusi og suður í Selvog. Svo kom Pétur Magnússon og benti á, að eftir væri stúfurinn úr Hafnarfirði og suður í Krýsuvík. Þá var eftir leiðin frá Krýsuvík og í Selvog. Af hverju? Af því að það var ekki verið að hugsa um, að bændurnir kæmust til Rvíkur, heldur var verið að hugsa um kjósendafylgi í Hafnarfirði og Selvogi. Þess vegna er það, ef snjóavetur verður í vetur, að liðið geta vikur og mánuðir svo, að brjótast verði áfram á sleðum. Það er gott að þetta mál dróst inn í umr. Það er leiðinlegt fyrir hv. 10. landsk. þm. að vera að vekja athygli á afstöðu sinni og flokks síns, og vil ég þar þó taka undan þá Jón Þorláksson og Björn Kristjánsson. Þeir sýndu þó áhuga á málinu, en allir hinir voru máttlausir, hv. þm. líka, enda hefur fylgi hans minnkað.

Um hv. þm. Barð. er skiljanlegt, að hann geti lítið um þetta sagt. Hann hefur lítið verið á landi, en fengizt við að laga skip og setja mótora í skip, og það tekur tíma. Þegar hann hefði átt að vera að hugsa um samgöngumálin, hefur allur tími hans farið í að bisa við Laxfoss. Hann var að segja, að þessi vegur væri heimskulegur. En ég hugsa, að öðruvísi verði litið á það mál. Einmitt hv. þm. Barð. verður ásakaður fyrir að hafa leitt asnann inn í herbúðirnar.