17.08.1942
Sameinað þing: 5. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í D-deild Alþingistíðinda. (1297)

43. mál, brúargerðir í Austur-Skaftafellssýslu

Flm. (Páll Þorsteinsson) :

Herra forseti. — Þáltill. sú, sem hér liggur fyrir á þskj. 50, fer fram á brúargerðir í Austur-Skaftafellssýslu. Brú á Kvíá í Öræfum hefur að vísu komizt inn í brúal. fyrir nokkru, en framkvæmdir hafa ekki farið fram enn.

Ég vil vekja athygli á því, að allir þeir, sem farið hafa um Austur-Skaftafellssýslu, hafa þar orðið varir við fleiri ár en í nokkru öðru héraði. Samt sem áður eru aðeins tvær brýr í sýslunni. Af þessu má hv. þdm. vera það ljóst, að það er töluvert verk að vinna í þessum héruðum. Það er kunnugt, að Höfn í Hornafirði er eini verzlunarstaðurinn í sýslunni, en þar sem héraðið er mjög stórt, þurfa flutningar að fara fram langar leiðir. Sá háttur hefur verið á, að flutningar til Suðursveitar hafa farið fram á sjónum, en vegna þess, hve uppskipun er erfið og bátar óhentugir fyrir þá, sem flutninginn þurfa að fá, lögðust þessir flutningar niður, en vöruflutningar til Suðursveitar og póstflutningar hafa farið fram tandleiðis, eftir að vegasambandið batnaði með því, að hinn svo nefndi Melatangavegur varð akfær. Til þess að greiða fyrir samgöngum á þessari leið var Kolgríma brúuð fyrir nokkrum árum, en Heinabergsvötn torvelda mjög ferðir bifreiða á þessari leið. Þess vegna leyfi ég mér að bera fram þáltill. um það, að brýr verði settar hið fyrsta á þessa á.

Um Kvíá í Öræfum er svipað að segja. Í brúal. frá 1936 er gert ráð fyrir, að hún verði brúuð, en ekkert hefur verið framkvæmt á þessum stað.

Í Öræfum eru margar ár, en flestar ekki stærri en svo, að bifreiðar komast yfir þær með góðu lagi. En það er aðallega Kvíá, sem hamlar umferð bifreiða um sveitina. Ef brú kæmist á Kvíá, mundi það greiða mjög fyrir umferð bifreiða um sveitina, en nú er engin bifreið til í Öræfum. Menn hafa hins vegar fullan hug á því að fá eina bifreið, og á því er full þörf til þess að bæta úr samgönguerfiðleikunum. Ferðamannastraumurinn vex nú hröðum skrefum um þessa sveit, og það er að verða mjög erfitt að leggja til hesta handa öllu því fólki, sem ferðast vill um þessar slóðir. Ég hygg, að það sé ekki ofmælt, að Öræfingur hafi fullan hug á því að veita ferðafólki góðan beina eftir því, sem tök eru á. En það er orðið mjög erfitt nú í seinni tíð að ljá hesta öllu því fólki, sem þangað vill ferðast.

Þetta verk ætti að geta orðið miklu léttara í framkvæmd fyrir það, að vinnuafl er fáanlegt í sveitinni, og mér er kunnugt um það, að menn hafa fullan hug á því að hjálpa til með efni til verksins, þó að ekki sé hægt að gefa bein loforð um það að svo stöddu.

Ég held, að það geti ekki talizt heimtufrekja af Öræfingum, þó að þeir vilji fá þessa einu smábrú inn í sveitina. Mælingar hafa farið fram á þessum stað, og er þar ágætt brúarstæði fyrir hendi, brúin yrði um 30 m. löng.

Ég vænti þess, að málinu verði vel tekið og það verði látið sæta sömu meðferð og önnur skyld mál.