21.08.1942
Neðri deild: 11. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í B-deild Alþingistíðinda. (203)

29. mál, hafnarlög fyrir Grundarfjörð

Bjarni Bjarnason:

Ég hefði óskað, að hæstv. atvmrh. hefði verið viðstaddur, til þess að geta grennslazt eftir, hvort komið hefði ósk. um það frá hreppsnefnd Eyrarsveitar, að þetta mál væri flutt hér. Ég veit, að þetta er gott mál og að áhugi er fyrir því í héraðinu, en það mun þó vera svo, að slík mál eru flutt á þeim grundvelli, að viðkomandi hreppsnefnd óski eftir því. Þó að það sé þakkarvert, að hæstv. ríkisstj. hefur haft hugsun á því að flytja það, er venjan sú, að þm. kjördæmisins fái eitthvað um það að vita. Ég vona, að málið gangi fram, en ég minnist þess, að þetta mál er búið að vera nokkuð lengi á döfinni, og var upphafsmaður þess Hannes Jónsson dýralæknir fyrir nærri því heilum áratugi. Að ég stóð upp, var bara af eðlilegri forvitni hjá mér sem þm. Snæf.