25.08.1942
Neðri deild: 14. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í B-deild Alþingistíðinda. (210)

29. mál, hafnarlög fyrir Grundarfjörð

Frsm. (Sigurður Kristjánsson) :

Ég ætla mér ekki að halda langa ræðu um þetta, en gera aðeins grein fyrir áliti sjútvn. Grundarfjörður er góð höfn, og byggð er þar nú óðum að aukast. Enn fremur er verið að byggja þar hraðfrystihús, svo að framtíð staðarins virðist nú trygg. Sjútvn. er á einu máli um, að þetta frv. nái fram að ganga, en hefur gert eina breyt., sem liggur frammi á þskj. 114. — Hún er á þá leið, að á eftir e-lið í 2. tölulið í 10. gr. komi nýr stafliður, svo hljóðandi : „Allt að 1% af andvirði afla þeirra skipa og báta, sem heimili eiga í kauptúninu og leggja þar afla á land eða hafa þar uppsátur.“ Þetta er ef til vill nokkuð langt gengið, en að öllu athuguðu má teljast sanngjarnt, að ríkið tryggi þennan tekjustofn fyrir hlutaðeigandi aðila. Að öðru leyti leggur n. til, að frv. verði samþ. óbreytt.