18.08.1942
Neðri deild: 8. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í B-deild Alþingistíðinda. (540)

44. mál, lendingarbætur á Skálum

Flm. (Gísli Guðmundsson) :

Ég hef leyft mér að leggja það til á þskj. 51, að sett verði löggjöf um lendingarbætur á Skálum á Langanesi. Undanfarið hafa verið samþ. l. á hæstv. Alþ. um lendingarbætur, m. a. á síðasta þingi tvenn l., um lendingarbætur á Stokkseyri og í Skipavík á Ströndum. Þessi löggjöf, ef frv. verður samþ., um lendingarbætur, er með nokkuð öðrum hætti heldur en almenn hafnarl., bæði að því er framlög snertir og tekjuöflun, og fer ég nánar út í það.

Rökin fyrir því að setja þessa löggjöf um lendingarbætur á þessum stað, Skálum á Langanesi, eru þau, að þarna eru ákaflega fengsæl fiskimið á sumrin, og hefur fengizt reynsla á því um langan tíma, að fiskur liggur þar ákaflega nærri. Þegar bátar geta komizt á þessi fiskimið frá Skálum, geta þeir marghlaðið daglega, þar sem aðrir bátar lengra að geta ekki farið til fiskjar á þessi mið nema einu sinni á sólarhring.

Fyrir 25 árum má segja, að þessi góðu fiskimið á Skálum hafi verið uppgötvuð. Þá var mikill straumur fiskimanna þangað, og útgerð jókst þar mjög. Svo fór þó síðar, að mikið dró úr þessari útgerð og framkvæmdum, og eru orsakirnar annars vegar það, að fyrirtæki, sem stóð fyrir rekstri útgerðar þarna, fékk fjárhagslegt áfall, sem ekki stóð í sambandi við útgerðarrekstur þess þarna sérstaklega, en hins vegar var sú orsök, að lendingarskilyrði eru þarna ákaflega erfið og ekki að búast við því, að menn sæki þarna róðra, eins erfitt og það er, og getur verið lífshættulegt á þessum stað.

Fyrir 10–12 árum var hafizt handa um að gera þarna lendingarbætur. Þá var byrjað á að gera öldubrjót fyrir lendinguna. En vegna þess, að ónógt fé var fyrir hendi og kreppuár fóru í hönd, var verkið aldrei nema hálfunnið, og hefur því ekki orðið nema hálft gagn að þessari framkvæmd. En samt sem áður hefur þessi öldubrjótur orðið til mikilla bóta fyrir lendinguna, þó að ýmsir gallar séu á honum, sem aftur gera aðstöðuna verri þarna. Nú er t. d. erfiðara að ryðja lendinguna, sem stafar af því, að öldubrjóturinn er ekki nógu hár, svo að í stórbrimum á veturna hefur fjörugrjót borizt yfir garðinn, sem mikla fyrirhöfn hefur kostað á vorin að ryðja burt. Ég hef talsvert rætt þetta mál við vitamálastjóra, og hann hefur athugað lendinguna. Og ég held, að hann sé því hlynntur, að eitthvað sé gert fyrir lendinguna á þessum stað. Ég hef borið þetta frv. undir hreppsnefnd Sauðaneshrepps, og er hún reiðubúin til að framkvæma fjárhagsáætlun, sem vitamálastjóri hefur gert.

Ég vildi mega vænta þess, að hæstv. Alþ. afgreiði þetta mál, og sú n., sem fær það til meðferðar, ætti að tala við vitamálastjóra, og vænti ég, að sú hv. n. geri sér grein fyrir því, að hér er raunverulega þarft mál á ferðinni, sem sjálfsagt er að sinna.

Ég legg svo til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og sjútvn.