18.08.1942
Neðri deild: 8. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í D-deild Alþingistíðinda. (767)

35. mál, lendingarbætur í Öræfum

Flm. (Páll Þorsteinsson) :

Herra forseti. — Ég get í aðalatriðum vísað til þeirrar grg., sem fylgir þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir. Mun ég þó í viðbót við það segja örfá orð til skýringar um málið.

Öræfasveitin er afgirt eyðisöndum á tvo vegu, og aðflutningar eru því mjög erfiðir þangað landleiðina, þar sem báðir þeir sandar, sem skilja sveitina frá öðrum byggðum, eru gersamlega ófærir bifreiðum.

Á árunum 1916–18 var fyrst hafizt handa um flutninga á sjó þarna austur með söndunum og þar með bætt úr um flutninga til og frá þessari sveit, eftir að stofnað hafði verið hlutafélag það, er lét smíða vélbátinn Skaftfelling, sem lengi annaðist þessar ferðir. Síðan hafa flutningarnir farið fram með þeim hætti, nema Skipaútgerð ríkisins hefur tekið að sér að sjá um þessa flutninga hin síðari ár og lagt skip til þeirra.

Nú eru flutningar þessir þeim annmörkum háðir, að þrátt fyrir það, að skipaútgerðin annist flutningana á þann hátt, þá er uppskipun mjög miklum annmörkum bundin. Við sandana er brimasamt og því ekki hægt að skipa upp né fram, nema þegar gott er í sjó. Verður þá að róa árabátum gegnum brimgarðinn, þegar fært er. Þetta er að vísu kalt verk og karlmannlegt, en það er afar erfitt og mjög hættulegt, ef of djarft er teflt eða ekki fyllstu varúðar gætt. Stundum ýfist sjór svo á meðan á afgreiðslu skipa stendur, að hætta verður afgreiðslu. Í slíkum tilfellum hafa skipin oft farið til annarra staða og ekki komið til afgreiðslu fyrr en að löngum tíma liðnum, jafnvel þótt afurðir Öræfinga, sem þurftu að komast á markað, hafi setið eftir fyrir þá sök. Þetta, hversu sæta verður góðu færi til þess að afgreiða skip þarna eins og nú er, er ekki aðeins bagalegt fyrir Öræfinga, heldur bakar það einnig Skipaútgerð ríkisins kostnað og örðugleika, að skipin þurfa að bíða eftir afgreiðslu þarna. Ef því hægt væri að bæta úr þessum flutningaörðugleikum, væri það hagræði bæði fyrir héraðsbúa og skipaútgerðina, fyrir héraðsbúa m. a. á þann hátt, að nota mætti miklum mun betur gæði landsins, ef samgöngur við Öræfin yrðu betri, þar sem nú eru vegna samgönguörðugleika ónotaðir verulegir framleiðslumöguleikar, og fyrir Skipaútgerð ríkisins með minni kostnaði við flutninga til og frá þessari sveit.

Ég legg til, að athugað verði gaumgæfilega, hvort ekki muni vera hægt að gera lendingarbætur við Ingólfshöfða. Þar er a. m. k. á einum stað aðdýpi mikið. Í byrjun fyrri heimsstyrjaldar var byrjað að gera lendingarbætur þar og unnið við það eitt sumar. En því var ekki fram haldið, og vinnan, sem í þetta var lögð, kom aldrei að fullum notum. Það verk, sem þá var unnið að þessu, er nú að miklu leyti eyðilagt.

Það, sem nú þarf að gera, er að taka til rækilegrar athugunar, hvort ekki muni tiltækilegt að hefjast handa á ný um þessa framkvæmd.

En að þessu slepptu liggur fyrir að gera athugun á því, hvort ekki sé hægt að gera endurbætur á þeim útbúnaði, sem notaður er við afgreiðslu skipa þarna við sandinn. Ég hef talað um það mál við framkvæmdastjóra Skipaútgerðar ríkisins, Pálma Loftsson, og álítur hann, að það sé tiltölulega auðvelt að bæta úr erfiðleikunum við skipaafgreiðslu þarna og það muni ekki hafa mikinn kostnað í för með sér, t. d. með því að smíða lokuð hylki, sem dregin væru í gegnum brimgarðinn.

Þessi sveit, sem ekki getur komið til sín og frá sér vörum nema í 2 eða 3 mánuði yfir sumarið, verður að sæta þeim afleiðingum af því, að framleiðslan verður þar einhæfari heldur en landgæði gefa tilefni til.

Till., sem hér liggur fyrir, fer aðeins fram á það að fá það rannsakað sem fyrst, að hve miklu leyti er hægt að bæta úr þeim vandkvæðum og létta af þeim erfiðleikum, sem Öræfingar eiga nú við að stríða í þessu efni.

Ég vænti þess, að þessi till. nái samþykki hv. þd.