08.09.1942
Sameinað þing: 18. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í B-deild Alþingistíðinda. (855)

Úthlutunarnefnd bifreiða

Finnur Jónsson:

Ég sé, að brtt. mín nær þeim tilgangi, sem hv. 5. landsk. talaði um í ræðu sinni„ því að þar er tekið fram, að um pantanir og afgreiðslu skuli fara samkv. fyrirmælum l. frá 5. jan. 1938 um síldarverksmiðjur ríkisins. Þar er svo fyrir mælt, að pantanir skuli komnar fyrir 30. sept. og teknar fyrir 10. nóv. Nú segir í tillgr. eins og hún er, að ríkissjóður greiði síldarverksmiðjunum þann mismun, sem á þessu kunni að verða. Nú getur verið, að markaðsverð sé nokkuð breytilegt, og sýndist þá eðlilegt, að í þessu yrði gengið út frá því markaðsverði, sem gildir á hverjum tíma. Þetta hef ég viljað fá ákveðið með þeirri brtt., sem ég hef lagt hér fram, til þess að ekki geti orðið ágreiningur um það á milli ríkisstj. og verksmiðjustj., með hvaða verði eigi að selja mjölið. Það er einnig nauðsynlegt að hafa þetta ákvæði vegna þess, að það eru nokkrir síldareigendur, sem hafa lagt síldina inn upp á vinnslu, og þeir eiga að fá sannvirði fyrir mjölið, eins og markaðsverð er á hverjum tíma. Ég tel líka nauðsynlegt, að það séu ákvæði um það, hvenær verksmiðjurnar eiga að láta mjölið út. Ég tel rétt, að það fari eftir fyrirmælum gildandi l. og ríkisstj. geri upp við verksmiðjurnar eins og þetta væri selt fullu verði til bænda, en ekki þannig, að ríkisstj. geti dregið að gera upp við verksmiðjurnar annað árið, eins og komið hefur fyrir. Till. mín miðar að því, að fyrir þessum viðskiptum sé hreinn grundvöllur, þannig að verksmiðjurnar fái það verð, sem gildir á hverjum tíma, sem mjölið er tekið, og eins verði farið eftir l. um það, að sama verð gildi fyrir mjöl, sem er pantað fyrir 30. sept. og tekið fyrir 10. nóv. Ég ætla, að þetta nái þeim tilgangi, sem hv. 5. landsk. ætlast til. Mér heyrðist hv. 5. landsk. segja, að mjölið hefði verið selt með sérstaklega lágu verði til 1. sept. í fyrra. Ef til vill hefur það stafað af því, að þá var þröngt um húsrúm fyrir mjölið og það því selt lágu verði, svo að hægt væri að rýma húsin og verksmiðjureksturinn gæti haldið áfram, ef veiði hefði haldizt.